top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Hörðubreið, Ljónstindur, Gjátindur, Eldgjá og Ófærufoss #Skaftárfjöllin

Tindferð nr. 251 sunnudaginn 4. september 2022.


Fjórða gangan okkar um áhrifasvæði Skaftár var fyrsta sunnudag í septembermánuði og þá var spáð hæglætisveðri, skýjuðu með smávegis von um sól... nokkuð svipuðu og var á Uxatindum, Gretti og Sveinstindi á sama tíma í fyrra... en því miður reyndist veðrið mun síðra en spáin sagði til um... þoka, rigning og lágskýjað framan af degi... en svo kom gott skyggni og smá sól síðari hluta dags þegar við vorum á leið til baka um Eldgjána...


Flestir gistu í Hólaskjóli fyrir gönguna, í tjaldi eða skála og nokkrir einnig nóttina á eftir... en hinir komu keyrandi frá Reykjavík kl. 6:00 um morguninn... aksturinn tók 3:25 klst. og eftir stopp í Hólaskjóli og keyrslu yfir Hörðubreiðarháls að Skuggafjallakvísl lögðum við af stað gangandi kl. 10:36...


Þykk þoka lá yfir öllu og við sáum ekki einu sinni sjálfa Hörðubreið sem gnæfir þarna yfir rétt hjá... Örn eingöngu með gps-punkta á fjallstindum dagsins og svo Ófærufossi... og því runnu þjálfarar blint í sjóinn... því ekkert er á veraldarvefnum um göngur á Hörðubreið né Ljónstind... en eftir heilmikla yfirsetu yfir kortum og ljósmyndum úr fyrri ferðum okkar um þetta svæði vissum við að Hörðubreið væri fær... en vorum ekki viss með Ljónstind... Gjátindur er svo fjölfarinn ferðamannastaður og þangað upp er stikuð og vel slóðuð leið austan megin við Eldgjá en við vorum hins vegar að koma að honum vestan megin við gjána og áttum því eftir að finna nýja leið á Gjátindinn... sem varð sama krefjandi verkefnið og á hin tvö fjöllin...


Staðarhaldari í Hólaskjóli sem einnig hefur leiðsagt árum saman fyrir Útivist sagði þjálfara þennan dag að menn væru ekki að ganga á þessi fjöll og heldur ekki ferðafélagið Útivist... og við lofuðum að gefa þeim skýrslu þegar við kæmum til baka...


Nornabaugar voru á víð og dreif á slóðum dagsins... og mosinn lék stórt hlutverk þennan dag...


Lækir voru á leið okkar að Hörðubreið... vatnið sem kemur niður Hörðubreiðarhálsinn...


Hörðubreið er lítið en bratt fjall... og þjálfarar reyndu að velja suðurhlíðarnar sem eru líklega aðeins meira aflíðandi en vestur- og austurhlíðar...


Gott hald í mosanum, grjótinu og jarðveginum... mjög gaman að koma hér en grátlegt að sjá ekkert frá sér...


Bratt upp en vel fært...


... og mjög skemmtileg leið...


Landslagið stjórnaði okkur þennan dag í leiðarvali... og Örn missti aldrei sjónar á markmiðunum sem voru efstu tindar þessara tveggja fjalla...


Fjölbreytt leið og klettótt...


... mjög skemmtileg...


... og alls staðar hægt að fóta sig með vissu...


Tindurinn sjálfur ávalur og léttur efst... við merktum fyrsta punkt hér en svo var hæsti tindur aðeins lengra inn á fjallið... við sáum ekkert og því var þetta óvissuferð í hæsta gæðaflokki...


Komin upp á tindinn... í 829 m hæð...


Alls 25 manns í þessari ferð og allir gengu alla leiðina á þrjá tinda um eina gjá og að einum glæsilegum fossi... fyrir utan að vaða eina á á leiðinni...


Þórkatla, Jaana, Njóla, Örn, Bjarni, Sjöfn kr., Katrín Kj., Kristín Leifs, Maggi, Guðmundur Jón, Inga Guðrún, Edwin, Birgir og Fanney með hundinn Batman fremstan á mynd og Bára tók mynd...


Niður af Hörðubreið var fundin mögulega fær leið niður brattar en grasi grónar brekkurnar... fínasta leið og engin vandamál en ekkert hægt að sjá nema í líklega um 50 metra fjarlægð...


Landslagið milli fjallanna var óvissuþáttur... eina hindrunin sem þjálfarar voru búnir að greina var áin Skuggafjallakvísl sem rennur meðfram Ljónstindi áður en hún fellur fram af brúninni niður í Eldgjá sem Ófærufoss... áin Nyrðri -Ófæra er á þessu svæði og kemur að norðan og rennur saman við Skuggafjallakvísl rétt áður en við óðum þessar tvær ár sameinaðar... en á sumum kortum heitir áin áfram Skuggafjallakvísl en á öðrum Nyrðri-Ófæra...


Óskaplega fallegt þegar nær var litið á þessari leið... mosinn var í lykilhlutverki...


... og rennandi vatnið...


