Þriðjudagsæfing 5. október 2021.
Þessari göngu var frestað tvisvar vegna óveðurs á þriðjudegi vikurnar á undan og þá var annars vegar gengið á Mosfell og hins vegar á Úlfarsfell í miklum vindi en góðu skyggni... en hér hefði aðstæður verið mjög slæmar og varasamar í þeim stormum sem geysuðu þessa síðustu tvo þriðjudaga... svo þegar við keyrðum inn Svínadalinn og horfðum á neðri hvíta tindinn þarna framundan... farinn að fölna með vetrinum... þá prísuðum við okkur sæl fyrir að vera í lygnu veðri og vonuðum að þessi rigning sem buldi á okkur í bænum og á akstursleiðinni yrði ekki til staðar þarna upp frá...
Við fengum góðfúslegt leyfi bóndans í Neðra Skarði sem oft hefur reynst okkur vel... til að keyra alla leið upp í námurnar en þarna kynntumst við sem aldrei höfum keyrt þarna upp eftir, í fyrsta sinn veginum sem liggur austan við Skarðsheiðina og er stundum farinn þegar menn vilja stytta sér leið að Skessuhorninu...
Þessi færsla á upphafsstað göngunnar þökk sé liðlegum bóndanum, skipti sköpum fyrir okkur... því gangan styttist um 1,5 km með þessu (750 m hvora leið) og við gengum úr 124 m hæð í staðinn fyrir 65 m...
Rauðihnúkur hér rauðleitur þó erfitt hafi verið að sjá það almennilega þetta kvöld fyrir rökkri og snjó... við þurfum að fara hér að sumri til næst !
Til suðurs rísa tveir tindar út frá fjallsrótum Rauðahnúks... Syðri hnúkur sem er hér stuðlabergssleginn og svo Vatnahnúkur sem var ofar og við gengum á en ofan af honum birtast vötnin undir Skarðshyrnunni sem heita Skessubrunnar og vilja sumir heimamenn meina að Skarðshyrnan sé hið raunverulega Skessuhorn og að menn hafi ruglað þessu á sínum tíma...
Snókur hér svo fallegur og reisulegur með sólina að setjast á hafflötinn í vestri... þetta átti að vera kvöldsólarganga... þá hefðu litirnir í Rauðahnúk aldeilis notið sín... en því var ekki að skipta þetta kvöld því miður... og við vorum svo þakklát fyrir lognið að við tímdum ekki að svekkja okkur á skýjunum...
Komin ofan við Syðri hnúk með Snók í baksýn... sjá akstursveginn sem er mjög krefjandi og ekkert léttverk að keyra hann segja þeir sem hafa farið.... einhver hafði á orði að maður keyrði hann bara einu sinni...
Það var Hrafnaþing á hnúkunum sem skreyta hrygg Rauðahnúks... krummi krunkaði mikið yfir þessari hjörð sem fór yfir svæðið hans... og við horfðum dolfallin á...
Hrafnarnir að halda haustþing og skipta sér niður á bæina í Svínadal ? .... já, það má spyrja sig... dýrin vita sínu viti og meira en mannskepnan oft og tíðum...
Við röktum okkur eftir hrygg Rauðahnúks upp eftir... hér farið að sjást í Skarðshyrnuna...
Sjá hvernig snjófölin er farin að leggjast á efstu tinda Esjunnar...
Skarðshyrnan hér hægra megin...
Botnssúlurnar voru einstaklega fallegar þetta kvöld í fjarska... með fyrsta snjóinn sinn...
Sjá hér Skessubrunnana neðan við Skarðshyrnuna... sem heitir víst Skessuhorn að sögn sumra...
Rauðihnúkur kominn í ljós hér vinstra megin... og Skarðshyrnan hægra megin...
Ofan af Vatnahnúk í Rauðahnúk þurftum við að fara niður í lægð og aftur upp... líklega mætti því telja þennan tind sem sér tind... það er spurning... hvort maður nennir að flækja málin enn frekar...
