top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Ingastígur niður á tangann og áfram undir hömrunum upp þröngt gil baksviðs að Háahnúk í Akrafjalli.

Æfing nr. 715 þriðjudaginn 2. ágúst 2022.


Þarna uppi klöngruðumst við í þoku og rigningu í lok maí á þessu ári... og hétum okkur því að ná þessari leið síðar í sumar í góðu skyggni... og þegar færa þurfti Folaldadalahringleiðinni frá Vigdísarvöllum á Reykjanesi vegna stöðugra jarðskjálfta... sáu þjálfarar gott færi á þessari leið... þar sem spáð var stífri norðanátt en sól og veðjuðu á að við myndum ná að vera í skjóli á þessari leið og því í góðum málum... og það langt frá Reykjanesinu að grjóthrun ætti ekki að hindra för...


Leiðin okkar þetta kvöld sést hér efst undir hömrunum í grasinu... þarna fetuðum við okkur utan í hömrunum í ágætis taki í grasinu... en þó nokkrum bratta... og því krefjandi en vel fært í rólegheitunum þar sem stigið var varlega til jarðar og mikilvægast að halda yfirvegun og gefa hvort öðru styrk og öryggi...


Ingi aftur mættur í þriðjudagsgöngu á þessu ári... yndislegt alveg... hans er sárt saknað sem og Heiðrúnar... og annarra elskulegra Skagamanna sem við höfum verið svo lánsöm að hafa innan okkar raða í gegnum árin... og því var sérlega gaman að fá hann aftur með okkur... enda heitir leiðin eftir honum... en hann og Guðjón Pétur Skagamaður sýndu okkur þessa leið sumarið 2008 og svo síðar aðra eins hliðarhallaleið á leið á Geirmundartind í norðurbrúnum... og því nefndum við syðri stíginn Ingastíg og þann nyrðri Guðjónsstíg... þessum tveimur yndismönnum til heiðurs...


Þrettán manns mættir... alltaf rólegt beint eftir verslunarmannahelgi og frábært að fá þó þetta góða mætingu... mjög gefandi samvera... alls kyns umræður... sögur og fróðleikur... maður gæti gengið endalaust með þessu fólki og farið alltaf ríkari heim... eftir hvert einasta kvöld...


Að þessu sinni gengum við Skellibrekkurnar upp og inn Berjadalinn... yfir brúna og upp að syðri brúnum Akrafjalls þar sem Háihnúkur ræður ríkjum... en norðan megin trónaði Guðfinnuþúfa yfir sínu svæði eins og útvörður Geirmundartinds...


Nýleg brú frá Rótarýklúbb heimamanna... myndarleg og vel þegin...


Brekkurnar upp úr dalnum eru þéttar en lungamjúkar og við gleymdum okkur bara á spjallinu um heima og geima...


Alls kyns ferðir framundan eða að baki í sumar... erlendis eða hérlendis... en ansi margar litaðar af veðrinu þetta sumarið... en þeim mun meira gefandi að hafa náð góðum göngudögum og mögnuðum upplifunum mitt í norðangarranum eða sunnanrigningunum...


Uppi á brúnunum blasti höfuðborgin við í fjarska... sjórinn og sveitin nær...


Alltaf jafn áhrifamiklar fjallsbrúnir...


Við þræddum okkur lengra upp hér eftir brúnunum áður en við héldum niður á kindagöturnar undir hömrunum...


Fallegt veður en norðangarri þarna uppi... sem við áttum eftir að losna algerlega við niðri á Ingastíg...


Við gengum upp að Þingmanninum...


Þegar sólin braust í gegnum skýin varð allt svo bjart og hlýtt... þessi gula er svo kyngimögnuð !


Jæja... hér hófst ævintýrið... niður brúnirnar á tæpan stíg undir hömrunum sem við nefndum Ingastíg...


Fyrst þegar maður fer hér... þá hugsar maður hvernig í ósköpunum nokkrum manni datt í hug að fara hér... en heldur áfram af því hinir gera það...


Alveg kyngimögnuð leið... og fínasta æfing í brölti og klöngri...


Farið fyrir horn á einum stað... og svo síðar ef menn héldu áfram eftir tangann...


Ótrúlega falleg leið... og mun grasgrænni síðsumars en snemmsumars... græni liturinn var svo fagur...


Sólin kallaði enn frekar fram töfrana...


Við stefndum á tangann hér hægra megin... Ingatangi kallast hann...


Djúpir litir... sterk upplifun... alvöru þriðjudagsævintýri...


Fyrstu menn farnir að þræða sig fram á tangann...


Við værum þægilega mörg... nóg pláss og ekki of margir...