Við héldum allan daginn í vonina um meira skyggni og jafnvel sól... trúðum því ekki að þetta yrðu örlög okkar... að fá þessa skelfilegu þoku allan tímann...


Ásar, gil, lækir og hjallar... hvergi hindrun og fallega fjölbreytt leið milli Hörðubreiðar yfir að Ljónstindi...


Í þessu gili voru stórar breiður af dýjamosa...


Við dáðumst að þessari dýrindis fegurð... og reyndum að hlífa mosanum...


... en stundum urðum við að stíga varlega til jarðar þar sem hann fyllti upp í allt göngufært svæði...


Litið til baka ofan í gilið... mun fallegra en fangast á myndum...


Elsku íslenska náttúra... þú ert svo falleg... við eigum ekki til orð... fegurðin í hinu smáa... fjallgöngurnar hafa sannarlega gaumað henni að okkur ekki síður en að stórfenglegu útsýni yfir stór svæði...


Jæja... þá kom að vaðinu... mjög skemmtileg tilfinning að ganga að þessari á... og komast að því að við vorum sko ekki að fara að stikla yfir hana... eins og í fyrra þegar við vorum þá líka með vaðskóna í bakpokanum... og "hefðum getað sleppt því að pakka þeim í bakpokann"... nú þurftum við svo sannarlega á þeim að halda...


Þetta voru tvær ár... sem höfðu sameinast lítið eitt ofar úr gagnstæðum áttum... Skuggafjallakvísl að sunnan og Nyrðri Ófæra að norðan... á sumum kortum heitir áin alls staðar Skuggafjallakvísl og alla leið niður eftir... en á öðrum færi hún að heita Nyrðri Ófæra að ofan og svo þegar þær eru sameinaðar...


Þetta var ekkert mál yfir fyrri kvíslina... og alltaf gaman að vaða... þó það sé rigning !


Seinni kvíslin var meiri óvissa... aðeins straumharðari fjær en þetta leit vel út... tært... ekkert jökulfljót hér... en Örn ákvað að hafa allan hópinn saman áður en lagt yrði í seinni kvíslina... '

... sem reyndist mun saklausara vað en við héldum í fyrstu... þurftum ekki að leiðast í raun og hundurinn Batman komst sjálfur yfir... sem sagði allt um dýptina...


Mergjaður hópur... vílar ekkert fyrir sér... svona vöðun er nauðsynleg og ætti að vera sem oftast í göngunum... því hún æfir vinnubrögðin við að þurfa að vaða.... vera bara snöggur í vaðskóna og pakka dótinu niður í bakpokann... og þurrka sér, fara í skóna og ganga frá vaðdótinu aftur... þetta getur stundum tekið óratíma en ætti bara að vera snögg handbrögð sem eru vel útfærð við endurtekninguna... vöðum sem oftast... líka að vetri til... og öðlumst þannig styrk til þess arna... og fumlaus vinnubrögð...


Handan árinnar gengum við að bröttum hlíðum Ljónstinds í þokunni og ljóst var af gps-tækjum þjálfara að við værum komin að Ljónstindi... hér áðum við því og fengum okkur nesti...


Sérkennilegt að ganga á ný fjöll í þoku... það var aldrei ætlunin... það var jú komin þoka í veðurspána á laugardaginn... en þá var of seint að hætta við ferðina... við vonuðumst til þess allan daginn að þessari þoku myndi létta... og stundum var eins og það tækist næstum því... eins og þegar sólin kom í gegnum þokuna á tindi Hörðubreiðar fyrr um daginn... en þessi þoka átti eftir að fylgja okkur í gegnum snarbrattar fjallseggjar Ljónstind allt til enda... og lengra...


En Örn leiddi okkur öruggur hér upp... mat þéttnina í hæðarlínunum og lét landslagið stjórna sér... í átt að merktum tindi Ljónstinds... sem hann hafði sett í gps-tækið deginum áður... en merktir punktar hans voru furðu nálægt raunverulegum tindum á bæði Hörðubreið og Ljónstind... en það er ekki sjálfgefið að svo sé þar sem nöfn fjallanna eru ekki alltaf á hæsta punkti...


Skyndilega opnaðist fyrir þokuna... og við sáum ána renna niður eftir í átt að Eldgjá...


Og við sáum litlu tindana sem rísa sunnan við Ljónstind og eru í raun hluti af tindóttu landslaginu hans...


Vá... hvílíkt landslag sem við vorum að missa af í þessari þoku... hjartað tók sorgarkipp... hrikalegt landslag allt í kring og við bara í svartaþoku...


Áin sem við óðum yfir hér að baki... hún er sameinuð aðeins ofar... og svo aftur neðar... við óðum yfir á góðum stað...


Brekkurnar á Ljónstindi voru grýttar og góðar til uppgöngu... enginn gönguslóði... hér fer enginn nema sauðféð... og stundum sáum við gamlar kindagötur á báðum fjöllum...


