top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Húsafjall, Fiskidalsfjall og Festarfjall í gullinni kvöldsól við sjóinn

Þriðjudagsæfing 7. september 2021.


Við áttum óvænt stefnumót við sólina þetta þriðjudagskvöld þegar við keyrðum út úr skýjaðri borginni í átt til sjávar og sólar við suðurströnd landsins...


Sérkennileg skýjamyndun lá yfir Festarfjallinu... blanda af gosstrókum og skýjum mynduðu dökka bólstra sem lágu til sjávar frá gosstöðvunum í Geldingadölum...


Þó nokkrir nýliðar koma inn þetta haustið eins og alltaf... og þó nokkrir gamlir klúbbfélagar hafa bæst við hópinn á þessu ári... svo það eru fagnaðarfundir ítrekað á þriðjudagskvöldunu... Ástríður komin aftur og var vel fagnað en hún eins og svo margir aðrir eiga margar kyngimagnaðar og sögulegar ferðir að baki með okkur í gegnum árin...


Litir náttúrunnar voru með eindæmum fallegir þetta kvöld... gnægð sumarsins draup af grasi, sjó og jörð... djúpir og sterkir litir... bærinn Hraun þarna í fjarska en þar búa landeigendur svæðisins sem skyndilega varð heimsfrægt vegna gossins í Geldingadölum...


Þrjú fjöll voru æfing kvöldsins... og þau létu öll finna fyrir sér með snörpum brekkum upp og niður... það var ekkert kjaftæði þetta kvöld... eða jú, samt... við spjölluðum sem aldrei fyrr enda lygnt, hlýtt og fallegt og ekta samverukvöld...


Dásamlegt að setjast niður og njóta... það var allt svo fallegt hvert sem litið var...


Húsafell var fyrsta fjall kvöldsins... og mældist heila 182 m frá sjávarmáli... við vorum við sjóinn svo þetta taldist ansi gott...


Einstök birta einkenndi þetta kvöld... og landslagið naut sín vel... sjá hér Festarfjallið í fjarska að falla í sjó fram smám saman en úr því hrundi heilmikið í jarðskjálftunum í mars á þessu ári...


Litir í riddarapeysu... svartur, grár, mosagrænn, mórauður...


Mættir voru 35 manns... sami fjöldi og síðasta þriðjudag... mun betra veður nú en á... vel gert... þjálfari skoraði á alla að mæta áfram í vetur þegar myrkrið og kuldinn tekur við... þetta er alltaf svo mikið ævintýri... svo mikil heilun... svo mikil orkuhleðsla... svo mikil upplifun...


Mættir voru: Ása, Ásta Sig., Ástríður, Bára, Elísa, Fanney, Gerður Jens., Guðrún Jóna, Gylfi, Haukur, Jaana, Jóhann Ísfeld, Jóhanna D., Jóhanna Svavars., Karen, Kolbeinn, Lilja Sesselja, Linda, Oddný T., Ragnheiður, Sigríður Lísabet, Sigrún Bj., Siggi, Sigurjón, Silja, Silla, Steingrímur, Steinunn Sn., Súsanna, Svandís, Vilhjálmur, Þóranna, Þórkatla, Örn.


Niður af Húsafjalli með Sýlingarfell og Stóra Kóngsfell í baksýn... en það síðarnefnda verður á dagskrá á næsta ári...


Fiskidalsfjall var ólíkt hinum uppgöngu... klettóttara og meira klöngur...


Mjög skemmtileg uppleiðin á það í ágætis klöngri efst...


Leiðin okkar á fyrsta legg "Þvert yfir Ísland" blasti við ofan af fjöllum kvöldsins... hér var síðasti leggurinn þegar farið var að rökkva þarna í lok janúar á þessu ári... meira hvað mikið hefur gerst síðan þá...


Fiskidalsfjall mældist hæst allra þriggja... 211 m hátt... og þar naut sjórinn sín svo vel...


Bláminn og friðurinn í sjónum var áhrifamikill... og skýin spegluðumst í sjávarborðinu...


Sjá hér Húsafjall ofan af Fiskidalsfjalli... þjálfara tókst að skrifa Húsafell og Fiskidalsfjall á dagskrána... greinilega að flýta sér þegar dagskráin var handflutt yfir á nýju vefsíðuna :-


Framundan ofan af Fiskidalsfjalli... var Festarfjallið... hér með Geldingadali, nýja gíginn í gosinu, Stóra Leirdal og bílastæðið fyrir gosstöðvarnar í fjarska þarna ofar á mynd...


Birtan svo falleg... litirnir svo sterkir... þetta var algert yndiskvöld...


Við fórum upp ásinn fyrst... þveruðum veginn en þar var talsverð umferð... og erlendir ferðamenn stöðvuðu bílinn og spurðu hvað við værum að skoða... héldu greinilega að þeir væru að missa af einhverju...


Ljósmyndarar hópsins tóku mikið af mögnuðum myndum þetta kvöld... af nógu var að taka...


Komin upp á þriðja fjallið... með hin tvö í sólinni... Fiskidalsfjall hægra megin og Húsafjall vinstra megin... magnað að ná þessari stund þarna uppi...


Þegar komið var fram á brúnirnar á Festarfjalli sáum við skyndilega sprungur í brúninni... þetta var óhugnanlegt... fjallið er óðum að hrynja til sjávar... og þetta voru án efa sprungur eftir jarðskjálftana í mars áður en gosið hófst...


Skálasandsberg... eins og lítil útgáfa af Festarfjalli... líka að falla fyrir sjónum smám saman...


Litið inn eftir Festarfjalli í átt að gosstöðvunum, Leirdal, Nátthafa, Geldingadölum og Meradölum...


Sjá annað bílastæðið af tveimur þarna í fjarska... þaðan fara menn inn Nátthaga... eldri bílastæðið er nær og í hvarfi vinstra megin...


Sjá sprungurnar hér í fjallinu við brúnirnar...


Við fórum niður beinustu leið frekar bratta... en þar var ágætis stígur sem farinn er að mótast í fjallið...

Hvílík birta... fegurð... orka... heilun... hleðsla...


Festarfjallið þegar niður var komið... sólin farin... strax farið að húma að... en skýin ennþá í sólinni... ótrúleg fegurð á þessum stað eins og síðast þegar við vorum hérna árið 2015...


Til baka var arkað á sandi og svo á vegi síðasta spölinn aftur í bílana... og við prísuðum okkur sæl fyrir að ná þessari tæplega 3ja klukkustunda göngu í sól og blíðu og engu myrkri því stuttu eftir að við vorum komin í bílana og keyrðum heim skall á myrkur og það var komin nótt þegar við komum heim um hálttíuleytið...


Alls 6,7 km á 2:51 - 2:54 klst. upp í 211 m hæst með alls 426 m hækkun úr 10 m upphafshæð... takk Ísland... fyrir ólýsanlega fegurð og fjölbreytileika sem hrein forréttindi eru að fá að njóta si svona á saklausu þriðjudagskveldi í september...


Illasúla og Hattfell á dagskrá næstu helgi og það lítur vel út með veður... en Illasúla er mjög sjaldfarið en ægifagurt fjall... vonandi náum við þessu fjalli í safnið okkar... það verður söguleg ferð og sögulegur sigur með meiru...

131 views0 comments

Comments


bottom of page