top of page

Kinnarhyrna, Axlarhyrna og Tunguhyrna Snæfellsnesi í töfrandi birtu og fjallasýn

Tindferð nr. 293 laugardaginn 6. janúar 2024.



Fyrsta tindferð ársins 2024 var nýja leið á óþekkta fjallstinda við rætur Snæfellsjökuls sem heita Kinnarhyrna, Axlarhyrna og Tunguhyrna... Axlarhyrna þó vel þekkt reyndar enda nafnið kennt við bæinn Öxl og Axlarbjörn eða Bárð Snæfellsá sem er þekktasta sögupersónu Snæfellsness... Bárður Snæfellsás - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið



En hinar tvær hyrnurnar eru óþekktar svo þetta var mjög spennandi ferð sem þjálfarar voru búnir að hafa á verkefnalistanum í nokkur ár... hér að koma að þeim keyrandi í myrkrinu með Snæfellsjökul vinstra megin og Ánahyrnu, Lýsuhyrnu og Þorgeirsfell/hyrnu á hægri hönd...


Ánahyrna og Lýsuhyrna og Þorgeirsfell með sína Þorgeirshyrnu... við eigum ennþá eftir að ganga á Ánahyrnu en hún er mjög btrött og líklega betri að sumarlagi... en á hin höfum við farið að vetri til og að sumri einnig á Þorgeirinn...



Ánahyrna svo glæsileg... jú, er ekki fært þarna upp vestan megin ?




Tröllafjölskyldan efst hægra megin og vinstra megin eru Arnarhyrna og Böðvarholtshyrna... sem eru á dagskrá 12. október á þessu ári... þessar hyrnur á Snæfellsnesi eru dáleiðandi... við hættum ekki fyrr en þær eru allar komnar í safnið...



Kinnarhyrna og Axlarhyrna framundan hér...


Gígur mjög formfagur gnæfði yfir okkur þegar við ókum umm Fróðarheiðina í leið að afleggjara til að leggja bílunum... og hann komst strax á verkefnalista framtíðarinnar... heitir því miður bara Mælifell... á betra nafn skilið... en innar eru fjöll sem heita meðal annars Korri... svo þessi leið er komin á listann árið 2025...


Fljúgandi hálka var þennan dag eins og einkenndi svo janúarmánuðinn allan... en við fengum þetta fína stæði til að leggja bílunum og vorum dauðfegin að þetta var ekki ófær gamall vegaslóði...


Sýnin frá Fróðarheiðinni að fjöllunum til austurs...


Lagt af stað kl. 10:46 eftir rúmlega 2ja tíma akstur kl. 8 úr bænum... hálkan og myrkrið töfðu för en það var þess virði að keyra varlega enda hafa verið skelfilega mörg banaslýs í janúar...


Litið til baka að Mælifelli.. gígur sem gnæfir yfir heiðarveginum...


Það var alveg logn og frekar hlýtt svo þjálfari ráðlagði mönnum að vere akki bæði í ullarpeysu og jakka... enda fóru þeir fljótlega úr sem þess þurftu í fyrstu brekkunum á leið upp á Kinnarhyrnu...


Það var spáð skýjuðu þennan dag en logni og frekar hlýju veðri svo við vonuðum það besta og vissum að þessi spá gæti þýtt lágskýjað veður og enga fjallasýn... en við vorum með eindæmum heppin og fengum háskýjað veður og dásamlegt útsýni allan daginn...


Komin ofar og hér tók Tröllafjölskyldan og fjöllin við Helgrindur að birtast okkur smám saman... Stakksfell hér mest áberandi... sést í Tröllbarnið og svo Kambur hinn hrikalegi lengst til hægri... túrkíslár foss fremst á mynd... fjallasýnin var stórkostleg en fangaðist ekki vel á myndum í þessari birtu...


Kinnarhyrna var fyrst... létt og stutt upp á hana...


Hún mældist 294 m hár og gaf mikið útsýni til austurs...


Við nutum þess að vera í svona friðsælu veðri og alveg ein í heiminum... fyrir utan erlanda ferðamenn sem stoppuðu bílana og skoðuðu fjöllin sem við gengum á frá þjóðveginum...


Af Kinnarhyrnu röktum við okkur upp á Axlarhyrnu...


Fyrst upp á öxlina á Axlarhyrnunni sem var eins og aukasylla á leiðinni...


