top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Torfajökull 3ja tinda leið frá Strút um íshellinn og Krókagil til baka um upptök Brennivínskvíslar.

Tindferð 225 laugardaginn 14. ágúst 2021.

Friðlandið að Fjallabaki markast af hæsta tindi Torfajökuls, Hábarmi sem við gengum á 2019, Barmi sem við gengum á 2016, Rauðufossafjöllum sem við gengum á 2017 og Laufafelli sem við eigum ennþá eftir að ganga á... og kallast Friðlandið einu nafni "Torfajökulssvæðið" eða "Torfajökulsaskjan" og er 18 km löng og 13 km breið... árið 2015 ákváðum við að ganga á alla fjallstinda innan þessa Friðlands... þessi hæsti tindur Torfajökuls er einn af þeim... en við enduðum á að ganga á þrjá þá hæstu sem liggja allir í hnapp saman...


Rigningardumbungur lá yfir öllu þegar við loksins lögðum af stað kl. 6:00 úr bænum á laugardagsmorgninum en við létum það ekkert á okkur fá því við vissum að veðurspáin var björt og góð þennan dag... Doddi og Njóla komu úr Fljótshlíðinni eins og fleiri og Doddi sagði morgnana hafa verið svona þungbúna síðustu daga en svo rifi hann af sér um níuleytið... og það rættist nánast á mínútinni... þegar við ókum inn sandana fór að sjást í gula sól bak við skýjaslæðuna sem þynntist sífellt meira.. og varð að engu á Mælifellssandi... hér með Mýrdalsjökul blasandi við af Mælifellssandi og jökulsker í sama formi og nær okkjur að rísa úr jöklinum...


Mælifell á Mælifellssandi hér þar sem beygt er til vinstri inn að skálanum Strút... formfagurt og einstaklega fallegt fjall...



Þegar beygt var til norðurs inn að skálanum blasti verkefni dagsins við okkur... tindarnir þrír þarna í klasa vinstra megin í Torfajökli... og fjallið Strútur hægra megin en tignarlegasta ásýndin á það fjall er ekki frá skálanum eða veginum hér...


Akstursleiðin tók okkur 3:38 klst. úr bænum og leiðin er jepplingafær en þó þarf að gæta að Bláfjallakvísl sem getur orðið vatnsmeiri og gruggugri þegar líður á daginn og eins þarf að keyra í lækjarsprænum hér að skálanum... Mælifell hér í baksýn...


Við lögðum á aurunum neðan við bílastæðið við skálann... alls 9 jeppar og 1 jepplingur í þessari ferð... rúmur helmingur kaus frekar að fara á jeppa en í rútu þegar þjálfarar könnuðu áhugann á rútu fyrir ferðina... og C19 flækir málin þar sem æskilegast er að menn séu í sinni bílakúlu... en mun fleiri eiga jepplinga en áður fyrr og vonandi bjargast þetta í næstu ferðum eins og það gerði í þessari þar sem allir fengu á endanum far með jeppa eða jepplingi...

Frábær aðstaðan í Strút... 500 kr aðstöðugjald til að komast á wc... sem er ansi kærkomið þegar keyrt er svona langar leiðir til að fara í langa göngu...


Þrjú gistu í skálanum, tvö í tjaldvagni og tvö í tjaldi... tveir gistu á Emstru leið, sex komu úr Fljótshlíð og einn frá Akranesi og restin úr Reykjavík...


Veðurblíðan var dásamleg... við vorum sannarlega heppin með veður þenann dag þó heilmikill vindur væri uppi og að hluta á leiðinni... það ar hlýtt, sólríkt og kyngimagnað útsýni...


Skemmtileg leiðin frá skálanum... þar sem byrjað var á Strútsstígnum en snúið svo við Krókagil upp í fjallsbungur Torfajökuls...


Sjá tindana okkar þrjá þennan dag í fjarska ofan við Krókagil... hópurinn hér að fara yfir Brennivínskvísl... merkilegt nafn sem okkur skilst að engin haldbær skýring sé á...


Sandfellið var okkur á visntri hönd á leið niður... dökkblátt og heilmikil andstæða við litríkt Krókagilið... Strútur hér á bak við hópinn...


Beygt til vinstri upp fjallsrætur Torfajökuls...


