Tindferð nr. 252 sunnudaginn 11. september 2022.
Fjórða og síðasta hálendisferðin þetta síðsumarið og haustið var sunnudaginn 11. september... og ekkert slor á verkefnalistanum... tvö af mest áberandi fjöllunum sem varða Laugavegsgönguleiðina... stór og brött... og sjaldfarin með meiru...
Þegar við keyrðum upp með Emstruleið var ljóst að göngur væru hafnar í Fljótshlíðinni... en sauðfé svæðisins færði sig yfir á eyrar Gilsár meðan jeppaflotinn okkar keyrði inn eftir að Emstrum...
Rjúpnafellið þakkaði okkur fyrir síðast... fyrir kyngimagnaða ferð um Tindfjallahringinn og upp á þennan flotta tind í júní síðastliðnum... eins og við höfum oft keyrt hér upp eftir... þá var einstakt að geta nú rifjað upp minningar uppi á þessu fjalli og yljað sér...
Mófell heitir svo fjallið vinstra megin... það er komið á verkefnalista Toppfara...
Tindfjöllin í þórsmörk... þjálfarar sáu nokkrar góðar leiðir upp á þau í júní... þau eru líka komin á verkefnalistann... líklega fyrir næsta sumar...
Einnyrningur... einnig eitt af mest áberandi fjöllunum sem varða Laugaveginn... en hann hefur verið genginn tvisvar í klúbbnum... árið 2012 í eftirminnilegri 5 ára afmælisferð klúbbsins... og svo í fyrra í kvöldsólinni með Illusúlu í einni ef mörgum flottustu ferðunum í sögunni...
Þegar komið er upp á hálsinn sem liggur svo niður í Mosa blasir Hattfellið svipmikið við og tekur vel á móti manni sem útvörður hálendisins... Líklega er það fjall fegurst af þeim sem skreyta Laugaveginn... en fleiri fjöll eru samt í harðri samkeppni...
Við stóðumst ekki mátið og tókum hópmynd af okkurn með fjall dagsins í baksýn...
Agnar, Kolbeinn, Ísleifur, Haukur, Gunnar Már, Sigríður Lísabet, Þórkatla, Linda, Jaana, Sjöfn Kr., Siggi, Gulla, Hlökk, Bolli gestur, Oddný T., og Örn en Bára tók mynd og Silla og Birgir fóru ekki út í rokið sem þarna var...
Vá... svo fallegt fjall... þessi grasi gróni hattur uppi... skyldum við komast þarna upp... þjálfarar voru ekki vissir og áttu alveg eins von á að við kæmumst bara upp að en ekki upp á... og sama átti við um Stórusúlu... hvorugt fjallið lofaði hæsta tindi í huga þjálfara og því var þetta fullkominn fjallaferð... til að gá... hvort við kæmumst...
Tindfjallajökull var í skýjunum um morguninn og veðurspáin stóðst upp á staf... jöklarnir í kring yrðu með skýin yfir sér þennan dag en sólin skini annars staðar...
Komin nær Hattfelli... þjálfarar skoðuðu Hattfellið vel í könnunarleiðangri á það og fleiri fjöll í nágrenninu og þá leist okkur best á þessa hlið fjallsins... norðurhlíðarnar... en menn fara almennt upp hinum megin... en við vissumn ekki um neinn sem tekist hefði að fara alla leið upp á efsta tind nema Hugrúnu Hannesdóttur, fjallkonu með meiru... en gps-slóð hennar er á wikiloc og við höfðum hana til hliðsjónar í göngu dagsins... og átti hún eftir að vera örlagavaldur í endanlegu leiðarvali...
Stórasúla blasti svo við af söndunum þegar þangað var komið... stór og brött... vesturhlíðarnar mest aflíðandi og besta leiðin líklega... en þjálfurum hafði litist vel á suðurhlíðarnar í könnunarleiðangri í fyrra... en voru samt ekki vissir með alveg efsta hlutann þar sem smá klöngur er efst... einnig á þessu fjalli studdust þjálfarar við gps-slóð af wikiloc frá Tiindur sem var gott að sjá því þá vissum við að einhver hafði farið þarna upp og svo var gott að fá fréttirnar þegar Doddi og Njóla gengu á Stórusúlu fyrr í sumar en þá fór Njóla ekki upp á efsta tind sem gaf okkur tilefni til að gruna að efsti hlutinn yrði krefjandi í bratta og klöngri... enga aðra vissum við til þess að hafa farið þarna upp en svo hlyti þó að vera þar sem fjallið liggur beint við af veginum og er jú bratt en virðist ekki ókleift að sjá upp í skarðið milli tinda...
