Tindferð nr. 275 föstudeginn 21. júlí 2023.
Hattfellið var gengið í fyrsta sinn af þjálfurum og klúbbnum í fyrra í stórskostlegri ferð þar sem einnig var gengið á Stóru súlu og er ferðasagan af þeirri ferð okkar aðalferðasaga af þessu magnaða fjalli, Hattfelli... en þjálfurum fannst það stórsniðugt að hafa Hattfellið sem föstudagsfjall í júlímánuði og voru vissir um að það myndi slá í gegn þar sem margir væru í fríi en þegar þessi föstudagur kom var fínasta veðurspá og eingöngu 7 manns mættu með Erni þjálfara...
Einhyrningur er útvörðurinn inn Emstruleið upp á Fjallabak... og því var þessi ferð veisla með akstrinum líka...
Ofar á jeppaslóðanum blasir Hattfellið við... eitt það fegursta sem við höfum gengið á enda skreytir það Laugavegsgönguleiðina mjög mikið... og fær alla sem ganga þá leið til að langa til að ganga á Hattfellið einn daginn...
Lagt var á fjallið á sama stað og síðast... en hægt er að fara upp norðan megin líka þar sem hliðarstígurinn er þeim megin og stytta gönguna enn frekar... landslagið hérna megin er hins vegar svo skemmtilegt að það er þess virði að ganga héðan upp...
Lagt var af stað kl. 11:12 þar sem brottför úr bænum var bara klukkan 08... ekki að ganga á Stóru súlu líka eins og í fyrra... stutt ganga í vegalengd og tíma... tilvalin ferð fyrir alla og betra að ganga þetta í hópi þar sem leiðin er ekki augljós efst þó menn séu með gps-tæki til stuðnings...
Brattinn er mikill á Hattfelli allan tímann nema smávegis í skarðinu milli tinda og svo þegar komið er upp á hattinn...
Þetta er því tafsöm ganga þar sem menn halda hópinn og fara upp sem einn maður...
Þennan júlídag var frábært veður, sól, lygnt og heiðskírt en heilmikið mistur sem deyfði allt útsýnið því miður... ólíkt ferðinni í fyrra sem var kristaltær... enda farin síðsumars en þá er haustkuldinn oft að hjálpa okkur og bæði minnkar rennsli í ám og hreinsar loftið...
Stórkostlegt útsýni engu að síður... sjá veginn að Hattfelli og svo annað hvort niður á láglendið norðan megin (vinstri vegurinn) eða yfir í Emstrur hægra megin... Stóra súla þar na í fjarska og svo Torfajökullinn efstur...
Gott hald í jarðveginum alla leiðina og greiðfært þó seinfarið væri...
Stórkonufell og félagar... og Mýrdalsjökull fjær... Stórkonufell og þessir tindar sem mynda hálfpartinn hring eru á dagskrá í september... vonandi í betra skyggni en núna...
Stóra og Litla Grænafjall og Illasúla vinstra megin...
Komin upp í skarðið milli tinda... hatturinn hér... já, hann er bara einn... þeir eru ekki tveir... og því þykir okkur réttnefni að fjallið heiti Hattfell en ekki Hattafell... þetta er hæsti tindur Hattfells en klettarnir hér eru aðeins of háir til að hægt sé að klöngrast upp hérna megin... það þarf að feta hliðarstíginn hægra megin séð héðan frá eða norðvestan megin sem sé...
Tindfjallajökull hér í fjarska... sífellt snjólausari eftir því sem líður á sumarið... mjög gaman að upplifa hann í öllum sínum ólíku myndum...
Hliðarstígurinn hér... fínasta leið til að byrja með og ágætis brölt en hvergi tæpistigur eða fallhætta þó fara þurfi varlega... hér myndum við ekki vilja fara í frosnum jarðvegi hins vegar...
Mjög gaman að ganga hér undir klettabeltinu...
Komin upp á hattinn... það er söguleg stund að komast á hann en svo virðist vera sem flestir sleppi honum og láti lægri tindinn í skarðinu fyrrnefnda nægja en þessi staður hér... uppi á hattinum er einstakur heimur að heimsækja og þess virði að ná honum líka...
Einhyrningur og Tindfjallajökull þarna í mistrinu...
Horft niður af efsta tindi í 932 m hæð niður í skarðið og yfir á hinn tindinn... sá er ekki hattur að sjá... og þarna láta margir nægja að ganga upp í stað þess að fara upp á hattinn hér...
Stórkonufell og félagar...
Litið beint niður á bílana á Emstruveginum...
Barðið á hattinum suðaustan megin og til suðurs...
