Alls tóku átta manns þátt í áskorunum þjálfara árið 2023 sem fólust annars vegar í að mæta sem flesta þriðjudaga og minna sig á að vera þakklátur fyrir alla ótal hlutina í kringum þessar kvöldgöngur á þriðjudögum allt árið um kring.
... og hins vegar áskorun sem var afbrigði af hefðbundnu vinafjallsáskoruninni okkar árlega þar sem við stefnum á að ná 52 ferðum á okkar vinafjall, en árið 2023 settum við tólf fjöll í pottinn og máttum safna göngum á þau öll að vild en með því skilyrði að ganga alltaf að lágmarki einu sinni á vinafjall mánaðarins sem voru eftirfarandi:
Janúar: Mosfell.
Febrúar: Helgafell í Hafnarfirði.
Mars: Ásfjall í Hafnarfirði.
Apríl: Akrafjall á Akranesi.
Maí: Hafrahlíð við Hafravatn.
Júní: Þorbjörn á Reykjanesi.
Júlí: Móskarðahnúkar.
Ágúst: Vífilsfell.
September: Esjan.
Október: Helgafell í Mosó.
Nóvember: Búrfellsgjá.
Desember: Úlfarsfell.
Bára, Katrín Kjartans, Linda, Njóla, Sigríður Lísabet og Sjöfn kr. melduðu inn sínar samtölur fyrir árið en ég læt fylgja með meldinguna frá Halldóru Þórarins sem náði þessu næstum því sem og uppgjörið frá Sigga af því slíkar frásagnir eiga jafn mikið erindi og hin, lífið slækist stundum fyrir okkur og þó við reynum, þá tekst ekki alltaf að ná 52 ferðum eða hverju eina sem árlegar áskoranir þjálfara klúbbsins eru.
Nýtum meldingu hinna sem hvatningu og innblástur til að halda okkar striki, gera betur og skora áfram á okkur að hreyfa okkur daglega, ganga reglulega á fjöll og fyrst og fremst hafa gaman í hvert sinn :-) Sál og líkami njóta afrakstursins og þau okkar sem hafa komist á bragðið finna það og hafa þannig öðlast kraft til þess að taka þátt á hverju ári en mest er um vert ef okkur tekst að gera það að lífsstíl árum saman að ganga reglulega á fjöll allt árið um kring og njóta hverrar ferðar :-)
Hér koma meldingar hvers og eins... þær eru sem fyrr... alger veisla... ég bæti fleirum við ef þeir melda inn á lokaða fb-hópinn eða senda mér sína samantekt og endilega senda eina fallega ljósmynd með úr þessum göngum:
Bára:
Ég fór alls 83 ferðir á vinafjöllin okkar á árinu, þar af lang oftast á Úlfarsfellið eða 53 ferðir. Hafrahlíðin fékk svo þó nokkrar ferðir en hin tíu voru eingöngu gengin í sínum mánuði og kannski einu sinni oftar, en það var þá yfirleitt með Toppförum. Mín niðurstaða er því sú að þó manni finnist stundum takmarkandi að vinafjallsáskorunin snúist almennt eingöngu um að ganga eins oft á eitt fjall, vinafjallið manns, þá endar maður einhvern veginn lang oftast á því hvort eð er, þó svona 12 fjalla áskorun sé í gangi. Maður fer greinilega sjaldnar á önnur fjöll til tilbreytingar en maður átti von á. Ég sé að það sama gerðist hjá öðrum þátttakendum, þegar á reyndi, var þeirra vanalega vinafjall lang vinsælast.
