top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Litla Sandfell og Krossfjöll í köldustu þriðjudagsgöngunni í sögunni.

Æfing nr. 745 þriðjudaginn 7. mars 2023.


Kaldasta þriðjudagsæfingin í sögu klúbbsins var líklega þann 7. mars þegar gengið var á Litla Sandfell og Krossfjöll við Þrengslin...


Frábær mæting þrátt fyrir kuldann... enda dagsbirta... sól... skyggni... autt færi... sem allt saman var afar kærkomið eftir myrkur og hálku vetrarins...


Byrjað var á að ganga upp á Litla Sandfellið sem er ágætis ganga... sjá Lambafellið fjær vinstra megin og Litla Meitil hægra megin... lengst til hægri á leið út af mynd sést í Stóra Meitil líklega...


Ofan af Litla Sandfelli sást til Krossfjalla... Bára þjálfari búin að hafa þau í sigtinu í nokkur ár... en frá Suðurstrandavegi lítur þetta út fyrir að vera nokkrir hólar eða gígar... og eru líklega sunnan megin... en þegar að var komið var þetta lág fjallsbunga úr hrauni... mosavaxin...


Haldið var vel áfram þetta kvöld þar sem vindurinn blés ískaldur...


Geitafellið hér í vestri... á það höfum við gengið tvisvar með viðkomu á Litla Sandfelli... en nú var ferðinni heitið til suðurs ofan af Sandfellinu...


Skorningar eftir leysingar niður af fjallinu... hafa jarðhræringar síðustu tvö ár eitthvað um þetta að segja...


Það var ágætis ganga frá Litla Sandfelli að Krossfjöllum... yfir hraun og mosa...


Miklar gjótur eru á öllu þessu svæði... og þær geta verið varasamar þegar snjór liggur yfir öllu... og það var sláandi að sjá það svona vel þar sem snjórinn lá ennþá í skugganum...


Þess á milli gaf helfrosinn mosinn gott gönguland milli fjalla...


Það var svo kalt... að meira að segja Johan sem aldrei er í vettlingum... setti á sig slíka...


Sólin settist smám saman og skugginn var kaldur...


Komin að Krossfjöllum sem komu virkilega á óvart... umfangið umtalsvert meira en við áttum von á... og að þetta væri samfellt...


Ein af gjótunum... djúpar og þröngar...


Hópmyndin tekin í einni gjótunni...


Mættir voru: Silla, Edwin, Agnar, Inga Guðrún, Sigrún Bjarna, Steingrímur, Siggi, Maggi, Andrea, Johan, Kolbeinn, Gustav, Linda, Þórkatla, Sigurbjörg, Guðmundur Jón, Sjöfn Kr. og Jaana og Batman var eini hundurinn... nánast alltaf sama fólkið á ferð þessa mánuðina... ekkert gefið eftir... mætt í öllum veðrum... og ekkert væl... magnað fólk !


Afstaðan í sprungunni... Örn mætti einn þriðja þriðjudaginn í röð þar sem Bára var ennþá haltrandi...


Best að koma sér upp á þessi Krossfjöll...


Útsýnið ofan af þeim var ansi mikið... séð hér til Þorlákshafnar... sjá hraunið neðar sem líklega fangar augað frá þjóðveginum...


Fínn nestisstaður hér í skjóli... en miklum kulda... og sólin sest...


Klöngrast var ágætis hring á Krossfjöllum og eftir á að hyggja hefðum við viljað sleppa Litla Sandfelli til að geta þvælst meira um Krossfjöllin... gerum það næst...


Heilmikið landslag og heill heimur út af fyrir sig... þó lítið beri á þessum fjöllum frá veginum...


Krossfjöllin mældust 280 m há...


Mjög gaman að upplifa þau og fá þetta landslag allt í kring...


Litla Sandfell vinstra megin... Þrengslavegur... Litli Meitill og Stóri Meitil lengst til hægri fjærst...


Til baka var gengið móti vindi í ljósaskiptunum og það beit verulega í kinnar...


#Þriðjudagsþakklæti vikunnar var án efa íslenska ullin sem munar öllu í svona veðri innan undir vindheldur hlífðarfatnaðinum... án hennar væru svona göngur líklega erfiðar því ekkert stenst henni að gæðum, fjölbreytileika og hentugleika...


Áfram djúpar gjótur... hrauntraðir... gígar og klettamyndanir...


Tunglið að koma upp í austri... Skálafell á Hellisheiði vinstra megin...


Litli Meitill hér framundan og bílljós á Þrengslaveginum...


Gps-mælir Johans mældi mínus 11 gráður í lok göngunnar...


... laugardaginn eftir þennan þriðjudag voru -15 gráður í bíl þjálfara í Grafarvogi og -18 gráður í bíl Jöönu í Breiðholti... en samt gengu 11 manns 18,5 km leið kringum Kleifarvatn þar sem lagt var af stað kl. 8:18 í morgunkuldanum og göngu lokið rúmlega tvö um daginn... komið heim hálfþrjú og búið að þvo og hengja upp fjallgöngufötin kl. 16:30


... jebb... það er ýmislegt hægt að gera fyrri hluta laugardags ef maður bara reimar á sig skóna og leggur af stað...


Alls 7,3 km á nákvæmlega 2:00 klukkustundum upp í 305 m á Litla Sandfelli og 280 m á Krossfjöllum með alls 256 m hækkun úr 212 m upphafshæð...


Krefjandi kaldur vindur en annað fullkomið þetta kvöld og mjög vel þegin útivera... takk fyrir að mæta og hafa gaman af elskurnar ! Áfram elja, úthald, lausnamiðuð hugsun og vit... til þess að vera þakklátur fyrir öll þessi þriðjudagskvöld sem eru ómetanleg og gefa okkur svo mikið bæði fyrir sál sem og líkama...

55 views0 comments

Comments


bottom of page