top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Geilin vandfundna í Hafnarfjalli

Updated: Aug 7, 2021

Þriðjudagsæfing með þjálfurum eftir sumarfrí 27. júlí 2021

Þjálfarar sneru aftur til leiks þriðjudaginn 27. júlí eftir 5 vikna hvíld í sumar og buðu upp á mjög fallega en krefjandi kvöldgöngu um Hafnarfjallið þar sem farið var upp miðhrygginn í fjallgarðinum... upp Klausturstunguhól um geilina sem lét okkur hafa svolítið fyrir sér þó við værum við að fara um hana í sjötta sinnið...


Gengið var frá bílastæðinu inn í mynni Seleyrardals þar sem lagt var upp brattar og grýttar brekkurnar á seinfarinni leið... en fyrstu ár Toppfara gátum við keyrt jeppaslóðann sem þarna liggur inn í dalinn og lagt bílunum þar... en nú er komið bílastæði rúmum kílómetra utar, girðing og stigi yfir hana svo leiðirnar á Hafnarfjallið hafa lengst sem þessu nemur... en þetta er raunveruleikinn á mörgum fjöllum... aðgengið takmarkaðra sem er bara vel til að vernda svæðið allt í heild...


Þegar klettarnir tóku við ofar tókum við smá nestispásu enda hátt erfiðleikastig og gott að nærast vel á miðri leið... því miður ekki mikið útsýni og þokan ofar tók af okkur sérlega tignarlegan fjallasalinn sem umkringdi okkur og gleymist aldrei þeim sem upplifir...


Ástríðufólk á ferð sem mætt hefur flest allir mjög vel í allan vetur... en Maggi var í sinni fyrstu göngu með okkur í talsverðan tíma enda starfar hann lengstum erlendis og því var kærkomið að hitta hann aftur...


Ennþá vorum við samt með útsýni niður eftir... Borgarfjarðarbrúin og Borgarnes þarna niðri... magnaður fjallasalur þetta Hafnarfjall...


Þrjár mjög ólíkar riddarapeysur... hver annarri fallegri... Þórkatla, Guðmundur Jón og Katrín...


Þokan ofar því miður... grátlegt alveg... þetta var ekki veðrið sem þjálfarar ætluðu að fara þessa leið í... hvorki þoku, né rigningu né vindi sem varð reyndin þetta kvöld... enda fór um okkur hrollur á bílastæðinu þegar lagt var í hann upp í úfin fjöllin... og þjálfarar íhuguðu alvarlega að breyta áætlun þegar keyrt var að óárennilegu Hafnarfjalliinu.... en veðrið slapp ágætlega... það komu tveir dropar... þokan tók af okkur alla fjallasýn jú... og sviptivindarnir voru töluverðir... en sætt var það í lokin... og hollt og gott með meiru enda dýrmætt að æfa fjallgöngur í öllum veðrum...


Örn var með gps-slóð frá því árið 2011 þar sem við fórum hringleið suðvestan megin um Gildalshnúk og byrjuðum á geilinni eins og þetta kvöld... en árið 2016 fórum við líka þarna um og hringleið um norðausturtindana og enduðum þá á að fara niður um geilina... og það var reyndar ætlunin þetta kvöld... en veðrið leyfði norðausturleiðina ekki því miður...


Talsverður hliðarhalli og heilmikil vegalengd inn eftir þegar ofar dró en gott hald í jarðveginum...


Hér afvegaleiddumst við... gps-punktarnir á geilinni voru ofurlítið ofar en hér... og Örn fann ekki geilina... klettabeltið reis ofan okkar og því er þessi slóði hér ekki rétta leiðin að geilinni... enda passaði það ekki að fara svona mikið í jöfnum hliðarhalla niður á við... og við könnuðumst heldur ekkert við að vera komin alveg að læknum í botni dalsins... þetta var ekki rétti staðurinn...


Þjálfarar sneru því við og Örn leitaði ofar og Bára innar... Maggi bauðst til að klöngrast ofar og Þórkatla fór ofar með Erni þar sem hana minnti að geilin væri ofar en af slóðanum... en þarna var mikill bratti og erfitt að sjá nokkra geil... nú skildum við þá sem höfðu leitað og leitað og gefist upp og snúið við... en margar slíkar sögur voru til þegar við fórum hér fyrst um árið 2010...

