top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Mófell og Ok - síðustu 2 tindarnir af 24 í Skarðsheiði 2021 #Skarðsheiðardraumurinn

Tindferð n. 235 laugardaginn 18. desember 2021


Slagveður helgina 11. desember kom í veg fyrir síðustu gönguna um tinda Skarðsheiðarinnar og því voru ekki margir möguleikar eftir...


Ekki var einhugur innan klúbbsins um hvort væri betra að fara síðasta laugardag fyrir jól, 18. desember eða á öðrum degi jóla 26.12 eða á virkum degi milli jóla og nýárs... enda eðlilegt að það hentaði fólki misjafnlega hvaða dagar væru bestir... þjálfarar ákváðu því að halda áætlun og fara laugardaginn 18. desember þó veðurspáin væri ekki mjög spennandi og mjög fáir að mæta... þar sem ekkert var vitað hvort veðrið yrði okkur í hag milli jóla og nýárs...


Eingöngu sex manns mættir... logn en lágskýjað og ekki spennandi fjallasýn... en þó skyggni neðar þar sem lagt var af stað vestan við Kaldána sem við höfum stundum gengið austan megin upp með og stiklað svo yfir... en það var að sumarlagi og ekki fýsilegt að vetri...


Enda var heilmikið vatn í ánni og hún í raun ekki fær til stiklunar...


Gljúfur Kaldár fallegt í sumarfærinu og sumarveðrinu í raun... hlýtt og jarðvegur mjúkur...


Menn farnir að fækka fötum í hita og svita uppgöngunnar...


Hey ! Það er að létta til ! Svona er nú gott að vera alltaf vongóður og sjá bara bjart framundan...


Þéttur hópur sem naut þess að vera í litlum hópi og ganga sem einn maður þennan dag...

Örn aftur einsamall með hópinn í áttundu ferð sinni án Báru á árinu... (Grjótárdalur, Helgrindur, Súlárdalur, Hróarstindar, Sveifluháls, Elliðatindar, Þórólfsfell)... vel gert !


Mórauðakinn og Mórauðihnúkur hér austan megin í fjallgarðinum...


Skorradalsvatn hægra megin og Borgarfjörðurinn vinstra megin...


Ótrúlegt hversu oft það er sumarveður og sumarfæri fram í desember og jafnvel fram í janúar og svo skellur veturinn á þegar nýtt ár er mætt á svæðið...


Mó... er forskeyti á nokkrum örnefnum í norðanverðri Skarðsheiðinni... þarna liggja mórauð og líparítgul gil og kambar... svo nafngiftin á vel við... þetta er hulinsheimur sem fáir skoða vel... og var sérlega gaman að uppgötvar á sínum tíma þegar við fórum að hafa þriðjudagsæfingar hér fyrstu ár Toppfara...


Mófellið er viðamikil fjallsbunga með engan eiginlegan tind... en ofan við Mófellið rís greinanlegur hryggur þar sem aðeins þarf að brölta... og er hann merktur sem Ok á kortum... við teljum því þetta tvennt sem sitt hvorn tindinn enda auðvelt að ganga á Mófellið og sleppa Okinu...


Litadýrðin naut sín vel undan snjónum... Tinni hér glaður að leika úti með Batman fjallavini sínum...


Batman nýtur sín best þegar fleiri hundar mæta í göngurnar... en hann er oft eini hundurinn og búinn að ganga á ansi marga fjallstinda í lífinu...


Hryggurinn á Okinu... og Mófellið neðar...


Mjög fallegur staður sem kemur á óvart þegar að er komið í fyrsta sinn... hér er mjög fallegt þegar sólin skín á ljóst bergið og Skessuhornið blasir ógnvænlega við manni í nánast seilingarfjarlægð...


En fjallasýnin var ekki góð þennan dag... hærri tindar Esjunnar í skýjunum... við sáum vel hvernig útsýnið er þarna af myndbandi sem Kolbeinn tók þegar hann fór einn hér upp milli jóla og nýárs og upplifði tindana allt í kringum sig...


