top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Sólgleraugnaganga í snjóstormi á Úlfarsfell frá Skarhólamýri

Æfing nr. 741 þriðjudaginn 7. febrúar 2023.


Sólgleraugnagangan átti að vera á Þorbjörn í Grindavík þar sem fagna átti því að sólin sé ekki sest þegar æfing hefst kl. 17:30... hún settist sem sé kl. 17:34... en þar sem spáð var vindi og snjókomu og illfært var á vegum utan borgarinnar... neyddumst við til þess að færa gönguna innanbæjar og fara á Úlfarsfellið... og völdum þá næst sjaldfarnasta brottfararstaðinn... frá Skarhólamýri norðan megin...


Mættir voru tíu manns... en við enduðum á að hitta á og ganga með fimm Toppförum og einum gesti þegar yfir lauk göngu einum og hálfum tíma síðar...


Fínasta veður til að byrja með... lítið skyggni þegar við keyrðum að Úlfarsfellinu en það var eins og það vildi vera stillt og prútt fyrir okkur til að byrja með... og við askóðum upp brekkurnar í fannferginu svo lítið sást til slóðans sem vanalega er hér upp...


Guðmundur Jón var í nýjum keðjubroddum... keyptum á Ali Express... fleiri broddar á þessum en okkar... nú verður gaman að sjá hvort þeir endist og virki eins... en okkur leist vel á þá til að byrja með...


Þegar ofar dró mætti vindurinn á æfingu og skafrenningurinn bættist í hópinn...


Litið til baka... það reyndi vel á búnað á þessari æfingu... einmitt þess vegna er svo gott að mæta... og til að æfa handtök og form við þessar aðstæður...


Gott skyggni og dagsbirtu naut alla leið upp á Stóra hnúk... það var hreint dásamlegt eftir myrkur frá fyrsta skrefi frá því um miðjan nóvember 2022...


Skíðagleraugun áttu eftir að koma sér mjög vel á æfingunni... og sólgleraugun gerðu sitt fyrir þá sem héldum þeim á andlitinu eftir hópmyndatökuna í byrjun göngu...


Farið að bregða af degi síðustu metrana upp á Stóra hnúk...


Snjórinn að mestu fokinn efst í Úlfarsfellinu... en oft skefur hér í mikla skafla...


Efst í fellinu var mikill vindur og kalt...


Uppi á svölum Úlfarsfells hittum við Aðalheiði og Örn Toppfara og voru það fagnaðarfundir... þjálfari tók loforð af Aðalheiði að þau myndu mæta á æfingu í næstu viku á Þorbjörn... er það ekki annars ?


Hér birtist Halldóra Þórarins líka með systur sinni og því vorum við orðin 14 manns á Stóra hnúk... og einn erlendur gestur skellti sér með á hópmyndina sem var bara gaman... kærastan hans að við töldum tók mynd af honum með þessu skrítna göngufólki... :-)


Gustav, Halldóra Þ., Johan, Lilja Sesselja, Linda, Sjöfn Kr., Þórkatla, Kolbeinn, Örn, Aðalheiður og Örn Alexanders en Bára tók mynd - og það vantar bæði Guðmund Jón og systur Halldóru á myndina...


Auðvitað tókum við stóra hringinn á fellinu... veðrið var ennþá skaplegt þannig séð... farið að rökkva óðum... en vel göngufært... við stefndum því á Litla hnúk...


Skaflinn góði suðaustan undir honum sem oft er mjög harður og erfiður var allur hrjúfur og vel fær á keðjubroddunum... en það var betra að hafa þá rétt staðsetta á skónum samt...


Við fórum að trénu hans Kolbeins... nú er óðum að koma skógur hér... og þeir sem halda áfram að ganga með okkur næstu árin... eiga eftir að upplifa skóg hér eftir nokkur ár... eins og við upplifðum norðan megin undir bröttu brekkunni... sem byrjaði sem svona saklaust svæði með nokkrum trjágræðlingum... en skyndilega eru þetta orðin stór tré og þétt skógarþykkni sem maður gefst upp á að fara í gegnum og fer bara meðfram... það verður gaman að sjá hvað gerist hér eftir svona fimm ár...


Litið til baka... Halldóra Þórarins og Hildur systir hennar en þær voru formlega séð ekki með okkur á æfingu en þjálfari vildi eindregið hafa þær með hópnum þegar veðrið versnaði snarlega stuttu áður en komið var upp á Hákinnina...


Hér varð bálhvasst og skyggnið hvarf algerlega...


Nú reyndi á búnað og að halda hópinn þar sem auðvelt var að verða viðskila þegar skyggnið hvarf og vindurinn var svo hvass að erfitt var að sjá fram fyrir sig ef maður var ekki með gleraugu einhvers konar...


Frábær æfing í einmitt þessum slag við veðrið... en auðvitað héldum við áfram að spjalla og hlæja... og njóta...


Hundurinn Batman hrímaðist allur og barðist við veðrið eins og við í sama gallanum og með sömu klærnar og hann skartar allt árið um kring... alltaf vel búinn sama hvað...


Og veðrið tók ekki af honum vonina um eina kleinu frá Kolbeini... sá dýrkar þennan vin sinn aldeilis...


Á Hákinn var veðrið verst... hér reyndi virkilega á að halda hópinn... í svona veðri reynir á að leyfa sjálfum sér ekki að dragast aftur úr heldur halda algerlega í við hópinn... og stoppa ekki til að stússast eitthvað heldur bíða þar til hópurinn er þéttur... regla sem við skulum rifja upp á næstu æfingu...


Fljótlega þegar komið var á stíginn niður Skarhólamýrina lagaðist veðrið aftur... snarlagaðist... eins og hátturinn hefur verið síðustu vikurnar... hvass éljagangur þar sem slæmt veður skellur fyrirvaralaust á hvar sem maður er staddur... og fer svo yfir og aftur kemur skaplegra veður... magnað alveg... en þessi vetur frá um miðjan desember hefur virkilega reynt á með hvern lægðaganginn á fætur öðrum... fjórar lægðir í þessari viku... og spáð fjórum lægðum í þeirri næstu... það þýðir ekkert annað en bara halda áfram, hlæja mót vindinum og hafa gaman...


Alls 5,1 km á 1:44 klst. upp í 304 m hæð með alls 345 m hækkun úr 90 m upphafshæð.


Geggjuð æfing, dýrmætur lærdómur, bestu félagar í heimi !

21 views0 comments

Comments


bottom of page