Tindferð nr. 253 föstudaginn 28. október 2022.
Eftir ítrekaðar frestanir á Tröllafjölskyldunni á Snæfellsnesi og meira að segja tilraunum til að fara á Heklu á föstudegi eða sunnudegi í staðinn þegar betur viðraði þá en ekki náðist nægileg mæting.. enduðu þjálfarar á að ákveða að fara á Tröllin síðasta föstudag októberbmánaðar svo sá mánuður fengi nú einhverja tindferð... og þó nokkrir skelltu sér með sem gátu komist þó það væri virkur dagur sem var frábært...
Bjarnarhafnarfjall hér með mynni Hraunsfjarðar... dulúðug þoka lá yfir öllu þegar við keyrðum þessa ægifögru leið eftir öllu Snæfellsnesinu... fyrst að sunnan... svo um Vatnaleiðina og áfram að norðan... til Grundarfjarðar... hvílíkur staður að keyra um... megi elja okkar ávalt vera svo að við látum aldregi langan akstur taka af okkur fallegar göngur á þessum stórkostlega landshluta...
Bjarnarhafnafjallið var gengið í sögulegri ferð þar sem við vorum svo lánsöm að ná að kynnast vel honum Hildibrandi heitnum í Bjarnarhöfn árið 2014...
Eyrarhyrna með Eyrarfjallið vinstra megin líka í þokunni... þangað gengum við í stórbrotinni birtu og ljósstöfum allan daginn í febrúar árið 2018 en gangan sú kenndi okkur að lá fjöll og óþekkt gefa jafn mikið og þau hærri og þekktari... þó það sé erfitt veður... ómetanlegur febrúardagurinn sá !
Kirkjufellið... nýlega tók það þriðja lífið... Banaslys í Kirkjufelli - Vísir (visir.is)
... og var lokað í kjölfarið stuttu síðar þangað til 15. júní 2023... átakanlegt banaslys sem okkur var tíðrætt um í göngu dagsins... Banna fjallgöngur upp Kirkjufell (frettabladid.is)
Sem betur fer eigum við þetta fjall að baki... í enn einni ógleymanlegri ferðinni um þennan landshluta... Kirkjufellið loksins í safnið (toppfarar.is)
En... við vorum á leiðinni á fjallstinda sem enginn talar um... eru ekkert fræg... en hafa dáleitt okkur í öllum fjórum ferðum okkar um Helgrindurnar... svo mikið í síðustu ferð...
... að við ákváðum að setja loksins þessa tinda á dagskrá í byrjun október 2022... og þá var ætluni að ganga á þá í sumarfæri... og alls ekki því vetrarfæri sem beið okkar þennan dag...
Þó ekki væri það stysta leiðin... á ákváðu þjálfarar að fara frá tjaldstæðinu ofan við sundlaugina í Grundarfirði þar sem hentugt yrði að hafa aðgang að salerni... og það kom sér mjög vel... við munum án efa fara í fleiri göngur frá þessum stað... þó engin séu salernin því þarna truflum við engan landeiganda... og hundarnir eru ekki fyrir eins og við hesthúsin sem eru líklega styttri upphafsstaður í göngu hérna megin við Helgrindur...
Falleg leiðin til að byrja með... við lögðum af stað kl. 9:37 sem var ansi seint... en svona er þetta.... tíminn flýgur og við þurfum að vera ansi stíf ef við ætlum að nýta hann eins vel og hægt er á svona löngum degi...
Það var smávegis rigningarúði í byrjun göngu sem þornaði svo fljótlega...hlýtt og algert logn...
Þungbúið jú... en það átti að létta til og verða bjartara og við vonuðum það besta... sýnin upp í fjöllin var ekki mikil en það var allt að opnast...
Brátt kom Kirkjufellið í ljós.... það sést ekki mikið á þessari uppgönguleið nema á smá kafla... landslagið er það mikið í norðurlendunum að það er oftast í hverfi fyrir ásum, hryggjum og bungum... það koma á óvart...
Sterkir og djúpir litir einkenndu þennan dag... jörðin full af vökva og gróðri eftir sumarið... haustið er einstakur tími... eins og hinar þrjár árstíðirnar...
Dina var í sinni annarri tindferð með okkur... nýbúin að skrá sig í klúbbinn og hafði komið sem gestur í eina göngu fyrir tveimur árum eða svo... og hún keypti sér jöklabrodda og ísexi fyrir þessa göngu... þann búnað þorðum við ekki annað en taka með ef ske kynni... þó við ættum síður von á að þurfa að nota hann... þar höfðum við svo sannarlega rangt fyrir okkur eins og átti eftir að koma í ljós...
Kirkjufellið skreytti hluta af uppgönguleiðinni... einstakt fjall... og er stundum í samantektum yfir fegurstu fjöll heims... The 12 most beautiful mountains in the world - Hostelworld
Jebb... það var að birta til... við fylltumst orku við að sjá upp í fjöllin... fannhvít og freistandi...
