Æfing nr. 714 þriðjudaginn 26. júlí 2022.
Ævintýralega fallegur hringur sem við uppgötvuðum fyrir tilviljun kringum Folaldavatn frá Vigdísarvallaveg vorið 2021... af því það var ófært inn að Fíflavallafjalli og við urðum að stöðva för og leggja í fjöllin ofan við veginn í þoku og rigningu... og náðum að koma bakdyramegin öfuga leið upp á Folaldatind og Stapatind... var á dagskrá þennan þriðjudag í lok júlí... en eins og dæmigert var fyrir sumarið 2022... var rigning og rok í veðurspánni... og þar sem ætlunin var að ná nú þessum forvitnilega hring í skyggni en ekki þoku og rigningu eins og síðast... þá ákváðu þjálfarar að fresta henni og taka Lágafellshringinn í staðinn... þriðjudagur fyrir verslunarmannahelgi... og yfirleitt annasöm vika svo þetta hentaði mönnum vel enda ekkert spennandi veður á Reykjanesinu...
Gengið var frá Lágafellskirkju og niður eftir að Lágafellshömrum sem eru í Úlfarsfelli og blasa brattir og ógengilegir við þegar ekið er um hringtorgið inn í Mosfellsbæ... eða inn til Reykjavíkur eftir því úr hvaða átt menn koma...
Kominn heilmikill skógur við fjallsrætur... sem voru eingöngu smá hríslur og græðlingar þegar við fórum þessa leið fyrst árið 2008... í myrkri að vetri til í desember... og komst hefð á að fara þessa bröttu brekku á hverju ári kringum áramótin... sem mjög gaman hefur verið að halda í heiðri í öll þessi ár...
En það er ekki síður gaman að sjá þessa leið í dagsbirtu... í sumarfæri... og sumarveðri... þó það sé rigning og rok... en reyndar var skjól þarna megin... og engin rigning... en slagviðrið tók á móti okkur þegar upp var komið... þarna upp brekkurnar vorum við í vellystingum fjallgöngumannsins... logni og hlýjindum og þurru veðri... dásamlegt...
Skemmtilega krefjandi leið... góð æfing í bröttu brekkubrölti... þar sem skiptir máli hvar er stigið niður fæti... þó það sé sumar... því brattinn náði 71 gráðu halla en var að mestu 58 gráður í gps-tæki Guðmundar Jóns... sjá gps-tæki þjálfara:
Nokkuð góð brekkan til að byrja með en svo tekur brattari kafli við ofar...
Litið til baka... hallinn heilmikill en fangast ekki á mynd...
Dásemdarfjallabrölt upp alla þessa brekku og engin rigning né rok... ennþá...
Sjá Lágafellskirkju og nýja hverfið sunnan við Lágafellið...
Þjálfari giskaði á 50 gráðu halla... en hann var að mestu 58 gráður og náði 71 gráðu... enda þurftum við að fara varlega þegar verst... nei, þegar skemmtilegast lét...
Ellefu manns mættir og yndisleg samvera... fullt af fréttum af mergjuðum göngum... en ansi margar litaðar af erfiðu veðri þetta sumarið... eins gott að við vissum ekki hvað beið okkar þetta sumarið... það á víst að koma í ágúst... en þegar þetta er skrifað þá er 2. ágúst... og jú... sól spáð suðvestan til á landinu... en rigning annars staðar... og svo kemur rigningin næstu helgi... snjókoma um verslunarmannahelgina eftir þessa göngu á norðausturlandi... allt hvítt í Dreka og við Herðubreið... ótrúlega erfitt sumar veðurfarslega séð...
H'er sést brekkan betur... skriðan er svo ofar... en Örn heldur sig alltaf við hamrana þar sem gott hald er í jarðveginum og tekur ekki skriðuna fyrr en ofar þar sem þrengist um og við verðum að fara til að komast niður... eða upp eins og þennan dag...
