Æfing nr. 833 þriðjudaginn 7. janúar 2025
Nýársæfing ársins 2025 var á Litla Meitil... og það var vetur... frá fyrsta skrefi út úr bænum... snjókoma og skafrenningur á köflum keyrandi... en dásamlegt veður við fjallsrætur og nóg pláss fyrir hrúgu af bílum við afleggjarann... eins gott að menn hugsuðu ekki í hindrunum og afsökunum...
Gengin var okkar gamla og góða leið upp meitilinn í suðri í þungu snjófæri með harðan frosinn snjó undir ferskari og léttari... þar sem maður pompaði stundum niður og stundum ekki... krefjandi og því mjög hollt og gott...
Þegar komið var upp á tindinn var veður ágætt og skyggni sömuleiðis en þjálfarar ákváðu samt að láta nægja að fara fram á brúnirnar norðan megin og snúa þar við sem hefði gefið okkur tæplega 5 km æfingu en á miðri leið varð óhapp þar sem Aníta sneri sig á ökkla og fann mikið til. Hún var vafin og fékk kælingu með snjó í plastpoka og til baka haltraði hún og var augljóslega kvalin þó hún harkaði af sér...
Við vonum innilega að henni batni fljótt og vel.. en þegar þetta er skrifað þá er þjálfari á leið að sækja Batman á Dýraspítalann eftir stóru aðgerðina á æxlinu í kjálkanum viku seinna, þriðjudaginn 14. janúar og Aníta og fleiri Toppfarar á leið á Helgafell í Mosó... en þjálfarar voru með æfingu í gær, mánudaginn 13. janúar í staðinn vegna þessa hjá Batman... svo batinn er greinilega góður hjá Anítu... þessum snillingi !
Alls var þessi fyrsta þriðjudagsæfing ársins 3,8 km á 2:25 klst. upp í 475 m hæð með alls 299 m hækkun úr 198 m upphafshæð.
Ljósmyndir og nafnalisti undir hópmyndinni hér fyrir neðan:
Mættir voru alls 16 manns;
Birgir, Sibba, Olli, Þorleifur, Siggi, Sjöfn Kr., Linda, Örn, Björg, Aníta, Linda nýliði, Kolbeinn, Karen, Inga og Guðný Ester en Bára tók mynd og Baltasar og Batman eru þarna með á mynd... en Linda var í sinni fyrstu göngu með okkur og lenti aldeilis í alvöru þriðjudagsgöngu...
Takk öll fyrir alveg magnað kvöld sem þó skyggði á með óhappinu hennar Anítu... vonum það besta... mikið í húfi... Monte Rosa og Matterhorn... naglarnir gerast ekki betri svo við erum vongóð !
Comments