top of page

Föstudagsfjöll

Tilraunaverkefni árið 2023 

Við ætlum að prófa að bjóða upp á eina fjallgöngu í mánuði á föstudegi fyrir þá sem geta og vilja fara á fjall á virkum degi og verða þessar göngur opnar öllum, klúbbmeðlimum og öðrum áhugasömum sem almennt geta ekki verið í Toppförum.


Öll þessi 12 fjöll eru frístandandi og því áberandi, frekar þekkt fjöll, mjög svipmikil og sérlega glæsileg ásýndar enda í sérstöku uppáhaldi þjálfara.


Öll (nema Brimlárhöfði sem er nýr í safnið) hafa gefið okkur kyngimagnaðar göngur í gegnum árin... og einmitt þess vegna... verða allir að upplifa þau og hafa þau í sínu fjallasafni !

20220911_112647.jpg

Þátttökureglur

  1. Þátttakendur skrá sig með tölvupósti til þjálfara (baraket(hjá)simnet.is) þar sem fram kemur fullt nafn, kennitala, heimilisfang og gsm-númer.
     

  2. Einnig er best ef þátttakendur skrá sig inn í lokaðan fb-hóp sem heitir "Föstudagsfjallgöngur" þar sem allar tilkynningar fara, en það er ekki skilyrði þar sem hver ferð fær sinn viðburð hér á vefsíðu fjallgönguklúbbsins og á opinberu Fjallgöngur.is & Toppfarar.is síðunni á fb og hafa allir aðgang að upplýsingum þaðan.
     

  3. Skrá þarf sig í hverja ferð með greiðslu inn á reikning Toppfara nr. 0114-26-58100 / Kt: 581007-2210 og tiltaka nafn fjalls sem við á. Ferð er að alltaf endurgreidd ef ferð er aflýst vegna veðurs eða ónógrar þátttöku og alltaf ef menn afboða meira en sólarhring fyrir ferð, en ef afboðun berst innan við sólarhring fyrir ferð er eingöngu endurgreitt ef ferð var það fámenn að henni hefði verið aflýst vegna ónógrar þátttöku áður en afboðun barst. 
     

  4. Verð ferðanna er 7.000 kr. (nema Hekla og Hattfell 10.000 kr.) fyrir klúbbmeðlimi Toppfara og þá sem mættu í mánuðinum á undan en annars 9.000 (Hekla/Hattfell kr. 12.000) kr. ef menn mæta í stöku göngu. 
     

  5. Lágmarksþátttaka í hverri ferð er 10 manns og hámark er 20 manns en þjálfarar gætu ákveðið að fara þó við séum færri og eins aðeins fleiri ef aðstæður leyfa. 
     

  6. Allar tólf föstudagsfjallgöngurnar eru settar á ákveðnar dagsetningar en vikuna fyrir ferð vakta þjálfarar veðurspá og staðfesta endanlega brottför úr frá veðurspá og þátttökufjölda almennt á miðvikudagskveldi eða í síðasta lagi fyrir hádegi á fimmtudegi (ef veðurspá er rysjótt og á mörkunum að sleppa). Ef aflýsa þarf ferð vegna veðurs eða annars er hún færð á annan mögulegan föstudag þegar þjálfarar komast en einnig gæti komið til þess að fara á fjall í öðrum landshluta ef veðurspá gefur færi á því og ekki viðrar í landshluta upphaflegs fjalls á dagskránni. Þeir sem ekki komast á breyttri dagsetningu fá alltaf endurgreitt ef þeir komast ekki.
     

  7. Hver og einn mætir í fjallgöngur sem þeir vilja fara í, það felst engin skuldibinding í því að mæta í allar tólf göngurnar, eingöngu þær sem menn vilja enda er eingöngu greitt fyrir hverja ferð og ekkert skráningargjald í þetta tilraunaverkefni. 
     

  8. Nauðsynlegt er að eiga ullarnærföt, hlífðarjakka og hlífðarbuxur, hlýja og skjólgóða vettlinga og höfuðfat, góða gönguskó með ökklastuðningi og loks keðjubrodda (microspikes) til þess að fara í þessar göngur og í einhverjum tilfellum gætum við viljað hafa jöklabrodda og ísexi meðferðis (t.d. Baula) en helst ekki, þar sem þessar göngur eru hugsaðar fyrir þá sem vilja léttari fjallaferðir og þá sem eru ekki þaulvant fjallafólk þó einnig séu þessar göngur fyrir vant fjallgöngufólk sem eiga eftir að bæta þessum fjöllum í safnið sitt eða vilja rifja upp kynni sín af þeim.
     

  9. Þetta eru 12 fjöll, eitt í hverjum mánuði, allar tólf göngurnar eru stuttar og frekar léttar göngur um 8 - 10 km á 4 - 5 klst. nema Baula (11 km á 7 klst.) og henta því öllum og ekki síst þeim sem hugnast ekki langar og krefjandi göngur og eins þeim sem komast aðra daga en um helgar.
     

  10. Almennt verður farið úr bænum kl. 8:00 á föstudegi og komið til baka um kl.16 - 17:00 (síðar á Baulu og Heklu).  
     

  11. Hver einasta ganga er veisla... listaverk... ævintýri... reynsla... og ekki síst ómetanleg og ógleymanleg upplifun... komdu með... hvort sem þú ert í Toppförum eður ei... hvort sem þú ert vanur fjallgöngumaður eður ei... vonandi náum við að festa þessar föstudagsgöngur í sessi.

Föstudagsfjöllin tólf

Vonandi tekst okkur þetta...
... ef vel gengur þá eru þessar föstudagsfjallgöngur komnar til að vera...
og mjög spennandi fjöll komin á biðlistann fyrir árið 2024... 

bottom of page