top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Bjólfell, Stritla, Hádegisfjall, Langafell, Gráfell og Tindgilsfell við Heklurætur.

Tindferð nr. 244 laugardaginn 30. apríl 2022.


Alger yndisdagur gafst til mjög fallegrar göngu á Suðurlandi síðustu helgina í apríl... þar sem þjálfarar fóru í annað sinn í sögunni ansi flotta hringleið á fellin sem rísa í hring með Bjólfelli þar sem uppsprettur, tjarnir, hraun og vötn komu við sögu...


Þetta var tíunda gangan í sögu klúbbsins sem er met... og skýrist af því að skyndilega gafst mjög gott veður á frídögum og laugardögum sem þjálfarar gátu ekki annað en gripið... eftir frestanir og breytingar á tindferðum í febrúar og mars... sem endaði með því að engin tindferð var farin í marsmánuði... sem hentaði alls ekki þeim sem eru að æfa sig fyrir jöklaferðirnar í maí eða langar göngur í sumar...


Við lögðum af stað kl. 10:08 eftir rúmlega 1,5 klst. akstur frá Rvík, stopp í Landvegamótum og græjun við fjallsrætur...


Bongóblíða... yndislegt sumarveður sem við nutum til hins ítrasta... þetta var besta veðrið á þessu ári... eins og þverunargangan frá Keili í Kaldársel... eins og á Hesti... já... nokkrar svona bongógöngur að baki í apríl... dásamlegur mánuður eftir harðan veturinn...


Bjólfellið er snarpt uppgöngu en vel fært í mosa og grjóti...


Selsundsfjall, Háihnúkur og líklega Fálkahamar neðst og Þríhyrningur fjær...

Bílarnir þarna niðri og við komum langleiðina upp á Bjólfellið í hita og svita...


Sjá hraunbreiðuna sem runnið hefur framhjá fellunum öllum og alla leið niður á láglendi... þar sem nokkrir sumarbústaðir hafa verið byggðir við hraunjaðarinn...


Sést vel hér... farið að hluta yfir taglið... Selsundshraun heitir hraunið sem rann úr Rauðöldunum en að sögn Ófeigs Ófeigssonar bónda í Næfurholti er hraunið framan við það Norðurhraun en við áttuðum okkur ekki á hvort þetta sé það ?


Komin á efsta tind Bjólfells í 457 m hæð sem var hæsta hæð dagsins... ekki há fjöll en gáfu kyndimagnaða hringleið og útsýni á heimsmælikvarða... fyrsti tindur dagsins af sex... og við varla lögð af stað en fannst heimurinn fyrir fótum vorum... grunlaus um að okkar beið heilmikið brölt upp og niður um öll hin fellin... með alls kyns ævintýrum á milli fjalla...


Það var svo heitt að hundurinn Batman bað um vatn á tindinum og svolgraði í sig hálfri vatnsflösku þjálfara... óvenjulegt að hann biðji svona snemma um vatn... sagði allt um hitann og svitann þennan dag...


Fáir mættir eins og í flestum göngunum þessar vikurnar... líklega er kúfnum náð sem reis á miðju covid-tímabili og nú er allt farið af stað og menn uppteknir í svo mörgu öðru sem er bara eðlilegt og dásamlegt eftir alla inniveruna og samkomutakmarkanirnar í tvö ár... maður fær bara velgju við þetta s-orð... en þetta er frábær stærð af hópi þegar gengið er heilan dag... allir saman sem einn hópur í takt.. yndislegt fólk allt saman og einn gestur sem mjög gaman var að kynnast...


Jaana, Gulla, Sigrún E., Örn, Sjöfn Kr., Helga gestur og systir Sjafnar, Fanney, Þórkatla, Björgólfur og Birgir en Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn...


Bjólfellið er marghnúkótt og með heilmikið landslag uppi sem var mjög gaman að upplifa í mun betra veðri en þegar við fórum hér fyrri Toppfaraferðina árið 2013 í byrjun apríl... en þjálfarar höfðu farið könnunarleiðangur hér upp með átta ára syninum í mun betra veðri í mars... svona getur veðrið sveiflast til á þessum árstíma... skyndilega mildir sólardagar... og svo hráslagi daginn eftir... en það gerðist einmitt þessa viku sem leið eftir þessa göngu... inn á landið kom kuldi og rigning dögum saman... við vorum sannarlega heppin með þennan lygilega góða dag...