Ennþá undir hömrunum í grasfærinu...
Tveir af heldri mönnum klúbbsins... Birgir og Guðmundur Jón sem telst til höfðingja eftir að 70 árunum er náð sem eru sífellt fleiri í klúbbnum... engin meðalmenn þessir tveir !
Mikið var þetta gaman... við skemmtum okkur konunglega þetta kvöld þrátt fyrir veðrið !
Skriðan hér að koma í ljós...
Það voru verksummerki eftir spor fólks niður skriðuna... frábært... það eru fleiri að leggja í þessa brekku en við !
Guðmundur Jón í gullfallegu riddarapeysunni sinni úr plötulopa úr lambsull... höfðinginn okkar ólofthræddi og öruggi sama hvað brattinn er mikill eins og Katrín Kjartans !
Reynt að mynda brattann...
Oh... þetta er svo gaman... fjallagleðin innan klúbbsins þetta misserið er svo smitandi og nærandi... maður vill allt gera með svona jákvæðu og glöðu fólki sem er alltaf til í allt...
... og þannig gerast ævintýrin... nákvæmlega þannig...
Skriðan efst... allt blautt en samt gott hald... það var allavega ekki hálka né myrkur né kuldi...
Geggjuð leið !
Við skriðum nánast upp þessa brekku og því þótti viðeigandi að ná einni skríðandi mynd af leiðinni upp :-)
Guðmundur Jón, Katrín Kj., Þórkatla, Inga Guðrún, Birgir, Sjöfn Kr., Linda, Siggi, Kolbeinn og Örn en Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn...
Þegar upp var komið tók vindurinn og rigningin á móti okkur úr suðvestri... og við örkuðum yfir á Stóra hnúk... fáir á ferli sem er kosturinn við að ganga á Úlfarsfell í slæmum veðrum... einmitt þá á maður að vera þarna... laus við kraðakið...
Niður fórum við um stíginn að Skarhólamýri... hundleiðinlegt að þrepa sig þarna niður... þjálfarar dauðsáu eftir því að fara ekki bara móann beinustu leið... hvað vorum við að hugsa !
Ofan af Úlfarsfelli gengum við áfram yfir á Lágafellið... í ilmandi sumri og grenjandi rigningu... veðrið versnaði talsvert meðan á göngunni stóð... sem passaði alveg við veðurspána... þar sem veðrið átti að vera skollið á um áttaleytið um kvöldið...
Þegar komið var að Lágafelli gengum við á stíg sem liggur að Lágafellskirkju en áttuðum okkur í tíma og tókum krók yfir á Lágafellið sjálft... það var jú ætlunin að ganga á það líka þetta kvöld og ekki elta bara einhverja stíga í tómri leti og áskorunarleysi... :-) :-) :-)
Ætluðum samt ekki alveg að nenna... grenjandi rigning... en þetta var ekki lengi gert... og við svifum yfir hnúkana á Lágafellinu og nutum þess að upplifa leiðina í dagsbirtu að sumri eins og upp brekkuna í Lágafellshömrum fyrr um kvöldið...
Sjá nálægðina við byggðina... þarna skreyta borgarljósin og jólaljósin desembergönguna okkar á hverju ári...
Síðasti hnúkur Lágafells áður en snúið var við niður að kirkjunni... dásamlegt kvöldganga í veðri sem hefði ekki gefið okkur góða mynd af Folaldadalahringnum... hann bíður okkar vonandi á fallegu kveldi síðar í sumar eða haust... ef jarðhræringarnar á Reykjanesi gefa okkur frið til þess...
Alls 6,0 km á 2:06 klst. upp í 256 m efst í Lágafellshömrum... 313 m á Stóra hnúk og 124 m á Lágafelli með alls 323 m hækkun... fínasta æfing í gefandi umræðum og yndislegum félagsskap eins og alltaf...
Comments