top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Kjalardalur, Svörtuloft, Geirmundartindur og Ingagil í Akrafjalli

Uppáhaldsleiðin okkar á Akrafjalli.... sem fáir fara enda brött og alveg hinum megin... þriðjudagsæfing 8. júní 2021.


Hinn kyngimagnaði Kjalardalur var æfing vikunnar á hlýjasta þriðjudegi ársins til þessa... þann 8. júní... en þá var algert logn, funhiti og háskýjað veður...


Líklega sést það ekki vel á þessari mynd... en það glumdi í lambajarmi úr þessum klettum... og við sáum kindurnar á stöllunum nokkrar saman og allavega tvö lömb... þau voru löngu komin þarna upp... voru ekki að flýja okkur...


Við gengum síðast upp með gljúfri Kjalardalslækjar sem var ægifagurt í minningunni og við vildum rifja upp kynni okkar af því frá því árið 2014 þegar við fórum hér fyrst... þá búin að horfa á þennan dal í norðurhlíðum Akrafjalls frá Skarðsheiðinni en þó fyrst og fremst frá þjóðvegi 1 keyrandi Leirársveitina til borgarinnar... langandi að prófa að ganga þarna upp...


Og ekki sveik þetta gljúfur okkur... ótrúlega fagur heimur þarna...


Við nutum sannarlega staðarins og stundarinnar...


Hópmyndin sumarleg og hlýleg... yndislegt að ná þessu á þessu kalda voru og svölu sumarbyrjun...


Önnur hópmynd hér...


Mættir voru:


Arna Harðar, Arna Hrund, Arnór, Ágústa Harðar., Bára, Björgólfur, Elísa, Gerður jens., Guðmundur Jón, Gylfi, Jaana, Jóhann Ísfeld, Jórunn Ósk, Katrín Kj., Kolbeinn, Linda, Lilja Sesselja, Margrét Birgis., Neval, Ragnheiður, Sandra, Siggi, Silla, Sjöfn Kristins., Steingrímur, Steinunn Sn., Svandís, Þórkatla, Örn og Batman, Bónó og Moli, Nói og Skuggi voru með en Bára tók mynd.


Áhrifamikill staður og sá sumarlegasti sem við fengum fyrri hluta sumarsins þetta árið...


Mjög skemmtileg leið...


Ofar er áfram farið meðfram gljúfrinu og þar koma nokkrir fossar í ljós... enginn að spá í þeim þar sem ekki er ætlunin að virkja hér... og á það við um óteljandi fossa um allt sem eiga engin nöfn og komast aldrei í fjölmiðla...


Steingrímur reyndi að fara innri leiðina upp með gljúfrinu en þurfti frá að hverfa og koma sömu leið og við... en það munaði samt ekki miklu og það er vel á það reynandi að finna leið síðar í minni hópi...


Nafnlausir þessir fossar og Kjalardalsá er eina nafnið hér...


Yndisleg fegurð sem heilar mikið og gefur mikið...


Hér er hægt að hlaða sig náttúruorku og koma betri maður heim...


Næst skulum við fara niður að innsta fossinum...


En þetta var löng ganga og það var vert að halda áfram upp eftir að Svörtuloftum...


Litið til baka... bærinn Kjalardalur þarna niðri... við lögðum bílunum við námurnar í viðleitni til að trufla ekki bóndann og leggja á sama stað og síðast árið 2014 þar sem við erum orðin svo mörg á þriðjudögum og allt annað að leggja 15 bílum en 5... en það var víst nóg pláss á afleggjaranum sem liggur meðfram þjóðveginum svo menn geta vel nýtt eldri slóðann okkar hér upp ef það er ekki í nöp bóndans...


Upphaflega ætluðum við árið 2014 að fara upp austurhlíðarnar þar sem okkur þóttir ófært að fara beint upp dalinn... en svo komumst við upp beinustu leið um hamrabeltið... og því endurtókum við leikinn nú í ár... þó þetta liti ekki mjög fært út...


Brúnirnar hér kallast Svörtuloft á kortum og eiga líklegast við um allt hamrabeltið en erfitt að segja samt... heimamenn vita þetta best...


Og bratt var það en vel fært þegar nær var komið... og snjóskaflarnir voru ekkert að trufla... en þetta minnti óneitanlega á Gvendarskarðið á Vatnaleiðinni sem við fórum á hvítasunnunni 20. - 21. maí á þessu ári...


Talsvert brölt á á köflum tafsamt en alltaf öruggt og vel fært...


Uppi var sama blíðan en þó kaldara... og útsýnið magnað... hér hefðum við átt að taka riddarapeysumynd... einhver tók af Svandísi og Sigurjóni þar sem þau horfðu út að Hafnarfjalli og það var mjög falleg mynd...


