top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Latur heitir fjall... Latsfjall, Núpshlíðarháls og Höfði Reykjanesi.

Æfing nr. 768 þriðjudaginn 29. ágúst 2023.


Blíðskaparveðrið sumarið 2023 var samt við sig í byrjun september og gaf okkur algera yndisgöngu um nýjar slóðir á Reykjanesi...


Latur heitir fjall... sunnarlega á Reykjanesi... nánast frá Suðurstrandavegi og upp eftir í átt til Vigdísarvalla... hann rís vígalegur upp á fleiri en einum stað en er aðallega í því að teygja vel úr sér eftir endilöngum mosabreiðunum... og hraunbreiðunum sem liggjan allt í kringum hann... en þarna má finna þrjú örnefni... Latur sem er syðst... Latstögl sem liggja hryggjuð upp eftir... og loks Latsfjall sem er hæsti hlutinn... en norðan við það heldur þessi lági fjallshryggur áfram upp eftir... og mættu heldur heita Latstögl... en svo er ekki skv. kortunum...


Við lögðum bílunum við Vigdísarvallaveg og á litlu stæði þar sem voru skilti nær Núpshlíðarhálsi og tókum smá krók yfir á Latsfjall áður en við snerum til baka og yfir á Núpshlíðarhálsinn...


Næst... skulum við ganga eftir endilöngum Lati... og á allan hrygginn og tindana sem skreyta hraunið þarna fallega...


Yndisveður og frábær mæting... nýliðar og sjaldséðir hrafnar sem fengu knús og fagn...


Hvannadalshnúksfararnir frá í vor... bræðurnir Johan og Gustav hér á hæsta tindi í 156 m hæð hvorki meira né minna... þetta er allt spurning um gæði en ekki magn... og Reykjanesið státar ekki síður af mikilli náttúrufegurð en Vatnajökull þó ólíku sé að jafna...


Niður af Latsfjalli héldum við upp á Núpshlíðarháls sem hér sést útbreiddur þar sem Selsvallafjall tekur við... en gárungar í okkar hópi kölluðu fjallið "Séstvarlafjall" á sínum tíma þar sem þeim þótti þessi hryggur varla teljanlegur sem fjall enda lágur og saklaus yfirferðar... en sannarlega svipmikill og skemmtilegur hér um árið... hlæjum sem mest... og mest af okkur sjálfum... það er svo heilandi... það er orðið allt of sjaldan sem við grínumst og hlæjum að málefnum líðandi stundar... nú á tímum móðgunar hægri og vinstri eins og enginn sé morgundagurinn... Núpshlíðarháls og Selsvallafjall (toppfarar.is)


Steingrímur mætti í nýrri riddarapeysu... svört og grá... óskaplega falleg... en hann fékk hana prjónaða á sig og sagði að það hefði verið mál að fá einn af gráu litunum... jamm... það hefur aldeilis verið hörgull á léttlopa síðustu mánuði... allt selt erlendis líklega og allt of margir að prjóna virðist vera...


Örninn flaug með okkur niður þetta klettabelti sem hamrar inn Stóra hamradal svo fallega... þetta var eina alvöru klöngrið þetta kvöld og gott að fá smávegis af þeim skammti... svo við höldum okkur við í brölti og klöngri...


Þjálfarar settu stefnuna á þennan tind í Núpshlíðarhálsi... heldur hærri en þar sem hálsinn er merktur á korti og því ágætis kennileiti á hálsinum...


Mjög skemmtileg leið um klettana hér... sem sjá líka um að skreyta Núpshlíðarháls sunnar en við fórum því miður ekki þar um en gerum það næst...


Uppi á Núpshlíðarhálsi sem mældist 230 m hár var fallegt útsýni til Latsfjalls og félaga... sjá hamravegginn í Stóra hamradal... stórbrotið landslag...


Af Núpshlíðarhálsi sem var alveg ágætis brekka upp... fórum við þéttar brekkur niður í átt að Höfða sem þjálfarar veltu aðeins vöngum yfir hvar væri þar sem þarna rísa nokkrir höfðar í hrauninu...


Gosstöðvarnar úr gosi þrjú við Litla hrút blöstu við okkur... sjá gíginn standa upp úr hraunbreiðunni... það kom á óvart hversu hár og vel greinanlegur hann er úr þessari fjarlægð... Hraunssels-Vatnsfell hér á hægri hönd...


Mjög fallegt hérna megin sólarinnar... sem skein skært og sagði okkur að við myndum sleppa við myrkrið... vonandi...


Yfir hraunbreiðuna sem var ágæt yfirferðar en það var ekki sjálfgefið og við runnum svolítið blint í sjóinn með hvort þetta yrði seinfarið á milli...


Dásamleg stemning og allir í sumarskapi... enda ekki annað hægt í þessari blíðu...


Höfði hér framundan í sólinni...


Hraunssels-Vatnsfell með Hetju, Kareni Rut og Ingu vinkonu hennar en Inga er ein af nokkrum nýliðum sem hafa komið inn í haust og leika sér að göngunum...


Mjög falleg leið... hraunið og gígarnir um allt sögðu sína sögu... hér hefur oft gosið... á öllum tímum... og það gæti byrjað að gjósa aftur hvenær sem er... jamm... eins og á svo mörgum stöðum á landinu... við verðum bara að halda okkar striki og meta aðstæður í hvert sinn og ganga þar sem ekki eru óvenjulegar jarðhræringar þá stundina... en ekkert er öruggt í þessu og betra að láta ekki áhyggjur né ótta stjórna för... því þá gerist ekkert... nema sófinn...