Sjá tindana þrjá skaga upp úr... þarna upp fórum við á alla þrjá... sá í miðið hæstur en sá vinstra megin gaf fegursta útsýnið og var næst hæstur...


Fjórir gestir voru með í þessari göngu.... hvert öðru ljúfmannslegra... það var mjög gaman að kynnast þeim og þau stóðu sig með prýði í þessari löngu göngu...


Krókagil... litríkt, formfagurt og sérlega úfið ofar... þjálfarar ætluðu að fara niður um það ef þeim litist á þá leið... en enduðu á að fara bara efsta hlutann af því og svo lendarnar niður...


Sjá Brennivínskvíslina renna niður Krókagilið...


Fallegir litir sem minntu á Landmannalaugasvæðið...


Hópmynd hér með tinda dagsins í baksýn...

Guðmundur Jón, Katrín Kj., Gunnar Már, Ágústa H., Bjarni, Örn, Jón St., Doddi, Njóla, Valla, Davíð, Björgvin gestur Davíðs, Sjöfn Krostins., Fanney, Siggi, Vilhjálmur, Jóhjanna D.


Neðri: Kristín gestur Gunnars, Kristbjörg, Jaana, Linda, Sigrún Bj., Inga Guðrún, Auður gestur Ingu, Þórkatla, Nanna, Páll gestur Nönnu og Maggi en Bára tók mynd og Batman stakk af um morguninn og missti af þessari ferð.


Sandfell... mjög fallegt á litinn og formfagurt...


Ofar og innar...


Strútur og svo Mælifell í fjarska...


Fallegur heimur þarna niðri...


Nokkrir gengu í stuttbuxum allan þennan dag þrátt fyrir vindinn sem blés mest á efstu tindum og þagnaði reyndar svo þegar leið á daginn...

Fjórir gestir voru í þessari göngu og var mjög gaman að kynnast þeim... Páll kom með Nönnu, Auður kom með Ingu Guðrúnu, Kristín með Gunnari Má og Björgvin með Davíð...


Litríkt Torfajökulssvæðið nýtur sín alltaf best í sólinni og við vorum mjög lánsöm með veðrið þennan dag...


Fyrsti nestisstaður af þremur þennan dag en þeir reyndust allir ótrúlega fallegir... dýjadalsmosinn á svarta sandinum skreytti þann fyrsta...


Yndislegt... skjól hér og friður...


Áfram var haldið södd og sæl upp eftir bungunum og núna fór snjórinn að koma niður brekkurnar en þeir voru alltaf nægilega mjúkir og vel færir...


Laugavegslegt á köflum enda giljótt með meiru allan tímann...


Full gil af snjó og rennandi lækur undir er alltaf varasamt... við minntumst banaslyssins í Sveinsgili hér um árið sem kenndi manni mikið... og menn skiptust á sögum um fall í gegnum snjóbrýr og skafla...


Brakandi blíða...


Ofar sáum við tindana... en svo dróst þessi skýjahula yfir þá og vonbrigðist læddust inn.. skyldum við bara ganga upp í skýjaþokuna og ekkert fá af magnaða útsýninu sem þarna er... en vindurinn var talsverður og þjálfarar fullyrtu að þetta væri á hraðförum yfir svæðið og það yrði flott veður þarna uppi þegar við kæmumst upp...


... og við horfðum á skýin sveipast yfir og svo urðu þeir smám saman skýlausir aftur þegar ofar dró...


Þessi kafli hér var ótrúlega fagur... svört gil... ljóst líparit... gráir og þreyttir snjóskaflar...


... og ljósir tindarnir okkar framundan... sá fyrsti hér vinstra megin...


...og skærgræni dýjamosinn... þessi kafli var alger veisla !


Yndislegur félagsskapur í þessari ferð... hvílík forréttindi að fá að ganga með þessu fólki...


Sjá snjóinn hér...


Hér var giljótt og ekki fært hvar sem var upp en Örn ætlaði að fara fyrst upp hægri bunguna og þaðan upp á fyrsta tindinn... en skorið landslagið leyfði það ekki...

Við snerum því til vinstri hér framhjá gilinu...


Töfrandi landslag !


Gunnar Már og Guðmundur Jón...