...en þetta var í fyrsta sinn sem við fundum ekki geilina fljótt og vel... greinilega of mörg ár síðan við vorum hér síðast... merkileg því þetta var í sjötta sinn sem við fórum í gegnum hana... búin að fara ofan að henni og neðan í góðu veðri og þoku í gegnum tíðina... en fljótlega kallaði Örn þar sem hann fann geilina... og við hin klöngruðumst hér upp þessa litlu klettarauf hér til þeirra... hún lætur ekki að sér hæða þessi geil... virðing alla leið frá okkur !


Birtan mögnuð og sýnin niður eftir Seleyrardalnum mjög falleg...


Geilin hér að nálgast... ansi mikið falin vinstra megin ofan við hópinn... landslagið allt keimlíkt og greinlegt að maður þarf að gera ráð fyrir að leita svolítið að henni óháð fyrri kynnum... það var eitthvað gott við það að hafa þurft að leita svona mikið að henni... einhver auðmýkt sem maður þjálfaði við það... við skyldum ekki halda að við gætum bara gengið að þessari geil vísri þegar okkur hentaði... neibb... gjöra svo vel að klöngrast svolítið og leita að mér takk fyrir... sagði geilin... lúmsk virðing og auðmýkt umlykti mann...


Fara þarf varlega og brölta nokkuð þar sem komið er að geilinni...


Já... ekki skrítið að menn finna hana ekki svo glatt... þessa litlu, þröngu sprungu sem er í klettabeltinu og gefur góða leið í gegnum það og upp í fjallgarðinn...


Þarna leynist hún... en þegar horft er á klettabeltið er það allt svona skorið og svo engin op heldur samfelldur klettur... nema hér... hér hefur opnast á milli... og göngumenn í gegnum tíðina komið sér þarna inn og í gegn...


Ótrúlega flott fyrirbæri náttúrunnar... Guðmundur Jón og Katrín ekki með okkur hér í fyrsta sinn frekar en Gerður Jens sem einnig var með í för... aðdáunarvert þetta fólk !


Litið til baka... sjá hversu hallinn er mikill í landslaginu neðan við geilina... fyrst þegar maður fór niður um hana fór um okkur þegar við komum hér niður og bröltum út eftir dalnum í miklum hliðarhalla... slysahættan er áþreifanleg og það er vert að minna á að hér þarf að fara varlega... nokkrir Toppfarar fóru hér um síðasta vetur í snjófæri og það fór um þjálfara þá... eitt feilspor og maður rennur niður í gilið og gljúfrið... en þau fóru varlega og gættu vel hvort annars...


Allt blautt og sleipt og nokkuð grjóthrun svo sýna þurfti tillitssemi gagnvart þeim sem komu á eftir... en þetta gekk slysalaust fyrir sig og það tók svolítinn tíma að brölta allir hér í gegn... mergjað ævintýri !


Snillingar !


Þorleifur, Þórkatla, Maggi, Katrín Kj., Oddný T., Guðmundur Jón, Linda, Sigrún Bj., Örn, Gerður Jens., Bjarni, Jaana, Tómas, Gunnar Már, Steinar A. og Hafrún en Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn þetta kvöld...


Við mættum 18 manns en Ragnheiður sneri fljótlega við vegna frétta af C19-smiti sem setti væntanlega ferð hennar erlendis í uppnám því miður...


Þokan var alltumlykjandi uppi og ekkert útsýni, talsverður vindur og von á úrkomu hvenær sem var sem þó kom aldrei... svo þjálfarar ákváðu að taka greiðfærari hringleiðina frá geilinni um suðvesturhlutann í stað þess að taka norðausturhlutann... og sáu ekki eftir því...