Nesti á tindinum áður en snúið var aftur niður...


Já... fámennt en góðmennt... og Kolbeins var sárt saknað... hann átti eingöngu þennan eftir... og fór hann 29. desember... ásamt því að ganga á Úlfarsfellið á leið heim þar sem hann náði með fádæma elju að klára 100 tinda á Úlfarsfellinu þetta árið...


Niður var farið svipaða leið með smá krókum... sjá ljósa bergið með snjónum... mjög fallegt þarna...


Neðri hluta hryggjarins á Oki og M'ofellið svo framar á leið niður...


Hundarnir léku sér í mjúkum snjónum...


Litið til baka upp eftir hryggnum á Okinu...


Sumarlegt þegar neðar dró...


... og bjart yfir í ljósu berginu...


Skessuhornið í skýjunum því miður... hér er sýnin á það mjög tignarleg...


Fallegu gilin í Mófellinu...


Farið í sveigjum niður eftir landslaginu...


Mynstrin og litasamsetningin í náttúrunni skákar öllum mannanna verkum...


Hryggurinn á Okinu efst á mynd...


Bleytu.. frost... mynstur í moldinni...


Hundarnir voru að njóta sín vel...


Komin niður úr fjöllunum og í sveitina... bærinn Mófellsstaðir rís neðan við Mófellið...


Mórauðakinn þar sem 14 ára afmælisgangan var í maí á þessu ári... https://www.fjallgongur.is/post/mórauðakinn-14-ára-afmælisganga-skarðsheiðartindur-nr-10-af-22-árið-2021


og Mórauðihnúkur og Hádegishyrna sem voru fyrstu tveir tindar ársins á Skarðsheiðinni... Tindferð 214 Hádegishyrna og Mór (toppfarar.is)


Skorradalsvatn... lét eins og það væri sumar... ekkert frost né klaki...


Kaldáin og gljúfur hennar... fallegur endir á göngunni...


Ákveðið að fara og skoða gljúfrið betur...


... og þannig náðist fallegasta mynd göngunnar... gleði, gleði, gleði !


Það hentaði vel að fara í stutta og létta göngu síðustu helgina fyrir jól...


Yndislegt að enda svona í miðri sveit... hestarnir forvitnir um ferðalanga og Jaana hestakona heilsaði upp á þá...


Mófellsstaðir og Mófellið hægra megin eða vestan megin við Kaldá...


Best að fara yfir ána á brúnni á þjóðveginum sjálfum en að sumri er eflaust hægt að ganga austan megin árinnar ef menn vilja og stikla yfir ef ekki er mjög vatnsmikið í ánni...


Malarstæðið við gámana henta vel til göngu hér upp...


Alls 9,9 km á 3:48 klst. upp í 515 m hæð með alls 502 m hækkun.


Til hamingju með að klára alla 24 tinda Skarðsheiðarinnar Ragnheiður og Þórkatla ! Kolbeinn náði þessu nokkrum dögum síðar og þar með var ljóst að eingöngu fjórir náðu að klára alla 24 tinda Skarðsheiðarinnar á einu ári... virkilega vel gert allir !


Hefðbundin tindferð að eigin vali í vinning fyrir alla sem luku þessum 24 tindum, endilega nýtið hana !


Sjá safnið hér með gps-slóðum á hverja leið á wikiloc. Allar leiðréttingar og athugasemdir vel þegnar... bara gaman að spá í þetta og hvort þetta sé tæmandi listi eður ei er óvíst... við ætlum t.d. að skoða betur tindinn sem rís undan Skarðshyrnu að sunnan... kannski hefði hann átt að vera með ?... ha,ha... þetta er endalaust !


Árið 2022 ætlum við að ganga á alla tinda Esjunnar #EsjanÖll2022 ... vonandi ná fleiri en fjórir að klára þá á árinu... við getum þetta... og skulum njóta í botn allan tímann !

28 views0 comments

Comments


bottom of page