Ég ætlaði að ganga hvern einasta þriðjudag á árinu og náði að fara á fjall á Tenerife og í aðeins í sumarfríinu á Íslandi, en datt út vegna meiðsla á hné, liðþófaaðgerðar, sumarfrís og svo veikinga Batmans einn þriðjudaginn, alls 13 þriðjudaga sem ég stóð mig ekki sem kom mér á óvart við samantektina. Örn náði öllum þriðjudögunum nema þegar Batman veiktist skyndilega rétt fyrir þriðjudagsgöngu. Mínir þriðjudagar urðu því eingöngu 39 talsins af 52 sem er ótrúlegt finnst mér sjálfri :-)
Magnaðasta þriðjudagsganga ársins var með tvö elstu barnabörnin okkar, Ríkharði Darra f.2018 og Rebekku Eik f.2018 á Stóra Dímon í grenjandi rigningu og roki í sumarfríi í lok maí, en það undurfurðulega gerðist í þeirri ferð að þegar við keyrðum að fjallsrótum Stóra Dímons, þá stytti skyndilega upp, vindinn létti og það komu sólargeislar á köflum þegar við röltum með þessum tveimur 5 ára barnabörnunum okkar þarna upp. Þau gengu sjálf upp með nokkrum hléum og voru mun duglegri en við áttum von á, en það er svolítið meira krefjandi að ganga á fjall í regnstígvélum og regngalla vel inn pakkaður en léttklæddur í sumri og sól. Uppi var hávaðarok og Rebekka varð mjög hrædd við vindinn á meðan Ríkharður vildi bara hlaupa um tindinn með snarbrattar hlíðarnar beggja vegna en Rebekka upplifði að við værum að detta niður í sjó þegar hún sá Markarfljótið renna meðfram fjallinu. Bæði mátu aðstæður ekki rétt, ofmat og vanmat en höfðu bæði nokkuð til síns máls og aldurinn og reynslan mun þroska þetta með þeim. Þar sem rokið var mjög stíft héldum við börnunum alveg að okkur og rétt náðum að taka sitt hvora myndina af afa og svo ömmu með fjallagarpana tvo. Þetta var alvöru fjallganga í alvöru veðri.
Á niðurleið veit ég ekki hvað gerðist en við einhvern veginn tókum upp á því að renna niður grasrennu eina sem varð á vegi okkar og þetta endaði í einni langri rússíbanaferð rennandi niður allt fjallið í regngöllunum á blautu grasinu, svo fyrr en varði vorum við komin niður skellihlæjandi og alsæl. Ferð sem toppaði allar vatnsrennibrautir í heimi. Þau skemmtu sér konunglega og ég verð í vandræðum með að geta ekki boðið alltaf upp á að ofan af fjalli sé hægt að renna sér niður alla leið... þau halda það nefnilega núna, að svoleiðis sé þetta þegar farið sé í fjallgöngu.
Áfram héldu yfirnáttúrulegir hlutir að gerast í þessari ferð, því um leið og við komum niður, byrjaði aftur að rigna og vindurinn blés sem aldrei fyrr, svo við þurftum að flýja strax inn í bíl þar sem við borðuðum nestið okkar, ekki sjens að borða það úti. Meðan við sátum í bílnum blaut en sæl, kom bíll keyrandi að fjallinu og út stigu erlendir ferðamenn sem ætluðu greinilega að ganga á fjallið. Þau sneru strax við og flúðu aftur inn í bílinn sinn og óku burt, því úti var grenjandi rigning og rok... allt annað veður en þegar við stigum út þremur korterum áður... það var eins og við hefðum fengið meðbyr... veðuröflin stöðvuðu för og gáfu okkur sól og blíðu á fjallinu, nema reyndar á tindinum þar sem var rok... enda takmörk fyrir öllu... og sama blíðan ríkti á niðurleið... en svo hélt slagviðrið áfram um leið og við vorum komin niður og rigningin og rokið lamdi á bílnum keyrandi frá fjallinu í sund á Hellu... og þegar við litum við blasti Stóri Dímon við veðurbarinn og allur í þoku slagveðursins... það var varla hægt að trúa því að við hefðum stuttu áður gengið á fjallið í sól og þurru veðri... alveg hreint með ólíkindum... ekki annað hægt að kalla þetta yfirnáttúrulega upplifun og manni dettur ekki í hug að efast um það, náttúran veit sínu viti betur en við mennirnir.