... en sviptivindarnir voru slíkir á köflum að það var ekkert vit í að eltast við tindana sjálfa á miðri leið (Klausturstunguhóll, Miðhnúkur, Suðurhnúkur, Vesturhnúkur ef maður vill fara 5 tinda leið með Gildalshnúk) svo við létum hæsta tind Hafnarfjallsins nægja... Gildalshnúkinn sjálfan en leiðin liggur þvert yfir hann upp í 863 m hæð sem tók ágætilega í þegar vindurinn var sem mestur... en uppi á tindinum var skjól og lygnt eins og svo oft áður í erfiðu veðri á þessu fjalli... hér uppi í sjöunda sinn í sögu klúbbsins... þessi tindur er friðsæll með meiru í sinni 863 m hæð !


Eftir nesti og spjall héldum við niður á slóða sem er orðinn mjög góður niður...


... og nú tókum við sveiginn niður með Suðurhnúk hér... sem er léttari leið en hefðbundna leið beint niður gilið af Gildalshnúk...


Mjög hvasst var í skarðinu milli Gildalshnúks og Vesturhnúks og þar bættu þeir á sig jökkum og öðru sem ekki voru búnir að því... en fljótlega á niðurleið létti þokunni og við fórum aftur að sjá lengra frá okkur...


Óskaplega falleg birtan á þessum kafla... til áttunar: við fórum upp miðtunguna hér hægra megin í byrjun kvöldsins...


Sólarlagið náði aðeins að skreyta kvöldið fyrir okkur sem var kærkomið þar sem þetta var mjög krefjandi niðurleið í talsverðri þreytu eftir krefjandi uppleið allt kvöldið... enda voru 21 mínútur á milli fremsta og síðasta manns þetta kvöld... þessi ganga var alvöru !


Fjallskambur Tungukolls fjærst... svo kambur Klausturstunguhóls sem við fórum upp um fyrr um kvöldið... og loks kambur Miðhnúks sem við gengum utan í á hringleiðinni að Gildalshnúk...


Borgarfjörðurinn útbreiddur... og kvöldhúmið alltumlykjandi... töfrar íslenskra sumarkvölda eru óumdeildir...


Sýnin til vesturs eftir Snæfellsnesinu...


Litið til baka eftir klettum norðvesturaxlar Hafnarfjalls...


Alls 9,3 km á 4:49 - 5:10 klst. upp í 863 m hæð með alls 957 m hækkun úr 38 m upphafshæð. Talsvert skildi á milli fremstu og öftustu manna enda var þessi ganga ígildi dagsgöngu... EF við hefðum farið norðausturhringleiðina þá hefðum við komið niður fjallskambinn sem rís hér lengst til vinstri... sú leið virðist illfær séð frá fjallsrótum en er ágætlega fær um sæmilegan slóða sem er þó mun síðri og ekki nærri eins greiðfær og slóðinn um suðvesturhringleiðina... við tökum þessa leið næst sumarið 2022 og njótum í góðu veðri þá pant og takk fyrir !


Í miðri göngu fréttist innan hópsins að Hvalfjarðargöngin væru lokuð vegna viðgerða svo við urðum að keyra Hvalfjörðinn heim... ef við hefðum vitað þetta þá hefðum við geymt gönguna þar til síðar sem hefði ekki verið svo galið þar sem veðrið var ekki það sem við ætluðum á þessari leið því hún er svo glæsileg allan tímann... en við gerðum þetta og sigurinn var ansi sætur... heimkomin vorum við um 00:30... en það er sumar og margir í fríi... svo þetta er tíminn til að gera eitthvað svona... taka langa og krefjandi kvöldgöngu sem gefur mikið og reynir vel á... takk fyrir okkur... mikið var dásamlegt að hitta hópinn aftur elsku bestu félagar !


Sjá hér gps-slóð af þessari hringleið úr fyrri ferð okkar árið 2011: Wikiloc | Hafnarfjall 5 tinda hringleið vestan megin um geilina 210611 Trail


Gps-slóð okkar af hringleið um geilina og norðausturtindana árið 2015: Wikiloc | Hafnarfjall 5 tinda hringleið austan megin um geilina 210715 Trail Upphafsstaðir gætu verið eilítið ofar þar sem einu sinni mátti keyra upp eftir en ekki lengur. Best að ganga malarveginn alla leið inn dalinn NB.

148 views0 comments

コメント


bottom of page