Þjálfarar studdust við gps-slóð frá Jóni Oddssyni fjallamanni sem fer mikið einn mjög flottar leiðir... en hann er einn af tveimur sem við vitum um sem gengið hefur upp á fjallið Örn án klifurbúnaðar... og það var gps-slóðin sem við notuðum... af því við vorum að fara hér upp í fyrsta sinn... og vorum jú búin að velja leið út frá ljósmyndum af göngunni á Helgrindur í fyrra... þar sem við sáum fínustun leið... en það var öruggara að hafa einhvers lags viðmið ef þoka myndi flækjast fyrir og landslagið ekkert hjálpa okkur...
Vegna þessa þurftum við að velja hvoru megin við fjallsásinn við færum upp... og við þorðum ekki öðru en fara vestan megin við hann... af ótta við að lenda annars í frosnum hliðarhalla ofan við hann... en þessi uppgönguleið reyndist ekki eins falleg og sú sem við fórum svo niður um... og hefði getað verið uppgönguleiðin ef Bára hefði ekki beðið Örn að velja vestari leiðina... en við græddum þó á þessu smávegis hringleið... og fengum annað landslag á niðurleið sem naut sín mjög vel þá í síðdegisbirtunni... og við reyndar kynntumst þá landslaginu vestar... en við hefðum án efa ekki farið vestan megin niður ef við hefðum varið austari leiðina upp... svo þetta var svo sem alveg ágætis leið hvað það varðar...
Magnaðir litir... birta... form... landslag... hvílík fegurð !
Regnboginn skreytti meira að segja sjóinn á kafla... landslagið og birtan breyttist stöðugt allan daginn... eitt af mörgum sérkennum vetrargangnanna sem gefa almennt meiri fegurð í birtu en sumrin... af því sólin er lægra á lofti og dulúðin meira...
Við heilluðumst af fjallgarðinum austan við okkur á uppleið... og veltum fyrir okkur örnefnunum... Digrimúli... Hrókur... Smjörhnúkur... Kráka... magnað !
Reyndar mættu Snæfellsnesingar róa sig svolítið í Smjörhnúkunum :-) :-) :-)
Kirkjufellið og Brimlárhöfði... sá síðarnefndi er kominn á vinnulistann... flatt fjall jú... en magnað útsýni og einstök staðsetning !
Grundarfjörður hér í baksýn... og fjallið Klakkur nær og Eyrarfjallið fjær... Klakkur er líka kominn á vinnulistann...
Fegurðin var um allt...
Skyndilega komu Helgrindurnar í ljós... en landslagið nær hindað góða sýn.. tók því miður ekki fleiri myndir hér upp... hélt að útsýnið væri að opnast... en svo lokaðist það aftur...
Nesti og hvíld á uppleið... ennþá sumarfæri og allt mjög saklaust...
Ferskur snjór í gjótunni... snjólínan hafði sum sé verið neðar en nú fyrr í vetur...
Hvílíkt útsýni... hvílíkt fjall !
Fjallið Kráka... farið að opnast á Þverhlíðar og svoHvítahnúk ofar... mosagræni tindurinn hægra megin er nafnlaus...
Nú fór landið að svellast smám saman... og snjórinn smám saman að taka við... allt breyttist við þetta... við vorum komin í harðneskjulegri heim en sá sem neðar var...
Hráslaginn tók við... en samt ekki því það var enn lygnt og hlýtt...
Einstök litasamsetning... riddarapeysulitir...
Fljótlega eftir snjólínu fórum við í keðjubrodda... eina vitið... annar kostur var að þrjóskast við og detta svo á hendina og úlnliðsbrjóta sig til dæmis... við sem ekki þurfum að sýna hversu hraust við erum án keðjubrodda völdum að fara í þá snemma... enda þurfti maður þá ekkert að hræðast hvort maður stigi á svell eða mosa... léttir... aukinn gönguhraði... minni slysahætta... til hvers að halda á keðjubroddunum og tipla milli grjóta og mosabletta frekar en að fara í broddana og stíga bara þar sem maður þarf að stíga... ?
Þetta gekk hratt og vel fyirr sig á keðjunum...
En færið harðnaði enn frekar ofar... og fór að vera svellaðra í snjónum sem gaf sífellt minna eftir...
Það létti til... og svo þyngdi aftur yfir... vonbrigðin voru mikil... við sem héldum að það myndi létta til þegar liði á daginn... enginn var mættur hér á föstudegi til að ganga í þoku og engu skyggni...
Jú... förum í jöklabroddana... engin spurning... aftari menn horfðu á þá fremstu renna til og detta á keðjunum... til hvers að ganga með jöklabroddana og ísexina í bakpokanum og eyða orku í að leita að grjóti eða föstu landi til að feta sig á... jafnvel detta og slasa sig... frekar en að fara í þessa jöklabrodda sem allir eiga og kostuðu sitt... og æfa sig í að nota þá ?