Gullfallegt veður þennan dag... og fjallasýnin með ólíkindum... þessa leið keyra ekki margir... jeppasafaríið í hálendisferðunum okkar er ekki minna ævintýri en sjálfar göngurnar... og lúmskt skemmtilegt að fara þetta á jeppum frekar en í rútu þó hún hafi sannarlega sína kosti... því þá lærum við öll á leiðirnar og við tökumst á við verkefni akstursins, leiðarvals og hindrana á hverjum stað... heimurinn opnast, minnkar og tengist og skyndilega erum við búin að keyra flestar hálendisleiðir landsins og getum staðsett okkur í minningabankanum þegar rætt er um hálendið... það er ómetanlegt !
Stórkonufell... það er á dagskrá á næsta ári... mjög fallegt fjall sem setur líka mikinn svip á Laugaveginn... en er ekki nærri eins "frægt" né nefnt eins oft á nafn og Stóra súla og Hattfell... þangað verður ómetanlegt að koma...
Komin að fjallsrótum Stórusúlu... suðurhlíðarnar bakaðar sólinni... svalur vindur en ekki þetta rok sem var nær sjávarsíðunni... fullkomið veður og skyggni... þetta var sko dagurinn til þess arna !
Lagt var af stað kl. 10:15 eftira kstur úr bænum kl. 7... það tók okkur sem sé rúma þrjá tíma með öllu að komast hingað...
Smáfjallarani hér, Smáfjöll og svo Stórkonufell lengst til hægri...
Bílarnir í fjarska með Mýrdalsjökulinn, Smáfjallarana, Bláfjöllin og upptök Bláfjallakvíslar þarna við jökulinn...
Smáfjallarani, Smáfjöll og svo Stórkonufell koma betur í ljós...
Farin að sjá Strút og Mælifell á Mælifellssandi... þarna í fossinum rrennur Bláfjallakvísl niður í Kaldaklofskvísl... magnað að sjá þetta og við sáum eftir því að hafa ekki farið að fossinum frekar á uppleið en þetta blasti við ofan af fjallinu svo sem... nær eru svo fjöllin vestan við Hvanngilið sem heita einu nafni Hvanngilshnausar... og eru auðvitað komnir á verkefnalistann yfir #Laugavegsfjölllin
Stórasúla var brött frá byrjun... eins og Hattfellið... en gott hald í mosa og grasi alla leið upp...
Brattinn fangaðist illa á mynd en þetta gerist ekki mikið brattara í venjulegri fjallgöngu...
Við tókum okkur góðan tíma í að feta okkur hér upp... grasið ekki of blautt né of þurrt... þetta var fullkomið... haustið er besti tíminn hér uppi á hálendinu...
Smá vin í brekkunni hér... vestar er gilið þar sem við komum niður... en við héldum okkur austan megin við hrygginn þó sú leið væri erfiðari til að fara ekki alveg sömu leið upp og niður...
Flott leið og greiðfær lengstum...
Torfajökull í skýjunum lengst til vinstri... Strútur og Mælifell lengst í burtu... Hvanngilshnausar nær... Kaldaklofskvísl og Bláfjalalkvísl að sameinast í gljúfrinu...
Brattinn jókst ofar...
En þetta var bara ein brekka... ekki löng... gott færi... frábært veður... við gátum ekki annað en notið þess að brölta þetta þó krefjandin væri...
Hnausþykkur mosi, lyng og gras... eljan í náttúrunni er aðdáunarverð...
Hér þurfti ekki mikið að halla sér til að setjast... brattinn var það mikill...
Enginn slóði hér upp en svo var slóði uppi á hryggnum sem kom á óvart... en samt gott að fleiri hafi vit á að fara hér upp... spurning hvert sé hlutfall Íslendinga og útlendinga... erlendis ferðamenn eru mun lunknari og áhugasamari oft að fara nýjar leiðir uppi á hálendinu... upplifa þetta á annan hátt en við...
Komin að efri klettastrítunni... klöngrið að hryggnum og yfir hann tók aðeins í... það var mun betra að vera hinum megin við hann og eftir á að hyggja mælum við með að fara upp vestan við hrygginn (klettastríturnar) í gilinu því það er saklausara landslag...
