Þriðjudagsæfing 11. janúar 2022
Á öðrum þriðjudegi ársins 2022 var ætlunin að gera tilraun tvö til að ganga á Stóra Reykjafell við Hellisheiði í myrkri og hávetri... en aftur neyddumst við til að hætta við þetta litla en fjölbreytta fjall... það átti að vera fyrsta þriðjudagsfjallið í fyrra en datt út vegna veðurs þá... en nú færðum við dagskrána til... höfðum 2. febrúar til vara ef breytingar yrðu vegna veðurs... og því stefnum við á Stóra Reykjafell eftir viku... og fórum þess í stað þennan 11. janúar á Helgafell Mosfellinga öfuga leið frá Skammadal...
... og veðrið var með ágætum þetta kvöld... það var mjög slæmt yfir daginn... og það var von á illviðri síðar um kvöldið en það átti að koma nokkurra klukkutíma mildur veðurgluggi seinnipartinn... sá hinn sami og við tókum ekki áhættu með að ná á Hellisheiðinni þetta kvöld þar sem það svæði er mikið veðravíti... og því fengum við bara ágætis veður í Mosfellssveitinni... svolítinn vind til að byrja með... en svo lognið á undan storminum þegar leið á gönguna...
Birtan einstaklega falleg... það er smá ávæningur af birtu enn á himni þegar við keyrðum inn Skammadalinn upp úr klukkan fimm... það er farið að sjást í skottið á dagsbirtunni á þriðjudögum... birtan mætir full til leiks í lok janúar... og þá verður allt léttara og bjartara...
Samsung símamyndavélin blekkir... það var meira myrkur en þetta... en við gengum upp og niður ása Helgafellsins í austri... og fengum ágætis hækkun út úr leiðinni... með eins stórum hring og unnt er án þess að fara niður af fellinu á miðri leið...
Þingvallaafleggjari hér í norðri...
Austurtindurinn framundan... hólótt og giljótt landslagið á Helgafelli Mosfellinga og alltaf fínasta æfing að ganga það þvert og endilangt...
Mjög vel mætt eins og alltaf í byrjun janúarmánaðar... allir hvíldir og einbeittir eftir hátíðarnar... svo skellur veturinn og illviðrin á okkur og þá reynir á elju og þrautsegju... hverjir eru raunverulega til í þennan barning sama hvað veðrið segir... það eru nefnilega ótrúlega margir... og flestir mættir þetta kvöld sem mætt hafa óslitið síðasta árið og sumir árum saman... magnað úthald !
Þetta kvöld voru líka mættir fjórir nýliðar... þær Hlökk og Kristín Leifs sem fengu sína eldskírn síðasta þriðjudag á hörkuæfingu á Esjunni og í kvöld mættu Gunnar Ingi og Skúli Franz sem féllu strax inn í hópinn og eru þjálfarar hæst ánægðir með þessa nýliða... en fjórir fleiri karlmenn hafa skráð sig í klúbbinn í ársbyrjun svo kynjahlutfallið er óðum að jafnast aftur út í klúbbnum sem er frábært !
Mosinn svo fallegur að vetri til líka... hvílík náttúrusmíði ef maður staldar aðeins við og spáir í það... teppalagt á fjöllum fyrir menn, dýr og plöntur... mosinn okkar yndislegi gefur mýkt og hita... magnað fyrirbæri með meiru !
Vesturtindarnir framundan...
Lækir frosnir eða rennandi undir klakanum á fjallinu...
Hæsti tindur framundan eða allavega sá með steypta stöplinum en að sögn Tómasar sem vinnur hjá Mosfellsbæ í skipulagsmálum og göngustígamálum... þá er hæsti punktur Helgafellsins inni á fjallinu utan alfaraleiðar... hann er einum metri hærri en sá formlega hæsti... tökum hann næst þegar það er birta... það hafði ekkert upp á sig að eltast við hann á þessari hringleið og sjá ekkert...
Alls 25 manns mættir:
Ása, Bára, Bjarni, Davíð, Elísa, Guðný Ester, Gunnar Ingi, Gunnar Már, Hjördís, Hlökk, Inga Guðrún, Jaana, Jóhanna Fríða, Kolbeinn, Kolbrún Ýr, Kristín Leifs., Magga Páls., Sigrún Bjarna., Sigurbjörg, Sjöfn Kr., Skúli, Tómas, Þorleifur, Þórkatla og Örn.
Hundar voru Batman og Slynkur... voru nokkuð fleiri hundar ?
Við gengum að uppgöngubrekkunni vestan megin... og hækkuðum okkur svo aftur upp á suðurbrúnirnar... hér með Grímmannsfellið í fjarska stuttu frá... og tókum eins stóran hring og landslagið gaf okkur til baka niður í Skammadal...
Alls 4,8 km á 1:43 klst. upp í 225 m hæð með alls 322 m hækkun úr 164 m upphafshæð.
Leggur tvö #ÞvertyfirÍsland næsta laugardag... í mjög illviðrasamri viku... vonandi sleppur veðrið... eins og það gerði svona líka fallega síðasta laugardag í Esjugöngu tvö á árinu á sex vesturtinda #EsjanÖll2022
Stóra Reykjafell næsta þriðjudag... vonandi í snjó, logni og tungsljósi...
Comments