top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Hafrahlíð, Lali og Reykjaborg í brjáluðu roki og rigningu... og sól !

Æfing nr. 756 þriðjudaginn 23. maí 2023.


Veðrið lætur ekki að sér hæða vorið 2023 og bauð upp á rok og rigningu enn einn þriðjudaginn... og nú með smávegis sólarívafi svona til að minna okkur á að halda í vonina...


En vopnið okkar gegn þessu veðri var að hlæja bara sem mest og oftast að þessu veðri... vitandi að öll él styttir upp um síðir...


Talandi um éljagang... í miðjum Hafrahlíðum... þyngdi skyndilega yfir... og yfir okkur gekk éljagangur og rok sem skyggði á útsýni fékk okkur til að halda áfram upp brekkurnar... og við fylgdumst með Sigurbjörgu og Sigríði Páls ná okkur smám saman upp brekkuna...


Uppi var hávaðarok og við skelltum bara í partý og gerðum grín að þessu öllu saman...


Stelpurnar reyndu að fanga vindinn með smá gjörningi við súluna á Lala... og það tókst ansi vel hjá þeim :-)



Skjáskot af myndbandi sem þjálfari tók af rokinu á Lala... þetta var geggjað gaman !


Frá Hafrahlíð og Lala var auðvitað haldið á Reykjaborg... við erum engir aumingjar sko... ekkert væl hér... þeir sem mæta í svona veðri eru ekki með listann af afsökunum og úrtölum... heldur vilja fá sína göngu og engar refjar... bara slag við veðurguðina til að styrkja sig og hafa gaman... það er þó skárra en nöldra innan dyra í botnlausri sjálfsvorkunn...


Á efsta tindi Reykjaborgar skall á önnur hríð og síðustu menn héldu sér varla á fótunum þegar þeir skriðu upp til hinna... vindurinn var slíkur að það var betra að leiðast tveir og tveir saman...


Þarna gekk annar éljagangur yfir okkur með hvössum hryðjum... og svo eins og hendi væri veifað... kom sól og blíða... eða þannig... rokið var reyndar áfram... og kuldinn... :-)


En við náðum þessari sumarlegu mynd á síðasta tindi dagsins... og það virðist vera miklu betra veður á myndinni en raunverulega var... enda var snjórinn ennþá að bráðna á jökkum og hettum...


Mergjuð mæting í svona erfiðu veðri:

Efri: Siggi, Sjöfn Kr., Öyvind, Linda, Þorleifur, Aníta og Örn.

Neðri: Silla, Sigrún Bj., Sigurbjörg, Inga Guðrún, Sigríður Arna, Sigríður Páls og Guðmundur Jón en Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn...


Mjög fallegar myndir voru teknar á niðurleiðinni og það var skollið á sumar... hálfri mínútu eftir að skollinn var á vetur þarna uppi... rysjótt veður eins og það gerist öfgafyllst... ekta Ísland... og við elskum það !


Hafrahlíðin og Lali þarna í baksýn hópsins en við fórum svo niður í dalinn og tókum stíginn gegnum skóginn til baka... mjög falleg leið sem við erum orðin skotin í eftir áralanga hefð fyrir því að ganga frá vatninu síðust ár... en fyrstu árin fórum við þessa útgáfu með smávegis fráviki á upphafsstað við Dísarhól...


Alls 5,4 km á 1:40 klst. upp í 302 m hæð á Reykjaborg með alls 283 m hækkun úr 88 m upphafshæð.


Miklar andstæður í veðri en einstaklega skemmtileg ganga og mikil stemning í hópnum sem nutu í botn að takast á við veðrið af því það þýðir víst ekkert annað þegar það býður okkur upp á svona hryðjur og rysjótta kafla viku eftir viku...


Takk veðurguðir Íslands fyrir að bjóða okkur upp á bókstaflega ÖLL veður í einni þriðjudagsgöngu... rok, logn, sól, rigningu, él, kulda og hlýju... #Þriðjudagsþakklæti


Þjálfarar eru komnir í sumarfrí og klúbbgöngur taka við næstu tvo þriðjudaga... sem enduðu á Helgafelli í Hafnarfirði 30. maí og Þorbirni þann 6. júní en á milli þeirra fórum við stórkostlega göngu í Þórsmörk sem aldrei gleymist á Réttarfell, Vesturhatt, Útigönguhöfða og Hvannárgil... hvílík fegurð !

55 views0 comments

Comentários


bottom of page