Við tók heiðin uppi að Geirmundartindi sem rís í tæplega 658 m hæð eða svo...


Þegar komið er að Geirmundartindi taka glæsilegar brúnirnar við og landslagið er mjög tignarlegt... ekki síður að sumri en vetri... Geirmundartindur hér hæstur hægra megin...


Leiðin okkar svo niður um gilið hér... sem við skírðum á sínum tíma Ingagil því það var hann sem sýndi okkur þessa leið upphaflega og þá var gengið frá vatnsveitusvæðinu (hefðbundið bílastæði við Akrafjall vestan megin) og gengið með fjallinu að Pyttum (bungurnar neðan við hér) og farið svo upp þessa brekku í miklum bratta...


Mögnuð leið sem við höfum svo farið nokkrum sinnum síðan... en ekki gott að vera hér að vetri til eins og Ingi og félagar komust að raun um einhvern tíma þegar hann bauð upp á klúbbgöngu í fjarveru þjálfara og þau lentu í harðri snjóhengju hér ofar... en ævintýralegt var það engu að síður...


Litið til baka... ótrúlega fallegt...


Skaflinn hér byrjunin á niðurleiðinni...


En við skelltum okkur samt fyrst upp á Geirmundartind... móti sólinni sem enn var hátt á lofti enda hásumar að verða...


Napurt hér eins og svo ótal oft áður... í 658 m mældri hæð þetta kvöldið... skrifuðum í gestabókina og drifum okkur svo niður...


Aukahlutir riddarans er prjónaáskorun ársins... Þorkatla og Gerður Jens búnar að prjóna riddarahúfur í stíl við peysurnar sínar...


Þókatla er líka búin að prjóna aðra vettlinga sem eru betri en fyrsta útgáfa hjá henni... hún er mjög ánægð með þá... alger snilld og virkilega vel gert...


Við nutum útsýnisins svolítið... en drifum okkur svo niður...


Þessi bratta leið beið okkar og það var ráð að fara að kljást við hana...


Hún var mun skárri en áhorfðist...


En gæta þurfti að grjóthruni og þess vegna ákvað Örn að fara utar með þá sem voru komnir neðar svo bröltið hér yrði ekki varasamt fyrir þá sem neðar væru og var það snilldarlausn því grjótið var mjög laust í sér...


Hjallarnir vel færir en tafsamir í stórum hópi og því tók þetta tíma... en við vorum að njóta í þessu yndislega veðri...


Komin neðar og allt glumdi hér í hlátrasköllum og spjalli um spennandi göngur og önnur ævintýri sumarsins sem framundan eru hjá öllum...


Þegar horft er úr fjarlægð á Kjalardal má sjá að allt þetta efni sem liggur hér neðar og kallast Pyttar hefur runnið úr fjallinu sem skriða eins og úr Fagradalsfjalli fyrir tveimur árum eða svo... óhugnanlega mikið magn... og óhugnanlega stórt svæði sem þarna hefur farið úr fjallinu...


Litið til baka með leiðina okkar niður í baksýn... fórum við þarna niður... jahérna...


Fallegur staður að bíða á eftir síðustu mönnum niður skriðurnar... og sólin horfin bak við háskýin...


Sumarstemning... loksins...


Þarna fórum við... frábær hópur... eljusamur... glaður... þéttur... gefandi... fjölbreyttur... yndislega hollur og góður félagsskapur með meiru...


Geirmundartindur hér yfirgnæfandi og leiðin okkar um Ingagil...


Sjá skaflinn efst í Ingagili...


Leiðin til baka er frekar löng meðfram Akrafjallinu að norðan og tekur vel í... þetta var alvöru kvöldganga !


En við gleymdum okkur í dýrðinni... og samverunni... og núinu...


Takk fyrir okkur Kjalardalur... magnað að kynnast þér í návígi... Svörtuloft ofar...


Alls 9,1 km á 4:24 klst. upp í 570 m hæð á Svörtuloftum og 658 m á Geirmundartindi með alls 688 m hækkun úr 42 m upphafshæð... ein æfing eftir með þjálfurum áður en þeir fara í sumarfrí... alltaf gott veður á þriðjudeg... en það er ekki sjens að fara á síðustu æfinguna nema í góðu veðri... nefnilega Flosatind í Kálfstindum á Þingvöllum... og það tókst þó ótrúlegt væri og það í ekki sérlega góðri veðurspá... og sama kuldanum og áfram ríkti á landinu fram yfir miðjan júní... en þetta kvöld var yndi... það var ekki hægt annað en hlaðast af sumarorku í Kjalardal Akrafjalls... og fyrir það vorum við svo þakklát...

242 views0 comments

Comments


bottom of page