Dina að nota sinn búnað í fyrsta sinn... vel valið hjá henni enda fékk hún góða þjónustu í GG-sport var það ekki ?
Bára þjálfari fór vel yfir ísaxarbremsu og hvernig ganga skyldi á jöklabroddum... ekkert gefið eftir í því... gerum þetta alltaf til að skerpa á og rifja upp í hvert sinn sem við förum í þennan búnað... notkun brodda og ísexi lærist fyrst og fremst með notkun... ekki á námskeiði... sem er samt gott að fara reglulega á... og þá best eftir að vera búin að nota búnaðinn til að skilja og geta spurt um og tileinkað sér hlutina út frá reynslunni...
Fremstu menn sem komnir vorun lengra en þeir öftustu fóru líka í sína jöklabrodda ofar... en fengu reyndar ekki þessa yfirferð á notkun búnaðarins... sem við skerptum samt á fyrir Tröllkerlinguna... en best hefði verið að við hefðum öll verið á sama stað og getað verið saman í að fara yfir handbrögðin... aldrei of oft farið yfir og spáð í þetta saman... enda stóðu menn sig mjög vel í þessari göngu og beittu búnaðinum rétt og yfirvegað allan tímann... virkilega vel gert !
Uppi í Egilsskarði var þoka og lítið skyggni... mikil vonbrigði... þar var grýtt og Bára þjálfari sá eftir því að hafa sett hópinn í jöklabroddana... en við fengum þá góða æfingu í að ganga gegnum grýttan snjó í þeim búnaði... og þurftum hvort eð er að nota hann stuttu síðar á báðum tindum...
Úr skarðinu sáum við varla til tindanna en vissum skv. gps að þeir væru þarna greyin... og héldum niður úr skarðinu til suðurs... reyndar fínt að fá þessa brekku og komandi hliðarhalla til að æfa broddana svo þetta kom ekki að mikilli sök að vera komin í allan búnaðinn svona snemma...
Á niðurleiðinni úr skarðinu tók að létta til.. alveg á réttum tímapunkti fyrir okkur... ótrúlegt alveg !
Tröllbarn sást brátt... sérkennilegt í lögun... höfuð þess mosavaxinn klettur...
Örninn... sem Reynir Ingibjartsson Snæfellsneskortamaðurinn okkar kallar einnig Tröllkarl í samræmi við Tröllkerlinguna og Tröllbarnið... var í skýjunum... og faldi sig þar allan daginn því miður...
Hliðarhallinn úr skarðinu í átt að Tröllkerlingu... sem við ákváðum að byrja á þar sem hún var erfiðari og fjær... og við ætluðum aftur um skarðið á niðurleið svo það yrði betri hringur...
Tröllkerling hér... virtist saklaus og létt uppgöngu þó brött væri efst... hún varð okkur meiri fjötur um fót en við gátum ímyndað okkur...
Tröllbarnið... þetta höfuð...
Klettarnir niður af Erninum til suðurs fengu skyndilega á sig sólina... við sáum til sjávar í suðri... en landið var ennþá þoku hulið að mestu...
Það var sannarlega ekki ætlunin að vera hér í vetraraðstæðum... enda var Örninn tekinn af dagskránni úr því við vorum svona seint í október og komin með snjó yfir allt... en við héldunm að við kæmumst upp með að fara á Tröllin tvö í mjúku snjófæri fyrsta snævar vetrarins eins og oft er nú ansi saklaus... með mjúkan mosann og jarðveginn undir sem gefur gott hald... en það reyndist aldeilis ekki verða svo...
Fljótlega hér... í um 750 m hæð tók færið að harðna...
Við fengum ekki nóg af þessum sérkennilega tindi eða höfði á Tröllbarninu... ótrúlegt alveg...
Örninn enn í skýjunum...
Færið orðið hart neðan við Tröllkerlingu og hér komu jöklabroddarnir sér mjög vel...
Ísexin mót brekkunni... breiða skaftið fram... efri fótur í göngustefnu... neðri í 45 gráður niður ef þarf til að halda jafnvægi... hafa gleitt milli fóta svo broddarnir flækist ekki í skálmunum eða hvor öðrum... lyfta hátt af því nú er fóturinn hærri en vanalega og broddarnir eiga til að rekast niður undir í jarðveginn og fella mann... taka stutt skref til að hafa meira vald á göngunni... stíga fast niður til að broddarnir nái í gegnum ísinn... og fimmta jöklabroddareglan; stíga jafnt niður til að nýta broddana í ísnum og alls ekki stíga á jarkana eins og maður gerir í skóm því nú er maður í broddum og þeir eru það sem heldur manni á ísnum... þjálfari ítrekaði þetta alla gönguna og menn gerðu þetta mjög vel...
