top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Tvíhnúkar á Snæfellsnesi... sjaldfarnir tindar um ótroðnar slóðir í snjóbyl

Tindferð 241 og Toppfaraganga nr. 1001 !


Eltingaleikurinn við gott veður hélt áfram í apríl eftir erfiðan veturinn... og enn einu sinni fengum við síðra veður en spáin sagði til um og við vonuðumst til þennan fyrsta laugardag í aprílmánuði árið 2022...


Fjallasýnin góð til að byrja með þegar keyrt var að fjöllum dagsins... hér með Tvíhnúkana fyrir miðri mynd og Hafursfellið vinstra megin og Skyrtunnu óljósa hvíta hægra megin og nær Svartafjall sem er hluti af Þrífjöllum ásamt áðurnefndri Skyrtunnu og svo Snjófjalli sem er í hvarfi... en þessi þrjú voru gengin 1. maí árið 2013 í stórkostlegri göngu...


Sjá hér Hafursfellið marghnúkótt vinstra megin og Tvíhnúkana hægra megin tvo ávala og saklausa í samanburði við bratt Hafursfellið...


Bóndinn á Dalsmynni hefur oftar en einu sinni verið okkur hjálpsamur og liðlegur í göngum okkar á fjöllin þeirra... en nú fór hjálpsemi þeirra á hærra plan...


... því Arna Hrund gleymdi fjallgönguskónum sínum... og Egill þekkti bóndann á Dalsmynni og brunaði til bæjar og falaðist eftir því að fá lánana gönguskó ef til væru á bænum... jú þetta líka eðaleintak sem Arna er í hér var í eigu húsmóðurinnar á bænum sem var reyndar ekki heima en gaf leyfi sitt fyrir láninu... og þeir smellpössuðu á Örnu... hvílík bjargráð á ögurstund... því þau hefðu annars þurft að snúa við þennan morgun...


Við lögðum af stað kl. 8:58... blíðskaparveður... hlýtt, logn og háskýjað og fjallasýnin falleg til Þrífjalla eða Skyrtunnu og Svartatinds en Snjófjall var innar úr sjónfæri...


Upp brúnirnar hér til að komast inn eftir því áin rennur í djúpu gljúfri neðarlega...


Yndislegt að vera komin í göngu...


Sjá stífluna yfir Núpá... sem við höfum gengið yfir í sögulegri ferð á Þrífjöll árið 2013 þann 1. maí... Tindferð 92 miðvikudaginn 1 (toppfarar.is)


Sýnin inn Núpárdalinn með Tvíhnúkana á vinstri hönd, Skyrtunnu og Svartafjall innst hægra megin... snjór ennþá niður á láglendi... en það átti eftir að breytast hratt næstu daga...


Mjög góð stemning og gleði í hópnum...


Hafursfellið hér með austurdalinn útbreiddan og hæsta tind hægra megin við miðja mynd... tvisvar höfum við staðið þar í svakalegu útsýni...




Sjá Hrútaborg hvassa lengst í fjarska við Kolbeinsstaðafjall...



Þegar niður í Núpárdal var komið þurftum við að þvera nokkrar ár sem runnu niður úr Hafursfelli...


Þær voru í klakaböndum en óðum að vinna í málunum...


Við komumst yfir þær allar á snjóbrúm...


Alls kyns snjóbrýr sem við ætluðum varla að treysta... en reyndust mjög traustar...


Bára þjálfari í nýrri riddarapeysu... þær eru ávanabindandi þessar peysur !


Hafursfellið í allri sinni dýrð neðan frá...


Rösklega farið inn eftir dalnum...


... svo hlýtt og lygnt að sumarið var áþreifanlegt þrátt fyrir allan snjóinn...


Núpáin rennandi frískleg niður með dalnum...


Greið leið og einföld...


Innar rennur áin í gljúfri og maður verður að fara upp hlíðarnar vestan megin...