Eldgjáin þarna niðri... og Skuggafjallakvísl = Nyrðri Ófæra að renna í flúðum og smá fossi þarna neðar áður en hún steypist niður í Eldgjána... það var heilmikill hávaði frá þessum flúðum og fossi... glumdi í öllu í þokunni... og gaman að sjá hvað olli þessum hávaða... því okkur fannst varla að Ófærufossinn væri að ná eyrum okkar svona ofarlega...


Við gengum fyrst aðeins inn eftir suðurenda Ljónstinds...


... og tókum svo að hækka okkur upp á hrygginn...


Mikil orka fylgdi því að sjá aðeins meira niður og um allt umhverfis... og við fylltumst eldmóð hér upp af þeim sökum... okkur fannst á kafla að þokan væri að létta á sér smám saman... og við myndum enda í góðu skyggni... oft hefur einmitt þetta gerst...


Mjög svipmikið landslagið á Ljónstindi... og gaman að sjá aðeins hvernig þetta leit út...


... en svo þykknaði aftur í þokunni...


Komin upp á fjallseggjarnar... og tindarnir röðuðust í báðar áttir eftir hryggnum... við áttuðum okkur á því að við vorum á stórkostlegu fjalli... sem átti skilið sól og skyggni... en kyngdum bara og nutum þess sem þó bar fyrir augu... dulúðin var alltumlykjandi og við vorum einhvern veginn dolfallin og ölvuð þrátt fyrir þokuna... kannski af því við skynjuðum svo stertk á hvers lags tindóttu landslagi við vorum stödd í...


Ofar var saklausari leið til að byrja með... þjálfurum var létt... það leit út fyrir að okkur skyldi takast að komast á hæsta tind ef hryggurinn var þó ekki torfærari en þetta...


Við lofuðum okkur því að koma hingað sem allra fyrst aftur... þessar fjallseggjar skyldu upplifðar í sól og skyggni !


Stefnt á hæsta tind... upp í þokuna... hann var merktur nokkuð innar en hér upp... þetta var óvissuferð í hæsta gæðaflokki...


Jú... vel fært hér inn eftir... þjálfarar voru fegnir... þetta lofaði góðu... svo mikill sigur ef okkur tækist að komast á hæsta tind Ljónstinda... hvílíkt nafn á fjalli ! Bara nafnið fékk mann til að vilja ganga á þetta fjall fyrst þegar við sáum það árið 2014... og núna loksins vorum við hér uppi... verst að sjá ekki umhverfið... allan veginn inn eftir að Langasjó vinstra megin... og Eldgjána alla hægra megin... Gretti, Grjátind, Sveinstind, Lakagíga...


Fínasta leið eftir fjallseggjunum og saklaus á köflum...


Komin á hæsta tind... hann mældist 801 m hár og var stutt frá merkingunni á map sourdce...


Komin lengra og litið til baka á hópinn á tindinum... þjálfarar sáu fyrir sér að fara til baka sömu leið ef hryggurinn yrði illfær... en Bára tók smá skoðunarferð áfram norður eftir og sá ekkert nema saklausa leið... það væri jú skarð enn lengra sem væri greinilga bratt á kortum og við vissum að það væri þverhnípt skarð norðarlega í Ljónstindi... sem við höfðum séð fyrir okkur að þurfa að sniðganga með því að fara upp og niður...


Þetta leit vel út og Örn var sammála því að halda bara áfram inn eftir fjallinu... og Bára sagði hópnum að í versta falli yrðum við að snúa við sömu leið til baka... en menn voru alveg til í smá könnunarleiðangur...


Og þetta byrjaði vel niður í mót eftir grösugum hryggnum...


Litið til baka upp eftir efst Ljónstindi...


Svo byrjaði klöngrið...


... neðan við eggjarnar ef þurfti...


... og uppi á eggjunum ef það var pláss...


Svakalega fallegar hlíðarnar á Ljónstindi...


Litið til baka...


Smá haft hér sem var ekkert mál en tók tíma fyrir 15 manns...


Í norðurendanum fór Örn niður hér...


... bratt og tæpt en alls staðar gott hald og þetta þurfti bara að klöngrast niður um rólega hver og einn...


Hver hjálparhöndin uppi á móti annarri... allt hægt í krafti hópsins...


Guðmundur Jón og Katrín Kjartans elst í hópnum en með ólofthræddustsu göngumönnum klúbbsins... Katrín með gervilið í hnénu og þarf að fara varlega niður svona bröltkafla... magnað hjá þeim !


Þessi kafli var mjög skemmtilegur og fékk okkur til að langa ennþá meira að rekja okkur um Ljónstind sem fyrst aftur í betra veðri og skyggni...


Komin niður og allir ölvaðir eftir þessa mergjuðu leið... þetta tókst... við vorum komin með Ljónstind í fæturna og sálina... það var mikill sigur... eini virkilegi óvissuþáttur ferðarinnar var hæsti tindur hans... og jú hvort leiðirnar væru færar milli tindanna... sérstaklega upp að Gjátindi annar staðar frá en allir fara... en það var næsta verkefni dagsins...