Uppi á öxlinni á Tröllkerlingu var útsýnið til Tröllbarnsins mjög fallegt...
Hér ákváðu Bjarni og Sigríður Lísabet að láta gott heita... færið orðið alveg glerjað... ekkert hald í snjónum sem var bara einn ís... ekkert hélt okkur á fótunum nema broddarnir... allur búnaður okkar virkaði hér með eins og sleði sem færi mjög hratt með okkur niður þessa brekku... við höfum oft farið lengri brekkur en þetta... þjálfarar máta það svo að við gætum komist hér upp og lögðu af stað með hina... en hundurinn Batman komst hvorki lönd né strönd... það hefur ekki gerst áður... og lexía þessarar ferðar er sú... að þegar hundar sem vanalega fara allt með okkur á þessum árstíma, geta ekki lengur fótað sig í glerjuðu færi... þá erum við ekki að komast mikið ofar...
Þetta gekk vel til að byrja með... alla leið upp að klettunum... þar þurfti að skjáskjóta sér undir þá og upp síðustu brekkuna á tindinn... en færið varð sífellt verra... brattinn jókst... og brekkan var orðin löng sem mögulega var hægt að renna niður um ef einhver missti fótana... og því kallaði Bára þjálfari til Arnar hvort hér ætti ekki að láta staðar numið... Örn samþykkti það strax... og við snerum við... líklega með um 20 hæðarmetra eftir á tindinn eða svo... komin í 856 m hæð en Tröllkerling er sögð 873 m á Snæfellsneskorti Reynis Ingibjartssonar en um 860 m á map source...
Það var mjög krefjandi að snúa við... sérstaklega þegar maður er ekki vanur því... og lítið búinn að vera á jöklabroddum í glerjuðu færi þar sem ekkert er hægt að stinga fótunum í eftirgefanlegan snjóinn... Jaana hikaði og þá er erfitt að finna styrkinn sinn aftur... menn reyndu að hjálpa henni en að hennar sögn var það ekki fyrr en Örn fór fyrir neðan hana og gaf henni arminn sem hún náði að slaka á og ganga niður... og þá gekk allt eins og í sögu...
magnað þetta lið !
Myndirnar sýna hvorki brattann né erfiðleikastigið... þetta var erfiðasta færi sem við höfum lent í... næsti bær við ísaðan foss... þar sem ísinn gefur ekkert eftir... og því var þetta mjög lærdómsrík og dýrmæt æfing fyrir alla og heilmikil reynsla... svona færi þurfa allir að upplifa til að skilja afhverju það skiptir máli að æfa broddafærni... það er ekkert mál að ganga á broddum í eftirgefanlegum snjó... allt annað í miklu harðfenni þar sem bókstaflega ekkert hald er í snjónum... og engin leið að skilja þetta nema hafa reynt það á eigin skinni... eða eins og þjálfari sagði við Dinu sem var að upplifa þetta allt í fyrsta sinn... þessi dagur gaf langtum meira en dagsnámskeið á vetrarfjallamennsku... reynslan er það sem gildir... æfingin... endurtekningin...
Jaana lét hvergi deigan síga og missti auðvitað ekki jákvæðnina og gleðina sína og áræðni... hélt ótrauð áfram og lét þetta hik efst í Tröllkerlingu ekki slá sig út af laginu... það var virkilega aðdáunarvert...
Jæja... Tröllkerling... við ætlum að heilsa upp á þig á næsta ári... í fallegu haustveðri með mjúkan jarðveg til að gefa okkur hald alla leið upp á efsta tind... getum ekki beðið...
Við héldum yfir á Tröllbarn... við hlytum að ná allavega þeim tindi ha... hann væri sko miklu léttari... minni snjór og svona... jú, kannski glerjað færi líka en meira hald sko... ha...
Barnið leit ansi saklaust út neðan frá... smá áhyggjur reyndar af efsta kaflanum undir klettinum og við settum takmarkið á öxlina... ekki sjálfan klettinn, hann yrði genginn síðar ef hann er þá fær...
Ekkert um göngur á þessa tinda á veraldarvefnum sem er stórskrítið... allir á sömu fjallsbrúnunum... þessum grindum Heljar sem nýta nafnið sitt svo vel að menn vilja helst þangað og hvergi annað...
Þessi snjórenna þarna efst gæti verið vandamál... við veltum vöngum...
Nú opnaðist milli tinda niður á þokuslætt láglendið... til fjallsranans Kambs... birtan var með ólíkindum fögur...
Nei heyrðu nú mig... úff.. vorum við þarna uppi rétt áðan ? Fórum alla leið upp undir klettana... það var ekki skrítið að við þyrftum frá að hverfa... það mátti alveg frjósa aðeins efst í þessari brekku sko... Tröllkerlingin var ansi glæsileg að sjá frá barninu...