Komin hinum megin hryggjarins efst í gilinu og hér blasir lægri, vestari tindur Stórusúlu við... græni liturinn í þessari ferð var með ólikindum djúpur og fagur...
Komin lengra upp... sjá eins og gígop í miðjum hryggnum í skarðinu á Stórusúlu... Hattfellið hægra megin farið að sjást í vestri... Stórkonufell vinstra megin... Eyfjafjallajökull lengst vinsrtra megin og Tindfjallajökull hægra megin...
Illasúla og Litla og Stóra Grænafjall... með sameinaða Kaldaklofskvíslina og Bláfjallakvíslina sem hafa einnig fengið til sín Bratthálskvísl og Grashagakvísl... rennandi þarna niður eftir... þar sem hún kemur svo öll í Markarfljótið sem svo rennur milli Illusúlu og Stóra Grænafjalls... þetta eru stórkostlegar slóðir... og því meira sem maður gengur hér... því dolfallnari verður maður... og andaktugur yfir því sem fyrir augu ber...
Hryggurinn á Stórusúlu liggur frá skarðinu til austurs... og er greiðfær til að byrja með...
Kalfaklofskvíslin... Brattháls... Álftavatn... Torfatindar... Laugafell... enn ein nýja sýnin á svæðið sem gefur manni samhengi yfir allt þetta landslag... enn ein fjöllin komin á listann yfir framtíðarferðir í söfnun fjallanna sem skreyta Laugaveginn #Laugavegsfjöllin
Hryggurinn vinstra megin...
... og hægra megin... hér voru miklir sviptivindar sem gerðu þetta brölt hér erfiðara en ella...
Við þurftum stundum að nota hendurnar... það var ekki spennandi að fjúka hér niður...
Ofar var saklausari leið upp á efsta tind... allir fóru alla leið sem var mikils virði í svona ferð því það er ekki gaman ef einhver situr eftir og líst ekki vel á aðstæður... sem vel hefði getað gerst á þessum kafla sem var að baki...
Tindur Stórusúlu mældist 945 m hár... hún er sögð 922 m sem er svolítið fjarri lagi...
Nokkrir klöngruðust innar en upp á efsta tind... hér þurfti að fara varlega því vindurinn blés harkalega og tilviljanakennt... en það var svo freistandi að skoða aðeins...
Ekki gott pláss fyrir marga í einu... hvorki á tindinum né á hryggnum...
Sumir eru allsensis ólofthræddir og leika sér mest á svona stöðum... Sjöfn Kristins og Sigríður Lísabet...
Svakalegt útsýnið... skálinn í Hvanngili og leiðin þangað á Laugavegsgönguleiðinni... brúin og vaðið yfir Kaldaklofskvísl... og svo árnar okkar góðu, Hvanngilshnausar... Torfajökull efst í skýjunum... Strútur og Mælifell... það var magnað hvernig skýin héngu á jöklunum öllum... en létu lægri fjöllin alveg í friði... sem hentaði okkur mjög vel þennan dag...
Kaldaklofskvíslin og Bláfjallakvíslin að renna saman... Mælifellssandur... Mýrdalsjökull... Bláfjöll við jökulinn þaðan sem Bláfjallakvíslin kemur... þangað verðum við að fara og sjá betur upptök hennar.. búin að sjá upptök Kaldaklofskvíslar í stórkostlegri ferð í fyrra á Torfajökulinn... sá staður var mjög áhrifamikill og stórbrotinn... þar sem jökullinn fellur fram milli tinda hans og Kaldaklofsfjalla...
Austari klettastrítan neðan við efsta tind...
Álftavatn og Laufafell...
Illasúla, Litla og Stóra Grænafjall...
Hattfellið, Tindfjallajökull. Illasúla og Litla og Stóra Grænafjall...
Sést smávegis í tind Ýmu í Tindfjallajökli... hún reyndi að brjótast út allan daginn...
Hattfellið... beið okkar...
Til baka af hryggnum bak við tindinn...
Menn settust í skjóli og nutu útsýnisins... lítið pláss og bratt en þetta hófst...
Hvílíkt útsýni...
Ísleifur klöngraðist út á klettastrítuna...
Niður til baka... hvílíkt landslag...
Ísleifur að koma til baka... hann glímdi við mikla lofthræðslu fyrstu ár Toppfara... en hefur nú klöngrast upp á mjög brött fjöll síðustu ár einn á ferð að mestu og sigrast meira á lofthræðslunni en kvenþjálfarinn og fleiri í hópnum.... aðdáunarvert með meiru... og segir allt um að lofthræðsla er yfirstíganleg með einbeittum vilja og einurð...
