Tindferð nr. 231 sunnudaginn 23. október 2021
Loksins gafst veður til að ná þessum fimm kyngimögnuðu fjallstindum í Skarðsheiðinni... en sunnudagurinn var betri en laugardagurinn þegar að var helginni komið... og mættu ekki margir í þessa langþráðu göngu en góðmennt var það með meiru... þetta var Toppfarastæl !
Dásamlegt veður... logn... hlýtt... autt færi lengstum... og frábært skyggni... það var ekki hægt að biðja um meira... nema jú heiðskírt veður og sól... en það er ekki alltaf á allt kosið... þetta sumar og þetta haust árið 2021 er erfitt veðurfarslega séð á suðvesturhorni landsins... og vert að nýta þó þá daga sem gefast...
Tungukambur var tindur númer eitt þennan dag... hér framundan... sem vestari múlinn sem gengur úr meginlandi Skarðsheiðarinnar að sunnan og myndar Súlardalinn ásamt Þverfjalli sem var svo gengið niður um síðar um daginn...
Þetta var alvöru ferð... miklar vegalengdir og hver tindur lét hafa fyrir sér...
Sjá Botnssúlurnar í fjarska drottningalegar að sjá í botni Hvalfjarðar...
Eyrarþúfa hægra megin... síðasti tindur dagsins... Súlur þessar lægri fjallsbungur nær... sem voru á dagskrá á þriðjudagskveldi í byrjun nóvember... og Þverfjallið fjær sem var tindur fjögur þennan dag...
Brattinn byrjaði fljótlega... upp Tungukambinn sem virðist illfær þegar horft er á hann frá þjóðveginum og við vorum ekki viss hvort væri fær þegar við fórum fyrstu ferðina á hann árið x... en hann er mun greiðfærari en á að líta...
Þessir klettar eru fínir til klöngurs...
Veðurblíðan áþreifanleg... í logni verður allt léttara og viðráðanlegra en ef vindur blæs manni hugrekkinu úr brjósti...
Elja þeirra sem mættu er óumdeild... hver vaknar eldsnemma á sunnudagsmorgni til að vera á fjöllum fram á kvöld nema hann sé haldinn óstjórnlegri fjallgönguástríðu ?
Batman fjallahundur gætti hópsins vel... smalinn í honum er meiri á haustin en á öðrum árstíðum... eðlið kallast á í honum og hann vill hafa hópinn sinn þéttan og allan á sama stað...
Fínasta hald í jarðveginum... í bítandi frosti er þessi leið mun flóknari... en í mjúkri snjóföl er þetta líka í stakasta lagi...
Hlýindin í haust hafa gert mikið fyrir okkur á fjöllum... lítið um frosna heiðskírudaga... sem er alltaf gróði fyrir göngumenn þó það þýði yfirleitt skýjað veður og minna skyggni... en þetta slapp ótrúlega vel þennan dag... háskýjað og frábært skyggni sem er langt í frá sjálfgefið á Skarðsheiðinni...
Heiðarhorn vinstra megin... hæsti tindur Skarðsheiðarinnar... og Skarðskambur hægra megin... tindur tvö þenndan dag...
Til að komast frá Tungukambi að Skarðskambi þarf að þræða sig af breiðu meginlandi Tungukambs um fjallshrygg að Skarðskambi... sjá klettarimann í fjarska...
Veðurblíðan sést vel á sjávarborði Hvalfjarðar... lognið var áþreifanlegt... Esjan þarna vinstra megin... og Akrafjallið hægra megin...
Botnssúlurnar vinstra megin svo fagrar að sjá... og hluti af Súlárdal hér vinstra megin...
Skarðskambur framundan... og hryggurinn að honum nær...
Vel fær en getur verið til trafala í erfiðu frosnu vetrarfæri... við vorum heppin með veður, færð og hitastig þennan dag...
Magnaður hópur !
Nesti með fyrsta tind dagsins í farteskinu... Tungukamb sem mældist 860 m hár...
Næst var það hryggurinn milli kamba...
Ekkert mál... klöngur alla þriðjudaga æfir þetta vel...
Gott hald og allt öruggt...
Komin yfir hrygginn og Skarðskambur framundan...
Meginland Skarðsheiðarinnar er umfangsmikið...
Skarðskambur hér... ekkert að sjá fyrr en komið er fram á brúnirnar... en þar beið okkar veisla !
Sýnin til hægri, eða í austur að Skessukambi, tindi 3 þennan dag... og klettarimann á brúnunum á milli Skarðskambs og Skessukambs...
Heiðarhornið hér... ósköp saklaust að sjá...
Hróarstindar og Hafnarfjallið að kíkja upp fyrir brúnirnar... og Snæfellsjökull enn fjær ótrúlega flottur að sjá eins og alltaf...