Kambur og Kambsvatn lekandi þarna niður um foss niður í Þokudal eða Þokudali eftir því hvaða kort maður skoðar...
Leiðin upp á Tröllbarnið var saklaus til að byrja með...
Sigríður Lísabet sem var í fyrsta sinn á jöklabroddunum í venjulegri fjallgöngu en ekki í línu í jöklagöngu og Jaana sem aldrei gleymir jákvæðninni.... með fyrra fjall dagsins í baksýn...
Hér var færið ennþá mjúkt...
Þokudalir... Kambur... Kambsvatn...
Kambsvatnið... vá hvað þetta var fallegt... hingað verðum við að koma og ganga að þessu vatni... komið á framtíðarlistann...
Farið að sjást niður norðan megin að Bjarnarhafnarfjalli...
Fljótlega harðnaði færið ofar á Tröllbarninu... og menn tóku að tínast úr hópnum... ég læt þetta duga núna... glerjaða færið var ekki auðvelt... og eftirskjálftar af Tröllkerlingunni sátu í sumum okkar...
Þetta er saklaust í mjúku færi... en mjög krefjandi í hörðu færi því brattinn er mikill og þegar haldið er ekkert... þá er virkilega erfitt að fóta sig á broddunum...
Örn hélt ótrauður áfram og flestir á eftir honum... það var þrjóskan við að ná allavega einum tindi úr því hinn náðist ekki... hundurinn komst heldur ekki hér... og bandið sem Örn setti hann í til að hjálpa honum var ekki góð hugmynd enda leystum við hann strax aftur og hann flýtti sér niður úr þessu gleri...
Við hin sem snerum fyrr við fórum bara í nesti og fylgdumst með neðar...
Örn kominn upp á öxlina... en þar var ekkert pláss fyrir hópinn... og hann sagði hingað og ekki lengra...
Bakaleiðin var erfið... Fanney missti ísexina sína en hélt svalanum sínum allan tímann og fótaði sig ísaxarlaus til baka án þess að hika... það var magnað að fylgjast með henni... Jaana bauðst strax til að lána henni ísexina ef Bára færi með hana upp... en þar sem Fanney fór fremst til baka og hélt stöðugt áfram þá virtist hún í góðum málum og þyrfti ekki á henni að halda...
Menn fóru varlega og það var aðdáunarvert að fylgjast með því... hvílík reynsla og æfing... yfirvegun og rólegheit... skref fyrir skref... engin köll... engin örvænting eða ótti sem smitaðist út í hópinn sem væri dæmigert við þessar aðstæður... neibb... bara skref fyrir skref niður úr þessari erfiðu brekku... magnaður hópur !
Agnar öðlingur fór svo niður úr þessu og sótti ísexina hennar Fanneyjar sem tókst að stöðva sig sjálf án þess að fara mjög neðarlega...
Langflottust og öll komin með dýrmæta reynslu af raunverulegri notkun á jöklabroddum...
Nú opnaðist meira fyrir útsýnið... einmitt þar sem við ætluðum að borða nesti og melta það sem var að baki áður en við snerum til byggða...
Eins og við manninn var mælt tók sólin að skína og Tröllkerling blasti við okkur ásamt gígnum fagra sem ekki síður heillaði okkur í síðustu Helgrindarferð í fyrra og var ein af ástæðunum fyrir því að við settum Tröllafjölskylduna á dagskrá í ár...
Hópmynd hér engin spurning !
Sjörn Kr., Agnar, Siggi, Örn, Fanney, Bjarni, Sigríður Lísabet, Jaana, Dina, Steinar Ríkharðs og hundurinn Batman en Bára tók mynd... alls 11 manns...
Falleg voru þau... við fengum hálfgerðan hroll við að horfa á brekkuna okkar fyrr um daginn...
Ein af mörgum milljarðavirðis-nestispásum... hátt uppi í fjöllunum... ein í heiminum... á nýjum slóðum... sjaldförnum... að kynnast þeim í allra fyrsta sinn... búin að læra mjög mikið... og enn eftir að koma okkur heim...
Jú... það glitti í smá hluta af Helgrindum þarna á milli tindanna nær okkur...
Við kölluðum þessa tinda "austari Helgrindur" í samræmi við fyrri skrif á veraldarvefnum um göngur þarna eftir öllum fjallsbrúnunum... en eftir vangaveltur saman í þessari ferð og eftir hana... með mjög góðu innleggi frá Agnari, Gerði Jens o.fl. er það lendingin hjá okkur þjálfurum að við værum ekki í Helgrindum heldur á tindum sem rísa austan við þær... Helgrindur séu fjallgarðurinn sem kemur eins og greip ofan við kirkjufellið og byrjar í Kerlingartindum og endar við Rauðkúlu... landslagið neðan frá norðan megi styður það... en við skiljum afhverju menn vilja kalla allar þessar brúnir Helgrindur... það má spyrja sig... gaman að spá í þetta og ekkert heilagt af okkar hálfu... þvert á móti vita heimamenn þetta best... viljum sem mest læra af þeim og við hlítum ávalt þeirra niðurstöðum...