Hraunbrekkurnar við Rauðöldurnar og Botnafjall hér milli bunga á Bjólfelli...


Litið til baka...


Grýtt með eindæmum ofan á Bjólfelli... mjög fallegt landslag...


Örn byrjaði...


... og Fanney var ekki lengi að klifra hér upp... æfandi tvisvar í viku í Klifurhúsinu...


Snillingur !


... og Birgir var ekki lengi að skjótast hér upp heldur... við vorum sko úti að leika þennan dag...


Smá hellisskúti hér og við héldum fíflaskapnum áfram... :-)


Búrfellið í fjarska... það var mjög víðsýnt frá Bjólfelli til fjalla borgarinnar, Langjökulsfjalla, hálendisfjalla, Heklu og svo fjalla Suðurlands...


Magnað yfirborðið á Bjólfelli... töfraheimur... og Hekla trónandi yfir öllu saman...


Nú fóru hin fjöll dagsins að koma í ljós... Batman að springa úr hita með tunguna úti...


Hálsinn og Hálfshöfuð Bjólfells næst... svo Stritla handan skarðsins sem heimamenn kalla Slakk... svo Stritla eða Strilla eftir því hvaða kort segir til en heimamenn nota seinna orðið minnir mig... svo Hádegisfjall og loks Langafell en þau virðast renna saman séð héðan en gera það ekki þegar að er komið... milli fjallsrananna er Mosar og hraunbreiðan sem varðar þá í norðri heitir Efrahvolshraun... handan er svo Gráfellið en Tindgilsfellið er út af mynd... og ofar eru Rauðöldur og Rauðölduhnúkur sem við gengum á árið 2020 í algerlega lygilegum litadýrð... og efst er svo Hekla sem öllu ræður á svæðinu...



Við þræddum okkur niður Bjólfellið á Hálsinn og Hálshöfuðið... í saklausri leið til að byrja með en svo ágætlega krefjandi brölti niður grýttar skriðurnar...


Sjá bæinn Næfurholt hér vinstra megin... en Ófeigur Ófeigsson bóndi þar gaf þjálfara mjög góðar upplýsingar um þetta svæði allt eftir að þeir bjuggu til þessa hringleið árið 2013 og við nýttum þær vel í ferðasögunni þá... - sjá hér: Í brúðarslöri Heklu (toppfarar.is) Bærinn Næfurholt var fluttur eftir gosið 1845 þar sem hann var norðar - með Hádegisfjallið í hásuður - þar sem hraunið rann ofan í bæjarlækinn og þau misstu rennandi vatnið í bæjarstæðinu... og því stendur bærinn nú hér við Bjólfellið... en þetta skýrir líklega ranglegar nafngiftir á sumum kortum sem kalla Hádegisfjall Næfurholtsfjall... en Næfurholtsfjöll eru norðar við Rjúpnavelli... Sjá hér: (1) Rangárvellir eyðibýli - Posts | Facebook


Sjá ýmsar sögur af ábúendum á þessu svæði á veraldarvefnum sem flúið hafa þurft undan Hekluhrauni og lent illa í öskufalli hennar eins og aðrir íbúar landsins þar sem Hekla hefur valdið miklum skaða á sögulega tíma... stundum sögð "illræmdasta fjall landsins" þar sem hún hefur valdið mestum spjöllum á síðari tímum enda trónir hún yfir blómlegustu byggðum landsins... Hekla - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið


Selvatn hér dimmblátt og svo óskaplega fagurt... við vorum dolfallin yfir þessari fegurð sem blasti hér við...


Hekla, Gráfell, Tindgilsfell og Selvatn... með Botnafjall efst hægra megin...


Mjög skemmtileg leið...


Við vildum hvergi vera... nema nákvæmlega á þessum stað á þessari stundu...