Fyrsti tindurinn framundan hér... erfiðasta brekkan af þremur upp tindana þrjá...

en samt var þetta ekkert í samanburði við klöngrið sem við erum alltaf að kljást við...

bröltið á þriðjudögunum skilar sér vel í svona tindferðum eins og þessum...


Litið til baka með Strút þarna niðri...


Fín brekka til að byrja með...


Þessi ljósi litur lýsir svo upp allt í sólinni... einkennandi fyrir Torfajökulssvæðið...


Lægri tindar í gígbarmi Torfajökuls austar þarna hægra megin...


Strútur og Mælifell niðri á Mælifellssandi... hvass vindur lék um sandinn fyrri hluta dagsins...


Lægri tindarnir norðaustar...


Seinfarið en vel fært...


Smá hvíld hér í miðju bröltinu...


Þrjár konur sem gengið hafa í gegnum liðskipti hjá Klíníkinni voru í þessari ferð... allt magnaðar göngukonur sem farið hafa ímargar mjög erfiðar og mjög brattar ferðir með okkur í gegnum árin... það er magnað og burtséð frá skoðun manna um einkarekstur í heilbrigðistkerfinu því sama hvað... þá er þessari starfsemi að þakka að þær voru með okkur í göngu en ekki heima fastar á biðlista...


Torfajökull rennur niður skálina sína milli gilja og tinda...


Dásamlegt fólk með meiru sem hikar ekki við að koma með þjálfurum könnunarleiðangra um allt þar sem við finnum leiðir og komumst að því saman hvort hægt sé að fara hér eða þar... því þó þjálfarar væru með gps-slóð til viðmiðunar frá Traustip á wikiloc þá fórum við ekki sömu leið upp og fórum á alla þrjá tindana sem gps-slóðin gerði ekki, líklega af því þau hafa ekki verið í skyggni ?


Takk kærlega Trausti fyrir að deila þessari gps-slóð á wikiloc sem gaf okkur heilmikið og traust hald til að leggja í hann með eitthvað til viðmiðunar :-)


Þetta minnti á Baulu þegar verst lét en var samt ekkert í líkingu við hversu erfið hún er... hér reyndi á lagni og þolinmæði... en þetta gekk mjög vel..


Fyrsti tindurinn í 1.198 m hæð en við sáum miðtindinn með vörðu og lítið eitt hærri en þessi og héldum áfram þangað...


Við vorum farin að sjá sjálft jökulhvelið...


... og við sáum til vesturs að Fjallabaki...


Gerður Jens var á þessum slóðum í fyrsta sinn og það var mikill heiður fyrir okkur að gefa þeirri víðförulu útivistarkonu nýja tinda í safnið hennar...


Upp tind tvö...


Hábarmur þarna efstur í fjarska... þarna vorum við í hitteðfyrra í mjög sögulegri ferð á hann og að Grænahrygg, eftir öllum Hryggnum milli gilja og um Jökulgilið til Landmannalauga...


Hinir tindarnir í Torfajökli...


Litið til baka...


Kaldaklofsfjöll í norðvestri með Háskerðing hægra megin...


Annar tindur dagsins í 1.201 m hæð... hann mældist hæstur hjá Erni en ekki hjá Báru... munurinn er það lítill milli tinda...


Magnað útsýnið til allra átta en samt var þetta síðari tindur en sá þriðji í raun...


Kaldaklofsfjöllin, Hrafntinnusker og Fjallabakið...


Torfajökullinn þarna niðri, Grænihryggur í hvargi, Skalli, Hábarmur og Barmur sem varðar svo Jökulgilið til Lauga...


Torfajökullinn að síga niður í landið og tindar og landslag að birtast undan honum...


Magnað að sjá þetta loksins... eftir margra ára pælingar um hvort það væri yfirleitt hægt að ganga hér upp á þesa tinda fyrir jöklinum og sprungum og öðrum ófærum...


Norðausturtindarnir...


Við ákváðum að fara alveg niður á jökulinn og snerta hann... og sáum ekki eftir því...


Algerlega magnað að koma hingað niður...


Hvílíkur staður að koma á...


Við stóðum á jöklinum sjálfum... og horfðum á sprungur og tjarnir og ís... ætli það sé hægt að þvera þennan jökul yfir í Jökulgilið ?


