top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Húsmúli og Sleggja með Hörpufossi og fleiri perlum í umsjón Jóhönnu Fríðu.

Updated: Jul 15, 2022

Æfing nr. 710 þriðjudaginn 28. júní 2022.


Jóhanna Fríða sá um þriðju þriðjudagsæfinguna af fimm í sumarfrísfjarveru þjálfara og bauð upp á nýja leið sem ekki hefur verið farin áður í klúbbnum við mikla lukku þar sem einstök náttúrufegurð skreytti leiðina...



Ferðasagan hennar hér:


"Gangan átti að hefjast kl. 17:30 eins og flestar göngur, en það vildi ekki betur til en svo að það var óvenju mikil umferð og umferðateppur úti um allan bæ, svo upphafstíma seinkaði um næstum 20 mínútur.


Á meðan beðið var á bílastæðinu byrjuðu nokkrir rigningadropar að koma, sem létu aðeins eins og vinir þeirra og ættingjar væru á leiðinni líka. Það varð til að flestir eða allir fóru í regnjakka, en einhver þráuðust við með að fara í buxur og freistuðu þess að ekkert yrði úr ættarmóti rigningardropanna.


Það brást svo sannarlega og varð þetta að auki frekar stórt ættarmót, droparnir fjöldropuðu og létu okkur finna fyrir því. Líklega hefur ættarmótið endað í slagsmálum, því eftir rúman hálftíma, kom úrhelli og svo snarhætti allt saman og það kom varla dropi niður eftir það. Hlýtt var í veðri og því þornuðu öll föt og búnaður hratt og vel.

Við byrjuðum á að ganga í Þjófagil og sáum ástæðu þess að þar hafi þjófarnir kosið að fela sig, allt mjög stórgrýtt og fallegt og auðvelt að felast, héldum þaðan upp í Þjófahelli.


Mynd: Í Þjófahelli, hann nýta kindur sér í dag sem skjól.


Næst var haldið upp á hæð þar sem vel sást vel yfir Húsmúla, Mógil, Draugatjörn og Engidal. Eftir sögustund var fólk orðið óþolinmótt að fá að sjá þennan fína nestisstað sem lofað hafði verið í viðburði, svo næst var haldið niður á við og tekin talsverð lækkun að Hörpufossi.

Hörpufoss er leynd perla sem ekki margir virðast vita um. Fararstjóri hafði rekist á hann 17. júní og í framhaldi reynt að finna nafnið á honum. Vinnuheitið varð Skrautfoss, því skútinn er svo fallega skreyttur með mosa, blómum og burknum í þakinu, einnig eru vatnsbunur til hliðar við fossinn og fallegur lækur sem hlykkjast frá honum, algjör paradís.

Eftir mikla leit á vefnum, í bókum og á kortum, fannst ein grein í Lesbók Morgunblaðsins 20. október 1979, eftir Önnu Maríu Þórisdóttur þar sem fyrirsögnin er „Hörpufoss og Marardalur“. Anna María segir m.a. „Eftir um hálftíma gang komum við að litla fossinum…“, „Þetta er þó einungis mjó buna, sem fellur niður í fremur litlum helli vöxnum mosa og burkna. En það allra skemmtilegasta eru mjóu vatnsbunurnar, sem falla niður gegnum þveran hellinn eftir mjórri sprungu, sem gengur yfir hann og minna á hörpustrengi. Auðvitað skírði ég hann strax „Hörpufoss“,…“


Eftir að lesa þessa lýsingu, þá bara verður fossinn að fá að heita Hörpufoss 😊

Mynd: Gæðastund við Hörpufoss.



Mynd: Hörpustrengirnir.


Eftir dágott nestisstopps og spjalltíma var haldið áleiðis og stefnt á Geimverulendingarpall, sem við stoppuðum aðeins við áður en haldið var aftur á brattann upp á Sleggju. Þegar upp var komið tók enn ein paradísin við, þar sem við fórum inn á milli móbergskletta og nutum útsýnis.


Mynd: Brattinn upp Móbergið, Geimverulendingarpallurinn, Húsmúli og Draugatjörn.


Loks var haldið á topp Sleggju, svo niður á hefðbundinn stíg sem liggur um Sleggjubeinsskarð og upp á Vörðuskeggja. Honum fylgdum við niður í bílana í dásemdar kvöldsumarblíðu.


Flottur og skemmtilegur hópur í ljúfri kvöldgöngu.


Tölfræðin:

Upphafstími: 17:48

Lokatími: 20:52

Samtals tími: 03:04:31

Upphafshæð: 320 metrar

Hækkun: 544 metrar

Göngulengd: 7,18 km

Mesta hæð: 633 metrar

Hiti um 12°C og vindur NA 2-4 m/s".

Ljósmyndir og ferðasaga frá Jóhönnu Fríðu. T

Takk innilega fyrir þessa flottu umsjón elsku Jóhanna Fríða :-)

236 views0 comments

Comments


bottom of page