top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Sandfell í Kjós í roðaslegnu sólarlagi

Æfing nr. 746 þriðjudaginn 14. mars 2023.


Sandfellið í Kjós stelur alltaf athyglinni þegar ekið er um Kjósina... en það var þriðjudagsfjallið um miðjan mars...


Heiðskírt og sólin enn hátt á lofti... logn þegar við lögðum bílunum við Laxá í Kjós... og lygnt alla leiðina upp nema ískaldur vindur lék um tindinn...

Bára þjálfari var að mæta í sína fyrstu fjallgöngu eftir að hafa misst af þremur þriðjudagsgöngum og tveimur tindferðum... sem hefur aldrei gerst áður... vegna flensu en svo hnémeiðsla...


Vindáshlíð hér í baksýn og Kjölur efst í Kjós ásamt Írafelli og Skálafellshálsi hægra megin...


Mjög fallegt fjall og ágætlega krefjandi þegar ofar er komið...


Lausgrýttar brekkurnar efst og því ágætis kvöldgönguverkefni...


Uppi tók sólarlagið á móti okkur... og vindurinn... ægifagurt og litríkt...


Áfram þessi kuldi sem nú hefur tekið við... eins og kuldakaflinn í byrjun desember... sérstakt veðrið í vetur...


Norðurhlíðar Esjunnar snjóþyngri en þær sunnan megin sem blasa við borginni... sláandi að upplifa muninn... mun kuldalegra hérna megin...


Óskapega fallegt sólarlagið uppi á Sandfellinu... í 405 m hæð... og mikið útsýni í allar áttir...


Sólin í skýjunum í vestri við Eilífsdal Esjunnar... Meðalfellið hægra megin...


Skarðsheiðin í fjarska... Reynivallaháls vinstra megin...


Skálafellið... Múli... Trana... Fremra og Heimrahögg og Möðruvallaháls... Eyjadalurinn hægra megin.. við þurfum að ná hringleið kringum hann við tækifæri... sem og að þvera Esjuna alla... báðar leiðir náðust ekki í fyrra vegna lítils áhuga... látum það ekki stöðva aftur för ef veður leyfir...


Guðmundur Jón mældi vindinn uppi á Sandfelli 12 m/sek...


Frábær mæting á þriðjudögum í vetur og allt síðasta ár... það er elja í hópnum og flestir búnir að átta sig á hversu mikil verðmæti felast í þriðjudagsæfingunum... þær eru veisla...


Johan, Jaana, Þórkatla, Siggi, Guðmundur Jón, Örn, Sjöfn Kr., Linda, Silla, Maggi, Katrín Kj., Lilja Sesslja, Sigrún Bjarna, Inga Guðrún og Kolbeinn en Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn...


Niður var farið norðvestan megin...


Roðaslegið sólarlag í stíl við eldgosahúfuna hennar Lilju Sesselju...


Heilandi litir og landslag... krefjandi niðurleið í lausgrýttum brekkunum en vel færum...


Smávegis skjól hér... menn vildu ekki nestispásu í þessum kulda...


Niðri var ´solin farin en dagsbirtan ennþá... allt frosið í kuldanum... leiðin greið í gegnum mosann í áttina að skóginum og síðustu klettahjöllunum...


Skemmtilegt klöngur hér neðarlega í brekkunni...


Skógræktin orðin heilmikil hér...


Sjálfsáð fura um allt eða græðlingar ? ... við vorum ekki viss...


Ísfossar í klettabeltinu neðst... svo fallegt...


Englarnir sem fylgdu haltrandi kvenþjálfaranum í þessari göngu voru margir... fyrir það er ég svo þakklát... takk fyrir umhyggjuna í garð hvert annars þegar á bjátar og menn (jebb, við erum ÖLL menn )...detta tímabundið út og fá hlýjan faðminn þegar þeir mæta aftur eftir hlé #Þriðjudagsþakklæti


Hvílíkt lán að hafa heilsu og svigrúm til að ganga á fjöll að kveldi til allt árið um kring í öllum veðrum, birtu og færi... og hafa bestu félaga í heimi sér til samlætis... þið eruð langbest !


Alls 5,8 km á 2:18 klst. upp í 405 m hæð með alls 356 m hækkun úr 80 m upphafshæð.

98 views0 comments

Comments


bottom of page