Æfing nr. 821 þriðjudaginn 1. október 2024
Frábær mæting var á Esjuna upp skarðið hans Gunnlaugs fyrsta þriðjudag í október en því miður var lágskýjað og þoka í efri hlíðum svo ekkert fengum við skyggnið á þessari gullfallegu leið...
En jú, þó í neðri hlíðum í haustlitunum og var náttúruorkuhleðslan með besta móti á þeim kafla.
Kaldi potturinn í Kollafjarðará...
Farið var upp slóðann og svo yfir á Gunnlaugskarðsleiðina en tengingin þarna á milli fór framhjá þjálfurum og það er víst góður stígur alla leið upp frá Nípu- og Geithólsleið að Gunnlaugsskarði...
Þegar þangað var komið var farið að rökkva og í þokunni leist ekki öllum vel á klöngrið upp í skarðið svo tvær ákváðu að bíða neðar eftir hópnum þegar hann sneri við stuttu síðar...
Farið var hálfa leið upp og þegar ein í viðbót vildi snúa við ákváðu þjálfarar að láta þar við sitja og snúa til baka enda þokan þykkari eftir því sem ofar dregur og myrkrið að skella á... en það var ráð að ná einni hópmynd á þessum stað áður en alveg yrði myrkur...
Mættir voru: Skarphéðinn, Þorleifur, Ólafur E., Björg, Örn, Aníta, Guðmundur Jón, Katrín Kj., Andrea Æ., Magga Páls., Gerður Jens., Karen, Inga, Kristjana, Steingrímur og Sjöfn Kr. en Bára tók mynd og neðar voru Dína og Þórhildur nýliði kvöldins... og Baltasar og Batman voru einnig með :-)
Niðurleiðin gekk vel enda allt á vel troðnum slóða og það var grátlegt að hafa ekki smá skyggni til að sjá tignarlegt landslagið þarna allt í kring...
Í þykkri þoku geta höfuðljósin gert meira ógagn en gagn í ljósaskiptunum og því er ráð að kveikja ekki of snemma á þeim heldur njóta birtunnar meðan hennar nýtur... en svo þegar myrkrið kemur er ekkert annað í stöðunni en nota ljósin og þá skiptir miklu að vita hvar maður er staddur og vert skal halda þar sem oft sér maður ekki langt frá sér í þokunni þar sem ljósgeislarnir þvælast þar í og ná ekki að skína sérlega langt eins og í tæru skyggni...
Allir höfðingjar klúbbsins voru mættir... Gerður Jens., Guðmundur Jón, Katrín Kj. og Magga Páls... miklir reynsluboltar sem láta ekki hvað sem er slá sig út af laginu og nutu þess að gera þetta í krafti hópsins...
Þegar komið var úr þokunni varð allt létt og auðvelt... enda á stíg og áttun möguleg út frá landslagi en ekki eingöngu gps...
Lexíur kvöldsins voru nokkrar... fyrstu myrkurgöngurnar koma okkur alltaf svolítið í opna skjöldu og gott að skerpa á nokkrum atriðum:
*Munum eftir höfuðljósi.
*Höfum vararafhlöður í bakpokanum.
*Það er mikilvægt að halda hópinn þegar skyggni er lélegt (þoka, snjókoma eða myrkur) því fólkið í miðjum hópi er fljótt að fara aðra leið en fremsti hópur ef menn missir sjónar á fremstu mönnum og þá afvegaleiðast allir sem á eftir koma.
*Gætum þess að stoppa ekki á miðri leið í lélegu skyggni svo keðjan rjúfist ekki. Ef maður þarf að sýsla í bakpokanum, skipta um föt eða fá sér nasl/drykk, þá er nauðsynlegt að venja sig alltaf á að gera það þegar allur hópurinn stoppar, en ekki stoppa sjálfur og rjúfa þannig keðjuna, því við erum fljót að týna hvort öðru og þó þjálfarar þekki leiðina sem verið er að fara, þá er auðvelt að fara á mis í lélegu skyggni eins og var þetta þriðjudagskvöld.
*Þoka þykkist yfirleitt þegar ofar dregur og þegar myrkrið bætist við duga höfuðljósin takmarkað þar sem ljósgeislarnir skína á þokuna og maður sér mun minna en þegar ekki er þoka og óháð öllu þá hefði ekki verið ráðlegt að fara lengra upp eftir hryggnum eins og sumir skiljanlega vildu þar sem við nutum enn smá birtu kaflann upp hrygginn og svo niður hann en hefðum lent í vandræðum ofar í algeru myrkri í þokunni.
*Almennt viljum við alltaf halda hópinn og ekki leyfa neinum að stoppa og bíða eða snúa sjálfir við ef aðstæður eru ekki með besta móti (eins og þarna var því það var þoka og stutt í myrkur), þar sem það er alltaf varasamt. Við gerðum þetta samt síðasta þriðjudag af því við vorum á stíg á þessari leið, en það hefði samt verið auðvelt að fara þarna á mis, svo pössum að ef einhver vill snúa við í vetrarþriðudagsgöngunum, þá snúum við öll við sem hópur og höldum hópinn.
*Maður getur mun meira í krafti hópsins en einn eða fáir á ferð og það er um að gera að nýta orkuna og reynsluna sem er í hópnum till að fara lengra og meira en maður annars gerir, þannig verður maður sterkari og öruggari fjallgöngumaður.
*Þetta er átjándi veturinn sem þjálfarar fara inn í með Toppfara og við erum orðin ýmsu vön í myrkri að vetri til í alls kyns veðrum, en við veljum leiðir á þessum tíma gagngert sem hentar slæmu skyggni vegna veðurs/myrkurs, svo njótum þess að öðlast reynslu og verða sterkari á fjöllum saman í krafti hópsins
Æfing upp á alls 5,8 km á 3:06 klst. upp í 566 m hæð með alls 543 m hækkun úr 62 m upphafshæð. Frábær æfing og fullt að læra fyrir myrkrið og veturinn sem er framundan en upp úr stendur mögnuð frammistaða höfðingja klúbbsins, þau gefa manni sannarlega innblástur og eru okkur þjálfurum ómetanlegar fyrirmyndir fyrir jákvæðni, gleði, áræðni og elju :-)
Comments