Sprungur í snjóbrúnum...


Upp hlíðarnar ofan við gljúfrið...


Mosinn mættur innan um snjóinn...


Tindar dagsins framundan... Tvíhnúkar...


Dásamlegt veður þó ekki væri sól og blár himinn...


Nyrsti hluti Hafursfells hér framundan... sem við ætluðum að ganga á eftir Tvíhnúkana... og Núpuskarðið sunnan við Tvíhnúka hægra megin...


Við gengum inn eftir upp í skarðið... svellbunkar um allt en mjúkir skaflar og mosi með góðu haldi...


Fjallahundurinn Batman með Hafursfellið í baksýn...


Tvíhnúkarnir... saklausustu fjallstindarnir í dalnum... allavega í samanburði við Hafursfellið og Þrífjöllin...


Nesti áður en komið var upp í skarðið... en þegar nestistímanum lauk fór að snjóa... og það þyngdi hratt yfir...


... svo þegar við komum upp í Núpuskarð hvarf fjallasýnin og skyggnið...


Litið til baka...


Hér var kominn hressilegur blástur og kuldi með snjóhríðinni...


Skyndilega vorum við stödd í vetrarveðri en ekki sumarblíðu eins og niðri...


Við héldum samt ótrauð áfram... ætluðum ekki að gefa þessa tvo tinda eftir...


Batman kann að biðja um smá bita af nestinu...


Kolbeinn er besti vinur aðal...


Hér tók allt að hrímast... og Batman var fljótur að hvítna allur...


Fyrri tindurinn framundan eftir smá hæð til að byrja með...


Allt loðið hrímaðist...


Flott leið... það var grátlegt að vera ekki með skyggni...


En við vorum samt í banastuði og nutum þess að ganga því það var ekki sérlega kalt... undarlega hlýtt í raun miðað við vind og snjókomu...


Frábær stemning... nánast allir að fara á Suðurtind í Hrútsfjallstindum sem voru í þessari göngu eins og fleirum þessar vikurnar...


Fyrri tindurinn... hann mældist 660 m hár...


Við vorum bara í spjallinu og gleðinni þegar hópurinn var þéttur upp brekkurnar...


Ekkert stress og bara gaman...


Snjóhríðin sést vel hér...


Smám saman hrímaðist Batman allur...


Seinni tindurinn og sá hærri...


Aðeins lengra...


Komin á tindinn sem mældist 717 m hár...


Mjög sérkennilegt að koma upp á hæsta punkt því skyndilega lygndi og efst var algert logn með vindinn gnauðandi beggja vegna... þetta náðist á myndband... brúnalogn...


Hár hrímaðist...


Ullin hrímaðist...


Snjókófið var þvílíkt að það var ekki hægt að nota gps-tækið nema strjúka stöðugt af því til að sjá á skjáinn... ótrúlegt alveg...


Snjórinn kófaðist einhvern veginn inn á tindinn og lagðist yfir okkur í logninu þarna uppi... mjög sérstakt...


Geggjuð stemning !


Egill, Sjöfn Kr., Fanney, Jaana, Sigrún Bjarna., Kolbeinn, Inga Guðrún, Siggi, Örn og fremst er Arna hrund en Bára tók mynd og Batman og Whisky voru hundar dagsins...


Kolbeinn.... þjálfari ákvaða að taka mynd af öllum á tindinum...


Siggi.


Sigrún Bjarna.


Sjörn Kristins.


Jaana.


Fanney.


Inga Guðrún.


Egill.


Örn.


Arna Hrund.


Bára.


Önnur hópmynd...


Helmingur hópsins...


Og hinn helmingurinn...


Svo var farið niður af tindinum...


