top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Sýlingarfell og Þorbjörn... tvo gullfalleg eldfjöll á Reykjanesi

Þriðjudagsæfing 1. júní 2021


Enn einu sinni rættist úr veðri... þegar við loksins gengum á Sýlingarfell og Þorbjörn á Reykjanesi... en sú ferð auk fleiri á Reykjanesi hafa frestast framar á árið vegna jarðhræringanna á Reykjanesi í vetur... sem veldur að við verðum svolítið oft á þessum landshluta síðari hluta ársins 2021... en það er vel þess virði... því þarna leynast mörg fjöll... margir gígar... og mjög fallegt landslag sem fáir njóta almennt...



Við byrjuðum á Sýlingarfelli... sem er austan megin við þjóðveginn... og er lítið þekkt... og fellur alveg í skuggann af Þorbirni sem stelur sannarlega senunni þegar keyrt er framhjá Bláa lóninu á leið til eða frá Grindavík...



En Sýlingarfellið er mjög fallegur og litríkur gígur í fjölbreyttu landslagi... og ofan af því mátti sjá í efsta hluta nýja gígarins í Geldingadölum... það var reyndar rétt svo að það glitti í gígbarmana... en það var nóg til að töfrarnir á Reykjanesi nytu sín... og við vorum auðmjúk gagnvart náttúruöflunum á þessu svæði... sjá hér glitta í gígbarminn ofan við Ágústu... vinstra megin er Stóra Skógfell en Örn fór mjög fallega leið með hópinn á það og á Sundhnúk og fleiri fell um hraunið hér eitt árið... og það er kominn tími til að rifja þá leið upp á næsta ári... Sýlingarfellið mældis 208 m hátt hvorki meira né minna ! :-)


Birtan þetta kvöld var mjög falleg... það var fyrst spáð rigningu og vindi... en svo var þetta bara sól og gola... og það átti eftir að koma einn rigningarskúr... sem hvarf jafn létt og hann skyndilega kom milli fellanna...


Þorbjörn hér framundan... og þjóðvegurinn á milli...


Sýlingarfellið að baki... formfagur gígur sem sést ekki fyrr en fjær og ofar er komið til að sjá landslagið í samhengi...


Yndislegt veður og skúraleiðingar í grennd...


Já... Sýlingarfellið er alls konar á litinn... mjög rauðleitt á köflum... og svo er lúpínan farin að taka fellið yfir... sem hún var ekki búin að gera þegar við gengum á það fyrst árið...


Hópmyndin var bara tekin undir regnboganum... ekki með uppstillingu heldur flæðandi með hópnum... allir komnir í gallann því þarna demdist rigningin á okkur í sólargeislunum... en þornaði svo jafn fljótt og hún kom...


Mættir voru 30 manns: Arna Harðar, Bára, Björgólfur, Guðmundur Jón, Gunnar Már, Gylfi, Haukur, Jaana, Jóhann Ísfeld, Jóhanna Karlotta, Jórunn Ósk, Kolbeinn, Lilja Sesselja, Marta Rut, Neval, Ragnheiður, Sandra, Siggi, Sigríður Lísabet, Sigurjón, Silja, Sjöfn Kristins., Steinunn Sn., Svandís, Tinna Karen, Þórkatla og Örn og Batman, Bónó, Moli, Skuggi og Tinni gáfu gleði og kátínu í kvöldið.



Eini hættulegi staðurinn á þessari gönguleið var þjóðvegurinn sem við þurftum að þvera tvisvar um kvöldið... og við vorum ansi fljót yfir á milli fjalla... í minningunni var þetta ansi stór biti og löng leið... en núna var þetta varla þess virði að fara nema ganga á bæði fjöllin... svona breytast viðmiðin eftir því sem maður gerir meira...


Við rætur Þorbjarnar hittum við fyrrum formann Knattspyrnudeildar Grindavíkur til margra ára... Jónas K. Þórhallsson sem var á hjóli... en hann gekk 109 sinnum á Þorbjörn í fyrra og er að gera annað eins núna... mjög gaman að hitta hann og spjalla... hann var ekki viss með þýðinguna á nafni Sýlingarfells... eða Sýlingafells ef sleppa ætti err-inu... en í smiðju Ferlis-manna er oft mikill fróðleikur... hér um þessi fjöll kvöldsins:


Leiðin upp á Þorbjörn er ægifögur og verður fegurri með hverju árinu því skógræktin er í fullum gangi og árangurinn sannarlega að skila sér...


Hér sést vel hvernig Sýlingarfellið sem er í fjarska á myndinni er formfagur gígur... litríkur... og glæsilegur...


Það gaus öðru hvoru úr stóra gígnum í Geldingadölum... og þjálfari náði þessari á uppleið...


Nesti hér í dalnum á uppleið í logni og sól...


Mjög falleg leið... og stundum höfum við klöngrast upp á brúnunum ofan okkar þarna...


Regnboginn... skýjafarið... Grindavík... þetta var mjög fallegt útsýni af ekki hærra fjalli... Þorbjörn er glæsilegt fjall með mikla sögu og mikið landslag...


Við biðum... og við biðum... á tindinum í 238 m hæð... eftir nýrri gusu frá eldstöðinni í Geldingadölum... en ekkert gerðist og við héldum niður í gjárnar...


Fuglinn hafði skoðun á því að við værum þarna... enda hans heimkynni og við að trufla friðinn...


Gjárnar í Þorbirni eru magnaðar... hér er gaman að koma með börn og erlenda ferðamenn...



Ævintýraheimur sem sumir voru að upplifa í fyrsta sinn...


Ekki besti staðurinn til að vera á í miklum jarðskjálftum... þess vegna frestaðist þessi ganga frá því í vetur fram á sumarið...


Leiðin okkar upp á tindinn... það er jú auðveldlega hægt að fara lengra niður og sneiða þar upp á... en gaman að klöngrast smá og fá smá verkefni...


Og enn skemmtilegra hérna upp eins og sumir fóru... smá klöngur en gott hald og hægt að finna berg til að stíga í efst...


Hollt og gott... við verðum ekki góð fjallgöngum nema æfa okkur við hvert tækifæri á þriðjudögum og velja erfiðari leiðirnar og flóknari uppgöngurnar... frekar en þær léttustu og algengustu...


Magnað útsýnið ofan af Þorbirni í 238 m hæð... Grindavík hér... og himininn svo fagur...


Niðurgönguleiðin var um vel mótaðan stíginn í vesturdalnum... Sýlingarfellið hér efst á mynd...


Stöðugt að líta til eldgossins í Geldingadölum...


Gönguleið kvöldsins... gaman að sjá þetta svona... við gengum í áttu... alls 7,6 km á 3 - 3:05 klst. upp í 208 m hæð á Sýlingarfelli og 238 m á Þorbirni með alls 470 m hækkun úr 52 m upphafshæð... hörkugóð og nokkuð löng kvöldganga í dásamlega fallegu veðri...


649 views0 comments

留言


bottom of page