Björgvin og Davíð... þeir lentu í fleiri ævintýrum þessa helgi sem var mjög gaman að lesa um í pistli Davíðs á fb...


Frábær hópur á ferð þennan dag:


Efri: Ágústa H., Jaana, Katrín Kj., Guðmundur Jón, Gunnar Már, Fanney, Doddi, Maggi, Jón St., Valla, Auður gestur, Kristbjörg, Björgvin gestur, Davíð, Bjarni, Örn.


Neðri: Vilhjálmur, Jóhanna D., Sigrún Bjarna., Kristín gestur, Páll gestur, Njóla, Nanna, Siggi, Linda, Sjöfn Kr., Gerður Jens., Inga Guðrún og Þórkatla en Bára tók mynd og Batman var ekki með því miður.


Það var erfitt að yfirgefa þennan stað... en fleiri tindar biðu...


Sjá hvar við fórum niður að brúninni...


Ótrúlegt landslag... Hábarmurinn okkar þessi dökki þarna efst..


Þakklætið fyrir að vera þarna á þessum stað á þessum tínma var ótvírætt...


Ofan af jöklinum gengum við að þriðja tindinum sem átti eftir að gefa okkur áhrifamesta útsýnið...


Fórum ofan í gil sem lá á milli... Kaldaklofsfjöllin í fjarska hér en þarna vissum við ekki að við vorum að fara að sjá upptök Kaldaklofskvíslar stuttu síðar...


Nestisstaður tvö þennan dag... í lægðinni þarna milli tinda...


Vindurinn var mikill á tindunum fyrstu tveimur en svo lægði hratt frá tindi þrjú...


Hér var algert skjól og Maggi stakk upp á nesti hér sem var vel til fundið...


Yndislegur og sérstakur staður...


Séð honum megin frá ofan af tindi tvö...


Ofan af brúninni í lægðinni blasti þetta kyngimagnaða útsýni við... Torfajökullinn að leka niður á láglendið og renna stríðum straumum sem Kaldaklofskvísl niður láglendið...


Yndislegt... Auður, Inga Guðrún, Linda, Maggi, Bjarni, Björvin og Örn...


Njóla og Doddi, Katrín Kj. og Guðmundur Jón, Fanney, Jón St. og Valla og Sjöfn Kr.


Jóhanna D., Davíð, Vilhjálmur, Páll, Kristbjörg, Nanna og ?


Við fórum flest og skoðuðum skarðið betur...


Útsýnið úr því einstakt og áfram jókst það þegar farið var upp á þriðja tindinn...


Nærmynd... jökullinn allur rúnaður og sprunginn og sandurinn að sópast með...


Ís og tjarnir á víxl...


Tindur þrjú framundan...


Litið til baka að nestisstaðnum...


Við gágum okkur mjðg góðan tíma upp á tind þrjú þar sem útsýnið var einstakt alla leiðina upp og algerlega kyngimagnað ofan af tindinu til allra átta...


Kaldaklofskvísl að koma undan jöklinum... Stórkonufell, Hattfell, Stórasúla ofl fjöll sem skreyta sandana á Laugaveginum þarna hjægra megin...


Jökullinn að detta niður úr fjöllunum og bráðna smám saman...


Sjá sprungurnar vinster megin í jöklinum...


Sjá fallið hér niður...


... og áfram...


Erfitt að slíta sig frá þessari sýn...


Við bara störðum og nutum umhverfisins og alveg nýs sjónarhorns á þessa náttúru Torfajökuls...


Hvílíkur staður að vera á...


Hvert skref var veisla allt í kring...


Komin ofar og farin að sjá landslagið allan hringinn...


Hryggurinn upp á þriðja tindinn...


Þriðji tindurinn mældist 1.206 m hár og var mældur hæstur í gps-tæki Báru en ekki hjá Erni enda eru þeir allir þrír nokkuð svipaðir...


Árið 2018 stóðum við á Háskerðingi hér hinum megin og horfðum yfir Torfajökul og veltum því fyrir okkur hversu flókið það væri að komast á tindana sem við stóðum núna á...


Þegar upp kom blasti skyndilega við allt útsýnið til suðurs að Mýrdalsjökli... Hólmsárlón hér... Mælifellssandur og Strútur o.m.fl...


Hér stóðum við og tímdum ekki niður...


