top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Helgrindur... hrikalega fagrar fjallsbrúnir

Tindferð 227 laugardaginn 11. september 2021... sárabótarferð í stað Illusúlu og Hattfells sem frestuðust í annað sinn um heila helgi vegna veðurs og ófærðar á Emstruleið vegna vatnavaxta.

Þrettán manns gripu tækifærið og drifu sig á Helgrindur sem Örn bauð upp á úr því ekki var bílfært né veðurfært á Illusúlu að fjallabaki laugardaginn 11. september... en þennan dag var skásta veðrið á Snæfellsnesi þar sem skýjahuluspáin lofaði heiðskíru veðri sem smám saman myndi opnast yfir vesturhluta landsins og færast svo yfir landið til austurs með sól og blíðu seinnipartinn... en nægilega snemma á vestasta hlutanum til að hægt væri að nýta daginn til göngu í góðu veðri og skyggni...


Það rigndi nánast alla leiðina eftir Snæfellsnesinu og tvær grímur runnu á menn og efasemdirnar um hvers vegna í ósköpunum þeir voru að þvælast þetta í þessu veðri... en svo var sól og blíða þegar nær dró fjallsrótum Helgrinda og þetta lofaði mjög góðu þegar lagt var við gulu heyrúllurnar að beiðni bóndans að Kálfárvöllum sem gaf góðfúslega leyfi sitt til að keyra að rótum fjallsins og leggja bílunum þar...


Flóknasti hluti leiðarinnar á Helgrindur eru þessar brekkur hér... geta verið varasamar að vetri en eru gullfallegar að sumri... ofar er heiðin aflíðandi og jú grýtt og hólótt en greiðfær að mestu...


Örn var búinn að ákveða að fara upp með fossunum sem nutu sín sérlega vel þennan dag eftir blauta daga.... vatnsmiklir og freiðandi fagrir...


Meira vatn í þeim en í fyrri ferð á þessum árstíma... ef menn bara vissu hvað beið þeirra ofar...


Dásamlegt veður til að byrja með... sem skipti miklu og gaf góða orku inn í daginn...


Stórbrotið landslag... eins og svo oft á Snæfellsnesinu... þar sem svipmiklar brekkur og brúnir leynast strax við fjallsræturnar... ef maður bara leggur af stað og uppgötvar þær... sbr. Lýsuhyrna, Tröllatindar, Þorgeirshyrna o.m.fl...


Fjallahundurinn Batman glaður með verkefni dagsins... enn einar slóðirnar sem hann kynnist í fyrsta sinn í lífi sínu... hundurinn sá búinn að ganga ansi víða um landið...


Klettaauga... magnað !


Fleiri fossar leyndust ofar og gengið var milli tveggja á leið upp...


Ofar var grösugt og ljúft eftir brattar skriðurnar... og fossarnir áfram fryssandi niður úr fjöllunum...


Slæðufossar af öllum stærðum og gerðum lekandi niður...


Líklega heitir þessi foss Kálfárfoss en hann er sá eini með nafni á þessu svæði...


Brattinn hélt áfram en var vel viðráðanlegur í grasinu...


Ofar blasti þessi slæðufoss við... sem við horfðum á úr fjarska síðast... árið 2011...



Hvílík fegurð... náttúran skákar manninum margfalt...


Það var ekki annað hægt en skoða þessa dýrð betur...


... og taka hópmyndina hér...


Svala, Haukur, Silla, Jaana, Sigríður Lísabet, Ágústa H., Elísa, Kolbeinn, Sigurjón, Svandís, Ása og Sigrún Eðvalds en Örn tók mynd og Batman stillti sér upp líka :-)


Ölvuð af fegurð slæðufossins sem við teljum að sé nafnlaus þar til heimamenn eða þeir sem þekkja betur til láta okkur vita um annað... gengum við upp eftir Seljadalnum...


Greiðfært en grýtt og hjallar og hólar á leiðinni...


Kambur heitir þessi fjallshryggur sem gengur niður frá Tröllafjölskyldunni og niður eftir dalnum austan megin... Örn telur að hann sé fær og við setjum hann á dagskrá árið 2022...


Ofar kom þokan... og smá rigning... sem voru vonbrigði...


Vötnin fögru á leiðinni dulúðug í þokunni en allt önnur ásýnd var á þau í bakaleiðinni í sólinni...


Svekkjandi að fá þokuna og dropana... en menn voru vongóðir og vissu að veðurspáin sagði til um annað en rigningu...


Heilmikið landslag er uppi á lendunum að Helgrindum...


Greiðfært allt saman og gaman að upplifa það að sumri sem vetri en Örn fór eftir gps-slóðinni árið 2011 þegar við vorum hér að hausti eins og núna...