Litil til baka... bærinn Hólar lengst til hægri....


Örn beygir hér af niður skriðurnar því bröltið var of flókið áfram niður hrygginn...


Grjóthrun aðalmálið hér... gott hald og fínasta leið...


Komin niður með Bjólfellið í baksýn...


Bjólfellið... Hálsinn... og við á leið upp Hálshöfuðið...


Ofan af Hálshöfðinu var önnur brött leið niður grjótskriðurnar... Stritla hér handan við skarðið Slakk... þar sem Næfurholtsáin rennur í gegn...


Bratt en vel fært í yfirvegaðri göngu...

sjá upptökin í Næfurholtsánni... þarna kemur hún upp á yfirborð jarðar... magnað... við ákváðum að borða þarna... fjárhúsin þarna eru frá árið 1957 að sögn Ófeigs bónda í Næfurholti...


Hér áttum við yndisstund... Fanney fór í fótabað og við sáum lengi í sólbaði að njóta...


... og spjalla...


Loksins var ráð að koma sér af stað... veðrið var slíkt að nestispásurnar voru langar og rólegar... enginn kuldi eða vindur rak okkur af stað...


Stritla var næst...


Sjá landslag Bjólfells þegar litið var til baka og uppfök Næfurholtsárinnar... magnaður staður !


Næfurholtsáin sem rennur að Hólaskógi... hér gengum við bæði þegar við gengum á Heklu fr´ra Næfurholti 2014 í sögulegri og mjög langri tindferð... og svo þegar við gengum á Rauðöldurnar og Rauðölduhnúk árið 2020... við erum óðum að ná að kynnast allri dýrðinni sem er á þessu svæði...




Við vorum úti að njóta og leika... Batman leitaði að skuggum til að hlífa sér fyrir sólinni... það er komið sumar...


Bratt en greiðfært upp Stritlu...


Stritla er íslenskt orð og merkir "mjór drangur, stríta, lítill hraukur"... hún mældist 306 m há...


Gaman að ganga smám saman þennan fjallahring...


Hádegisfjallið var næst...


Greiðfær leið...


Allt mjög þurrt... eins og að hásumri...


Litið til baka á Stritlu...


Ofan af Hádegisfjalli sást út eftir Langafelli og okkur fannst við vera komin nálægt Heklu... hraunið hennar var greinanlegra hér og hvernig það liggur hvert ofan í annað eldra hraun...


Hádegisfjallið mældist 328 m hátt...


Litil til baka með Bjólfellið svo glæsilegt og svo Stritlu...


Leiðin yfir á Langafell var betri þar sem skarðið á milli var hærra og það var grónara eins og Hádegisfjallið...


Sjá fellið sem næstum því var kaffært af Næfurholtshrauni... því hinu sama og kaffærði bæjarlækinn við gamla Næfurholtsbæinn svo hann fluttist árið 1845...


Sjá Næfurholtsfjöllin vinstra megin eiginlega út af mynd... Melfell heiti það og væri gaman að ganga á það og á Næfurholtsfjöll eitt árið... jebb... sett á vinnulistann !


Langafellið var yndislegur endir á þessum fjallsrana öllum... hraunbrúnin er frá árinu 1158 eða 1206 að sögn Ófeigs árið 2013... Langafellið mældist 355 m hátt...


Næsti nestisstaður sást héðan... skærbláar tjarnir sem urðu skærgrænar þegar nær var komið... Loddavötn heita þær og voru töfrandi fagrar við nánari kynni síðar um daginn...


Niður af hæsta tindi Langafells...


Hryggurinn á Langafelli...


Komin í norðausturendann á Langafelli...


Kyngimagnaður útsýnisstaður... hér sáum við Hekluhraunin í hrönnum um allt frá fjallinu...


Sjá mismunandi hraunbreiður... eins og öldur þarna í hrauninu nær... Búrfellið og Næfurholsfjall og svo Melfellið lengst til hægri...


Eldra hraun undir nýrra... Rauðöldurnar...