Magnað útsýni og allt annars eðlis en ljósa landslagið til Landmannalauga...


Hérna megin gaf svarti Mælifellssandurinn og græni fjallaliturinn tóninn... andstætt gula líparítinu sem einkennir Laugar...


Við tókum okkur góðan tíma hér uppi áður en haldið var niður...


Litið til baka...


Aftur starði maður niður á Torfajökul lekandi niður í uppgjöf...


Nærmynd af Strút og Mælifelli... Krókagil þarna niður eftir og Brennivínskvíslin rennandi alla leið að skálanum við Strút.... magnað hreint út sagt !


Örn valdi leið niður af þriðja tindinum í skarðið milli tindanna...


Bára þjálfari hafði áhyggjur af sprungna skaflinum sem lá neðar í skarðinu ef hann skyldi hamla för... en svo reyndist aldeilis ekki vera...


Við gengum hann neðst alveg grunlaus um hvað tók við neðan við þennan skafl...


En allt í einu gengum við fram á íshelli... vá... þetta var magnað og kom algerlega á óvart...


Litið til baka þar sem sést hvernig skaflinn lekur milli tindanna og er sprunginn á köflum þar sem hann brotnar niður... hér þarf að fara varlega og ekki gott að vera í þoku...


Jarðhiti rjúkandi hér og sérstakt andrúmsloft...


Náði ekki mynd af Davíð sem tók ísexina og klauf þennan skafl upp...


Þetta var mjög áhrifamikill staður og við stöldruðum mjög lengi við hér...

Þjálfarar vissu að það var íshellir við Torfajökul sem Útivist er með merktan á korti en sú merking var í raun þar sem við borðuðum nestið áðan og þjálfarar höfðu svipast um eftir þessum íshelli en sætt sig við að ná ekki að skoða hann enda héldum við að við þyrftum að fara út á jökulinn til þess... en svo var hann bara hér... sisvona...

Bullandi jarhiti hér... stutt í kvikuna...


Þetta var magnaður staður sem leyndi verulega á sér...


Við hefðum getað verið lengur hér í raun því alls staðar leyndust perlurnar...


Lekandi dropar um allt...


Rennandi lækir undir skaflinum að hluta...


Hopandi snjórinn svo nánast var hægt að horfa á það í hitanum þarna...


Sprungur og op í skaflinum...


Hellir innar sem við þorðum fyrst ekki að fara inn í... minnug banaslyssins hér um árið í Kverkfjöllum...


Leir... hiti... litir...


Það var ekki hægt annað en ganga hér niður og inn...


Bullandi heitt vatn hér...


Lækurinn rennandi í gegn og undir hér...


Vá, þetta var svo fallegt...


Sjá rennuna sem er hægra megin juppi þar sem vatn hefur runnið...


Rjúkandi hitinn næst á mynd...


Formið í snjónum...


Sandurinn í glufunum...


Guðmundur var beðinn að drekka smá af þessum skafli...


Og hann lét sig hafa það fyrir ljósmyndanana en varð nokkuð blautur á eftir !


Hvílíkur staður...


Ein flottasta hópmyndin í sögunni... þessi fer í sérflokkinn !


Svo fallier litir í útfellingunum...


Bullandi og rjúkandi leirinn...


Opin...


Einstakur staður og við prísuðum okkur sæl að hfa rambað inn áþennan helli... hann hefði auðveldlega getað farið framhjá okkur... alger tilviljun að við skyldum ganga að honum... þetta var klárlega rúsínan í pylsuenda ferðarinnar...


Takk fyrir okkur íshellir... hingað myndi maður vilja koma árlega og skoða breytilega mótun á þessum helli...


Eins og lifandi vera að skríða fram með klærnar sínar...


Allir litir...


En við urðum á endanum að halda áfram för okkar...


Takk fyrir okkur...


Yfir langa snjóbreiðu fórum við í átt að Krókagili... hér var kvenþjálfarinn smá áhyggjufullur ef sprungur eða op leyndust á miðri leið... tók ísexina fram og var við öllu búin... en þetta reyndist fast og saklaust...


Sjá skaflinn leka hér niður gilið...


Krókagil framundan...