Við skildum nyrsta tindinn í Ljónstindi eftir fyrir næstu ferð.. já, fjallið ætti eiginlega að heita Ljónstindar í fleirtölu... af því við áttum ennþá langan veg eftir... og það var komin enn meiri ástæða til að koma hingað aftur... allir sammála því enda sunnudagur ráð að nýta tímann vel á langri ferð...


Við sáum að þessi tindur er fær upp að sunnan... og niður að norðan... bratt jú... en fært í brölti með hald í grjóti og grasi og mosa...


Smám saman tók að opnast fyrir skyggnið frá því við yfirgáfum Ljónstind... og strax hér sést meira en tveimur mínútum áður...


Niður til Eldgjár og Skaftár...


Þarna uppi vorum við... takk Ljónstindur... brekkan okkar niður hægra megin í grösuga gilinu...


Gjátindur sást hvergi en við vissum að hann væri framundan beint fryir framan okkur... og Örn elti bara gps-punktinn og lét landslagið segja sér hvar hann ætti að fara...


Sól þarna lengst úti við sjávarsíðuna...


Nyrðri hluti Ljónstinda... þeir minntu mann á Uxatinda... landslagið hér er allt í stíl... sterkgrænn mosi og svartur í aðalhlutverki þess á milli... ekkert líparít ólíkt Landmannalaugasvæðinu... allt önnur lögmál ríkja hér í litavali...


Við vorum glöð og kát í þokunni þrátt fyrir allt... ótrúlega skemmtilegur dagur í þokunni...


Vá... Ljónstindarnir að koma í ljós sífellt meira og meira... en við einhvern veginn vorum ekkert svekkt... skrítið... vorum bara svo stolt af okkur að hafa þrætt okkur í gegnum þá alla nema þennan nyrsta staka...


Samspil svarts og græns...


Litla og Stóra hjartað... Örn stendur í því litla og það stóra heldur utan um hann...


Stóra hjartað... og það litla...


Hópurinn með Ljónstind í baksýn...


Hörðubreið farin að lyfta af sér líka hægra megin... Hörðubreiðarhálsar vinstra megin við miðja mynd... þar uppi var mastur...


Falleg gil og ásar á leiðinni...


Dýjamosinn...


Eldgjá að opnast í suðaustri...


Komin að fjallsrótum Gjátinds og þetta leit ekkert mjög vel út til að byrja með... hátt fjall og breytilegt í klettum og skriðum...


Örn stefndi bara beint á efsta tind... þangað voru ekki nema rúmir 600 metrar í vegalengd... ekki langt... Báru leist síður á að fara beint upp hér af því við vissum ekki hvort það myndi einhvers lags klettabelti stöðva för ofar... það var freistandi að leita inn eftir hægra megin og lenda á stígnum upp á Gjátind sem er stikaður og slóðaður og mikil umferð fólks er um... en þangað var ekki mjög spennandi leið samt... í hliðarhalla annars vegar... eða niður og upp Eldgjána... sem var sísti kostur... fjórði kosturinn var að fara bak við Gjátind þar sem við vorum búin að sjá að væri fært upp af ljósmyndum af fjallinu úr fyrri ferð okkar í nágrenninu... en sá kostur tæki svolítinn tíma...


Örn var á því að fara bara beint upp og finna leið upp á tindinn... hæðarlínurnar væru ekki eins þéttar og á hin tvö fjöllin... og það var rétt metið hjá honum.. lang besti kosturinn... stysta leiðin í vegalengd og tíma... og eins og honum er lagið fann hann fínustu leið upp...


Dýjamosinn við fjallsrætur Gjátinds var varla af þessum heimi...


Þessi leið leit ágætlega út og var brött... en þjálfarar voru sammála því að þetta væri ekki eins bratt og Hörðubreið og Ljónstindur... og úr því við komumst þar upp og gátum klöngrast niður mjög brattar leiðir... þá hlytum við að komast hér upp...



Frábær leið... fjölbreytt og skemmtilega krefjandi og ágætlega greiðfær...


Við tókum þetta í rólegheitunum upp... þéttum vel og stoppuðum reglulega... fórum helst til of hægt upp að sumum fannst... en fyrir hægari hluta hópsins þá hentaði þetta mjög vel...


Fínasta hald í jarðveginum og engar stórar hindranir sem ekki var hægt að sniðganga...


Neðan við þennan klakakennda skafl hér...


Allir sprækir en Bjarni missti röddina á leiðinni keyrandi upp eftir um morguninn og við höfðum áhyggjur af honum... orkustigið hans og jákvæðnin var hins vegar í góðu lagi og hann kláraði þessa ferð með stæl...


Brölt upp mosa og grjót...


Heilmikill bratti alla leið upp...


Komin upp á efsta hlutann og stutt í tindinn... vá, þetta tókst ! Þriðja fjallið farið upp í óvissuleið í þoku þar sem við vissum ekkert hvað biði okkar ofar !


Litið til baka...


Komin á slóðann síðasta kaflann...


Litið til baka...