H'er var mikið Hrafnaþing...


fangaðist illa á mynd en þeir voru þarna í stórum hópi og krunkuðu mikið á okkur og hundarnir ærðust af spennu yfir þessu og vildu ólmir spjalla við þessa ógnvænlegu fugla...


Fínasta færi og allir með jöklabrodda og ísexi en keðjubroddarnir dugðu vel í þessu sorfna snjófæri...


Brekkurnar voru margar í þessari ferð en allar léttar yfirferðar...


Litið til baka... Mælifell og Stakksfell og Tröllbarn og Kambur... og Böðvarholtshyrna líklega...


Öxlin á Axlarhyrnu...


Komin upp öxlina og við enduðum á að finnast þetta vera slík og að fyrri tindur dagsins væri Tunguhyrna... þessi stallur væri sem sé ekki Kinnarhyrna enda passaði það við nöfnin og útlitið...


Magnað útsýni...


Axlarhyrna var tindur tvö af þrjú...


Fínasta leið hérna megin á hana en brattara er það vestan megin...


Uppi á Axlarhyrnu blasti Snæfellsjökullinn við svo fagur...

og svipmikil fjallsstríta hægra megin þarna eins og þríhyrningur... eins og hyrna... og við héldum lengi vel að þetta væri Tunguhyrna eða síðasti tindur dagsins... ansi langt í hana... en þetta reyndist svo vera fjallið Hestur... og hann verður genginn eftir ár í janúar... ásamt Knarrarfjalli... það verður veisla...


Hundurinn Hetja er svo glöð og þakklát og vinaleg að það er með ólíkindum... hún vildi auðvitað spjalla við hrafnana og virtist stundum fara fram af klettunum í æsingnum... dásamlegur hundur...


Horft yfir Fróðarheiðina ofan af Axlarhyrnu... stutt í sjóinn norðan megin...


Komin talsvert upp... enda í 436 m hæð... magnaður fjallstindur...


Við héldum okkur við brúnirnar og röktum okkur eftir þeim öllum hér... og Tunguhyrna er svo þarna lengst í lokin... en ekki samt þessi áberandi hyrna efst... það er Hestur...


Þarna niðri var hrúga af bílum og fólki að skoða hyrnurnar neðan frá enda glæsileg fjallasýn...


Frábær hópur mættur í þessa fyrstu tindferð ársins:


Aníta, Bára, Birgir, Inga, Ingunn, Jaana, Karen, Linda, Sighvatur, Siggi, Sjöfn Kr., Þórkatla og Örn og Batman og Hetja voru hundar dagsins...


Brúnirnar á Axlarhyrnu leyndu verulega á sér...


Mjög flott landslag...


Keðjubroddarnir það besta sem var hægt að notast við á þessum kafla...


Geggjuð leið !


Það væri mjög gaman að koma hingað að sumri til því þessi fjöll skipta litum og luma á líparíti...


Brekkan niður af Axlarhyrnu hinum megin var smá áhyggjuefni... hún er brött alveg við brúnirnar en meira aflíðandi til norðurs og Örn fór þar... ekta brekka þar sem hægt er að renna af stað og fara langt og meiða sig á grjóti þó ekki slasist maður alvarlega...


... en færið var í fínasta lagi og brekkan ekki svo brött... við vorum fegin þegar við sáum niður hana alla og að hún væri vel fær... vorum ekki að nenna að setja á okkur jöklabroddana... sjá heiðarveginn yfir Fróðarheiði... nú vitum við nákvæmlega hvað er verið að tala um þegar færið á Fróðarheiði ber á góma...


Mælifell og Stakksfell og Tröllafjölskyldan og Kambur...


Ánahyrna, Lýsuhyrna og Þorgeirsfell...


Komin niður af Axlarhyrnu og hér var nestispása í kaldri gjólu... það var farið að blása aðeins og hlýja lognið sem gafst í byrjun göngunnar var farið... en við kvörtuðum ekki því það þýddi að það var háskýjað áfram en ekki lágskýjað...


Gott að borða og spjalla aðeins... Kilimanjaro eftir nokkur ár... 2028 ?


Síðasti tindur dagsins var svolítið lengra í burtu en hinar tvær... Axlarhyrna hér að baki...


Jökullinn opnaði sig og sýndi okkur tindana sína...