Farið að sjást í Skessuhornið sjálft... magnað ! Myndirnar fanga engan veginn áhrifin af því að vera á þessum fjallsbrúnum...
Skessuhornið í allri sinni dýrð... það blasir skyndilega við þegar komið er fram á brúnir Skarðskambs... ólýsanlegt !
Borgarfjörður...
Blákollur, Hróarnir og Hafnarfjallið... og svo fjöllin milli Hafnarfjalls og Skarðsheiðar sem eru líka flott en óþekkt... og við gengum á árið 2012...
Gengið eftir brúnunum... mjög áhrifamikið útsýni svo erfitt var að halda áfram...
Hvílíkur staður að vera á... fáir hafa komið hér og horft svona niður á Skessuhornið...
Það var ærið tilefni til að taka hópmynd á þessum kyngimagnaða útsýnisstað:
Kolbeinn, Gulla, Ragnheiður, Silla, Björgólfur, Inga Guðrún og Jaana.
Gerður Jens., Þórkatla, Bjarni og Örn tók mynd og Batman var eini hundurinn í ferðinni...
Fámennt en góðmennt eins og alltaf... Örn gat ekki hugsað sér að fresta þessari ferð einu sinni enn... það var sannarlega þess virði því þetta útsýni er fágætt og erfitt að ná á þessum erfiða fjallgarði sem er oft skýjaður þó veðrið sé gott...
Skrítið að horfa niður á Skessuhornið... og á leiðina okkar upp þarna í júní... virðist ókleift að sjá og hálf óhugnanlegt...
Þriðji tindur dagsins... hann er nafnlaus en við skírðum hann Skessukamb á sínum tíma til að aðgreina frá öðrum viðkomustöðum á Skarðsheiðinni... í anda þess að þessi sem við stóðum á heitir Skarðskambur ofan við Skarðsdal... og Skessukambur rís beint ofan við Skessuhorn... hann hefði því með réttu einnig getað heitið Súlárkambur... en Skessukambur var meira lýsandi og fékk að standa þarna árið 2012 þegar við gengum fyrst á þennan tind í dæmigerðri Skarðsheiðarþoku... og rétt sáum glitta í Skessuhornið í smá stund...og snerum við í stað þess að fara hringinn... sem betur fer... það var ekki veður til að fara þessa leið þennan dag... Fannfergi á Skarðsheiði (toppfarar.is)
Næst var farið niður af Skarðskambi efst í Súlárdalnum... og stefnan tekin á Skessukamb... en á milli þeirra eru kyngimagnaðar fjallsbrúnir í klettastrítum sem eru snarbrattar og varla mannheldar...
Stórt og mikið landslag...
Komin niður í skálina efst í dalnum...
Snjómagnið kom á óvart... en var í samræmi við endalausan snjóinn í Skarðsheiðinni langt fram eftir sumri... hér er sífreri og sumir skaflarnir hverfa aldrei...
Jebb... Örn stóðst ekki mátið að klöngrast upp í klettastríturnar sem rísa á brúnunum... algerleg þess virði að koma hingað og horfa niður hinum megin...
... en eins gott að fara varlega... og valkvætt að gera þetta... hægt að halda sig neðan við klettana áleiðis á Skessukamb... sjá hægra megin á mynd...
Skessuhornið og brekkurnar upp að strítunum...
Súlárdalurinn útbreiddur í víðlinsu - mynd...
Tafsamt klöngur en þess virði...
Farið varlega... og kíkt yfir...
Magnað !
Keðjubroddarnir komu sér vel í þessari ferð... eins og alltaf var velt vöngum yfir þörf á jöklabroddum og ísexi... sem þjálfarar mæltust til að menn tækju með en svo var maldað í móinn og ákveðið að sleppa þeim... það væri svo hlýtt og lítið búið að snjóa... en þessi ferð kenndi enn einu sinni þá lexíu... að við eigum að taka jöklabroddana og ísexina með þegar gengið er á svona háa tinda að vetri til... þó stutt sé komið inn í veturinn...
Hér var hægt að dóla sér lengi vel...
Inga Guðrún, Skessuhornið, Silla, Gulla, Þórkatla, Bjarni og Gerður Jens...
Brattinn var mikill niður hér...
Jaana meistaraljósmyndari að ná mögnuðum augnablikum á mynd...
Batman ekkert smeykur við brúnirnar eða brattann... hvort hann gerir sér grein fyrir fallinu fram af er erfitt að segja...
Brúnirnar framundan að Skessukambi...
Það var ráð að halda áfram för...
Erfitt að slíta sig frá þessu útsýni...
Heilmikið klöngur eftir enn...
