Æfing. nr. 738 þriðjudaginn 17. janúar 2023.
Dagsbirtan lætur á sér kræla upp úr miðjum janúar... og því hófum við gönguna á Rauðuhnúka við Bláfjöll í ljósaskiptunum og nutum þess í botn að sjá landslagið svona vel áður en myrkrið skall stuttu síðar á...
Áfram sama veðrið... froststilla... um -10 gráður... en uppi og innar beið okkar ískaldur vindur með mikilli vindkælingu...
Litið til baka... Stóra Kóngsfell hér í sólsetrinu...
Stórkostlegt landslag... alger veisla þessi leið... en við erum alltaf hér að vetri til og tvisvar í myrkri... næst förum við að hausti og upplifum rauðu litina sem einkenna þessa hnúka...
Hnúkarnir eru margir og þessi ganga er ein upp- og niðurferð út í enda hryggjarins og svo á láglendi greiðlega til baka...
Það glitraði allt eins og í kvikmynd... teiknimynd þar sem búið er að ýkja allt saman... nema þetta voru ekki ýkjur... en myndavélarnar náðu þessari dýrð ekki...
Mikill kuldi og flestir orðnir loppnir á tánum á hálfri leið þetta kvöld... og tóku að efast um sokkana sína og skóna... en þetta var með eindæmum kalt...
Heilmikið klöngur og við máttum hafa okkur öll við þetta kvöld... einmitt besta æfingin í því !
Áþreifanlegur fjallafriður og fegurð ríkti þarna... stjörnur á himni fönguðust á ljósmyndum... mergjað !
Já... þetta var ekkert slor þessi leið... við vorum jú á æfingu... !
Höfuðljósin orðin svo góð að við erum í engum vandræðum ef það er gott veður að ganga á fjöll í myrkri...
Nautsterkur hópur og enginn í vandræðum með kuldann...
En hann beit vel á síðari hluta hryggjarins og við reyndum því að halda vel áfram til að ganga okkur til hita...
Fengum okkur samt smá nesti... og þá reyndi á hversu vel maður var klæddur...
Bestu vinirnir þeir Kolbeinn og Batman... hundarnir eiga hauka í horni í göngufélögum sínum sem gauka að þeim góðgæti og orkugjöfum í göngunum... þessi vinskapur er sérlega fallegur... og orðin og umhyggjan sem hundarnir fá er dásamleg...
Ljósmynd frá Sjöfn Kr. af fb ?
Þjálfarar ætluðu niður norðan megin og þeim megin til baka til tilbreytingar en snarhættu við það þegar vindurinn tók að blása vel úr norðaustri... þá var nú gott að geta komist í skjól sunnan megin til baka...
Keðjubroddarnir komu sér vel en héldu stundum ekki í þessum þurra og lauflétta snjó...
Mjög flott frammistaða hjá hópnum því þessi æfing reyndi vel á...
Mættir voru alls 17 manns: Agnar, Andrea, Arnór, Bára, Birgir, Guðmundur Jón, Jóhann Ísfeld, Katrín Kj., Kolbeinn, Kristín H., Magga Páls., Siggi, Sjöfn Kr., Steinar R., Þorleifur, Þórkatla og Örn en Batman, Moli og Snót stóðu sig glimrandi vel í þessum kulda og þessu klöngri...
Bakaleiðin var falleg meðfram hnúkunum öllum...
... og ágætlega fjölbreytt í skárra færi en við áttum von á...
Jóhann prófaði þetta gil hér meðfram leið Arnarins til baka... og lenti strax í miklu snjóþunga... varasöm þessi gil...
Alls 5,9 km á 2:56 klst. upp í 451 m hæð með alls 377 m hækkun úr 404 m upphafshæð...
Comments