Magnað ! Það vantaði samt sólina sem svo oft skín á hann... en við kvörtuðum ekki... það hefði svo hæglega getað verið skýjað á honum þennan dag...


Jebb... þetta var ekki síðasti tindur dagsins... þetta var fjallið Hestur... enda hestlegur... en framan við hann var Tunguhyrna... kinn - öxl - tunga - þetta voru líkamspartafjallstindarnir eins og gárungar nefndu í göngunni...


Stapafell svo fallegt þarna við Arnarstapa... fjallið sem skreytir gönguna á Snæfellsjökul mest allra...


Það var mastur uppi á brúnunum milli Axlarhyrnu og Tunguhyrnu...



Það skemmdi aðeins upplifunina... allt manngert... en við getum ekkki kvartað... þetta er okkar tegund...


Axlarhyrna að vera glæsileg að sjá í baksýn...


Mögnuð leið !


Brekkan upp að mastrinu...


Niður aftur að Tunguhyrnu...


Snæfellsjökull og Hestur stálu ítrekað senunni þennan dag...


Brúnirnar hrikalegar og geymdu gersemar eins og þennan dólgslega klett...


Það var eitthvað tært og friðsælt við þennan dag sem nærði okkur mikið í byrjun ársins...


Hér tók við smá lækkun yfir á Tunguhyrnu....


Er þetta Tunguhyrna eða ekki ? Það var spurningin sem við öll veltum fyrir okkur og gps-tækin sögðu ekki en vegalengdin sagði að þaðn gæti verið... við biðum spennt og vorum ánægð að fá að upplifa þetta svona vel sem könnunarleiðangur...


Lang skemmtilegast að fara sína eigin könnunarleiðangra... ekki elta það sem aðrir hafa farið... og komast að þessu á eigin skinni... láta landslagið segja sér þetta...



Litið til baka...


Tunguhyrna framundan...


Mjög skemmtileg leið...


Hér breyttist birtan og það létti til...


Fór að s


Fór að sjást vel til Helgrinda og félaga í norðri...


Og vel út á sjó sem var svo friðsæll...


Áfram ekkert jöklabroddafæri...


Tunguhyrna hér...


Við gengum út á brúnina á henni sem gaf mikið útsýni...


... og svo upp á hærri klett á henni...


Mergjuð leið hér upp...


Saklaust klöngur í snjónum og grjótinu...


Komin á Tunguhyrnu í einstakri birtu sem varla var af þessum heimi... í 471 m hæð... þriðji og síðasti tindur dagsins og hæstur þeirra allra... líklega ekki margir komið hér upp...


Og hér var orðið alveg augljóst að þessi fallega hyrna sem blasti við okkur allan daginn og okkur var farið að gruna að væri frekar Hestur en Tunguhyrna... væri jú fjallið Hestur... og það réttnefni... smávegis söðull þarna... en hyrnulegur er hann engu að síður...


Stapafellið séð frá Tunguhyrnu...


Hópmynd dagsins...


Þórkatla, Örn, Ingunn, Jaana, Birgir, Inga, Karen, Aníta, Linda, Sjöfn Kr., Siggi og Sighvatur og Bára tók mynd og Hetja eltir hér Batman út af mynd... dásamlegir göngufélagar og mikil gleði í þessari ferð...


Tunguhyrna fékk tunguna út á tindinum... hvað annað ? Kvenþjálfarinn fattaði þetta loksins á endanum :-)


Við hétum okkur því að eftir ár myndum við ganga á Hest... það var tekið að bregða birtu og ekkert vit í að bæta henni við fjallgöngu dagsins... hefðum lent í myrkrin þarna uppi og átt eftir alla leiðina til baka... það var ráð að halda áætlun og snúa við...


Enda vorum við öll himinlifandi með ævintýri dagsins... þetta er það besta við fjallgöngurnar okkar... könnunarleiðangur og óþekkt fjöll eða óvinsæl uppgöngu...


Nesti á miðri bakaleið... í kuldanum... en ágætis veðri...


Hlegið sem aldrei fyrr... besta leiðin til að halda sér heitum og orkumiklum fyrir göngu í kulda og strekki...


Mjög falleg leiðin til baka og létt yfirferðar... á straujinu einfalda heiðarleið...


Birtan lék mesta hlutverkið og skipti stöðugt litum enda sólin að setjast...


