Æfing 730 þriðjudaginn 15. nóvember 2022.
Enn ein sumargangan var farin á þriðjudegi um miðjan nóvember... í hvorki meira né minna en 10 stiga hita utan vindkælingar... auðri jörð og engri drullu enda ekkert frost komið í jörðu ennþá...
Frábær mæting var þetta kvöld... alls 30 manns en það hafði líklega þær afleiðingar að slá tíkina Kolku út af laginu sem fann ekki hana Oddnýju sína á innleið með fjallinu... og sneri tíkin því ein við og beið við stígamót slóðans upp á Mosfellið... svo þegar Oddný fann hana ekki sneri hún við til að leita að henni, fann hana við stígamótin og gengu svo þær "mæðgur" á móti okkur hefðbundna leið um austurstíginn og náðu okkur rétt við tindinn... ansi vel gert í myrkrinu sem var algert uppi á fellinu en þar blés vindurinn sem er fljótt að vera kuldalegt og einmanalegt þegar maður er einn af þvælast í myrkrinu...
Við fórum suðurhlíðarnar upp og höfðum ekkert til rötunar nema stíginn á köflum og svo borgarljósin... jú, og gps-slóð úr fyrri ferð sem kom sér vel því þar sem stígurinn var ekki augljós var erfitt að átta sig á hvar skyldi fara í þessu algera myrkri...
Uppi á tindi Mosfells blés þétt... og við slepptum nestinu þar sem menn vildu bara halda áfram niður... en auðvitað eigum við ekkert að láta það stoppa okkur, bara æfa okkur í að borða nesti í erfiðu veðri því það er það sem þarf að gera í tindferðunum enda eigum við ansi margar minningar af erfiðum nestispásum í gegnum árin í snjóhríð og kulda í miðjum brekkum upp á há fjöll... þar sem maður hefur stundum hugsað... "hvað erum við eiginlega að gera hérna í þessu veðri" :-) :-) :-)
En fyrst var það hópmynd... mættir voru: Arnór, Bára, Bjarnþóra, Guðmundur Jón, haukur, Ingólfur K., Johan, Jóhann Ísfeld, Jóhanna Fríða, Karen Rut, Katrín Kj., Kolbeinn, Kristín H., Lilla, Lilja Sesselja, Lina, María H., Marta, Matthías, Sigurbjörg, Siggi, Sjöfn Kr., Steinunn Sn., Þorleifur, Þórkatla, Þórunn og Örn en hundarnir voru ansi margir; Batman, Gutti, Bónó, Kolka, Moli og Snót ?
Kolbeinn mættur aftur eftir 2j mánaða baráttu við að loka brunasárum sem hann fékk þegar leir gaf sig undan skónum hans í göngunni við Bláahrygg í Grænsdal í september... lexía sem við þurfum öll að læra af, þetta gerðist svo snöggt og hafði þessar flóknu afleiðingar að fá slæm brunasár á ökklann beggja vegna... en Kolbeinn tók þetta á æðruleysinu eins og honum er einstaklega vel lagið... lét alltaf vel af sér þessa tvo mánuði þó hann gengi í gegnum erfitt verkefni, stöðug umbúðaskipti, geta ekki farið í sturtu með fótinn, verki, sýklalyfjagjafir, skerta hreyfigetu, geta eingöngu verið í sandölum lengi vel og algert bann við göngum... en loksins var þessu erfiða ferli lokið... einn sjötti af árinu 2022 fór í þetta hjá honum... en nú var hann mættur, maðurinn sem alltaf mætir í allar göngur og við fögnuðum honum ákaft enda sárt saknað rétt eins og allra þeirra sem detta út í einhverja mánuði og maður finnur hvað maður hefur saknað þeirra :-)
Niður var svo farin hefðbundna leiðin um austurhlíðarnar í myrkrinu með kirkjuna og Þingvallaveginn eins og skraut fyrir framan okkur þegar neðar dró... svo fallegt og alger forréttindi að hafa þessi fell við borgina til æfinga yfir svartasta skammdegið...
Alls 4,1 km á 1:25 klst. upp í 306 m hæð með alls 276 m hækkun úr 67 m upphafshæð.
Dásamleg æfing í sumarveðri enn einn þriðjudaginn á þessum einstaklega milda vetri... mjög dýrmætt að fá loksins Kolbein aftur til leiks og yndislegt að sjá sjaldséðu hrafnana sem komu þetta kvöld og maður finnur hvað manni þykir vænt um allt þetta fólk... mætum sem oftast... þetta er svo gefandi samvera og útivera ! Knús, knús elskurnar :-)
Comentarios