Hægt að fara ofarlega og svo niður eða þræða sig í hliðarhalla... báðar leiðir fínar en stíga þarf varlega til jarðar og ná fótfestu áður en næsta skref er stigið... ekkert mál fyrir ólofthrædda en reynir ágætlega á ef menn glíma við smávegis lofthræðslu...


Litið til baka þaðan sem við komum...


Þórkatla og Oddný að þræða sig í hliðarhallanum niður að tanganum...


Kyngimagnaður staður !


Hvílíkt útsýni... hvílík fegurð... alltaf jafn áhrifamikið að koma hingað... með smá skjálfta í fótunum... en öll skilingarvit og sálin í sæluvímu...


Sýnin lengra inn eftir... þar sem flestir áttu eftir að fara áfram með Inga og Erni...


Leiðin beint niður í góðu grasi og grýti sem leyndist undir...


Hópmynd kvöldsins... Bára, Bjarni, Guðmundur Jón, Ingi, Jaana, Kolbeinn, Maggi, Oddný T., Sigurbjörg, Sjöfn Kr., Þorleifur, Þórkatla og Örn voru mætt á þessa æfingu og Batman fékk dásamlega félagsskap frá Kolku hennar Oddnýjar... þau eru bestu vinir og nutu kvöldsins svo sannarlega með okkur... og fór þetta allt svellköld og vön...


Hér hefði ég átt að taka aðra hópmynd nær... vorum að vona að sólin kæmi aftur... en svo var svo notalegt í nestisstundinni að þjálfari tímdi ekki að rjúka öllum á fætur fyrir hópmynd...


Sýnin til Akraneskaupstaðar...


Nesti á tanganum er fastur liður... nema það sé slæmt veður og ekki hægt að setjast niður fyrir rigningu eða roki... það var hvorugt þetta kvöld... svo við nutum þess að setjast niður og njóta útsýnisins og stundarinnar...


... sem auðgaðist aldeilis með sögustund með Inga en þær eru óborganlegar... þjálfarar hafa oft hvatt Inga til að koma öllum þessum sögum til bókar... hún væri mikill fengur fyrir okkur öll að rifja upp og lesa...


Ingi stakk upp á því að lengja ævintýrið í hinn endann og halda áfram undir hömrunum til austurs... og fara upp þröngt gil þar sem komið er austan megin að Háahnúk... flestir lögðu í þessa óvissuferð... Ingi var ekki viss hvort þetta væri erfiðara en það sem var að baki... svo við vorum fimm af 13 sem snerum við sömu leið en átta manns létu sig hafa það hér út eftir...


Áfram því heilmikið klöngur og brölt... sem mörgum finnst það skemmtilegasta í heimi... og þjálfurum líka... sem vilja helst ekki sjá göngustíga né troðnar leiðir þar sem ekkert þarf að hugsa hvar maður stígur niður né spá í leiðarval...


Sjá leiðina inn eftir hér... þar sem þrætt var svo fyrir tangann fjærst... þetta leit vel út og þræðingin handan við horn tangans reyndist léttara en áhorfðist að sögn þeirra sem fóru...


Þetta var svipuð leið og það sem var að baki að þeirra sögn... nema þrönga gilið upp... þar var smávegis klöngur sem við hin fimm horfðum á þau kljást við þegar upp var komið...


Mjög flott viðbót og meiriháttar hjá Inga að stinga upp á þessu !


Sjá kindurnar tvær sem þvældust þarna en að sögn Bjarna sem fór hér eitt sinn með Inga þá hvæstu þær á mennina sem dirfðust að fara svona inn á þeirra fjallshlið... en í þetta skiptið sneru þær undan hópnum... líklega af því tveir hundar voru með í för...


Leiðin til baka hjá þeim sem sneru við...


Ævintýralegt með meiru...


Bröltum sem mest... og klöngrumst sem oftast... nákvæmlega þannig viðhöldum við hæfninni til þess að fara ótroðnar slóðir og krefjandi stigur... sama hvað aldurinn segir... og náum þá vonandi einhver okkar að feta í fórspor höfðingja klúbbsins sem mörg hver eru enn að fara svona krefjandi leiðir á áttræðisaldri... eins og Guðmundur Jón sem var einn af áttmenningunum sem fóru áfram inn eftir hömrunum...


Þingmaðurinn... hann gaf okkur skjól og dásamlega útiveru í sól og blíðu... því uppi á brúnunum beið okkur rok og kuldi...


Ansi napurt en við vorum enga stund upp á Háahnúk frá Þingmanninum og gengum

lengra til austurs í leit að gilinu þar sem áttmenningarnir komu upp um...


Það sást glitta í þau á uppleið þegar við komum að...


