top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Stóra Skógfell, Sundhnúkur og Hagafell Reykjanesi

Updated: Apr 25, 2023

Æfing nr. 748 þriðjudaginn 28. mars 2023.


Frekar löng en greiðfær leið var þriðjudagsæfingin í lok mars á Stóra Skógfell, Sundhnúk og Hagafell en að þessu sinni slepptum við Sýlingarfellinu sem var tekið í fyrstu og einu ferðinni hingað til um þessa leið árið 2015... Allar þriðjudagsæfingar frá aprí (toppfarar.is)


Við gengum því meðfram Sýlingarfelli að norðvestan og römbuðum svo inn á góða kindagötu sem lá til Stóra Skógfells yfir úfið hraunið en sú gata var ekki gengin árið 2015...


Góð mæting þrátt fyrir mikinn vind í veðurspánni sem gaf okkur tilefni til að gera ráð fyrir að stytta æfinguna... sem endaði svo á að nást í heilu lagi alls 10 kílómetra þar sem veðrið var mun betra en spáin sagði til um... við heppin...


Kolbeinn, Johan, Katrín Kj., Dina, Öyvind, Þórkatla, Sigríður Lísabet, Ása, Guðmundur Jón, Sigrún Bj., Inga Guðrún, Þorleifur og Örn en Bára tók mynd og Batman og Myrra léku sér með...


Öyvind var í sinni fyrstu göngu með hópnum en hann er frá Noregi en á íslenska fjölskyldu hér og talaði ágætis íslensku eftir ársdvöl...


Sumarfæri... hlýir vindar... dagsbirta... þurrt veður... það var nákvæmlega allt eftir því sem best var kosið nema vindurinn...


Litla Skógfell í norðvestri á leið upp brekkur Stóra Skógfells... við eigum það eftir og tökum það næst...


Stóra Skógfell er tvíhnúkótt og við fórum beint á efri tindinn þar sem vindurinn blés vel þegar ofar var komið... það mældist 221 m hátt...


Hressandi og frískandi :-)


Nýi gígurinn í Geldingadölum rís aðeins upp úr fjalllendi Fagradagsfjalls... það er kominn tími á að ganga aftur á þessar slóðir... hringinn í kringum hraunið og upp á gíginn...


Gígaröðin sem rennur framhjá Stóra Skógfelli og til Hagafells... Húsafjall vinstra megin... Sýlingarfell og Þorbjörn hægra megin...


Takk íslenska hraun fyrir sláandi fegurð, orku og fjölbreytileika... óþrjótandi kynjamyndir og áhrifamikla jarðsöguna sem blasir við okkur gömul og glæný um allt... #Þriðjudagsþakklæti


Við gengum eftir gígaröðinni þarna niðri og enduðum á Hagafellinu áður en við snerum til baka í bílana í ljósaskiptunum í loks kvölds...


Fagradalsfjall, Langihryggur, Festarfjall, Fiskidalsfjall... ofl... brúni gígurinn framar á mynd er nafnlaus en hluti af gígaröðinni... á korti heitir þetta svæði Sprengisandur... og hraunin heita Beinavörðuhraun... og norðar er Dalahraun... og nú hefur bæst við Geldingadalahraunið og Meradalahraunið...


Nestispása var í skjóli við fjallsrætur Stóra Skógfells áður en við straujuðum meðfram eða upp á gígaröðina sem var framundan... og völdum að fara um Skógfellsstíg sem er vel troðinn og greinilega mikið genginn... en hefðum eftir á að hyggja átt að fara upp á þennan gíg... nafnlaus en formfagur...


Skógfellsstígur liggur smám saman frá gígunum og því yfirgáfum við stíginn og héldum okkur við gígana... enda var ætlunin að fara upp á Sundhnúk sem er þeirra hæstur sunnan megin í röðinni... en sá nyrðri á fyrri mynd mætti hafa nafn einnig...


Kolbeinn fann korkplötu... og menn voru ekki lengi að bregða á leik... Inga Guðrún sem Drottninguna af Saba :-)


Litið til baka... Stóra Skógfell í fjarska og fallegi hnúkurinn í gígaröðinni...


Fínt að klöngrast loksins aðeins upp á þessa gígaröð...


Greiðfært og skemmtilegt... minnti á Eldvörpin en við urðum ekki vör við mikinn jarðhita hér eins og þar...


