Þriðjudagsæfing 12. október 2021.
Því miður fengum við rok og rigningu kvöldið sem ætlunin var að njóta lágra en svipmikilla gíga á Reykjanesinu sem við sáum í fjarska ofan af Krýsuvíkurmælifelli haustið í fyrra... en við náðum engu að síður skínandi góðri útiveru og ágætis brölti í þokunni til að byrja með og svo rökkri og loks myrkri... þar sem við vorum orðin vel heit og engan veginn tilbúin til að fara heim þegar við komum í bílana heit og rjóð og algerlega í gírnum...
Þjálfarar vissu ekkert hvar þeir ætluðu að ganga... eina sem við höfðum í höndunum var minning um lága gíga sem við sáum ofan af Krýsuvíkurmælifellinu og okkur þóttu forvitnilegir í fyrra... þeir væru stuttu eftir grasverpið á miðri leið um Vigdísarvelli... líklega sunnan við eyðibýlið en við vorum samt ekki viss... og þegar við keyrðum í þokunni eftir Vigdísarvöllum var erfitt að átta sig á hvar þessir gígar væru... svo þjálfarar enduðu á að velja góðan stað fyrir bílana áður en vegurinn lækkar sig talsvert við eyðibýlið en þar risu flottir fjallsásar og við ákváðum að við fengjum þó alltaf æfingu út úr því að ganga á þá í leit að gígunum... úr því veðrið og skyggni væri ekki betra en þetta...
Komin hér upp ásana með bílana þarna í fjarska... þokan skyggði á sýnina fjær svo það var erfitt að átta sig á landslaginu í heild...
En leiðin var virkilega falleg og það var gaman að koma á nýjar slóðir... til að byrja með á góðum kindagötum líklegar frekar en manngerðum stíg en það má spyrja sig hvort við hefðum lent á gönguleið þarna sem við fórum svo út af honum og upp hér...
Rigningin var minni til að byrja með en í bænum og á akstursleiðinni og við vorum alsæl með veðrið... en svo kom vindurinn ofar og það bætti smám saman í rigninguna... ekkert að því en þokan var það eina sem hefði mátt missa sín þetta kvöld svo við gætum séð landslagið á þessum slóðum því það er svo fallegt að sjá til Krýsuvíkurmælifells frá þessum völlum... það rís eins og Keilir upp úr hraunsléttunni og setur mikinn svip á svæðið... en það sást aldrei til þessa fjalls þetta kvöld...
Við klöngruðumst upp á hrygginn og klettinn sem gnæfði yfir á svæðinu til að fá smá hækkun í skrokkinn...
Frábær mæting þrátt fyrir veðrið !
Súsanna, Svala, Batman, Agnar, Katrín Kj.,m Guðmundur Jón, Steingrímur, Lilja Sesselja, Oddný T., Ása, Örn, Jaana, Sjöfn Kr., Tómas, Sigrún Bjarna og Myrra en Bára tók mynd...
Gígarnir þarna niðri... við fundum þá... fyrst eingöngu þá nyrðri og þjálfarar svekktu sig á því að vera á röngum stað því þeir vissu að þetta voru ekki þeir sem við ætluðum að ganga á... en svo komu syðri gígarnir í ljós þegar ofar var komið og við þá könnuðumst við... en allt í allt er þetta líklega um 8 - 10 gígar sem raða sér í tveimur röðum frá norðaustri til suðvesturs eftit Vigdísarvöllum... en ég skil ekki alveg afhverju ég tók ekki mynd af þeim... meiri klaufaskapurinn ! :-)
Þjálfarar teygðu gönguna eins langt suður og hægt var áður en nyrðri gígarnir voru gengnir til baka en við myrkrið skreið inn á skömmum tíma og við náðum lítið að njóta landslagsins sem af gígaröðinni stafaði... hingað verðum við að koma aftur...
Ágætis klöngur hér niður... eins gott að hafa eitthvað við að vera í þokunni og rigningunni... þetta var létt og stutt og gott að geta aðeins klöngrast...
Batman og Myrra eru miklir vinir og með þeim er fjör og gleði sem eykur virði hverrar göngu með þeim... sá sem vanist hefur útivist með hundi veit sem er að hún er síðri þegar ekki er hundurinn... takk elsku ferfætlingar...
Á leiðinni til baka gengum við í hrauni og framhjá gígunum að hluta til... en lentum fljótlega á slóð sem við fylgdum...
Það sést glitta í gígana fjær... hrauntraðir um allt og hraunið misúfið...
Hér grenjaði rigningin sem aldrei fyrr... og myrkrið skall á... tók því miður ekki mynd af stóra gígnum sem við gengum fram á en hann var ansi flottur... lá utan í hryggnum og hálf lak niður brekkuna... við sáum hann frá bílunum í upphafi kvölds og það var gaman að ná að skoða hann...
Alls 4,4 km á 1:33 klst. upp í 256 m hæð úr 182 m upphafshæð... yndiskvöld með meiru og glimrandi góð útivera og það sem hæst stendur... geggjuð samvera með frábæru fólki !
Comments