Þriðjudagsæfing nr. 703 þann 10. maí 2022
Stórkostleg jöklaganga var að baki helgina fyrir þennan þriðjudag í maí og þar sem fyrri undanúrslitin í evrópsku söngvakeppninni var á þriðjudagskveldið þar sem Systur komu fram með sitt fallega lag ákváðu þjálfarar að Búrfellsgjáin væri tilvalin fyrir endurheimt og sem stutt ganga svo allir næðu að horfa á íslenska lagið keppa... og mætingin var mjög góð... alls 20 manns...
Skýjað og nokkuð svalt eftir mjög heitan dag í gær... en dagarnir eru annað hvort funheitir eða svalir þessa dagana... ekta maímánuður...
Við tókum öfugan hring miðað við vanalega... og sumir höfðu á orði að það væri nú bara yndislegt að vera hér að hásumri eða svo... þar sem við förum venjulega þessa gjá um hávetur í myrkri að mestu og vetrarfæri... þetta var kærkomin tilbreyting...
Mikið spáð í göngur erlendis þessa dagana... þjálfarar voru að reyna að hafa ferð til Bosníu, Króatíu og Svartfjallalands með Exódus en ná því líklega ekki vegna anna... við förum þá bara eftir rúmlega ár...
Þorleifur, Vilhjálmur, Kolbeinn, Guðmundur Jón, Katrín Kj., Ingólfur, Siggi, Ragnheiður, Valla, Örn, Jón St., Jóhanna D., Steingrímur, Þórkatla, Lilja Sesselja, Sjöfn Kr., Hjördís, Sigurbjörg og Tómas en Bára tók mynd og Batman, Slynkur og Tinni voru með í för...
Gengið var rösklega á einhverjum söngvakeppnishraða sem var auðvitað bara skínandi góð æfing... nákvæmlega með svona röskum hraða einu sinni í viku á fjallið sitt er leiðin til að koma sér í betra form... ekki alltaf dóla sér og spjalla... þá stendur maður í stað og nær ekki árangri...
Fjöldi ungmenna fóru fram úr okkur á hjóli... undir 17 ára... ekkert smá flott hjá þeim !
Alls 5,8 km á 1:17 klst. upp í 177 m hæð með 124 m hækkun úr 105 m upphafshæð.
15 ára afmælisganga í næstu viku á Herdísarvíkurfjall... og svo tökum við 15 fjöll á 15 dögum frá 17. maí til 31. maí... við rúllum því upp með 9 tinda göngu kringum Eyjadal í Esjunni laugardaginn 21. maí eða til vara 28. maí... ekkert væl... nýtum þessa björtu daga og verum lengi úti, förum langt og strangt... einmitt þannig er maður í standi til að fara þessar krefjandi jöklaferðir á vorin eða með allt á bakinu dögum saman á sumrin eða spennandi göngur erlendis dögum saman eða hvað eina sem menn vilja vera í formi fyrir... nú eða bara að njóta þess að vera í góðu formi, dragast ekki aftur úr í göngum almennt og líða alltaf vel í í öllum göngum... til þess eru þessir þriðjudagar... til að þjálfa sig og verða betri og sterkari :-)
Og svo komust Systurnar og bróðir þeirra og Lay Low áfram í undarúrslitunum þetta kvöld... auðvitað ! Þær syngja svo óskaplega vel, eru svo flottar og þetta lag var náttúrulega lang best við fyrstu hlustun í vetur... besta lagið ekki spurning ! #tólfstig #eurovison #systur #áframísland #isl #ice
Comments