Smalahundurinn Batman var fyrstur upp... farinn að eldast en getur þetta ennþá...


Afstaðan... hann tók ekki augljósustu leiðina beint upp heldur hliðarhallann og virtist með því forðast grjóthrun á hópinn fyrir neðan... erfitt að segja... allavega sendi hann ekki grjót niður sem var auðvelt að gera ef haldið var áfram upp rásina...


Örn að koma upp og Maggi og Sjöfn á eftir...


Kolbeinn og Oddný...


Þorleifur, Guðmundur Jón og Ingi rak hjörðina sína svo á endanum...


Allir í skýjunum með ótrúlega flotta leið á Akrafjalli og sannarlega ólíka þeim sem við förum vanalega um vel troðna stígana hér á Háahnúki...


Hávaðarok og ískluldi... þetta sumar 2022 lætur ekki að sér hæða...


Niður héldum við að þingmanninum og áfram áður en beygt var af niður í Tæpigötu í Berjadal...


og áfram áður en beygt var af niður í Tæpigötu í Berjadal...


Tæpigata er mjög falleg leið á stíg sunnan í Berjadal... og vel fær öllum að sumri en aðeins varasamari að vetri til eins og þjálfarar fengu að kynnast árið 2007 í könnunarleiðangri um Akrafjallið...


Þessr tæpigötur virkuðu frekar saklausar eftir prílið undir hömrum Háahnúks... sem sagði allt um hollustu þess klöngurs...


Sólarlagið í vestri skreytti svo lokin á göngunni líka...


Þetta var alvöru þriðjudagur... mikið brölt og mikil fegurð...


Heilunin á sál og líkama á svona þriðjudagskveldi er ólýsanleg... og ómetanleg...


Síðasti kaflinn út Berjadalinn...


Tvær rútur og nokkrir stórir bílar voru á efra bílastæðinu þegar við mættum í gönguna og það var óvenjulegt... en skýringin kom þegar hingað var komið sögu... tökulið í líklega tískuljósmyndun... birtan einstök og landslagið sömuleiðis...


Guðfinnuþúfa... enn ein skrautfjöðurin á Akrafjalli sem gerir það að einu af nokkrum uppáhaldsfjöllum þjálfara... það á sér svo margar ólíkar hliðar...


Sólin kvaddi okkur á lokametrunum og minnti okkur á að vera þakklát... og auðmjúk... og gera okkur grein fyrir láninu sem leikur um okkur... svona kvöld er langt í frá sjálfgefið... eitt stórt ævintýri og mikil upplifun... sem engan veginn var hægt að sjá fyrir... þegar keyrt var í hávaðaroki og miklum kulda eftir Vesturlandsvegi út úr borginni... og mann hálf hryllti við að vera að fara í fjallgöngu í þessu veðri...


Alls 6,9 km á 2:55 klst. upp í 570 m hæð með alls 622 m hækkun úr 52 m upphafshæð...


Ómetanlegt ævintýrakvöld... það hefði verið mjög auðvelt að finna hindranir gegn því að fara í þessa fjallgöngu þetta kvöld... jarðhræringar á Reykjanesi... norðangarri og kuldi... tæpistigur og óvissa um hluta leiðarinnar...


... höldum okkar striki og höldum áfram að upplifa svona stórkostlegheit... hugsum í lausnum en ekki hindrunum... verum alltaf vongóð og nýtum kraft jákvæðninnar... en verum þakklát númer eitt... þar liggur svo mikill kraftur... stöldrum við og áttum okkur á töfrunum á hverju einasta þriðjudagskveldi... berum virðingu fyrir því sem fáum í fangið si svona og höfum í höndunum í hverri viku...


Takk öll elskurnar fyrir að hlúa alltaf að næsta manni... auðsýna hlýju og vináttu til allra.. fyrir að hafa vit á því að fagna fjölbreytileikanum í hópnum okkar... fyrir að hafa vit á því að njóta þess að hitta alls konar fólk sem er kennir okkur eitthvað öðruvísi og annað en við þekkjum... takk öll elskurnar fyrir að styrkja meðvitað hópinn okkar sem heild... þannig verðum við öflugusts sem einn góður og sterkur hópur og upplifum meiri og fleiri ævintýri en ella... Hjartansþakkir elsku Ingi og Guðjón Pétur fyrir að sýna okkur þessar mögnuðu tæpistigur í Akrafjalli að sunnan eins og við gengum þetta kvöld og að norðan eins og við ætlum að rifja upp 2024... og takk innilega fyrir að bæta þessari aukaleið við þetta kvöld elsku Ingi... bara magnað !


20 views0 comments

Коментарі


bottom of page