Við ask-óðum upp Höfða... þjálfarar vildu helst ná nestispásu þar frekar en í veðurblíðunni þarna á milli þar sem útsýnið yrði svo fallegt...


Dásamlegt var uppi á Höfða og tilvalið að á og njóta... í 216 m hæð... Reykjanesið skorar ekki hátt í hæðartölum fjallanna sinna... en aldeilis í lífi og fjöri landslagsins...


Sandfell beint fyrir aftan... vinstra megin sjást Kistufell, Litli hrútur, austasti Meradalahnúkurinn, Keilir og Hraunssels-Vatnsfell... og hægra megin sést í skottið á Driffelli og/eða Oddafelli og svo koma Trölladyngja, Grænadyngja, Eggjarnar við Sogin og loks Selsvallafjall í framhaldi af Núpshlíðarfjalli... hvílíkt útsýni... hvílíkt landslag !


... og meðan við borðuðum þá snæddum við á kostinum sem bauðs úr bakpokanum... alger forréttindi að búa í þessu landi... hversu lengi ætli við fáum að vera ein um þá hituna í síversnandi hamförum heimsins...


Efri: Siggi, Kristjana, Inga, Brynjar, Lilja Sesselja, Gylfi, Johan, Þorleifur, Örn, Sjöfn Kr., Kolbeinn, Elsa, Leiknir, Jóhanna Fríða, Tinna, Njóla, Sighvatur og Steingrímur.


Neðri: Halldóra Þ., Karen, hundurinn hetja, Gustav, Þórkatla, Aníta og Linda en Bára tók mynd og Batman var þarna einhvers staðar...


Við tókum hálfan hring um gígbarminn sem lá utan í Höfða... á leið upp á Núpshlíðarhálsinn til baka en nú fórum við léttari leið...


Þetta landslag... bara töfrar...


Litið til baka...


Er hægt að leggja bílunum einhvers staðar? ... er örugglega bílfært fyrir alla bíla ? ... er fært yfir hraunið milli þessara nýju fjalla ? ... komumst við niður klettabeltið einhvers staðar ? ... eru skriðurnar nokkuð of brattar hér upp ? ... finnum við þennan Höfða innan um nafnlausa hryggi og fell allt í kring ? ... má ganga hér ? ... komumst við þarna upp ? ... getum við tekið hringleið ef við förum niður hérna ? ... eru ekki örugglega allir að geta tekið þessa göngu ? ... hvað er langt í hjálp ef eitthvað gerist ? ... komast bílar inn á svæðið einhvers staðar ef eitthvað gerist ?...


... er símasamband á svæðinu ? ... gæti komið þoka ? ... erum við með réttu gps-punktana ef skyggni hverfur ? ... náum við þessum fyrir myrkur ? ... verður þetta nokkuð of langt ef við tökum þrjá tinda og freistumst til að taka hringleið þar sem við viljum helst ekki fara sömu leið til baka ? ... verður þetta nokkuð of stutt ganga ? ... verða ekki örugglega allir ánægðir með gönguna ?


... listinn er botnlaus... úrtölurnar banka á dyrnar... en við hleypum bara möguleikunum inn... af því þá gerast ævintýrin... það er dásamlega létt að fara sífellt sömu leiðirnar... allt annað að feta sífellt nýjar slóðir... en alltaf eru ótal þættir sem þarf að huga að og gæta... þó farnar séu þekktar leiðir... ekkert er sjálfgefið... og allt getur gerst... eldgos eða ævintýri... og allt þar á milli... #þriðjudagsþakklæti


Það er hægt að vera þakklátur fyrir svo margt... og gott að rækta þakklætið sérstaklega... eins og við erum að gera á þessu ári á þriðjudögum... takk fyrir nýliðana sem koma sterkir inn og smellpassa í hópinn allir sem einn #Þriðjudagsþakklæti


Komin aftur upp á Núpshlíðarháls... og nú var sólin tekin að skreyta allt með sínu lagi... Höfði hér þegar litið var til baka... kominn í næturhúm-haminn sinn...


Mjög skemmtileg leið yfir Núpshlíðarháls...


Latsfjall framundan þarna...


Auðvitað flaug Örninn með okkur áreynslulaust yfir þetta hamrabelti... sem virðist ókleift... en var vel fært innar á innleið... og framar á útleið...


Mergjað náttúrufyrirbæri... hér væri aldeilis hægt að halda tónleika... eða hafa alla að horfa á eldgos... aldrei að vita hvar gýs næst...


Yfir okkur síðasta kaflann í húminu flugu flugvélar norska hersins sem ekki sjást á radar... og heita... æj, hvað heita þær aftur... mjög tignarlegar og sláandi flottar... vænghaf þeirra er það sama og á stórum farþegavélum...


Dulúðin var sláandi...


Alls 6,6 km á 3:08 klst. upp í 230 m hæst með alls 391 m hækkun úr 88 m upphafshæð...


Við horfðum á Lat frá suðurstrandavegi... og ákváðum að næst myndum við ganga á hann frá upphafi til enda... mjög spennandi leið...


Dásemdarkvöld... nú dimmir fljótt á kvöldin... það er farið að kólna... en enn eru lauf á trjánum og gróðurinn að fara í sinn litríkasta búning... áður en frostið nær yfirhöndinni... njótum eins og við getum þessa árstíma og mætum vel... það er margfalt þess virði...


... og nýliðar: þið eruð ÆÐI !

47 views0 comments

Comments


bottom of page