top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Litli og Stóri Reyðarbarmur Lyngdalsheiði í rigningu, vindi og svo smá sól í lokin.

Æfing nr. 702 þriðjudaginn 3. maí 2022.


Það var rigning og rok þegar við mættum á Lyngdalsheiðina fyrsta þriðjudag í maímánuði árið 2022... sem var ansi ólíkt sólarblíðunni sem við vorum í þremur dögum áður á Bjólfelli og félögum við Heklurætur þar sem við fórum í fótabað í skærgrænum kristaltærum tjörnum...


En það var spáð batnandi veðri þetta kvöld... rigningin átti að þurrkast upp og sólin að kíkja við um áttaleytið... en hvasst átti hann að vera allt kvöldið og þetta rættist eftir bókinni...


Leiðin eftir Litla Reyðarbarmi er sérlega skemmtileg á hryggnum endilöngum létt og löðurmannlegt...


Frá þeim Litla er gengið um lungamjúkar mosabreiður áður en komið er að Stóra Reyðarbarmi...


En barmurinn sá er snöggtum hærri og erfiðari uppgöngu en sá Litli...


Og milli þeirra liggur gamli þjóðvegurinn um Lyngdalsheiðina... alltaf kemur það manni jafn mikið á óvart að sjá hversu langt frá nýi vegurinn er...


Stóri Reyðarbarmur er alvöru æfing... eftir léttan þann Litla...


Stóri og Litli Dímon hér... fallegir gígar ásamt fleirum á svæðinu... þetta er virkilega fallegt svæði þegar að er komið...


Brekkurnar upp á Stóra Reyðarbarm eru í reynd fjórar alveg aðskildar með öxlum á milli...


Litið til baka hér með Litla Reyðarbarm þarna niðri...


Það reynir því vel á þrautsegjuna að ganga á þann Stóra...


Sjá hér farið að glitta í syðsta Kálfstindinn sem við nefndum Suðra en þeir eru nafnlausir á kortum...


Enn ein brekkan... þessi barmur var þrautinni þyngri...


Rigningin hætti fljótlega eftir að við gengum af stað þetta kvöld... mjög hvasst var í fangið alla leiðin upp fyrir utan smá skjól í lautum á leiðinni... en svo fór sólin að læðast í gegn stöku sinnum þegar á leið upp á hæsta tind...


Sjá Búrfell í Grímsnesi baðað sólskini í fjarska... og Þrasaborgir nær sem eru á dagskrá síðar á árinu á þriðjudegi... en sú ganga er aflíðandi og létt fyrir alla...


Laugarvatnsfjall hér að birtast ofan úr hlíðum Stóra Reyðarbarms...


Komin á tindinn í 527 m hæð og bálhvasst þarna uppi en kyngimagnað útsýni og frábært að ná alla leið í þessu erfiða veðri...


Tíu manns mættir... Suðurtindsfarar Hrútsfjallstinda alls fimm... þrír elstu klúbbmeðlimirnir mættir sem segir allt um úr hverju þau eru gerð... ekkert væl á þeim bænum eða afsakanir þó veðrið sé ekki upp á sitt besta... bara mætt og gengið og náð sér í góða útiveru og æfingu...


Batman, Örn, Gulla, Katrín Kj., Guðmundur Jón, Sigrún Bjarna., Gerður Jens., Þórkatla og Siggi en Bára tók mynd en það vantar Kolbein sem fór smá könnunarleiðangur á nyrðri endann.


Sja fyrstu göngu okkar á Stóra Reyðarbarm en þá fórum við sérstaka leið á Kálfstinda um þennan fjallsás og á syðsta Kálfstindinn og svo skoðuðum við smá gljúfur á leiðinni og komum óhefðbundna leið að tindum hans Kálfs...


Niður var farið með vindinn í bakið... svo hvasst þarna uppi að við nánast fukum niður og gátum ekkert talað saman...


Sólin tók að skína meira og allt varð óskaplega fallegt á örskotsstundu... hún lýsir allt upp og gerir betra þessi eindæmis dásamlega sól...


Litli Reyðarbarmur þarna niðri... þetta var svo fallegt...


Næst neðsta brekkan af fjórum niður af Stóra Reyðarbarmi...


Svo var farið um mosana til baka í bílana á fínni leið og á veginum síðasta kaflann...


Kvöldið orðið gullfallegt og gefandi að keyra heim í sólsetrinu...


Sjá báða Reyðarbarmana hér á mynd...


Kálfstindar með Flosa mest áberandi og svo Stóra og Litls Reyðarbarm hægra megin á mynd...


Alls 7,0 km á 2:24 klst. upp í 308 m á Litla Reyðarbarmi og 527 m á Stóra Reyðarbarmi með alls 457 m hækkun úr 230 m upphafshæð...


Suðurtindur Hrútsfjallstinda eftir þrjá eða fjóra daga... veðurspáin frekar tvísýn og breytileg... vonum það besta... ef við erum heppin þá náum við þessum spennandi sjaldfarna tindi...

122 views0 comments

Comments


bottom of page