Sandfellið hér í allri sinni dýrð... á korti útivistar í skálanum er teiknuð leið til baka um það en okkur fannst það ekki spennandi leið... vildum vera í meiri litum og meira landslagi...


... og ætluðum helst að fara niður Krókagilið en það hafði virst ófært þegar við horfðum upp eftir því fyrr um daginn... og því skoðuðum við aðstæður fyrst...


Litið til baka... íshellirinn er þarna í skaflinum milli tinda...


Okkur leyst ekki á illfært landslagið á þessum kafla í Krókagili og snerum frá...


Krókagil niður eftir... neðar er nokkuð hátt fall niður neðan við hrygginn hér sem við vorum ekki viss hvort væri fær...


Grænt lón birtist skyndilega þarna vinstra megin... ekki merkt á korti og nafnlaust...

+

Þjálfarar ákva´ðu að fara yfir gilin og ekki strax niður í gljúfrið...


Eljan í íslensku flórunni...


Mjög fallegt landslag og litir hér...


Smá Landmannalaugasvipur á þessu...


Skaflar í öllum giljum að hopa undan lækjunum rennandi undir þeim...


En hér snerun við við þar sem Örn sá góða leið niður í gljúfrið...


... og það var þess virði að fara hér niður...


Mögnuð leið...


Ótrúlega fallegt landslag þarna...


Menn farnir að safnast saman á steininum þarna neðst...


Geggjaður staður !


Ferðinni var heitið að græna lóninu...


Mjög gaman að brölta hér um...


Allt verður svo viðráðanlegt og auðvelt í góðu veðri... hér var algert logn og friður og hiti...


Fossarnir að renna niður úr sköflunum ofar...


Við vorum mjög smá í þessu landslagi...


Hér áðum við í þriðja sinn og fengum okkur nesti og nutum lífsins...


Mjög ólíkir nestisstaðirnir þennan dag... sem sagði allt um fjölbreytileika Torfajökulssvæðisins...


Græna lónið...


Mjög fallegur staður... stuðlabergið einstakt ofan við það...


Við reyndum að fanga dýrðina en hún náðist ekki á mynd hér...


Stuðlabergið... þetta var eins og orgel í stærðarinnar kirkju....


Áhrifamikið landslag...


Litið niður eftir Krókagili...


Ófært héðan og niður eftir...


Við fórum í þéttum hliðarhalla hér upp úr gljúfrinu aftur...


Komin upp aftur og Örn spáði í að fara niður í gilið aftur...


Báru fannst það langt liðið á daginn og menn það þreyttir að tilraunakennt brölt niður í Krókagil væri of mikið... við skyldum frekar þræða okkur smám saman aftur á slóðina upp eftir...


En við sáum fljótlega eftir því þar sem gilið urðu mun fleiri en við áttum von á... og veltum því fyrir okkur hvort ekki hefði hreinlega verið fljótlegra að fara bara niður gilið...


Það virtist samt ekki fljótfært né auðfarið... en mjög spennandi landslag... hingað verðum við að koma aftur...


... og eftir á þegar við horfðum til baka þá sáum við að ef við hefðum farið niður í gilið og komið okkur upp úr því þar sem við vorum búin að reikna út leið, þá hefði beðið okkar engu að síður að þvera nokkur gil til að komast á sömu leið niður... en ef maður skyldi hins veagar fara lengra niður gilið þá mögulega er leiðin betri en líklega seinfarin í gegnum gilið að þvera kvíslina og ganga í hliðarhalla að stórum hluta... mjög spennandi leið samt og okkur sýndist að Trausti hefði gert einmitt þetta en þau svo farið upp úr gilinu neðar og inn á sömu leið til baka... gerum þetta næst !


Leiðin var greið þó giljótt væri og við tókum þetta á glimrandi glöðu spjallinu...


Bíddu... enn eitt gilið, ha ?


... en við vorum ekki lengi að þessu...


Skuggarnir...




Þetta landslag stóð sannarlega undir nafni Torfajökulssvæðisins sem er allt giljótt með eindæmum eins og Jökulgilið og umhverfi þess ber gott vitni um...


Komin á greiðari kafla í lokin... sól tekið að halla og langur akstur framundan heim... við vorum fegin að vera ekki stödd í tilraunakenndu brölti niður í gilinu...


Allt önnur ásýnd á Strút í síðdegissólinni...