Hópmynd hér... á Stórusúlu með Illusúlu í baksýn... það var ekki annað hægt !
Litið til baka upp eftir tindinum...
Niður sömu leið um hrygginn... klöngrið gekk getur á niðurleið einhvern veginn því vindurinn var hagstæðari...
En það þurfti að fara varlega... fallið hátt beggja vegna...
En auðvitað tókum við þetta bara á spjallinu og hlátrinum.. það er besta leiðin...
Komin í skarðið þar sem við ákváðum að fá okkur nesti í von um að það yrði skjól fyrir vindinum sem rauk um tindinn...
Uppgönguleiðin okkar hér í heild... erfiðara en um gilið þar sem við fórum niður... bílarnir sjáast þarna ljós punktur við veginn...
Yndislegt nesti... í skærgrænu grasi... eins og varð raunin á hattinum á Hattfelli síðar um daginn...
Magnað að fara út að borða með Mýrdalsjökli...
Gígurinn... gervigígur eða hvað ?
Ekki voru allir á því að skjótast upp á lægri tindinn... en þjálfarar tóku ekki annað í mál... hann var allt of nálægt og stuttur til annars... og sveik sannarlega ekki... kom verulega á óvart...
Því uppi var hryggur sem náði til vesturs í aflíðandi halla og gaf enn betra útsýni að Hattfelli...
Mjög skemmtilegur kafli...
Birgir og Jaana með Súluhryggina svo úteftir í átt að Hattfelli...
Þessi leið niður hefði verið mjög góð... þjálfarar sáu eftir því að hafa ekki farið hana... en vildu ekki flækja gönguna of mikið því Hattfellið beið með mun hærra flækjustigi en Stórasúla... svo þessi leið bíður okkar síðar...
Til baka eftir vestari tindinum...
Greiðfær tindur...
Kyngimagnað að koma svo hér að skarðinu...
Oddný T og Jaana eðal fjallkonur sem alger forréttindi eru að ganga með...
Hærri tindurinn hér blasandi við okkur ofan af þeim lægri... hvílík sýn...
Stórasúla gaf okkur glæsilegar ljósmyndir og kyngimagnað útsýni sem gleymist aldrei...
Niður var svo farið um gilið góða... lungamjúkt og jú bratt... en greiðfært...
Eina haftið á leiðinni er fyrir miðju við klettana... en sá kafli var betri en áhorfðist frá bílunum...
Mikið spjallaið í algeru skjóli í suðurhlíðunum... við vorum undarlega mikið í skjóli þennan dag og fundum lítið fyrir vindinum nema uppi á hrygg Stórusúlu í raun...
Varasami kaflinn að manni finnst séð úr fjarska... ekkert mál...
Stórkonufellið átti sviðið í útsýnisfegurðinni þennan dag... því hún stal líka senunni ofan af Hattfelli...
Brattinn... en færið með besta móti...
Klettarnir þar sem við vorum fyrr um daginn...
Þetta var alvöru fjallganga sem tók vel á þó stutt væri... það var stórmerkilegt að upplifa hversu krefjandi þessi fjöll voru þó vegalengdir og tímalengdir væru stuttar...
Komin í léttari halla...
Litið upp eftir fjallinu...
Hvanngilshnausarnir...
Komin niður og straujað í bílana hver á sínum hraða í algleymi fjallaspjallsins...
Takk fyrir sérlega flottar móttökur kæra Stórasúla !
Hattfellið þarna hægra megin... næst á dagskrá...
Komin í bílana á söndunum... handan vegarins var gönguleiðin um Laugaveginn og við sáum göngumenn á stangli en fjöldinn var mun meiri nú en fyrr um morguninn...
Alls 3,1 km á 2:16 - 2:17 klst. upp í 945 m hæð með alls 409 m hækkun úr 572 m upphafshæð... hádegi... og nægur tími til stefnu á Hattfellið...
Hattfellið komið í sólina fyrir okkur...
Svo fallegt að sjá...
Við komin í skugga en Stórasúla enn í sólinni...
Já... það eru mörg spennandi fjöll framundan næstu árin...
Stórkonufellið hreinlega heimtaði þennan dag að fá að vera næst samt !
Við dáleiddumst að Hattfelli...
Á leiðinni keyrandi sáum við göngumennina í hrönnum...
Hattfell og félagar...