Við gengum svolítið niður norðurtaglið á Langafelli áður en við beygðum svo niður... en í ferðinni 2013 fórum við fyrr niður hér enda var sú ganga 15,8 km eða lítið eitt styttri...


Fínasta leið hér... hún var brattari árið 2013 enda var mun síðra veður og allt annað að sjá landslagið núna og þá... við vorum svo heppin með veður þetta árið !


Góðar skriður hér og svo tók hraunjaðarinn við meðfram fellinu...


Hér stöðvaðist hraunbreiðan... á Langafelli... en klærnar á Hekluhrauni hafa skriðið ansi langt niður Suðurlandið í gegnum árhundruðin... og rétt við bústaðaland þjálfara í Landsveitinni eru hraunbreiður frá Heklu... og þegar mokaðar eru holur í landinu þá má sjá mörg goslög frá Heklugosunum... allt í þessari sveit mótast af Heklu á einn eða annan hátt... það er sláandi þegar maður hugsar um það...


Þessi kafli er uppáhaldskafli þjálfara á þessari hringleið...


Sjá Bjólfellið þarna á milli hraunsins og Langafells...


Litið til baka...


Við gengum eftir þessum hraunás hér...


... á kindagötum... ekki gönguslóðum eftir menn... að sögn Ófeigs í Næfurholti árið 2013... hingað koma fáir en við sáum að Ferðafélag Árnesinga hafði fetað okkar hringleið að hluta árið 2020 en þó ekki farið þennan kafla heldur eingöngu Bjólfellið og svo Gráfell og Tindgilsfell...


Ótrúlega fallegt landslag...


Niður í smá grasbala hér...


Töfraheimur með hellisskúta og dásamlegu tjaldstæði ef einhverjum dytti í hug... en það vantar samt rennandi vatn hér...


Litið til baka...


Steinninn sérstaki...


Út í Mosa... við áttum stefnumót við fagrar tjarnir...


Loddavötn... við tókum andann á lofti... þetta minnti á Stórurð... óskaplega djúpir litir á tjörnum innan um hraun og grjót...


Engar myndir fanga fegurðina á þessum stað...


Við reyndum að mynda þetta...


Svo fallega grænt... gárurnar eftir hundinn Batman sem fór beint út í að kæla sig og drekka...


Kristaltært...


Hvílík fegurð...


Við fórum flest í fótabað hér... og það var ísjökulkalt vatnið... Björgólfur reyndi að synda... en sneri við á miðjum lærum...


Ógleymanlegt fótabað... það fallegasta hingað til í sögunni...


Sumir gengu hringinn... við vorum dáleidd af þessum tjörnum...


Hér var ís ofan í í aprílbyrjun árið 2013... en samt skynjuðum við þá hvílíkur töfrastaður þetta væri... Í brúðarslöri Heklu (toppfarar.is)


Hér var nestispása tvö af þrjú... og hún varaði lengi... því aftur tímdum við varla að leggja aftur af stað...


Dásamlegt...


Sjá hópinn hinum megin...


Þjálfari reyndi að mynda þessa dýrð... en það tókst ekki...


Þessi græni litur... þessar tjarnir eru eflaust farnar þegar líður á sumarið... ekta vortjarnir myndi maður halda... en kannski ekki... við þurfum að koma hér við á leið á Rauðöldurnar sem við ætlum að ganga á eftir ekki svo mörg ár aftur... því sú leið er ein sú fegursta í sögunni...


Sama hvað maður reyndi... töfrarnir fönguðumst ekki á myndum...


Önnur svona stór tjörn var handan við þessa... hún náðist á myndbandi...


Jæja... eigum við að halda áfram... eða bara sóla okkur hér og slaka... þetta var SVO yndislegt... og sérkennilegt eftir á þegar kuldi og rigningar tóku við vikuna í kjölfarið á þessari helgi...


Hin tjörnin... þar voru gárur eftir golu sem ekki var í "okkar" tjörn...


Takk fyrir okkur.... Loddavötn...


Nú var haldið yfir Mosa... á kindagötum... ekki gönguslóðum... að Gráfelli...


Sömu leiðn og áður á Rauðöldur 2020 og á Heklu 2014...