Við máttum vera stolt af afrakstri dagsins... seinni tindurinn í sólinni... skyldum við komast þarna upp á næsta ári í sumarfæri ?... það verður forvitnilegt að komast að því...
Æj hópmynd til öryggis af því sólin skein og menn voru komnir í búnaðinn... maður veit aldrei hvaða hópmynd kemur best út fyrr en á reynir !
Steinar R., Örn, Bjarni, Jaana, Sjöfn Kr., Fanney, Sigríður Lísabet, Siggi, Agnar og Dina en Bára tók mynd...
Bakaleiðin var beint yfir og upp ásinn vestan við Egilsskarð... okkur langaði að sjá landslagið þar frekar en að fara hliðarhallann utan í brekkunum eins og á innleið fyrr um daginn...
Báðir tindar dagsins í baksýn...
Birtan var kyngimögnuð á þessum klukkutíma sem þarna leið...
Þegar upp var komið blasti norðurhlutinn við okkur til sjávar... svo fallegt...
Tröllkarlinn sjálfur... Örninn... ennþá í skýjunum... hér hefði verið stórkostlegt að sjá hann blasa við í allri sinni tignarlegu dýrð... ein af mörgum ástæðum til þess að koma hingað aftur á næsta ári... við verðum... gerum það... hættum ekki við... förum þó við verðum fá... annars gerist ekkert...
Báðir tindar dagsins... í síðdegissólinni... hún var farin að hníga verulega til hliðar... og við áttum alla bakaleiðina ennþá eftir... svona var dagurinn orðinn stuttur...
Fjærlinsa... skekkt sýn...
Skyggnið opnaðist stundum allt í kringum Örninn... sem gaf sig aldrei...
Útsýnisstaðurinn floittur hér á Örninn... fyrir næstu ferð...
Við sáum hann smávegis í þokunni smástund... en náðist ekki á mynd... áhrifamikið !
Fegurðin var einstök !
Gígurinn... leitt að hann skuli ekkert heita... Tröllakúla... eitthvað verður hann að heita þegar við göngum á hann... meira að segja Reynir er ekki með nafn...
Tröllkerling og Tröllakúla...
Kirkjufellið farið að kíkja á okkur frá sjónum... engin leið beint niður hér... við urðum að fara niður í Egilsskarð til að komast neðar...
Niður ásinn hér niður í Egilsskarð...
Smá klöngur... en hvað var það eftir það sem á undan var gengið...
Magnað hvað allt verður létt þegar sólin skín...
Jöklabroddafærið og gott að æfa notkun þeirra líka á þessum kafla... að vera í þeim í nokkra klukkutíma var einnig dýrmætt... þola fætur mínir broddana í marga klukkutíma ? Það er ekki sjálfgefið... oft fá menn fljótt blöðrur og sá einungis við það að fara í brodda... allt annað er eins, sömu skórnir og sömu sokkarnir... enn þaulvanir að ganga í 10 klukkutíma... en broddarnir kremja svolítiðn skó og fætur... gefa ekkert eftir... fótaburður er öðruvísi... og blöðrur geta komið hratt við þær aðstæður.. það er gott að máta sig við svona snemma að vetri til... þá eru manni allir vegir færir... óöryggið gagnvart broddunum strax farið í byrjun vetrar... en oft er maður orðinn öllu vanur að vori til og alveg hættur að hika við að fara í broddana vegna flækjustigsins... og þá kemur sumarið og þessi "vani" dettur úr manni... þar til næsti vetur kemur...
"Óvaninn" (eða það að vera "jöklabroddakaldur" eftir sumarið) sem var í okkur eftir sumarið átti án efa sinn þátt í því aðþjálfurum datt virkilega í hug að við gætum auðveldlega farið upp ísaðar brekkur þar sem hundurinn kemst ekki... lexían því sú eftir þennan dag... ein af mörgum eins og alltaf... að þar sem hundurinn kemst ekki upp vegna hálku... þar erum við ekki að fara...
Svona viðruðum við reynslu dagsins á niðurleið þessa klukkuktíma sem fóru í hönd... mikilvægast af öllu í svona lærdómsríkum og krefjandi ferðum er einmitt það að tala um hlutina... tjá reynslu sína, vangaveltur, horfa gagnrýnið á sjálfan sig og sjá hvað mátti betur fara og hvað maður lærði í þessari ferð... það er alltaf svo margt... einmitt þetta er það mest heillandi við fjallamennskuna...