Stóra súla í sólinni... birtan þennan dag var hreinlega fullkomin... og mun fallegri en ef það hefði verið alveg heiðskírt...
Stórasúla nær... leiðin um vesturhrygginn er eflaust mjög greiðfær... ætluni var fyrst að fara niður hér og yfir á Súluhryggi en svo sáu þjálfarar að það yrði nóg verkefni að ganga upp og niður þessi bröttu fjöll... og breyttu ferðatilhögun... sem betur fer því við vorum allan daginn að þessu og komin heim um kvöldmatarleytið... sem hentaði vel þar sem þetta var jú sunnudagur...
Emstruáin... Súluhryggir fjær þar sem við gengum meðfram og framhjá að Illusúlu í fyrra...
Hattfellið og Útigönguhöfðar...
Keyrandi að Hattfelli áður en beygt er inn að Emstruafleggjaranum...
Komin að fjallsrótum og tekin mynd af móbergsklettunum ofan við veginn... síðara fjall dagsins framundan...
Við lögðum af stað á Hattfellið kl. 13:00... fórum sömu leið og lýst er sem frekar augljósri og léttri leið á þetta fjall... Hattfell - Gönguleiðir (gonguleidir.is) ... og höfðum einnig til viðmiðunar gps-slóðina hennar Hugrúnar Hannesdóttur fjallkonu sem fyrr segir... en hún virtist leggja af stað á sama stað og lýst er á vefsíðunni... lýsingin á gonguleidir.is er kolröng því miður... en hún passar vel við lýsingu á lægri tindinn í austri sem rís neðan við klettabeltið eða hattinn sjálfan... og á líklegast við um hana... en vilji menn fara alla leið upp á hatt Hattfells og á sjálfan efsta tindinn þá er þessi lýsing ekki að ná þeirri leið...
Stórasúla fylgdist með okkur allan tímann á Hattfelli...
Stórkonufellið í baksýn við bílana...
Hattfellið var enn brattarra en Stórasúla... en sama góða færið í grasi, lyngi og mosa...
Engin slóð upp en við reyndum að raska sem minnst...
Þetta tók vel á en við vorum í gírnum...
Litið til baka í bílana...
Á miðri leið var smávegis pása...
Litið til baka... grasgilið...
Önnur sýn blasti nú við frá Hattfelli yfir hálendið allt í kring...
Sandarnir... að Stórusúlu og Bláfjallakvísl...
Stórkonufell... það stal senunni allan daginn... og frá Hattfelli voru félagar hennar með í því...
Skárra hér á miðri leið upp...
En svo tók við mikil halli aftur...
Við vorum á því að þetta hefði verið 55 - 60 gráðu halli... gps-tækið fór upp í rúmlega 70 gráður... það má spyrja sig...
Það var ekki annað hægt en vera glaður og þakklátur...
Komin upp að klettaborginni fallegu á miðri leið...
Krefjandi leið þar sem heilmikið þurfti að brölta og gæta fóta sinna...
Komin að höfðinu og smá sveigur eftir...
Vá... hvernig í ósköpunum áttum við að fara hér upp... við sáum enga augljósa leið "vinstra megin við hrygginn og grasi gróna auðvelda leið upp á topp eins og sagði á gonduleidir.is... það átti hins vegar vel við leiðina á tindinn hægra megin út af mynd hér... sem er lægri en efsti tindur... hugsanlega hafa menn litið svo á að það væri eina færa leiðin á Hattfell og ekki reynandi við sjálfa klettahöfuðið sem stsundum er á þessum fjöllum... enda hafa menn skv. frásögnum almennt farið á lægri tindinn austan megin... en við vildum helst ná efsta tindi...
Smá leikur í klettastrítunni meðan hópurinn kom sér allur hér upp...
Lægri tindurinn hér... fórum upp hrygginn og til vinstri meðfram og yfir í skarðið... þaðan var einmitt grasi gróin greiðfær leið upp á þennan austari tind...
Skuggarnir af okkur... Stóra Grænafjall og Illasúla...
Hliðarsveigurinn... heilmikill bratti sem fangast ekki vel á mynd og vert að fara varlega...
Magnað að koma hingað... við horfðum heilluð á hattinn sjálfan... vá... við vorum í alvörunni komin hingað...
Stórkonufell og félagar... Útigönguhöfðar og Litla Mófell og Mófellshnausar... út af mydn er svo nafnlaus hár tindur og Tuddi og Tvíbaka...
