top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Eyrarfjall við Hvalfjörð í roðaslegnum himni í vestri.

Æfing nr. 729 þriðjudaginn 8. nóvember 2022.


Örninn leiddi hefðbundna leið á Eyrarfjall við Hvalfjörð og var þetta fimmta gangan á þetta víðfeðma fjall... sem á skilið að við göngum næst á það í dagsbirtu til að njóta útsýnisins sem er af tindinum yfir Hvalfjörð og um norðurhlíðar Esjunnar...


Sólin sest og smá skíma af sólsetrinu til að byrja með... myrkrið tók fljótt yfir... en áfram breiddi roðinn úr sér með kvöldsólarroðanum sem náði að slá sér undir skýjabreiðuna fram eftir kveldinu... kyngimögnuð fegurð !


Lungamjúkur mosi og ekkert frost í jörðu... milt veður það sem af er vetri og varla hægt að kalla þetta vetur hingað til... vindur undir 5 m/sek og smávegis dropar á kafla en annars milt og sumarlegt veður...


Vindurinn var í fangið og því var haldið vel áfram upp eftir... en leiðin er nokkuð greiðfær þar sem gæta þarf að fjallsbrúnum í myrkrinu og sniðganga klettana sem blasa við sjávarmegin...


Roðinn á himni var stórkostlegur... göngur að vetri til gefa annað en að sumri... við myndum aldrei vilja hafa þetta öðruvísi... það verður nefnilega svo gaman að fá aftur dagsbirtuna... myrkrið kennir okkur á hverju ári að vera þakklát fyrir svo hversdagslegan hlut eins og hana á þriðjudagskvöldum...


Flott mæting þrátt fyrir frekar langa kvöldgöngu og hópurinn sterkur en Örn var einn þar sem Bára var sárlasin heima... kveisurnar herja nú á landann sem aldrei fyrr... þessi vetur virðist ætla að vera mun verri hvað það varðar en í fyrra...


Roðinn skreytti uppgönguna ótrúlega lengi... en myrkrið var algert... og höfuðljósin þarfaþing á slóðum sem þessum meðan enginn er snjórinn til að marka jörð og himinn...


Mikil elja er í hópnum þetta haustið... mættir 19 manns sem er frábær frammistaða...

Bjarnþóra, Dagbjört, Guðmundur Jón, Inga Guðrún, Johan, Jóhann Ísfeld, Kristín Leifs., Linda, Magga Páls., Njóla, Sigga Lár., Sigríður Lísabet, Siggi, Steingrímur, Steinunn Sn., Þorleifur, Þórkatla, Þórunn og Örn en Batman, Bónó voru og með...


Niður var farið sömu leið en í myrkrinu þarf að gæta þess að fara ekki fram af brúnunum sem blasa við í vestri... þess vegna er ekki í boði að taka beina línu í bílinn eins og stundum er freistandi að gera í myrkrinu... alls 7,1 km á 2:36 klst. upp í 483 m hæð með alls 505 m hækkun úr 59 m upphafshæð.


Hörkuæfing og frábær frammistaða !

20 views0 comments

ความคิดเห็น


bottom of page