Hlýtt og milt og ekki hægt að kvarta yfir þessari þoku...


Snjóskaflar efst á heiðinni... sífreri á köflum í Helgrindum og félögum hennar...


Komið var fram á brúnirnar í algerri þoku og upp á Böðvarskúlu... en þá tók að opnast fyrir útsýnið til norðurs niður í Grundarfjörð...


Sjá skaflana fallandi fram af berginu...


Miklar grjótsprungur á brúnunum við Böðvarskúlu og milli hennar og Rauðukúlu... óhugnanlegt að sjá og heilmikið umfang... við munum ekki eftir þessu árið 2011 en það er ekki útilokað að þessar sprungur hafi verið þá líka... að vetri er snjór yfir þessum brúnum... en þá er maður að ganga yfir þær á snjó algerlega grunlaus um tómarúmið sem er hér milli klettanna...


Þessar fjallsbrúnir eru með þeim áhrifamestu á landinu...


Kirkjufellið að koma í ljós...


Sprungurnar...


Þokan þynntist sífellt meira...


... en hún kvaddi með sinni einstöku dulúð læðandi um allt... gefandi töfrabirtu sem erfitt er að fanga á mynd...


Allt að opnast...


Grundarfjörður...


Við gáfum okkur góðan tíma á fjallsbrúnum Helgrinda...


Þetta er ástæðan fyrir því að ganga á Helgrindur tekur alltaf sinn tíma... það er erfitt að slíta sig frá þessu útsýni...


Sýnin til suðurs af leiðinni upp eftir... farið að sjást til sjávar... þetta var allt að gerast !


Örn ákvað að þræða sig í rólegheitunum eftir brúnunum frá Böðvarskúlu á Rauðukúlu og áfram inn eftir í þeirri von að betur opnaðist fyrir útsýnið með hverri mínútunni...


Aftur komin smá þoka...


Brekkurnar niður í Grundarfjörð... menn ganga á Helgrindur Grundarfjarðarmegin... það er styttri vegalengd... en mun brattari aðkoma...


Smá hópmynd hér... í þokunni :-)


Mikil upplifun að vera á þessum brúnum...


Útsýnið allt að opnast til suðurs yfir grýtta leiðina upp eftir fyrr um daginn...


Það var auðvelt að gleyma sér hér tímunum saman...


Hvílík fegurð !


Kirkjufellið að koma í ljós...


Sýnin til suðvesturs... að Stakkfelli, Stafnafelli og Einbúa... mögnuð fjallsnöfn eru á Snæfellsnesi... við erum að safna öllum fjallstindum í þessum landshluta og eigum mörg mögnuð nöfn eftir eins og Mýrarhyrna, Axlarhyrna, Kráka, Vallnahnúkur, Gjafi, Krákhyrna... við verðum að fara að drífa okkur að bæta þessum ævintýralegu fjallsnöfnum í safnið okkar...


en Snæfellsnestindar Toppfara eru samt einnig orðnir mjög margir og við munum halda áfram að rifja upp göngur á þau allra flottustu eins og Helgrindur, Tröllatinda, Tröllakirkjurnar, Ljósufjöllm Hafursfellið, Þrífjöll, Skyrtunnu o.m.fl...


Kambur... sem skreytir uppgönguleiðina um Seljadal ofan Kálfárvalla... Kálfárdalur er vestar þar sem áin rennur niður...


Dásamlegir göngufélagar... nærandi með meiru að ganga með þessu fólki heilan dag...


Við vorum ansi smá í þessu tröllvaxna landslagi Helgrinda...


Sjá snjóinn hörfandi niður brekkurnar... ansi mikið snjómagn safnast hér að vetri úr því staðan á skaflinum er svona í september...


Komin upp á klettana við Rauðkúlu og litið til baka til síðustu mann upp...


Kirkjufellið og bærinn Grundarfjörður að birtast...


Til suðvesturs...


Til vesturs...


Hamrar Rauðkúlu...


Litríkt og sterkt landslag... hér tókum við hópmyndina árið 2011...


... þá mættir 33 manns... og fengu þoku og lítið skyggni allan tímann sem voru mikil vonbrigði þá... og segir allt um hversu erfiðar fjallsbrúnir Helgrindur eru... þar er langt í frá sjálfgefið að fá skyggni þó spáin sé góð...



Kambur og vötnin á uppleið... Kambsvatn er eina vatnið með nafn... hin eru nafnlaus á kortum... en við köllum þau þá bara Stakkfellsvötn meðan ekkert annað er í boði...