Við mændum á klettahöfuðið... hattinn... hvar skyldi farið hér upp... Örn leitaði að leið beggja vegna við klettana en engin var fær... hann fór upp að klettunum og nánast snerti hæsta tind... sem var ofar... en ekki fært þangað alla leið upp...
Við hin biðum í skarðinu og fylgdumst með eða spáðum í þetta með Erni...
... eða nutum úsýnisins sem nú gafst einnig til Tindfjallajökuls og annarra fjalla í norðri...
Hengiflug er vinstra megin við klettana... of lítið hald er í miðjum klettunum... líka þar sem mosinn er... en það munar samt ekki miklu að ná að fara þar upp... ekki er fær leið heldur hæfra megin... Örn vissi að hann var kominn út af leiðinni hennar Hugrúnar... en vildi ganga algerlega úr skugga um hvort ekki væri fær leið hér upp... við vorum á því að þetta væri fínt... við þyrftum ekki að ganga lengra upp... en þjálfarar vildu halda áfram á slóð Hugrúnar sem þýddi að við þurftum að lækka okkur neðan við klettana hægra megin í norðurhlíðum...
Hvílíkur staður að vera á... uppi á Hattfelli með þessa fjallasýn...
Lægri tindurinn í austri... hingað hafa líklega flestir gengið sem farið hafa á Hattfell á annað borð.. magnaður tindur með mikið útsýni... en klettaborgin gnmæfir samt yfir og minnir á að maður er ekki kominn á hæsta tind...
Stórasúla í nærmynd úr skarðinu...
Örn þarna uppi að leita og leita... við vórum nokkur með honum upp að skoða... Kolbeinn alltaf eins og klettur við hlið Arnar og fleiri með...
Niður aftur... þetta var útséð... það var ekki leið hér upp...
Úr skarðinu er nefnilega farið aftur niður... norðan megin... undir alla klettana...
... og tekinn brattur hiðarhalli þó nokkuð langan kafla undir klettabeltinu...
... ekki slóðuð en gott hald í jarðveginum og fínasta leið á þessum árstíma... ekki gott að vera hér í mikilli bleytu né í hálku...
Litið til baka...
KLöngrast svo upp að klettabeltinu efst...
Hugrún fór fyrr upp um það og komst þannig á Hattinn en við fórum lengra út eftir þar sem klettabeltið þynnist enn meira...
Hér komumst við upp um klettabeltið og inn á hattinn...
Litið til baka hér frá staðnum þar sem beygt er upp klettana...
Þau voru falleg hljóðin frá fremstu mönnum um að þau væru komin og það væri greiðfært hér með á efsta tind...
Við vorum himinlifandi með þetta... okkur tókst að komast á hæsta tind Hattfells... þökk sé gps-slóð Hugrúnar... sem okkur fannst einmitt svolítið flókin leið... en skildum vel þegar í landslagið var komið... enda gerði hún fleiri en eina tilruan til að komast á Hattfell en þurfti frá að hverfa þar til hún fann þessa leið...
Hjartan var að springa af gleði á þessum kafla... við vorum í alvörunni að ganga á hattinum fallega á þessu formfagra fjalli...
Mjög flott leið eftir brúnunum...
Vindurinn genginn niður og gott veður þarna uppi... mun betra en á Stórusúlu fyrr um daginn...
Stórkonufell og félagar í fjarska framan við Mýrdalsjökul...
Eyjafjallajökull... Þórsmörkin.. Emstrur... skáli FÍ í hvarfi neðan við sandana hér...
Hópurinn kominn upp...
Efsti tindur á Hattfelli... vá, magnað ! Í 935 m hæð... 10 metrum lægra en Stórkonufellið...
Tindurinn og hópurinn að fá sér nesti...
Útsýnið til Laufafells og Stóra grænafjalls og Markarfljóts...
Jökultungurnar í skýjunum ásamt Torfajökli... Stórasúla og sandarnir... Strútur sést þarna hægra megin dökkur...
Útigönguhöfðar... Strútur og Mælifell í fjarska... Stórkonufell... Litla-Mófell... Mýrdalsjökull...
Litla-Mófell, Mófellshnausar, nafnlaus hái tindur.inn sem er yfir 800 m hár... Emstrutindur ?.. Mýrdalsjökull...
Eyjafjallajökull, Einhyrningur, Tindur og félagar í Tindfjallajökli í skýjunum efst...
Tindur og Tindfjallajökull og félagar ofan við Markarfljótið og Króksleiðinakyngimögnuðu hvort sem maður fer gangandi, keyrandi eða á annan máta...