... þessi óvissa, lærdómur, reynsla, nýja þekking, átökin, erfiðleikarnir, mörkin sem maður reyndi á sjálfum sér, uppgötvunin um mann sjálfan... að komast að því að maður virkilega gat þetta... maður gat meira en maður hélt eða vissi... meira en maður hefði getað sagt fyrirfram.. og ekki síður komast að því að félagar manns geyma jafnvel betri mann en maður vissi... þeir hlaupa til og hjálpa manni þegar síst skyldi, eru hér alltaf þegar á þarf að halda, standa saman þegar á reynir... eru besti félagsskapur sem hægt er að óska sér...
Örninn næstum því að kíkja gegnum skýin...
Hugarfarið er það mikilvægasta í fjallamennsku... neikvæðni... úrdráttur... hugsun í hindrunum... eru allt þættir sem taka frá manni dag eins og þennan... hann yrði aldrei að veruleika með hugsanahættinum "nei, þetta er ekki hægt"...
Þjálfarar ákváðu að taka austari leiðina niður... voru ekki alveg viss hvernig landslagið myndi leiða okkur á efri kaflanum en tóku áhættuna... við myndum þá í versta falli þurfa að snúa upp á fjallsásinn í vestri til að komast...
Hvassir steinarnir hér undan snjónum...
Úr broddunum... léttir... vá hvað þetta var mikill og kærkominn lærdómur !
Sjá hvernig Steinar, Bjarni og jafnvel fleiri leysa ekki vafningin af broddunum sínum heldur, losa bara um hann til að geta smeygt sér úr þeim... eru fljótari í broddana með þessu... sniðugt og til eftirbreytni ! Prófum þetta næst !
Þriðji í nesti hér eftir broddana... enginn að flýta sér... það var föstudags... fílíngur í mönnum... helgin framundan öll sömul... það var geggjað !
Við tók mjög falleg leið niður... sjá hér upp í Egilsskarðið...
Snjólínan mjög skýr hér... í fossinum sem hleypti okkur ekki niður og við þurftum að taka smá krók... lítið verð fyrir könnunarleiðangur hér niður...
Mikil fegurð... fjallatjarnir og fjallavötn... landslagið í norðurhlíðunum kom okkur virkilega á óvart sakir fegurðar og fjölbreytileika...
Speglun í læknum...
Farið að sjást í gegnum nokkra fjallgarða til austurs... magnað !
Fegurð hins smáa... ólýsanlegt !
Komin í mýkra og ljúfara landslag... allt annar heimur en ofar...
Kráka... Gunnólfsfell... Þverhlíðar... Hvítihnúkur... nafnlaus hnúkur...
Gangan okkar á Þverhlíðar, Hvítahnúk og nafnlausan tind sem við nefndum Lýsuhnúk er ein af mörgum ógleymanlegum... Tindferð 155 Hvítihnúkur og Þver (toppfarar.is) Við VERÐUM að endurtaka þessa leið sem fyrst !
Efst hægra megin í skýjunum var svo Smjörhnúkur sem við kölluðum áður Rauðakúlur eftir map source kortinu sem var ekki rétt en við reyndum að leiðrétta það... endilega sendið línu ef það misfórst einhvers staðar... Tindferð 118 Lýsuhyrna (toppfarar.is)
Bjarnarhafnarfjallið fjærst... Klakkur nær vinstra megin, Eyrarfjallið lengst til vinstri, Lambahnúkur hægra megin... öll ennþá eftir nema Bjarnarhafnarfjallið... nóg að ganga næstu árin... hættum ekki fyrr en öll fjöll Snæfellsness eru komin í safnið... forréttindi að hafa slíkt langtímamarkmið !
Litið til baka...
Litirnir í landinu... eins og af æðri heimi... náttúran skáka okkur margfalt...
Fiskurinn í frosnu tjörninni...
Svo fallegt...
Agnar varð að prófa klakann :-)
Hinn pollurinn... næstum því Ísland... með góðum vilja.. allt spurning um hugarfar... það fleytir manni hálfa leið... allt... í lífinu...
Lambahnúkur... Gunnólfsfjall á bak við... Smjörhnúkur í Digramúla nær... Kráka ofar...
Sólarbletturinn var í þessari fjallshlíð mjög lengi... það var sérklennilegt... mun lengur en sólarganghraðinn er... yfirnáttúrulegt að manni fannst... kannski var hann að segja okkur að vera alltaf sólarmegin í lífinu... þá gengi allt betur...
Vá... sólarbirtan ofar í fjöllunum þar sem við vorum... við vorum jú í skugga... en nutum góðs af síðdegissólinni engu að síður á þennan hátt...
Neðar vorum við komin á einhvers lags göngustíg... það létti yfirferðina síðasta kaflann...
Heilmiklar brekkur eftir ennþá niður í mót...
Sjáið ! Sólarbletturinn er ennþá í fjallinu ! Þetta var svo skrítið !
