top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Ketilstindur, Bleiktindur og Kleifartindur kringum Arnarvatn á 16 ára afmæli fjallgönguklúbbsins.

Æfing nr. 755 þriðjudaginn 16. maí 2023.


Það viðraði sérlega illa þriðjudaginn sem við fórum í sérstaka afmælisgöngu klúbbsins og þjálfarar voru mjög tvístígandi með hvort þeir ættu að fresta afmælisfagnaðinum um eina viku eður ei en langtímaspáin var lítið skárri... spáð áfram roki og rigningu tíu daga fram í tímann... og ákváðu því á síðustu stundu að halda áætlun en draga úr hátíðarhöldum og bjóða bara upp á kleinuhringi með smá drykk þar sem ekki var von til þess að við gætum yfirleitt sest niður til að borða nesti og við vissum sem var að enginn myndi nenna að standa kaldur og rennblautur við bílinn að borða köku...

Því miður rættist veðurspáin og var í raun verri en við áttum von á... þoka niður á láglendi og mjög lítið skyggni... en mætingin var langtum framar vonum... 19 manns... sem var ótrúlega fallegt og þjálfurum þótti mjög vænt um það...


Einstakt landslag einkennir allan Sveifluhálsinn... og ekki síður miðhlutann sem færri ganga um en þar rís hver svipmikli tindurinn á fætur öðrum nafnlaus með öllu en við nefndum þá alla í fyrri göngum árið 2013 og 2014 í kyngömögnuðum ferðum...




Landslag Sveifluhálssins breytist stöðugt og þegar ekkert er skyggnið þá er vandasamt að hafa yfirsýn og sjá hvar er best að fara en Örn dró okkur engu að síður upp á þrjá glæsilega tinda sem var mikið ævintýri... og verður spennandi að sjá þetta landslag í skyggni á næsta ári... því við ákváðum að þessa leið yrðum við að endurtaka í góðu veðri á þriðjudegi...


Heilmikið klöngur og brölt einkennir Sveifluhálsinn... varla dauður punktur á þessari leið og því var nóg að gera allt kvöldið við að fóta sig upp og niður...


Frábær frammistaða allra því þetta er létt í góðu veðri en mun meira mál í svona þungbúnu veðri þar sem lítið sést hvað er framundan...


Síðasti tindur dagsins var erfiðastur... Kleifartindur... sjá brekkuna upp hér en árið 2014 fórum við upp vinstra megin...


Magnaður þessi hópur... bara áfram gakk og ekkert væl... takk eljusömu og áræðnu klúbbfélagar... fyrir að láta ykkur hafa alls kyns könnunarleiðangra um ótroðnar slóðir og tilraunakenndar leiðir öll þessi 16 ár saman á fjöllum #Þriðjudagsþakklæti


En þjálfarar fundu enga góða leið niður af Kleifartindi sunnan megin og því þurftum við að fara niður sömu leið og þá sótti ugg að sumum en það var óþarfi því við vorum enga stund hér niður... sem er oftast reyndin... kvíðinn fyrir niðurleiðinni er nánast alltaf óþarfi og gengur mun betur en menn eiga von á eftir klöngrið upp...


Þjálfarar létu þessa þrjá tinda nægja... Ketilstind, Bleiktind og Kleifartind enda heilmikið brölt að baki og kominn tími til að skoða þetta Arnarvatn...



Töfrar þess birtust okkur ekki því miður í þessari þykku þoku sem grúfði yfir öllu... en við skynjuðum að hingað þurfum við að koma aftur...


Fjórir hundar voru með okkur þetta kvöld... Myrra, Kolka, Batman og Slynkur sem vantar hér á mynd en hann var ekki sami ærslabelgurinn og þessir þrír...

Við suðurenda Arnarvatns var engin rigning og enginn vindur... og við ákváðum að taka smá nestispásu þar sem þjálfarar voru með eina freyðivínsflösku og þrjá flöskur af ávaxtadrykkjum en freyðivínið fór strax... og þjálfarar voru svo miður sín að þeir ákváðu að halda aftur upp á afmælið viku síðar á þriðjudegi... með kökunni góðu sem var alltaf ætlunin að hafa með drykkjunum... þangað til veðurspáin tók það af okkur en spáð var enn verra veðri en þetta kvöld... yfir 20 m/sek og grenjandi rigningu... svo kakan og freyðivínið bíður eftir góðri tindferð í sumar...


Þema þessarar afmælisgsöngu var prjónles... peysur, húfur, vettlingar og pils... og það var sko mætt í þeim búnaði... óskaplega fallegt prjónles úr öllum áttum og mjög gaman að taka mynd af hópnum í þessum fallegu peysum...


Vettlingarnir okkar...


Nær hér...


Húfurnar okkar...


Þjálfari reyndi að mynda þær en tókst ekki nægilega vel... við þurfum að finna bestu leiðina til að mynda svona húfur...


Eftir kalda og blauta nestispásu þar sem flestir voru orðnir bláir og skjálfandi af kulda var haldið áfram hringinn kringum Arnarvatnið...


Og Örn tók svo svipaða leið til baka eftir fjallshryggnum en sleppti tindunum sjálfum og gekk þetta mun betur en við áttum von á... það var gott að ganga sér til hita...


Hundurinn Slynkur fékk að fara í bakpokann hjá Sigurbjörgu síðasta kaflann þar sem hann var orðinn lúinn enda krefjandi ganga í erfiðu landslagi og veðri... þetta var ekkert slor þessi æfing...


Síðasta brekkan yfir hálsinn... veðrið skánaði ekki... eiginlega versnaði með meiri rigningu og aftur vindi eftir lognið við vatnið...


Sjöfn fann þetta forláta gamla senditæki... eins og innpökkuð talstöð... merkilegt...


Litið til baka upp brekkuna af hálsinum sjálfum...


Ekkert skyggni fyrr en alveg neðst við veginn... sjá bílana vinstra megin... ótrúlega leiðinlegt veður fyrir afmælisveislu... en frábær æfing fyrir fjallgöngufólk sem vill alvöru ævintýri og áskorun...


Alls 7,5 km á 3:28 klst. upp í 266 m hæð með alls 504 m hækkun úr 158 m upphafshæð...


Þegar þetta er skrifað er veðurspáin næsta þriðjudag mjög slæm... og það er spáð rigningu áfram 10 daga fram í tímann... þriðja helgin í röð sem ekki viðrar á Öræfajökul sem dæmi... mjög sérstakur maí-mánuður... sumarið í raun ekki ennþá komið... haglél í Reykjavík og ófærð fyrir norðan... jáhérna hér... sumarið hlýtur að verða gott... en áfram höldum við og gefumst ekki upp... það eru forréttindi að búa í þessu landi og geta farið í svona flottar fjallgöngur í hverri viku... verum þakklát...

30 views0 comments

Comments


bottom of page