Leiðangursmenn hópsins á tindi Gjátinds... í 948 m hæð... þessi hópur mátti vera ánægður með afrek dagsins... þrjá kyngimagnaða fjallstinda í þoku og engu skyggni upp sérleg brattar leiðir í algerri óvissu um hvort væri fært eður ei... !


Nú þurfti bara að njóta... engin streita með að rata eða villast... eða lenda í óyfirstíganlegum hindrunum eða vandamálum...


Greið leið um vel troðinn slóða á stikaðri alfaraleið sem er greinilega mikið gengin...


Þoka í þessari hæð en við vorum að vona að við fengjum skyggni neðar...


Jú... það fór að sjást til landslagsins í kring smám saman...


Skaftá komin í ljós...


En Eldgjáin var full af þoku... það eina sem okkur datt í hug að gera var að fara að hlæja... jæja... áttum við sem sé að fá að ganga Eldgjána líka í þokur... þetta var með eindæmum fyndið... það átti greinlega að æfa hjá okkur æðruleysið í þessari ferð...


En svo lyfti þokan sér og við blasti skyndilega Eldgjáin í allri sinni dýrð !


Hvílík sýn skyndilega og óvænt ! ... og svo vel þegið eftir alla þokuna...


Reynt að ná hópmynd úr því það var loksins eitthvað landslag með okkur... með Eldgjána í miðjunni...


Inga Guðrún, Edwin, Bjarni, Sjöfn Kr., Birgir, Maggi og Kristín Leifs.

Batman, Þórkatla, Jaana, Örn, Njóla, Guðmundur Jón, Katrín Kj., Fanney.


Bára tók mynd. en Sjöfn tók mynd af henni :-)


Ljónstindur að losa sig endanlega við skýin...


Vá... gengum við eftir þessum hrygg... magnað ! Þessi nyrsti hægra megin sem var svo stór í nálægð fyrr um daginn... var svona lítill já... merkilegt... svo gaman að sjá þetta !


Mosinn og rauðinn í Eldgjá... þessir tveit litir eiga skilið að komast í Eldgjár-riddarapeysu með s vörtum og öðrum grænum lit... er þetta nokkur spurning fyrir þá sem eiga eftir að prjóna sér !


Hér með gengum við í skyggni og dýrðarinnar landslagi... og vorum mjög þakklát... eftir alla þokuna... dæmigert fyrir hálendið og lítið í þessu að gera nema vera æðrulaus... og muna að vera þakklátur þegar góðu dagarnir koma... þeir eru nefnilega alls ekki sjálfsagðir...


Litið til baka... sjá hvernig þokan liggur alveg niður að okkur og ekkert sést í Gjátind...


Við gengum niður með ystu brúnum Eldgjár... áður en við fórum niður í hana...


Þegar lesið er um Eldgjá verður manni strax ljóst hvílík stórverk þetta er af náttúrunnar hendi... hún er fossprunga frá árinu 939... ýmist sögð 60 km eða 75 km löng eða jafnvel lengri... alls og nær frá Kambagígum að Mýrdalsjökli... er allt að því 600 breið og 200 m djúp... en eins og segir í wikipedíu:


"Hraunið frá Eldgjá er mesta hraun sem runnið hefur í einu gosi á jörðinni á sögulegum tíma og hugsanlega er Eldgjárgosið mesta hraungos sem mannskepnan hefur nokkru sinni orðið vitni að."



Fengum okkur samt nesti þarna á brúninni áður en niður var farið...


Riddarapeysurnar með Eldgjá...


Jaana, Þórkatla, Bjarni, Guðmundur Jón, Katrín Kj., Njóla, Sjöfn Kr., og Örn en Bára tók mynd...


Ljónstindur... í öllu sínu veldi...


Hörðubreið með Hörðubreiðarhálsa fryir framan sig... og Ljónstrindur... bæði fjöllin svipmikil og sérlega gaman að vera búin að ganga á þau þar sem þau gefa greinlega mikinn svip líka á leiðinni um Eldgjá... eins og þau gera þegar ekið er inn að Langasjó...


Hörðubreið að losa sig við skýin með Hörðubreiðarhálsa fyrir framan sig... eftir vangaveltur dagsins finnst okkur engin spurning að halda sig við Hörðubreiðarnafnið þó grunur sé um að fjallið hafi átt að heita Herðubreið... af því með þessu nafni heldur fjallið sínu sérkenni... og er ekki endalaust ruglað við hið þekkta Herðubreið... Herðubreið syðri og Herðubreið nyrðri er ekki spennandi... sbr. örlög Snæfells nunnan Vatnajökuls í skugga af Snæfelli norðan Vatnajökuls...


Það er afskaplega vel þegið þegar fjöll eiga sitt einstaka nafn en ekki það sama og jafnvel mörg önnur um allt land... áfram Hörðubreiðarnafnið... en það verður samt mjög áhugavert að heyra frásögn heldri heimamannsins sem fræddi skálavörðinn í Hólaskjóli um það að einhverjir stríðnir gárungar hefðu breytt nafninu Herðubreið í Hörðubreið á sínum tíma... og því héti Hörðubreið með réttu í raun Herðubreið... en var það þá ekki bara stök snilld ?