Þessi ganga stendur upp úr á árinu 2023 og snerti hjarta mitt sterkast, ég mun aldrei gleyma því að hafa náð þessari upplifun með Rebekku Eik og Ríkharði Darra. Þessi ferð fær mig til að ákveða að á hverju sumri ætli ég að ganga á þetta fallega fjall með barnabörnunum þar til ég er öll... og næ vonandi mörgum árum í viðbót.
Halldóra Þórarins:
Mér brást heldur betur bogalistin árið 2023 og komst ekki 52 ferðir á vinafjallið. Fór 5 ferðir á hin mánaðarlegu vinafjöllin + 43 ferðir á Úlfarsfellið, eða alls 48 ferðir. Vinafjöllin okkar árið 2023 x52 ferðir klúðraðist því. En það verður að hafa það þetta síðasta árið, vinnan var stundum of mikil og veikindi stöku skyldmenna settu líka sitt mark á mín plön.
En ég er alls ekki vön að ná ekki markmiðum mínum og ætlaði því síðustu 2 daga ársins að fara 2 ferðir á Úllann þann 30.12 og 2 ferðir þann 31.12, en lenti síðan í mikilli vaktavinnu frá kl 9-00:30 allan daginn 30.12., nema fékk smá hádegismat um kl 14-15 og kvöldmat um kl 21. Svaf svo 4 klst aðfaranótt 31.12 og vann Gamlársdag til kl 11:30 og átti þá eftir að versla skotgleraugu, stjörnuljós, 2 tertur og allan hátíðarmatinn fyrir dagana 31.12 og 1.1 og elda síðan pankóhjúpaðan kalkún og hafa hann tilbúinn milli kl 18-19 á Gamlársdag. Þannig að ég náði ekki þessum 4 síðustu Úlfarsfellsferðum og enda því með einungis 48 vinafjöll (en smá huggun að ég náði þó 52 Úlfarsfellum árin þrjú á undan).
Vona að 2024 verði enn betra gönguár fyrir mig og líka fyrir ykkur öll í Toppförum Og vona að Batman líði sem allra best líka. Gleðilegt og gönguríkt ár 2024.
Katrín Kjartans:
Hér koma mínar tölur í áskorunum Toppfara 2023.
Fjallamaraþon: náði þar 712,5 km. alls 142 fjöll (44.4 km.- 128 km. mánuði).
Þriðjudagsþakklæti: þar náði ég að ganga 45 þriðjudaga.
Þakklæti mitt er að hafa heilsu til að gera þetta.
Vinafjall mitt Úlfarsfell: þar náði ég 54 ferðum
Vinafjöll Toppfara : náði að fara 76 ferðir. En náði ekki septemberfjallinu
sem var Esja vegna covid og utanlandsferða og telst
því ekki hafa náð þeirri áskorun.
Samtals fjallgöngur og gönguleiðir á árinu 1.037 km.
Gaman að vera með og mér finnst svona áskoranir drífa mann af stað.
Takk Bára og Örn fyrir endalausa hvatningu og jákvæðni.
Læt fylgja 1 mynd úr þriðjudagsgöngu, það var aldrei spurning um að velja þessa mynd. Hún segir allt…en þó án orða. Takk fyrir mig.
Linda:
Ég kláraði öll mánaðarfjöll á árinu og fór vinafjöllin okkar x52 sem var Úlfarsfellið x63 sinnum. Er bara ánægð með mig og mun halda ótrauð áfram.
Njóla:
Ég fór 66 ferðir á #vinafjalliðmittx52 Helgafell í Hafnarfirði á árinu sem var að líða . Þessi áskorun finnst mér vera frábær og hentar mér vel til að halda sér í gönguformi fyrir allar þessar flottu göngur sem þið bjóðið uppá.