... en við vorum svo heppin að auðnast sérlega vönduð og ítarleg kort af Snæfellsnesi sem Reynir Ingibjartsson á heiðurinn af... en hann hefur oftar en einu sinni aðstoðað okkur við að finna úr út örnefnum á Snæfellsnesinu...


Gengið með brúnum Rauðkúlu...


Rauði liturinn hennar Rauðkúlu og félaga...


Hugmynd að litum í riddarapeysu... rauðleitur, mosagrænn, ljósgrár... svartur eða hvítur...


Riddarapeysumynd var mjög viðeigandi hér...

Ágústa H., Kolbeinn, Elísa, Þórkatla, Sigríður Lísabet og Jaana.


Sigríður Lísabet var að vígja nýja riddarapeysu... og Ágústa var að koma í riddarapeysu númer tvö...


Tindurinn á Rauðkúlu var magnaður...


Þaðan gafst óhindrað útsýni til norðurs... þokan farin að mestu og sólin skein í heiði...


Litið niður af tindinum...


Kyngimagnaður staður !


Teknar myndir á klettastrítunum með Kerlingartinda fjærst í norðri... Elísa hér...


Brúnir Helgrinda frá Rauðkúlu að Böðvarskúlu...


Svala með Kirkjufellið í baksýn...


Sigríður Lísabet í nýju riddarapeysunni sinni með Kirkjufellið í baksýn...


Svo fallegir litir...


Hvílíkt útsýni... bærinn og lægri fjöllin ofan hans... þau heita Gráborg, Smjörhnúkur, Hrókur og Kráka... hvílíkir smekksmenn sem nefndu fjöllin á þessu landsvæði !


Allir að njóta sín og upplifa stórbrotið landslagið nær og fjær...


Leiðin til baka framundan hér...


Kettarnir í Rauðkúlu...


Magnaður tindur takk fyrir !


Hvílík fegurð...


Já... erfitt að slíta sig frá þessum stað...


... en það var kominn tími á að snúa til baka...


Leiðin sú hér framundan svo falleg... grýtt og greið... og nú í mun betra veðri en á þokukenndri uppleiðinni...


Litið til baka... rauði liturinn svo fagur...


Á niðurleiðinni sást til Arnarins... fjallstindsins sem líka er stundum kallaður Tröllkarl sem kallast á við Tröllkerling og Tröllbarn...


Þau sjást vel hér öll fjölskyldan... Tröllkerlingin hér formfögur og litfötur... og barnið fjær á milli í sólinni... við skulum ganga á þessi fjöll að hausti á næsta ári...


Heilmikil leið til baka... Örn fór enn austar en árið 2011 en þá lentum við í tafsömum köflum á niðurleið í klettunum... nú náði hann að sniðganga það betur og fara greiðfærari leið...


Örninn skýlaus orðinn en farinn að hverfa...


Við verðum að ganga á þessa tinda... ekki spurning !


Tröllkerling... eftir mikla yfirlegu á kortum hlýtur þetta að vera hún...


Já... það er ansi grýtt landslagið á meginlangi Helgrinda...


... og ansi hæðótt og brekkótt...


Fagurt líka með vötnunum sem eru nafnlaus líklega... og við köllum Stakkfellsvötn... Kambsvatn er líklega austar og nær Kambinum ef marka má kort Reynis Ingibjartssonar...


Fínasta leið og ekki mjög tafsamt...


... sem var ekki sjálfgefið þar sem Örn fór nýja leið til baka og austar en áður...


Svo fallegt við vötnin...


Landslagið orðið dekkra en ofar...

Gott að kæla sig í vatninu... sjá Snæfellsjökul í fjarska hinum megin... og tindana snjólausa á honum...


Kambur hér... jú... það er vel hægt að klöngrast upp á hann... 2022... hingað komum við !


Síðasti kaflinn niður er um bröttu brekkuna ofan Kálfárvalla...


Sólin skein í heiði og allt ljúft og gott...


Fallegir klettarnir...


Fínasta leið...


En heilmikið klöngur á kafla...


Litið til baka... mun betri en að vetri til...


Komin niður í grænt grasið og síðdegissólina og blíðan allsráðandi áfram...


Alls 15,4 km á 8:08 klst. upp í 995 m hæð með alls 1.245 m hækkun úr 45 m upphafshæð.


Magnaður dagur og mjög sætur sigur fyrir þá sem voru að koma hér í fyrsta sinn. Stórkostlegt landslag og ógleymanlegt að fá skyggnið svona þegar komið var fram á brúnirnar... þá er þakklætið mun meira en ef gengið hefði verið frá upphafi í sól og skyggni.



Ákváðum að hlaða ekki niður slóðinni frá þessum degi þar sem hún er nokkuð svipuð og 2011.


233 views0 comments

Comments


bottom of page