Kráka og félagar... jú, við verðum að ganga á þetta fjall á næsta ári, það er engin spurning !
Örninn ofar í skýjunum...
Alltaf gott að sjá til byggða... þá veit maður aðn maður er hólpinn... Guð minn góður hvernig spor smaladrengja og stúlkna var hér áður fyrr... ein í fjöllunum með fénu og smalahundinum allan daginn... að heiman upp í fjöllin á morgnana með féð... niður og inn á kvöldin... með lítið að borða... þurftu að hafa ofan af fyrir sér og ekki týna fénu í öllum veðrum... niðursetningar oft á tíðum... fengu minnst af matnum... varlra þakklæti... skammir og ofbeldi ef þau brugðust hlutverki sínu... vanvirt... vanrækt... fólkið sem lifði af var ofur... voru reyndar ekki á þessum árstíma í október... en sannarlega ekki alltaf sól, logn og skyggni...
Dásamlegur var síðasti kaflinn niður...
Mikið spjallað og spáð í hlutina... það nollasta af öllu að viðra og heyra sjónarmið annarra og velta vöngum yfir tilverunni í öllum sínum myndum...
Það var tekið að skyggja síðasta kílómetrann...
Með Kirkjufellið í baksýn... frábær samhentur og jákvæður hópur sem lét ekkert slá sig út af laginu... aðdáunarvert með meiru !
Fanney vildi hafa Batman með á þessari mynd... auðvitað ! Smalahundurinn mikli sem var mjög sáttur við hjörðina sína á þessum tímapunkti... allir saman í halarófu á leið niður og ekkert vesen úti um allt og upp einhverja ísilaða tinda þar sem hann fékk ekki að koma með... það var fisst áfall að upplifa það að hann kæmist ekki... sárt að segja honum að bíða og "passa húsið" þegar hann vældi og reyndi margsinnis að fara upp brekkuna á Tröllkerlingu... elsku skinnið... hann er bestur í heimi... og eitt það fallegasta í þessum klúbbi er að upplifa hversu vænt mörgum þykir um hann... hann á sannarlega sanna vini hér á bæ í Toppförum... ómetanlegt...
Niður með læknum frá því um morguninn...
Gljúfrið litla en fallega...
Þetta rétt slapp fyrir myrkur... hvílíkur dagur að baki ! Ný upplifun að vera hérna megin Snæfellsness á þessum árstíma og löngu kominn tími á það !
Alls 12,6 km þegar komið var í forritið... á 8:00 - 8:03 klst. upp í 856 m á Tröllkerlingu og 828 á Tröllbarni með alls 1.118 m hækkun úr 18 m upphafshæð... talan átta var tala dagsins greinilega :-)
Tækin misjöfn í mælingum eins og alltaf og úrin og símarnir mæla alltaf meira... þau telja áfram í pásum sem skekkir þeirra tölur...
Salernið ennþá opið sem var mjög vel þegið... hefðum viljað borga fyrir þetta en sáum hvergi greiðsluleið... og brunað í bæinn í ljósaskiptunum... reynslunni ríkari og ansi sátt farið inn í helgina sem var öll framundan í þetta skiptið... við ætlum að bjóða oftar upp á föstudagsgöngur á næsta ári... svo margir í vaktavinnu, eru sjálfstæðir atvinnurekendur, eru með sveigjanlegan vinnutíma, eiga inni mikið af fríi nú eða eru á eftirlaunum og allt þeta fólk vill alveg eins ganga á föstudegi eins og um helgi... enda voru nokkrir í hópnum að fara að vinna um helgina og þess vegna hentaði það þeim vel að fá göngu á föstudegi...
Langur dagur keyrandi heim... en alltaf þess virði...
Fegurðin hélt áfram hvert sem litið var...
Fjöllin óskuðu eftir því að komast á listann okkar... og við sögðum já... þau sem nú þegar eru að baki... veifuðu og þökkuðu fyrir síðast...
Snæfellsjökull... og Eldborg... með margtindótt Hafursfellið hægra megin... hvílík verðmæti að eiga allar þessar göngur að baki á þessum fjallgarði sem teygir sig til vesturs af meginlandi Íslands og endar í einum stórum eldvirkum jökli... hversu magnað er það !
Takk öll fyrir krefjandi en mjög gefandi og fallegan dag sem gaf mjög mikið og gleymist okkur aldrei...
Sjá öll fjöllin á Snæfellsnesi sem við höfum gengið frá upphafi: Fjallasafn Toppfara frá A til Ö | Toppfarar (fjallgongur.is) Sjá gps-slóð dagsins: Wikiloc | Tröllkerling og Tröllbarn við Örninn Snæfellsnesi 281022 Trail Sjá myndband ferðarinnar í heild hér: (1) Tröllkerling og Tröllbarn í austari Helgrindum Snæfellsnesi 28. október 2022. - YouTube
Comments