Hver vill heita Herðubreið alveg eins og fræga fjallið sem allir þekkja ? Vill þetta fjall ekki frekar heita sínu sérstaka nafni Hörðubreið ?


Litið upp eftir til baka á Gjátind... ennþá umlukinn þokunni...


Birgir sat gegnt Skaftá í nestistímanum á meðan við flest hin horfðum niður í Elddgjá... áhrifasvæði þessarar ár er einstakt... við hættum ekki fyrr en við erum búin með öll fjöllin sem varða leið hennar... Batman á hauk í horni hjá Birgi... hann er einn af þeim sem laumar að honum góðgæti í hverri nestispásu... slíkan vinskap á hundurinn við nokkra í hópnum sem hann og er honum ómetanlegt...


Lagt af stað eftir notalega nestispásu í dýrðarinnar útsýni...


Ljónstindur orðinn skýlaus með öllu...


Gjátindur að opnast...


Hér liggur leiðin niður í Eldgjá frá Gjátindi... og eins frá brúnunum en vinsælt er að ganga hringleið um gjána og vera þá ofan í henni og svo uppi á brúnunum...


Hörðubreið og Hörðubreiðarháls orðin skýlaus... það var mjög gefandi að sjá bæði fjöll dagsins áður en gangan var á enda... því þannig sáum við hvers lags fjöll við gengum á í þoku fyrr um daginn...


Góður stígur... lungamjúkur í miklum lausum sandi...


Sko.... eigum við ekki að prjóna peysu úr þessum litum... ?


Gjátindur lokar Eldgjá að norðan...



Eldgjáin var greiðfærari en við áttum von á... eingöngu með æskuminningar af göngu upp að Ófærufossi en sú leið er grýttari en hér innar...


Innst í Eldgjánni undir Gjátindi er þetta klettahaft.. það minnti á litla Kárahnúkastíflu... af náttúrunnar hendi...



Sjá nær hér...


Mjög flott leiðin hér út eftir allri gjánni....


Stór björg sem skiptu litum og voru mosagróin...


Rauður og grænn í algleymi með svörtum og gráum...


Svartir sandar...


Rautt grjót...


Svo falleg litasamsetning...


Ólíkar bergtegundir...


Allt í einum hrærigraut...


Listaverk í stóru sem smáu þessi gjá....


Utar tóku grasi grónir balar við af sandinum... og við vorum komin á kindagötur...


Furðuheimurinn hélt áfram...


Grýttara þegar utar dró...


Sauðfé uppi í hlíðunum um allt... þær eru miklir fjallamenn þessar kindur...


Komin að Ófærufossi...


Við fórum alveg að fossinum og vorum skyndilega komin á miklar ferðamannaslóðir... en þó bara einn hópur sex eldri borgara hér á ferð á sama tíma og við...


Ófærufoss... vatnið sem við óðum fyrr um daginn kom geysandi hér niður...


Flúðirnar neðan við sjálft vatnsfallið í efri hlutanum var ekki síðra en fossinn sjálfur...


Litið til baka á efri útsýnisstaðinn...


Litið niður eftir ánni þar sem hún er komin í lygnan farveg niður Eldgjá... slóðinn þarna hinum megin er fyrir þá sem fara enn styttra og koma af brúnunum til að skoða fossinn...


Hér yfir var steinbrúin á sínum tíma... sem mörg okkar höfðu farið yfir á eða horft á í æsku... en féll í leysingum árið 1993...



Ólýsanleg fegurð... sem fangast hvergi á mynd... hingað verður maður að koma og upplifa... mikið vatnsmagn og mikill kraftur... og mikill hávaði... og stórbrotin fegurð...


Við héldum svo áfram eftir góða stund við fossinn... Kristín farin á undan þar sem hún var að fara á næturvakt... og nokkrir farnir á undan til að nýta tímann...


Sjá förin eftir grjót sem runnið hafa niður hlíðina...


Heldur ógreiðfærari þessi kafli frá fossinum og út gjána...


Fossinn í heild... nánast eins og steinbrúin sé þarna ennþá...


Áin svo lygn og saklaus þar sem hún var komin niður í gjána...


Hér þurfti að vanda sig gegnum grjótið...

Hugsa sér... fegurðin sem kom þegar sólin skein... ef við bara hefðum haft þessa geisla allan daginn...


Gjátindur að birtast undan þokunni...


Kyrrðin í Nyrðri Ófæru...


Blátær og falleg... gaman að vera búin að vaða hana og kynnast þessum fallegu hliðum á henni hér í Eldgjá...


Skyndilega hafði kvenþjálfarinn áhyggjur af því að við þyrftum að vaða ána aftur til að komast í bílana... mundi ekki eftir neinnu brú yfir hana...


Mjög fallegt hér...


Stutt í þjónustuhúsið við ána neðar...


Gjátindur nánast skýlaus...


Nærmynd... bara smá þoka efst...