Stórkonufell í nærmynd... með Súluhryggjum nær...
Jahérna... hvílíkt útsýni...
Við nutum og gáfum okkur mjög góðan tíma hér uppi...
Batman átti skilið gottt nesti fyrir sérlega krefjandi leiðir fyrir hunda á þessu bröttu fjöll... Kolbeinn og hann eru sérstakir kleinuvinir...
Litið niður af tindinum á staðinn þar sem Örn komst upp hinum megin frá... viðs áum sporin hans í mosanum... sorglega stutt hér upp... þurfti bara smávegis hmeira hald... þessi mosi fer örugglega með fyrstu tveimur mönnum og þá er bara slétt bergið... það var augljóst að þetta var ekki fær leið þó það sjáist ekki vel á myndinni hér...
Gæða nestistími... ótrúlegt að hafa náð þessu... það var langt í frá sjálfgefið...
Sólin bakaði okkur og sigurinn var okkar...
Örn spáði mikið í annarri niðurgönguleið... þjálfarar þræddu suðurhlíðarnar en sáu enga færa leið...
Hópmynd með Stórkonufellið í baksýn.. sögulegt... en ekki besta hópmyndin...
Efri: Silla, Agnar, Bolli gestur, Ísleifur, Njóla, Haukur og Birgir. Neðri: Gulla, Þórkatla, Hlökk, Siggi, Örn, Kolbeinn, Linda, Jaana, Sjöfn Kr., Sigríður Lísabet og Oddný T. en Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn...
Riddarapeysumynd ! Hún fangaði heldur ekki nægilega vel landslagið... hefðum þurft að vera í neðri hlíðum... en það var engin stemning fyir hópmyndatökum á þessum bröttun leiðum svo þetta var það sem við höfðum...
Bára, Kolbeinn, Oddný T., Linda, Jaana, Sjöfn kr., Þórkatla, Örn og Gulla...
Skyldi vera fært þarna neðan við þetta höfuð... við sáum ekki alveg nægilega vel til að útiloka það... væri gaman að skoða það betur síðar... en aðrar hliðar voru ófærar að því er við best sáum...
Það var engin spurning að þræða sig um hattinn allan... áður en við færum niður...
Skoða þennan neðsta hluta hér... hann leyndi auðvitað á sér eins og svo margir aðrir...
Mögnuð leið, birta og skyggni...
Flottar brúnirnar hérna... svakalega sorfið og algerlega ófært...
Litið til baka...
... í samhengi við Stórusúlu...
Neðsta höfuðið... nadnlaus tindurinn þarna vinstra megin... það er ekki hægt... köllum hann Emstrutind þar til við vitum betur !
Einhyrningur... í ríki sínu...
Magnaður staður að koma á...
...og hægt að fara enn lengra niður eftir...
Græni mosinn... hvílíkur litur...
Suðurausturhlíðarnar og Stórasúla...
Við fengum ekki nóg af landslaginu...
Betri hópmynd hér... það er þess virði að vanda sig smávegis... og taka fleiri en eina í svona ferð...
Birgir, Gulla, Bolli gestur, Oddný T., Örn, Batman, Siggi, Linda, Sjöfn Kr., Sigríður Lísabet, Þórkatla, Njóla, Silla, Kolbeinn, Haukur, Agnar, Jaana og Ísleifur en Bára tók mynd.
Farið alveg út á brúnirnar... það bara varð...
Klettabeltið í suðausturhlíðum... sáum enga leið hér upp...
Spurning með suðvesturhlíðarnar...
Náðum ekki alveg að útiloka það...
Snúin til baka að hliðarstígnum í norðnorðvesturhlíðinni...
Fórum of langt til vesturs... ekki augljós staður... gps-tækin hjálpa ekki mikið á svona stað þar sem slóðin liggur uppi í sömu átt og neðan við klettana... þjálfarar festu staðinn í gps-punkt fyrir næstu menn...
Lögð af stað til baka hliðarhallann í norðurhlíðum...
Krefjandi leið en vel fær...
Það liggur því beinast við að fara hér upp á Hattfellið... frá veginum norðvestan við fjallið... þannig sleppur maður við brattann suðaustan megin en missir reyndar af landslaginu þar svo það má spyrja sig hvort þssi leið sé ekki brara mjög skemmtileg... en vilji menn stytta og einfalda leiðina þá er best að ganga hér upp þessar hlíðar og beint upp á klettabeltishaftið á hattinn....