... og upp Skessukambinn er ágætis brölt í klettum... og ef menn þvera Skarðsheiðina alla þá er þetta verkefnið... að klöngrast milli aðaltindanna nokkrum sinnum á leiðinni...
sbr. ferðin okkar árið 2013... Tindferð 94 Skarðsheiðin endilön (toppfarar.is)
Gerður Jens ofurkona í annað sinn að fara með okkur þessa hringleið... það er aðdáunarvert með meiru ! ... en árið 2012 var bjartara veður og meira sumar en nú árið 2021... Við gáfum ekki eftir og gerðum a (toppfarar.is)
Nestistími tvö... milli kambanna undir Skessukambinum í skjóli...
... með brúnirnar að baki þarna fyrir neðan...
Skessuhornið ennþá að stela senunni... farin að nálgast kambinn sem tengir það við meginland Skarðsheiðarinnar...
Enn einn kyngimagnaður nestisstaður í sögunni... með óborganlegt útsýni yfir vesturhluta Skarðsheiðarinnar og áfram yfir á Hafnarfjallið...
Svo hélt klöngrið áfram upp eftir...
Skemmtilega krefjandi kafli hér...
Styrkurinn og öryggið við að brölta í svona landslagi kemur með ástundun... og með því að vera með öðru fólki sem er öruggt og feta í fótspor þess...
Komin upp á meginland Skessukambs...
Skessuhorn og Skessukambur... hér tengist Skessuhornið við meginland Skarðsheiðarinnar... forréttindi að komast á þennan stað... hér hafa ekki margir komið... helst þeir sem þvera Skarðsheiðina endilanga... því það er ekki algengt að menn hringi dali hennar eins og við höfum verið að gera... en það er sannarlega góð leið til að upplifa Skarðsheiðina í öllu hennar umfangi og allri hennar stærð...
Hinir að skila sér inn... hér læddist smá þokuslæðingur með á toppinn... ekta Skarðsheiðin... skýin aldrei langt undan...
Erfitt að ná hópmynd á þessum magnaða stað... en þetta var eina leiðin... hæðin á Skesskambi mældist 1.042 m yfir sjávarmáli... næst hæsti tindur dagsins... einum metri lægri en Skarðskambur í þessari ferð allavega...
Afstaðan hinum megin svipuð...
Stórbrotið að horfa niður á Skessuhornið héðan...
Ennþá skyggni fyrir niðurleiðina samt... niður á Þverfjallið sem var tindur fjögur...
Þverfjallið hér... í 820 m hæð...
Stelpur dagsins ! Þórkatla, Jaana, Silla, Inga Guðrún, Ragnheiður, Gerður Jens. og Gulla.
Niðurleiðin gekk vel fyrir sig á röskum gönguhraða... fljótlega komin úr snjónum og í mosann...
Súlárdalurinn blasti við frá brúnunum... fallegur, litríkur, formfagur og vel mótaður...
Dalsmynnid Súlárdals... litla jarðfallið þarna niðri kallast Súlur... og voru gengnar stuttu síðar á þriðjudagskveldi í heiðskíru og myrkri þann 2. nóvember...
Skarðskambur þarna efst... Tungukambur vinstra megin... Skessukambur hægra megin... ofan af Þverfjalli...
Þverfjallið þegar litið var til baka...
Eyrarþúfa eða Hlíðarfótarkambur að koma í ljós... fimmti tindur dagsins...
Talsvert brölt niður af Þverfalli...
... alla leið niður í árskorninga sem aðskilja Þverfjallið frá Eyrarþúfu...
Sjá gilskorninginn á milli hér... Akrafjallið í sólstöfum þarna í fjarska...
Smá steinastiklun í gilinu til að komast yfir á Eyrarþúfu eða Hlíðarfótarkamb...
Engar myndir teknar á Eyrarþúfunni en hún mældist 596 m há... Súlárdalurinn hér útbreiddur... með Súlur lágar þarna niðri vinstra megin... og Eyrarþúfu hægra megin frekar háa og myndarlega frá þessu sjónarhorni...
Allir alsælir með stórbrotna ferð... þetta var enginn sunnudagsbíltúr... þetta var alvöru fjallgönguleið sem tók allan daginn og rúmlega það !
Alls 18,8 km á 8:54 klst. upp í 860 m á Tungukambi, 1.043 m á Skarðskambi, 1.042 á Skessukambi, 850 m á Þverfjalli og 496 m á Eyrarþúfu... með alls 1.368 m hækkun úr 66 m upphafshæð...
Virkilega vel gert allir ! Afreksganga með meiru !
Youtube myndbandið hér: Súlárdalur Skarðsheiði, 5 tinda leið. Tungukambur, Skarðskambur, Skessukambur, Þverfjall, Eyrarþúfa. - YouTube
Gps-slóðin frá fyrri ferð (tekur því ekki að hlaða niður svipaðri slóð): Wikiloc | Súlárdalur fimm tindar í Skarðsheiði 201012 Trail
Comments