Húmið lagðist smám saman að í fjöllunum... fjallið Korri þarna vinsrra megin líklega ? Magnað að ganga á hann og fleiri og fá útsýni niður til sjávar norðan megin...


Bleika birtan og ljósbláa voru að mæta á svæðið...


Á þessum kafla tók heilun og hugleiðsla við...


Við dóluðum okkur létt og löðurmannlega yfir snævi þakta heiðina...


Einhver friður fangaðist og þakklæti lék um brjóstið fyrir því sem gafst þennan dag...


Aníta tók bónusæfinguna sína með því að taka brekkuspretti hér upp og niður... aðdáúnarverð kona með mikla orku, gefandi gleði og alveg einstaka útgeislun... við vorum sannarlega heppin að fá hana innan okkar raða... vonandi göngum við öll saman til enda á fjöllum og gefum aldrei eftir fyrr en í fulla hnefana þegar annað tilverustig tekur við... áfram við á fjöllum saman til æviloka !


Komin á þjóðveginn yfir Fróðarheiði... en að sjálfsögðu féll enginn í þá freistni að ganga veginn... neibb... yfir móann var miklu skemmtilegra...


Þessi leið reyndist mjög skemmtilega krefjandi þar sem við sukkum oft niður í djúpa skafla... en við erum engir aumingjar eins og einhver orðaði það... ekkert væl hér... þetta er fínasta þjálfur í að detta niður um fönn...


Gleði og hlátur var með í för...


Fossinn á leiðinni...


Hann var myndaður að ofan og neðan...


Þessi fegurð er nærandi og orkugefandi... hvergi myndum við vilja vera annars staðar en á fjöllum á þessum árstíma...


Lækurinn var að mestu undir snjónum...


Síðasti kaflinn að bílunum...


Töfrar náttúrunnar...


Frostið og kuldinn á veturna er veisla... maður missir af miklu að vera bara í malbikinu og býsnast yfir veðri og færð... ævintýrin eru þarna úti... bestu veislurnar... mesta orkan... mesta gæfan...


Birtan... bara hún og ekkert annað er heilandi á þessum árstíma... eitt af mörgu sem sumarið gefur ekki...


Já... við erum komin með þig á listann Mælifell...


Komin í bílana...


Litið til baka... það var tekið að rökkva...


Alls 12,0 km á 5:32 - 5:35 klst. upp í 471 m hæð hæst með alls 884 m hækkun úr 142 m upphafshæð... mismunandi eftir tækjum en þetta var lendingin...


Það þurfti að gæta þess vel að renna ekki í þessu svelli sem var hér utan grjótsins...


Vá hvað við vorum sátt með verk dagsins...


Siggi bauð upp á einn kaldan í bílnum sínum og þar var sko partý á leið heim ! :-)

Siggi, Linda, Sjöfn Kr., og Aníta.


Heimleiðin var líka veisla... fjölllin blöstu öll við og flest þökkuðu fyrir síðast... en þau sem við eigum eftir lyftu fringrinum og minntu á sig... og þjálfari skráði þau niður...


Öll fjöllin sem við höfum gengið á á Snæfellsnesi... alls 55 fjöll í 41 ferð:



Örninn... hann er ennþá eftir... svakalega glæsilegur alltaf hreint...


Já... að sumri sjálf... eða í snjó í línum með jöklaleiðsögumönnunum okkar í Asgardbeyond... það er spurningin...


Tröllafjölskyldan öll... vá... þarna var Tröllbarn og Tröllkerling...


... sem við gengum á í hitteðfyrra í sögulegri ferð þar sem við urðum að snúa við í efstu hlíðum á báðum tindum...


Ferðasagan af þeirri göngu hér:



Ánahyrna...


Lýsuhyrna og Þórgeirsfell...





Tinhyrna er á dagskrá í mars...


Þakklætið minnti á sig á leiðinni... hvílík ævintýri að baki um allt Snæfellsnesið...


Hafursfellið... nokkrar ferðir á það sem gleymast aldrei...



Takk fyrir okkur elsku félagar... þið eruð best... takk fyrir að vilja koma í könnunarleiðangra... á óþekktum slóðum... þó það sé vetur... stuttur dagur... snjór... kuldi... og ekki besta veðurspáin sem hægt er að hugsa sér... uppskeran er svona dagur... sem maður hefði ekki viljað missa af ...


Gps-ferillinn hér: Wikiloc | Trails of the World


40 views0 comments

Comments


bottom of page