Jæja... áhyggjur af vöðun voru óþarfar... það voru tvær göngubrýr yfir ána... það er nánast eins og Skuggafjallakvísl sé sífellt að reyna að vera sjálfstæð meðfram Nyrðri Ófæru þar sem áin skiptir sér á köflum... tvær ár sem renna saman og berjast um yfirráð... eða vinna saman þar sem á þarf að halda í mesta bróðerni....


Flott aðstaðan hér og til fyrirmyndar...


Jahá... þarna vorum við... gengum upp á þennan tind nýja leið og svo merktar slóðir frá tindinum og niður um Eldgjána... magnað !


Þessi kafli er þá 8 kílómetrar að þjóðveginum líklegast ? .. skv þessu skilti ? Hér er Eldgjá sögð 75 kílómetra löng... misræmi er í tölulegum upplýsingum um lengd hennar...


Fremstu menn farnir áfram eftir veginum og einhverjir ´ætluðu að bíða hér eftir bílunum... kvenþjálfarinn vildi endilega ganga áfram... erfitt að sitja og bóiða lengi í svala loftinu... betra að halda sér gangandi... enda var þetta langur tími og hefði verið svolítið súrt að setja bara hér...


Bára reyndi að fara aðeins á undan og ná í skottið á fremstu mönnum til að láta þá vita að við kæmum á eftir þeim gangandi... en hún sá þá aldrei... og á endanum lögðu allir af stað eftir veginum... svo við gengum þá allur hópurinn þessa leið sem var besta lendingin þó erfið væri undir það síðasta...


þennan síðasta kafla reyndi verulega á andlegt atgervi... vera jákvæður og njóta landslagsins og göngunnar... þrátt fyrir endalausar brekkurnar... .sumir eru mjög góðir í þessu og okkur öllum til fyrirmyndar...


Þessi kafli var nefnilega mjög langur og krefjandi... og brekkurnar upp Hörðubreiðarhálsinn mun lengri og erfiðari en við vonuðumst til... svo það virkilega reyndi á þetta...


Komin út Eldgjána og tekin vinstri beygja upp veg F208...


Áframjhaldandi gjáin hér til vesturs...


Vegurinn langi og strangi... nú eigum við hann í minningunni... um að hafa látið okkur hafa það kílómetrunum saman til baka í bílana... auðvitað vildum við ganga alla leið... loka hringnum... og komast að því að við getum alveg gengið lengi vel eftir að maður er orðninn þreyttur...


Best að spjalla bara og gleyma sér... og njóta...


Ætli þetta séu Mórauðavatnshnúkar þarna efst ? Mjöfg svipaður útlits og Gjátindur... getur eiginlega ekki verið annað en þeir... skálinn í Álftavötnum þarna niðri vinstra megin í dalnum... hann er ekki nema tæpum 5 km frá Hólaskjólsskálanum... en torfærari leið að honum en í Hólaskjól... Álftavötn - NAT ferðavísir


Það reyndi á sál og líkama alla þessa leið.. sumir gleymdu sér í sælunni af náttúrunni... aðrir í spjalli... eða símtölum... eða bara í hugleiðslu... vonandi ekki hugsandi þjálfurum þegjandi þörfina... það er svo lýjandi að vera í slíkum þönkum... frekar þakka fyrir allt sem maður hefur... allt sem maður má vera þakkátur að hafa... þó ekki væri nema bara að vera hér... á þessum stað... á þessari stundu... að upplifa hálendið á tuttugu kílómetra kafla um ótriðnar slóðir að mestu... og svo um eina stórbrotnustu gjá landsins... og mesta eldsumbrotasvæði landsins líka... það var auðvitað magnað ! Þjálfarar voru ekkert skárri... með eftirsjá yfir að hafa ekki skilið allavega einn bíl við afleggjarann að Eldgjá... svo bílstjórarnir hefðu getað keyrt yfir hálsinn og náð í bílana... við ætluðum reyndar ekki að ganga veginn heldur fara yfir Hörðubreiðarhálsinn... sem hefði jú, verið styttra, en erfiðara og því ákváðum við að taka veginn svo alir gætu gengið á sínum forsendum og sínum hraða síðasta kaflann...


En... ef við hefðum ekki gengið þennan kafla... þá hefðum við ekki upplifað stórkostlegt útsýnið sem var á leiðinni... t.d. að Gjátindi sem brátt kom í ljós...


Það var magnað að sjá hann loksins allan... hugsa sér að við komum upp hann vinstra megin á leið sem við vissum ekkert hvort væru fær alla leið upp eður ei...

... og við hefðum heldur ekki fengið fjallið Hörðubreið beint í æð gangandi... þannig að við sáum hana frá þremur hliðum...


... og sáum bröttu brekkurnar sem við fórum upp í byrjun dagsins...


Né hefðum við séð Skuggafjöll sem hér rísa vinstra megin í fjarska... sem við sáum ekki fyrir þoku fyrr um daginn...


Herðubreið er jafn falleg að austan og hún er að vestan... við vórum upp vinstra megin...