Siggi:
Var loksins að klára að setja inn göngurnar mínar árið 2023.
maður er alltaf jafn hissa á þessum tölum hvað þær eru miklar.
en Úllinn hafði vinningin með ferðir á sama fjall/ fell = 31 stk
heildartala 700 km og 36.354 metra hækkun.
Samantekið:
Vinafjöllin. Mosfellx2. Helgafell Hafnx2. Ásfjall Hafnx1. Akrafjallx1. Hafrahlíðx3. Þorbjörnx1. Mósgarðshnjúkarx2. Vífilsfellx2. Esjanx2. Helgafell Mosóx2. Búrfellsgjáx2. Úllix31.
Alls 51 ferð á árinu.
Sigríður Lísabet:
Vinafjöllin okkar árið 2023 x52 ferðir Þetta er ferð mín nr. 52 á Helgafellið í Hafnarfirði Nú mega áramótin koma fyrir mér.
Sjöfn Kristins:
Þá er það göngugreinargerð fyrir 2023.
Ég tók þátt í 2 opinberum áskorunum. Önnur áskorunin voru þessi 12 vinafjöll - að fara að lágmarki 1x á fjall mánaðarins, þess mánaðar, og svo að lágmarki 52x samtala fjallanna 12 á árinu. Það reyndist mér frekar auðvelt og náði þeirri áskorun.
Hin opinbera áskorunin var að reyna að komast í göngu alla þriðjudaga ársins. Það tókst næstum, en ekki alveg, mig vantaði 2 þriðjudaga.
Að auki var ég með 2 undirmarkmið, og hvorugu náði ég 100%, en fór nálægt því.
Í fyrsta lagi: Ætlaði mér að taka vinafjall mánaðarins að lágmarki 4x í þeim mánuði. Það gekk upp alla mánuði nema í júlí, fór bara 1x á Móskarðshnjúka, því ég var í sumarfríi í júlí og þurfti að sinna fjarlægari fjöllum, og þau hafa verið nokkur því heildarkílómetrafjöldi í fjallgöngum í júlí voru 219,7 km.
Í öðru lagi: Ætlaði að ganga minnst 100 km í fjallgöngum í hverjum mánuði. Það gekk greiðlega 11 mánuði, en í febrúar náðist það ekki.
Hvað vinafjöllin 12 varðar, þá urðu samtals ferðir þar 156 á árinu. Þar átti Úlfarsfellið metið, eða 66 ferðir.
Kílómetrafjöldi allra fjallganga á árinu, bæði vinafjöllin og öll önnur, er samanlagður 1704,1 km, eða 142 km að meðaltali á mánuði.
Sjöfn var dregin út og vann sér inn árgjald í klúbbnum sem hún má nýta fyrir sjálfa sig eða aðra. Að ná að ganga á alla þriðjudaga ársins nema tvo er með ólíkindum flott frammistaða og til marks um staðfestu og einurð sem við kunnum mikið að meta.
----
Þjálfari skráði niður eitt atriði til að vera þakklátur fyrir í hverri þriðjudagsgöngu á árinu 2023... hér er sá listi... en oft var erfitt að velja enda hægt að vera þakklátur fyrir svo margt í hverri göngu... en reynt var að láta hvert atriði eingöngu koma fram einu sinni... sjá hér: Þakklæti... á þriðjudögum... fimmtíu stykki... árið 2023... #þriðjudagsþakklæti (fjallgongur.is)
Takk öll fyrir að taka þátt og þið sem melduðuð inn ykkar tölur. Ef þessar áskoranir koma þó ekki sé nema einhverjum einu sinn oftar út að ganga eða hreyfa sig á hverju ári en ella, þá er til mikils unnið, hvað þá að við förum kannski mörgum sinnum oftar út en ella, eins og yfirleitt er raunin þegar maður tekur sig til og er með í þessum áskorunum.
Áfram við í þessari vitleysu... höfum gaman... saman með því að hvetja hvort annað og gefa innblástur... þannig gerum við meira en við héldum að við gætum og lífsgleðin og hreystin verður meiri en ella :-)
Comments