Önnur nestispása hér á Sundhnúk sem mældist 143 m hár... og spáð í hvort við ættum að snúa til baka eða halda áætlun og taka Hagafellið sem var í 800 m fjarlægð í beinni línu til suðsuðvesturs...


Jú... það var þarna rétt hjá... auðvitað slepptum við því ekki sko !


Lungamjúkt og skemmtilegt hér yfir...


Mosinn má sín lítils gegn skóm og stöfum... kvenþjálfarinn og ritari þessarar sögu stóð sig að því að pota ósjálfrátt stöfunum í mosann á spjalli í einni pásunni... eins og þetta væri snjór en ekki lifandi vera... alls endis óvön að vera með stafi en nýtur þeirra núna vegna rifins liðþófa í hnénu... hugsunarlaust... og skaðlegt mosanum... passa mig næst... og ljóst af þessari stuttu notkun á göngustöfum sem ritari er annars aldrei með... að eingöngu stafirnir markera mikið landslagið einir og sér... hvað þá skórnir okkar eftir heilu hjarðirnar á göngu...


Á leið upp á Hagafellið mættu ljósaskiptin...


Útsýnið til Grindavíkurbæjar... sem fer á hvolf þegar gýs á Reykjanesi... en fær að sleikja sárin þess á milli...


Mikið spjallað og spáð... en í þessari göngu bárust þjálfurum þrjár slæmar fréttir af högum núverandi og fyrrverandi klúbbmeðlima sem voru sláandi... hlúum vel hvert að öðru... verum alltaf góð hvert við annað... það er aldrei að vita hver stendur í stórræðum í lífi sínu og þarf á smávegis knúsi, brosi, vinsemd, styrk, stuðningi, hvatningu, orku, kærleika að halda... öll göngum við í gegnum erfið tímabil í lífinu og þá er gott að eiga göngufélagana að sem alltaf mæta manni með bros á vör og hlýju... það er ómetanlegt...


Leiðin okkar þetta kvöld ofan af Hagafelli... lengst í fjarska er Stóra Skógfell... nær er Sundhnúkur á gígaröðinni og vinstra megin er Sýlingarfell þar sem við lögðum bílunum... og jú, hægra megin er Fagradalsfjall sem skyndilega varð heimsfrægt þegar gosið hófst í Geldingadölum árið 2021...


Ása mætti í nýrri riddarapeysu og þjálfari dreig í að taka eina riddarapeysumynd með vinum hennar, öðrum prjónapeysum... fallegar og ólíkar en hver með sínu lagi...


Þegar haldið var niður af Hagafelli fundum við djúpar holur í fjallinu og heilu sprungurnar sem virtust við það að opnast á holrúm undir hrauninu...


Hálf óhugnanlegt og við fórum varlega en skoðuðum þetta samt vel og prófuðum að senda grjót niður í holurnar og átta okkur á falllengdinni í hvínandi vindinum og gátum ekki betur heyrt en að h0lurnar væru talsvert djúpar... stafirnir náðu ekki til botns...


Niður norðvestan megin...


Riddarapeysan hennar Ásu... hvít með einum bláum lit sem er breytilegur... handlitaður og keyptur á Húsavík... ath !


Yfir þessa hraunbreiðu til baka í bílana við Sýlingarfellið hægra megin á mynd...


Farið að myrkva og flestir kveiktu ljósin í lokin á göngunni...


Meiri snjór í norðurhlíðum... ótrúlegur munur á suður- og norðurhlíðum... segir heilmikið um hversu mikilvægt það er að staðsetja sig frekar í suðurhlíð en norðurhlíð þegar maður velur sér stað fyrir bústað, bæ eða heimili...


Við vorum sammála því að þetta væri hrein sjálfspyntingarhvöt... að vera með svo langa göngu að við þyrftum höfuðljósin í lok mars... loksins þegar dagsbirtan var komin eftir veturinn... en þetta var fínasta æfing samt ! :-)


Alls 10,0 km á 3:39 klst. upp í 221 m hæð hæst með alls 477 m hækkun úr 46 m upphafshæð. Frábær æfing sem var heldur löng en sigur að ná að fara hana alla í betra veðri en áhorfðist og mjög dýrmæt æfing fyrir vorferðirnar og sumarferðirnar sem eru framundan, já, og allar utanlandsferðirnar sem hinir ýmsu klúbbmeðlimir eru að fara í næstu vikurnar... það verður veisla !

393 views0 comments

Comments


bottom of page