... og Örn sem alltaf merkir punkta á mikilvægum stöðum til að komast hratt til baka... merkti ekki inn fyrri tindinn svo hann elti ekki þann punkt heldur lét landslagið leiða sig niður 700 metra vegalengd eða svo enda virtist þetta bara vera ein leið niður meðfram brúnunum... en fljótlega könnuðumst við ekkert við okkur... vindurinn að mestu horfinn og blés og annarri átt en við áttum von á miðað við uppleiðina og þegar þjálfarar náðu í gleraugun sín og litu á slóðina á gps-tækjunum... kom í ljós að við höfðum lækkað okkur niður rangan hrygg...


... og urðum að snúa til baka og upp til að komast í Núpuskarð... ekki það skemmtilegasta... 1,5 km bættist við og við þurftum að klöngrast í grýttum hliðarhalla og klofa snjóskafla sem voru ekki á leið okkar upp á tindana...


Æj, hvað það var gott að komast á "gamalkunnar slóðir" aftur... úff... meiri vitleysan :-)


Upp svo lægri tindinn á leið til baka...


Fínasta færi og ekki þörf á jöklabroddum...


Brekkan niður syðri tindinn...


Heilmikið klöngur en sífellt betra veður með lækkandi hæð...


Hópmynd í gleraugunum hans Kolbeins... geggjað !


Hárið frosið yfir húfuna hjá Báru eftir hettuna...


Tókum enga mynd á leið út dalinn en þar var erfitt færi þar sem nýfallinn snjórinn faldi alla hálkubletti þannig að við vissum aldrei fyrr en á reyndi hvort fljúgandi svell beið okkar í næsta skrefi sem reyndi verulega á... og allar myndatökur gleymdust í barningnum..


Og svo renndum við okkur niður brekkuna úr dalnum...


Vá hvað það var gaman !


Juhúúú !


Hvílíkt stuð !


Og þá var leiðin greið og færið saklaust út úr Núpadalnum meðfram ánni...


Aftur yfir snjóbrýrnar...


Og hér fyrst fórum við úr broddunum vegna svellsins...


Úff... ekki gott að ganga á þeim í þessu hitastigi... snjórinn festist endalaust í þeim...


Ótrúlegt...


Whisky safnaði líka á sig snjó... en vildi ekki að við tækjum hann af... hann bar sig ótrúlega vel og valhoppaði bara áfram með allan þennan aukasnjó utan á sér...


Afslappað andrúmsloft... við vorum bara að njóta síðasta vetrarævintýrisins... því sumarið var handan við hornið...


Rösklega gengið meðfram ánni... og nú lá snjór yfir öllu eftir snjóhríðina...


Skrítið... allt annað landslag og leiðin ekki sú sama eftir autt færi fyrr um daginn...


Egill að bisast við að taka snjóinn af duglega Whisky...


Síðasta snjóbrúin...


Ekkert mál...


Komin fram á brúnirnar... við fórum aðeins öðruvísi leið til baka síðasta kaflann...


Litið til baka...


Prófuðum að fara hér niður...


Og leiðin reyndist í stakasta lagi þó þétt væri...


Mjúkur snjór og mjúkur jarðvegur...


Hestahjörð sem áður hefur verið á einmitt þessum stað í fyrri göngum okkar á þessu svæði...


Snjókoman hafði greinilega verið á öllu svæðinu... bílastæðið var hvítt...


Símar, úr og gps-tæki eru núna sérlega misvísandi með vegalengdir... við erum vön að það muni nokkur hundruð metrum... en í vor er stundum 2ja kílómetra munur milli tækja... við skiljum ekkert í þessu...


Gamla gps-tækið... það dugar enn... Örn mældi þetta 17,9 km og basecamp var með þá tölu svo við látum það standa...


Prjónaskapur... oh... svo gaman !


Alls 17,9 km á 7:09 klst. upp í 717 m hæð með alls 1.102 m hæð úr 50 m upphafshæð.


Frábær dagur, dýrmæt æfing, geggjuð stemning !

42 views0 comments

댓글


bottom of page