Komin í skarðið við Gráfell...


Hekla alhvít hér vinstra megin að kíkja...


Litið til baka yfir Mosa og Stritlu, Hádegisfjall og Langafell...


Hraunbreiðurnar við Rauðöldur...


Útsýnið af tagli Gráfells...


Gráfellið var grýtt og gróðurlítið...


Það mældist 341 m hátt...


Meira að segja Gráfellið varð gult og hlýtt í sólinni... þessi dagur var ógleymanlegur og gaf þessari hringleið það sem hún á skilið... lygilega fegurð og tignarleik...


Þetta var næstsíðasti tindur dagsins... við vorum að verða búin með hringinn...


Framundan var síðasti tindur dagsins... Tindgilsfell... í því miðju liggur djúpskorið gil sem kallast Tindgil... eða gilið milli tveggja tinda... það er því ólíklegt að það heiti Tindilsfell eins og er á sumum kortum... þar hljóta menn að hafa misheyrst og einfaldað nafnið... enda hljómar Tindgilsfell eins og Tindilsfell í talmáli... en þetta Tindgil er að okkar mati næg sönnun þess að fellið heiti Tindgilsfell en ekki Tindilsfell...


Sjá hér lið 21 í svörum við pælingum um örnefnin á svæðinu þar sem vísað er í málvenju með Tindilsfell frekar en Tindgilsfell... en það er einmitt vandamálið... mönnum hefur eflaust heyrst vera sagt Tindilsfell frekar en Tindgilsfell... þetta gil er svo sannarlega gil milli tinda og er sannarlega örnefni í fellinu og því látum við Tindgilsfell standa eins og við gerðum árið 2013... Nfurholt (arnastofnun.is)


Jæja... Tindgilsfell... hér komum við... vá hvað veðrið var betra en árið 2013...


Litið til baka... mögnuð hraunbreiðar þarna yfir á Rauðöldurnar... þarna er hægt að gleyma sér í kindagötum og upplifa aldrei sömu töfrana...


Tindgilsfell er margtindótt... við gengum eftir því öllu...


Litið til baka með Gráfellið fjær...


Hér kom svolítið gjóla og veðrið breyttist þar sem skýin tóku meira pláss á himni...


Stór björg þarna niðri í dalverpinu milli fella... Hálshöfuð... Stritla.. Hádegisfjall... Langafell... og Mosar á milli... mjög gaman að sjá þau frá þessari hlið...


Æji... síðasta brekkan... þar til við komumst að því að það væru tvær í viðbót á leiðinni um fellið...


Litið til baka... snjórinn minnkaði óðum í hrauninu í sólinni og hitanum þennan dag...


Tindgilsfell mældist 344 m hátt...


Þaðan var allt annað útsýni en af hinum... þetta er magnaður fjallshringur... ekta Toppfaraferð á sjaldfarna tinda um leið sem þjálfarar bjuggu til á ´sinum tíma... höldum einmitt þessu áfram... að feta ótroðnar slóðir og uppgötva ný fjöll og nýja hulinsheima sem reiða fram perlur eins og þessi Loddavötn... Selvatn... hraunbreiður... og sanda sem ylja og næra sálina ekki síður en líkamann...


Sýnin niður Selsundshraunið...


Í þessu skarði fipuðumst við eitthvað í gjólunni og bættum á okkur peysum eða jökkum... til þess eins að fara úr þessu aftur þegar niður var komið... við hefðum mátt vita sem er að það er oft hvasst í skarði milli fjalla...


Þarna dró fyrir sólu og ský tóku að hrannast upp á heklu.. en svo hvarf það aftur og við gengum í bongóblíðu alla leið í bílana.. Jana var sú eina sem hafði trú á því að veðrið væri ekki að breytast og það var rétt hjá henni...


Það var freistandi í þessum skyndilega kulda sem varði í tvær mínútur... að fara bara niður Tindgilið... en einn í hópnum sagðist alveg vera til í að fara á vesturtindana... og þjálfarar ákváðu að það væri nú ekki þess virði að sleppa þeim...