Loksins komu bílarnir... fremstu menn keyrðu á móti hópnum og Bára bað Örn að sækja öftustu menn en Guðmundur Jón, Maggi og Örn voru fyrstir í bílana og skutluðust eftir þeim sem vildu far...


Við vorum n okkur sem vildum klára leiðina gangandi og hlupum hér síðasta kaflann... þar sem bílarnir voru komnir á stjá...


Suðurvesturendi Herðubreiðar... hér fórum við upp...


Magnað útsýni á þessum kafla... loksins...


Hörðubreið komin vestar...


Dásamlegt að komast í bílana...


Við vorum alsæl... þetta var mikill sigur... ekta könnunarleiðangur... þar sem lærdómurinn er mikill... meðal annars sá að það er best að skilja bíl eftir við enda Eldgjár og keyra þennan kafla á milli hér... nema menn vilji upplifa útsýnið eins og við gerðum... það má spyrja sig... skiptar skoðanir voru um þetta innan hópsins sem var frábært... því sumir upplifðu síðasta kaflann í alsælu og hefðu ekki viljað missa af honum...


Alls 21,1 km... þetta tæki sýnir 20,4 og endaði í 19,4 á wikiloc (færri punktar sem styttir alltaf slóðina eitthvað)... á 8:05 - 8:22 klst... fremstu menn (Örn) sem sé bara 17 mínútum fljótar en aftasti maður sem fór alla leið (Bára og Fanney)... en nokkrir fóru upp í bílana áður en lent var við ána...


Hörðubreið frá bílastæðinu... við sáum ekkert í þetta fjall um morgunin... en hugsa sér... það stóð þarna og gnæfði yfir okkur í þokunni... og tók svona vel á móti okkur þegar við gengum á það...


Jæja... hvaða fjöll eigum við að ganga á næst... Tindafjöll ?


... eða Vinstrasnók ? ... það verður höfuðverkurinn við dagskrárgerð Toppfara í vetur fyrir árið 2023...


Við gáfum okkur góðan tíma og spáðum í leiðina á korti sem var við vaðið... á Skuggafjallakvíslinni sjálfri... sem hér er þveruð á bílum á Fjallabaksleið nyrðri... frekar stutt að Kirkjufellsvatni... þaðan sem við bengum á Hábarm að Grnahrygg og um Hrygginn milli gilja niður Jökulbilið allt árið 2019... ef við höldum þessu áfram... þá endum við á að tengja þessi svæði saman með göngum á helstu fjallstinda þeirra... sem er framar vonum fyrir þjálfara... en meðan menn eru til í svona könnunarleiðangra... frekar en að ganga sífellt á sömu fjöllin... þá erum við sko til !


Kortið á skiltinu... fjallstindarnir okkar þrír... og Eldgjáin... magnað að ná þessum hring !


Kortið í heild... sérstök örnefni þarna... en þau sérstökustu sjást ekki hér á mynd... og við hlógum að greddunni í þeim...


Við tók 3,5 tíma akstur með stoppum á heimleið... en einhvern veginn var víman til staðar þrátt fyrir þokuna... sem var með ólíkindum... en sagði allt um gæði leiðarinnar... þessar slóðir eru greinilega áhrifamiklar... þó þær séu gengnar í þoku...


Þess skal getið að nokkrum dögum eftir ferðina hringdi bóndi á þessum slóðum í kvenþjálfarann og lét hana vita að hann hefði fundið ökuskírteiið hennar uppi á Hörðubreiðarhálsi... það og eitt debetkort hafði dottið úr veskiinu... en fyrir algert lán fann þessi maður kortið... og ætlaði að koma því til borgarinnar með einhverjum gangnamanni úr borginni sem von væri á að kæmi helgina á eftir í leitir... vænn er þessi maður... takk kærlega Ármann Daði Gíslason bóndi í Ásum í Skaftártungu :-) :-) :-)


Skutl með þá sem gistu í Hólaskjóli... og svo keyrsla í bæinn eða gist næstu nótt hér... eins og sumir gerðu og uppskáru sól og blíðu daginn eftir.. mánudag... hvílík sóun á sól og skyggni... allir að vinna og enginn að ganga nema vera í fríi... æji... jæja... best að svekkja sig ekki á þessu... það þýðir nú víst lítið...

Batman hraut allt kvöldið og næsta dag.. allir þreyttir eftir svona göngudag... en sælan situr eftir... og minningarnar... og nú þegar við keyrum þessa leið.. þá getum við sagt og minnst þessa dags... með orðunum "Sjáðu tindinn... þarna fór ég..."... og er sú tilfinning sjaldan sætari en einmitt þá um fjöll sem fáir fara á...


Hjartans þakkir fyrir kyngimagnaðan dag... fyrir að þora og vera til í svona könnunarleiðangra... og fyrir að láta ekki smáatriðin... eins og nokkurra klukkustunda gang eftir þjóðvegi F208 flækjast fyrir gleðinni... en fyrst og fremst fyrir að hafa vit á að vera þakklátur fyrir svona dag... þar er nefnilega lykillinn að gæfunni sjálfri...


78 views0 comments

Comentarii


bottom of page