Tindarnir okkar þrír þarna uppi og Krókagilið upp eftir öllun saman... ekki hægt að þræða sig upp eftir gilinu hér neðar nema vaða ána reglulega... en spurning með kaflann ofar...


Sandfellið og tindarnir þrír ljósir í Torfajökli...


Stutt eftir í skálann... Mælifellið að sjást vel...


Skálinn bak við þessa litlu hæð hér... akstursleiðin inn að skálanum útbreidd hér... keyrt í Brennivínskvíslinni til að komast...


Strútur öðruvísi þegar komið er neðar og mun síðri ásýnd en ofan frá...


Beygjan inn að fellinu sem varðar skálann...


Mælifellið farið að láta til sín taka... hamrarnir á bak við vinstra megin heita líklega Öldufell ? ...


Komin að skálanum... sólin að setjast bak við fjöllin og skálann... yndislegt...


Erlendir ferðamenn á ferðinni... eins og maður fagnaði því þegar éir hurfu fyrst á kóftímunum... þá er eitthvað notalegt við að fá þá aftur...


Þeir kunna nefnilega að njóta... og kenna okkujr bara heilmikið og minna okkur á hversu lánsöm við erum að hafa þetta landslag í túngarðinum heima hjá okkur...

Svisslendingar hér með rauðvín og grill að njóta á táslunum í sandölum...


Yndislegheit skálans í Strút voru áþreifanleg þetta síðdegi þegar við lentum eftir þessa dásamlegu göngu á Torfajökul...


Ekki besta ásýndin á Strút frá skálanum...


Nokkrir komnir á tjaldstæðið...


Bílaflotinn okkar... mjög margir í klúbbnum vilja halda í jeppahefðina sem hefur skapast í hópnum frekar en að fara með rútu... báðir farkostir hafa sína kosti og galla... en það er einhver sjarmur yfir jeppunum sem hafa oft sett mikinn svip á ferðirnar okkar um Friðlandið að Fjallabaki...


Tindarnir okkar þrír stingast upp úr öldunni sem varðar skálann... og kvöddu okkur með virktum...




Alls 16,8 km á 8:05 klst. upp í 1.206 m hæð með alls 1.160 hækkun.


Leiðin á korti...


Við lögðum af stað um kl. 18:20 á leið í bæinn... og þetta var sýnin þegar viðn litum til baka að skálanum vinstra megi og tindum dagsins efst og leiðin okkar hægra megin...


Tignarleg og svipmikil aksturleið til baka... og nú í skyggni og engri þoku eins og um morguninn...


Mælifellið svo fallegt... við ætlum að ganga á það og Strút í einni ferð næstu árin...


Frá Mælifellssandi blasti Torfajökullinn við og tindarnir okkar þrír þarna saman í hnapp... Kaldaklofsfjöllin með Háskerðingi svo vinstra megin...


Kaldaklofsfjöll og Torfajökull komin vestar...


Hvanngil og Hvanngilshnausar hægra megin.. Laugavegsgönguleiðin að koma þarna niður efst úr Kaldaklofsfjöllum...


Stórkonufell... það er komið á dagskrá á næsta ári 2022...


Stóra súla... líka komin á dagskrá á næsta ári...


Gleymdi að taka mynd af Hattfelli því miður en hér er Ýma í Tindfjallajökli...


Einhyrningur...


Rjúpnafell...


Aksturinn tók um 3,5 klst. til Reykjavíkur... hvílíkur dagur að baki !


Mjög sögulegt að ná loksins að ganga á hæstu tinda jökulsins sem mótar Friðlandið að Fjallabaki... nú er bara Laufafellið eftir af þessum hæstu sem varða svæðið allan hringinn... og áfram höldum við að ganga svo á hn fjöllin... og eins þau sem eru utan við Friðlandið en sannarlega algerar perlur eins og Illasúla og Hattfell í september... og konufjöllin á næsta ári o.s.frv. næstu árin...



Gps-slóð af leiðinni hér: Wikiloc | Torfajökull 140821 Trail


Öll fjöllin okkar að fjallabaki hér á gömlu síðunni sem þarf svo að uppfara á þessa nýju hér, en nú þarf að bæta við Torfajökli á listann:

272 views0 comments

Commenti


bottom of page