Þriðjudagsæfing 17. ágúst 2021
Yndiskvöld var það sannarlega þegar við rifjuðum upp bröttu leiðina á Ingólfsfjallið frá Alviðru við Sogið í Grímsnesinu þriðjudaginn 17. ágúst í hlýju sumarveðri...
Leiðin hér framundan upp grýttu rennuna fyrir miðri mynd... kominn góður stígur þarna upp og smá keðjur á kafla efst sem þarf ekki endilega að styðjast við og nýtast frekar á niðurleið en uppleið...
Dásamlegt veður, hlýtt, lygnt og þurrt og gott skyggni... mun betra veður en í bænum þar sem rigndi og blés...
Uppleiðin gekk mjög vel og var eins og lýsingin frá fyrri ferð okkar árið 2012... ótrúlegt alveg að það séu komin níu ár síðan við gengum hér upp síðast... það var nánast í gær finnst manni !
Efsti hlutinn sem er brattastur... ekkert mál fyrir þá sem eru alltaf að klöngrast og brölta í fjöllum...
Uppi tók heiðin við á slóða sem var stikaður alla leið á hæsta tindinn...
Inghóll heitir hann og er hér... flottur tindur á miðri heiði og mætti oftar vera þegar verið er að eltast við hæsta tind á svona heiðum... ha, ha, nei, ég segi svona :-)
Inghóll mældist 560 m hár og gaf möguleika á að setjast þeim megin í hólnum sem var skjólsælt því það var gola þarna uppi...
Frábært útsýni og meira skyggni en við áttum von á þar sem þungbúið var í bænum og á leiðinni yfir Hellisheiðina...
Við sátum lengi hér og borðuðum og spjölluðum og nutum þess að vera uppi með Suðurlandið allt í fanginu...
Alls mættir 24 manns... þjálfari hefði átt að útfæra hópmyndina betur en stundum er gaman að hafa þær bara uppi á tindinum...
Guðmundur Jón, Katrín Kj., Árni sem kom aftur í klúbbinn í ágúst eftir langt hlé, Vilhjálmur, Jóhanna D., Silla, Oddný T., Magga Páls., Jaana, Björgólfur, Gerður Jens, Sigrún Bjarna, Þórkatla, Örn, Maggi, Ása, Kolbeinn, Þorleifur, Gréta, Elísa, Lilja Sesselja, Gylfi og Jóhanna Fríða en Bára tók mynd og Batman og Myrra rétt sluppu inn á myndina en þau gáfu okkur mikla gleði þetta kvöld eins og vanalega :-)
Farið var niður sömu leið til baka... fjallið er útslóðað þvers og kruss en mun lengri leið hingað upp er um námurnar þar sem við fórum árið 2016 en þá er gengið meðfram girðingunni alla leið norður á Inghól... hér heldur girðingin áfram enn norðar... og svo virðast menn fara hringleið uppi og til baka... næst skulum við prófa að ganga á þetta fjall norðan megin en mest langar okkur að fara norðvestan megin upp og höfum mænt á þá uppleið í mörg ár... gerum það næst !
Litið til baka...
Mikið spjallað... yndislegt að hitta fólk úr öllum áttum... öllum atvinnugreinum með alls kyns ólíka sýn á lífið... maður kemur alltaf ríkari heim eftir svona samveru...
Niðurleiðin gekk vel en hver fór á sínum hraða og voru margir mjög snöggir niður á meðan aðrir tóku sér sinn tíma í rólegheitunum... neðar afvegaleiddust menn hvort eð er í berjamó svo það kom ekki að sök þó vel teygðist úr hópnum þennan síðasta kafla...
Magnað útsýnið ofan af brúnunum...
Mjög skemmtileg leið og mun betri en leiðin upp námurnar að sunnan...
Alviðra og bílarnir okkar þarna niðri... berjamó á milli þar sem margir dóluðu sér langt fram eftir kveldi...
Litið til baka upp eftir brekkunni...
Berjamó... þessi árstími er uppáhald margra og það er svo skiljanlegt... litirnir... gnægðin í gróðrinum... grænkan... fyllingin í öllu í náttúrunni... hver árstími hefur sinn sjarma og það er dýrmætt að njóta þeirra allra eins mest og við getum...
Alls 5,0 km á 2:35 - 2:58 klst. upp í 560 m hæð með 507 m hækkun úr 56 m upphafshæð...
Þegar þjálfarar loksins keyrðu heim frá Alviðru um 45 mínútum frá því fyrstu menn komu niður... voru ennþá nokkrir að týna ber... lífið er yndislegt á svona síðsumarskvöldum... rigningin og vindurinn buldu á bílnum á Hellisheiðinni og það var blautt í bænum... oftar en ekki gerist einmitt þetta... veðrið er mun betra en maður á von á...
Comments