Yndislegt að ganga hér... svífandi um í sigurvímunni...
Við vorum alsæl með tvö brött fjöll sem tóku á en gáfu margfalt til baka...
Jákvæður og glaður hópur á ferð... sem tók vel á því og vílaði ekkert fyrir sér... neikvæðni og hindrana-hugsanagangur hentar ekki í svona ferð... þá verður ekkert úr neinu og menn missa bara af tindum eins og þessum tveimur...
Litið til baka..
Komin undir skarðið...
Skarðið fallega... og tindurinn sem flestir fara líklega á...
Til baka úr skarðinu...
Skarðið...
Klettastríturnar fallegu neðan við skarðið..
Síðasta kyngimagnaða myndin af Stórkonufelli.. eða var það ? :-) :-) :-)
Magnað landslag !
Stórasúla var ennþá að horfa á okkur...
Ég skil... Stórkonufell ennþá að skreyta leiðina okkar...
Hryggurinn góði áður en gilið tók við... sjá skuggann af Hattfellinu... og bílveginn um sandana frá Bláfjallakvísl niður með Emstrum...
Í skugga seinna fjalls dagsins... haustið er besti tíminn á þessum slóðum...
Við reyndum að hlífa mosanum...
Strútur meira að segja ennþá með okkur...
... og Stóra Grænafjall... og Hekla o.m.fl...
Farið að sjást í bílana... fremstu menn komnir niður... aðeins grjóthrun á þessun kafla en saklaust... og erfitt að velja gilið eða mosann... i viðleitni til að verja mosann... brattinn var svo mikill...
Ólýsanlega falleg ganga...
Komin í bílana... bílarnir sem höfðu stoppað við okkar bíla fyrr um daginn bæði á Stórusúlu og á Hattfelli voru Toppfarinn Ágúst og vinur okkar hann Jóngeir... sem voru með ferðarmenn á ferð um svæðið... sem sé ekki eftirlitsmenn að fara að sekja okkur fyrir að leggja bílunum við veginn...
Stórasúla... vá... við gengum á bæði þessu fjöll í þessu dásamlega veðri !
Við tímdum varla heim eins og svo oft áður... sælan er svo mikil... en það var sunnudagur og ráð að koma sér heim...
Alls 3,6 km á 2:56 - 3:02 klst. upp í 935 m hæð með alls 504 m hækkun úr 557 m upphafshæð... úrin mæla alltaf of mikið í þessum feðrum... þau telja áfram meðan við erum í pásu og í nesti... ekki marktækt ein sog stóru gps-tækin...
Takk... fyrir okkur Hattfell... og Hugrún Hannesdóttur... án gps-slóðarinnar þinnar hefðum við verið mjög lengi að finna leið hér upp... og líklega þurft fleiri en eina tilraun...
Komin norðan við Hattfellið... þetta er leiðin sem þjálfurðum leist best á í könnunarleiðangri í fyrra... einmitt upp klettabeltið þar sem það er þynnst hægra megin... ið komum upp í skarðið hinum megin frá og fórum svo í hliðarhalla undir klettabeltinu og upp lengst til hægri efst...
Ýma aftur að kíkja upp úr skýjunum...
Komin lengra frá Hattfelli... leiðin okkar þar a up þar sem klettabeltið er þynnst...
Komin upp brekkurnar við Mosa... sjá Hattinn.... og Stórkonufell... og Stóra grænafjall...
Nærmynd...
Við urðum að fara út og horfa á fjallið áður en við skildum endanlega við það...
Tindur... og félagar...
Einhyrningur...
Mófell og Rjúpnafell...
Einhyrningur aftur...
Féð komið til byggða í lok dags... fullkominn dagur fyrir smölun... og fjallgöngu... við vorum í skýjunum dögum saman... og það er ennþá ótrúlegt að þetta skyldi hafa tekist... frábær frammistaða.. takk innilega fyrir okkur... fyrir að þora að koma í svona könnunarleiðangra.. þeir hafa sannarlega gefið okkur mörg brött fjöll þetta árið... og eru enn eftir Tröllafjölskyldan og Örninn á Snæfellsnesi í byrjun otkóber... þetta ár 2022 er svakalegt !
Myndband af ferðinni í heild: Hattfell við Laugavegsgönguleiðina 110922 #Laugavegsfjöllin - YouTube
Gps-slóð af Stórusúlu: Wikiloc | Trails of the World
Gp-slóð af Hattfelli: Wikiloc | Trails of the World
Comments