Við getum þetta... sjá hér komin í jakka... sólin farin í tvær mínútur... og ský komin á Heklu...


En við vorum enga stund hér yfir...


Skjaldbaka á steininum...


Mönnum þótti þessi brekka ansi mikið svona í lok dags... þegar við hefðum getað farið gilið og sleppt þessum aukatindum á Tindgilsfelli... þjálfari sagði að þetta yrði enga stund farið... bara fimm mínútur... og það þótti mönnum ansi bjartsýnt...


Svo við ákváðu að mæla tímann... og jú... við vorum heilar þrjár mínútur hér upp.. já, hérna, við vorum öll hissa... ótrúlegt... verðum að muna þetta næst þegar við horfum á svona brekku... þetta er enga stund farið !


Framundan var létt brölt niður... og svo röskleg ganga um sanda í bílana...


Selvatnið neðan við Bjólfellið þar sem við gengum fyrst um morguninn... mikið búið að gerast frá því við sigruðum fyrsta tindinn af sex þennan dag... þessi hringur eru töfrar...


Sjá hvernig hraunið hefur runnið meðfram fellunum niður eftir...


Ágætis brölt hér... þetta var sannarlega brekkubröltdagurinn mikli...


Reyndum að ganga ofan við skóginn til að flækjast ekki í honum...


Síðasta nestispásan... yndislegt að slaka aðeins á áður en síðasti kaflinn var genginn hver á sínum hraða í bílana...


Hér er eflaust fallegt með lauf á trjánum síðla sumars...


Áfram sama góða veðrið hér og allan þennan dag... Tindgilið framkallaði einhvern vindstrók upp þetta skarð sem við hefðum bara átt að hraða okkur í gegnum...


Við tók sléttlendisganga meðfram austurtöglunum í Bjólfelli sem kallast Kinn og svo Breiðibaugur...


Litið til baka að Tindgilsfelli...


Meira að segja þessi leið var fjölbreytt...


... og við nutum hennar eftir allt fjallabröltið...


Tindgilsfellið í baksýn...


Mjög stór björg vörðuðu Bjólfellið hér og við horfðum agndofa á hrikalegar hlíðarnar og klettana...


Komin á bílslóða á kafla...


En svo þurftum við að fara út af honum til að taka stefnuna í bílana yfir Haukadalsölduna...


Þessi vegur var svakalegur með miklum brekkum á hraunsléttum á kafla...


Ekki fært fyrir litla bíla... og ekki opið nema fyrir heimamenn... hér keyrir almenningur ekki...


Gegnum skóg að hluta...


Leifar af fjárhúsi ?


Þetta var 2,5 km kafli eða svo...


Selsundshraunið í návígi...


Haukadalsalda...


Komin í bílana rétt fyrir kl. sex í sama yndislega veðrinu... við spjölluðum hér lengi vel og viðruðum tær og skiptum um föt og skiptumst á sögum... veðrið tafði okkur líklega um klukkutíma sem þýddi heimkomin upp úr hálf átta eða átta um kvöldið... en það var vel þess virði að fá þessar yndisstundir við upptök Næfurholtsár og Loddavötn og á tindunum í algeru algleymi...


Alls 16,5 km á 7:46 - 7:49 klst. upp í 457 m hæst á Bjólfelli með alls 1.035 m hækkun úr 109 m upphafshæð.


Takk öll fyrir alveg hreint dásamlegan dag... fullkominn að öllu leyti... og sumarlegri en við mátti búast og ætlast til í lok apríl... við lifum lengi á þessari göngu... hún var ígildi bestu sumargangna... sem er langt í frá sjálfsagt á þessum árstíma !


Takk fyrir okkur Bjólfell.... þú ert glæsilegt fjall með marga svipi... og átt mjög flotta vini sem gaman var að kynnast... eða eins og Björgólfur orðaði það.. Bjólfellið og systur jans... já, hey.... afhverju köllumn við ekki litlu fjöllin í kringum þau stóru systur ? ... alveg eins og að kalla þau "félaga" eða álíka ? Góð hugmynd... :-)



Myndband af ferðinni hér:


193 views0 comments

Comments


bottom of page