Sighvatur nýliði frá því í vor og Stóra súla með smá skýjahatt á sér efst... Torfajökullinn nokkuð skýr í mistrinu í fjarska...
Sighvatur, Katrín Kj., Guðmundur Jón, Aníta, Sigurbjörg,, Sigríður Arna og Jaana en Örn tók mynd og Bára var á vakt í bænum þessa helgi... en Batman var eini hundurinn...
Stóra súla og Torfajökull séð frá tindinum á Hattfelli...
Nesti efst í hattarbarðinu... ekki slæmur nesisstaður hér...
Batman rataði frá því í fyrra... auðvitað var farið niður á suðurendann og tekinn hringur um hattinn áður en snúið var til baka...
Magnaðar fjallsbrúnir... lygilegt útsýni... þrátt fyrir mistrið...
Formfargar hlíðarnar sunnan megin...
Við röktum okkur eftir öllum brúnunum...
... og fórum út á nösina sunnan megin...
Barðið á hattinum suðaustan megin...
Höfðingjarnir Guðmundur Jón og Katrín Kjartans... mögnuð hjón sem enn eru að og gefa lítið eftir...
Suðurnösin... magnaður staður og nauðsynlegt að koma hingað þegar gengið er um hattinn...
Örn spáði mikið í mögulega aðra leið upp en fann enga...
... nema eins og síðast hugsanlega alveg suðvestan megin...
Prófum hana kannski einhvern tíma en hún er snarbrött samt...
Nú langar okkur aftur og prófa að fara hér niður...
Einhyrningur og Tindfjallajökull... farið nokkrum sinnum á þessi fjöll... ótrúlega gaman að rifja upp fyrri ferðir og ná smám saman að tengja fjöllin milli svæða...
Komin hringinn og hér er farið niður hliðarstíginn til baka...
Litið til baka yfir vesturhluta hattarins... hattarbarðið... jú, er ekki leið hér niður ?
Efsti tindur þarna uppi efst í hattinum...
Til baka sama hliðarstíginn... ekkert mál í hópi sem er vanur á brölta um allt...
Eruð þið ekki að koma eða hvað ? :-)
Varlega... ekkert mál en stigið varlega til jarðar í brattanum...
Léttara þegar neðar var komið...
Aftur að klettunum... mjög fallegur hlutinn hér neðan við skarðið milli tinda... en mun brattara en fangast á myndum...
Mjög bratt niður síðasta hlutann en gott hald í grasinu og fyrst og fremst hægfara yfirferð og ekki hættuleg...
Kærleikurinn og þakklætir gagnvart fjöllunum og félögunum fangast á þessari mynd af Anítu gleðigjafa og Batman ofurhundi...
Greiðfærara neðst í fjallinu...
Síðasti kaflinn... sjá bílana hægra megin á mynd... við veginn...
Alls 4,3 - 5,2 km eftir því hvaða tæki var og hvaða forrit tók við gps-slóðinni... á 3:41 klst. upp í 932 m hæð með alls 542 m hækkun úr 556 m upphafshæð.
Mögnuð ferð og einstakt fjall með frábæru fólki... Löðmundur var svo genginn í ágúst á föstudegi en þar var mætingin áfram dræm svo í kjölfarið ákváðu þjálfarar að hætta með föstudagsfjallaverkefnið þar sem ganga átti á eitt fjall í mánuði á föstudegi árið 2023 þar sem dræm mæting hefur verið í þessar ferðir og ekkert lagast eftir því sem á árið leið... en í staðinn ætlum við að hafa föstudagana sem mögulegan göngudag þær helgar sem ekki viðrar á laugardegi eða sunnudegi ef næg mæting fæst þar sem stundum koma margar helgar í röð þar sem ekkert viðrar og þá er synd að nýta ekki föstudagana ef sæmilegur fjöldi næst... og ef við þekkjum okkur rétt þá munum við blása til brottfarar þó mjög fáir mæta eins og við höfum gert hingað til... en við ætlum samt að ná þessum föstudagsfjöllum sem eru eftir á árinu... og við byrjuðum á Heklu þann 19. ágúst sem átti að vera í október... og þá eru eftir Hlöðufell, Strútur og Brimlárhöfði... hlökkum til... svona ferðir eru veisla fyrir líkama og sál... takk fyrir að mæta og takk fyrir alla gleðina...
Myndbandið frá í fyrra hér: Hattfell við Laugavegsgönguleiðina 110922 #Laugavegsfjöllin - YouTube
Gps-slóðin frá í fyrra hér: Wikiloc | Hattfell við Laugavegsgönguleiðina 110922 #Laugavegsfjöllin Trail
Comments