Frábær mæting þetta kvöld:
Gerður Jens., Ágústa Þ., Elísa, Katrín Kj., Ragnheiður, Sjöfn Kr., Ásdís Hermanowicz gestur, Guðmundur Jón, Kolbeinn, Siggi, Svandís, Lilja Sesslja, Jaana, Þórkafla, Tómas, Sigurjón, Haukur, Vilhjálmur, Örn, Jóhanna D., Inga Guðrún, Sigurbjörg, Hjördís og Helga Rún með Batman fremstan og Bára tók mynd.
Efst var hálka... klaki á grjótinu og skaflar sem við sporuðum út en þeir voru all harðir efst svo það er komið harðfenni í fjöllin úr 700 m hæð eða svo... flestir með keðjubrodda en fáir settu þá undir... það var svo stutt eftir í tindinn og myrkrið að skella á...
Bara þessi eina brekka eftir...
Komin upp í 756 m hæð rétt fyrir myrkur... myndavélin lýsir þetta aðeins... það var rökkvaðra þarna en á myndunum...
Hér blasti Heiðarhornið við... hæsti tindur Skarðsheiðarinnar... og Skarðshyrnan líka... og gönguleiðin okkar á þessa tinda vestan megin...
Í vestri mátti sjá Blákoll og félaga... Hafnarfjallsöxl syðri snjólaus fjær, Hafnarfjallstindana alla og Hróarstindana nær en næst eru svo Geldingaárháls og Kinnahóll, Ytri Svartitindur Rauðahnúkafjall og Innri Svartitindur... en á þessi fjöll gengum við í magnaðri ferð árið
Töfrar ríktu á tindinum... fyrst var logn og menn settust niður og snæddu nesti...
Höfuðljósin skiptu sköpum þarna uppi...
Heiðarhorn og Skarðshyrna...
Birtan svo falleg á þessum myrkvuðu þriðjudagskvöldum... þetta er engu líkt...
Inga Guðrún bauð öllum upp á mjög gott nasl... við verðum að fá nafnið á því... þetta var með ólíkindum gott !
Klakinn... hálkan... við fórum varlega og flestir settu ekki á sig broddana þar sem þetta var stuttur kafli til baka í hálku...
... en veturinn er sannarlega kominn... þó það séu ennþá græn lauf á öllum trjám... þau hreinlega fara ekki í þessum stormum sem hafa geysað... vorið var kalt og þurrt... það er eins og haustinu hafi seinkað og það sé að þrjóskast við og vill ná sínum tíma...
Vel gekk að fara til baka... eins og svo oft áður var óþarfi að kvíða niðurleiðinni í myrkrinu og hálkunni... menn fóru þetta að herforingjastæl...
Töfrarnir í myrkrinu... þetta er einstaklega falleg... fyrstu höfuðljós Toppfara lýstu margfalt minna en þetta... samt fórum við... en þá reyndar bara á esjuna og Úlfarsfell og annað saklaust... en svo fórum við að færa okkur upp á skaftið þegar árin liðu... og nú erum við um allt í myrkrinu með höfuðljós sem lýsa margfalt lengra og betur en þau fyrstu... þetta er ekkert mál í góðu veðri... en allt annað mál í slæmu veðri...
Alls 7,0 km á 2:57 klst. upp í 756 m hæð með 670 m hækkun úr 124 m upphafshæð.
Hörkugóð og virkilega flott kvöldganga... þessi var alvöru... eða fullorðins eins og Þorleifur orðar það en hans var sárt saknað þar sem hann er einn af fáum sem hefur náð að fara alla Skarðsheiðartindana til þessa... hann verður að ná þessum á árinu, ekkert annað í boði... það er ótrúlega gaman að kljást við áskoranir eins og þessa... að ná öllum 23 tindum Skarðsheiðarinnar á einu ári...
Comments