Þriðjudagsæfing 8. mars 2022. Æfing nr. 694.
Örlítill veðurgluggi skapaðist milli stríða þriðjudaginn 8. mars... en þá var stefnan tekin á Meðalfell í Kjós og Skálafell á Hellisheiði færð lengra inn í vorið vegna snjóþyngsla á Hellisheiðinni...
Það hellirigndi og var vindasamt þennan þriðjudag... en spáin sagði að það myndi lægja hratt og sólin færi að skína seinnipartinn... áður en næsta illviðri skylli á síðar um kvöldið...
Og þetta rættist orðrétt... sólin skein á okkur þar sem við lögðum í hann upp snævi þaktar brekkurnar á vesturhorni Meðalfellsins sem snýr að Hvalfirðinum og þjóðveginum þegar ekið er inn Kjósina...
Mjög fallegt veður og sterkir litir í umhverfinu...
Meðalfellsvatn hér hægra megin og Flekkudalur Esjunnar opinn út á vatnið... en við hringuðum hann í fyrravor í engu skyggni en betra veðri neðar...
Litið til baka... Hvalfjörðurinn hér blasandi við... Akrafjall vinstra megin.. og Blákollur og félagar og horðin á Skarðsheiðinni hægra megin...
Eilífsdalurinn og Miðdalurinn í Esju og Eyrarfjallið og Sandfellið með sólina með sér...
Flekkudalur Esju með Meðalfellsvatnið nær og Miðfjallið inni í miðjum dalnum...
Eilífsdalurinn og Miðdalurinn...
Við eltum grjótið í snjónum til að vera örugg...
Gengum upp allt vesturhornið sem er mjög skemmtileg leið og mun greiðfærari en áhorfist frá þjóðveginum... og greiðfærari í þessu snjófæri en að sumri til í lausagrjóti ef mikill þurrkur er...
Fínasta færi... allt lungamjúkt að mestu en þó smá klaki þar sem snjó sleppti og grjót tók við... og ekki þörf á keðjubroddunum þó sumir færu í þá til öryggis...
Þegar ofar dró birtist skyndilega Hvalfellið...
Og brátt sást til Botnssúlna sem voru í skýjunum efst... og hálendið Kjölur við Búrfell í Þingvallasveit ofl... hér var fyrri varða kvöldsins en við vorum ekki komin á hæsta punkt fellsins...
Skarðsheiðin öll í norðri... og Reynivallaháls nær hægra megin...
Við héldum áfram för uppi á Meðalfellinu og hér blés svolítið eftir bongóblíðu á uppleið... en það var hlýtt og áþreifanlegt vor í lofti...
Nærmynd af Hvalfellinu...
Reynivallahálsinn liggur eiginlega samtengdur hálendinu Kili...
Hér fórum við niður smá laut áður en við hækkuðum okkur aftur upp... sjá Eyjadalinn hér að opnast með Möðruvallaháls og Trönu blasandi við... og Sandsfjallið hægra megin...
Flott leið... vorið farið að hrista af sér snjóinn uppi á fjalli... það er aldeilis derringurinn !
Hér var stutt í sólsetur og birtan varð mögnuð...
Svo fallegir litir í ljósaskiptunum sem voru að skella á...
Smá geislar ennþá eftir...
Við náðum tindinum rétt fyrir sólsetur og gleymdum okkur í dýrðinni... tókum ekki myndir né hópmynd fyrr en skyndilega dimmdi yfir þegar síðasti sólargeislinn kvaddi...
H'er með Hvalfjörðinn í baksýn... ekki margir mættir því miður...
Gulla, Jaana, Sjöfn Kr., Þórkatla, Örn, Oddný T., Þorleifur, Bjarni, Guðmundur Jón og Kolbeinn með Batman betlandi... Bára tók mynd.
Þeir sem vildu senda friðarkveðju til Úkraínu sem berst nú fyrir lífi og limum borgaranna sina í skelfilegri innrás Pútíns og félaga röðuðu sér með Erni á fánamyndina en Jóngeir, merkingarmaður Toppfara náði ekki í tæka tíð með þennan fána til okkar í síðustu viku vegna lokunar á Hellisheiði svo við bara tókum hann með í þessa ferð...
Sjá vettlingana hans Guðmundar Jóns... prjónaðir í úkraínsku fánalitunum af Katrínu Kjartans fyrir stuðningsgönguna í síðustu viku... tær snilld !
Við skoðuðum fjallasýnina vel ofan af tindinum áður en við héldum niður... Esjan er verkefni þessa árs... og nú sáum við Móskarðahnúkana koma undan skýjunum í botni Eyjadals... með Trönu og Fremra og Innra Heimrahögg þarna á milli hennar og Möðruvallahálss sem kemur út af mynd... Sandsfjallið svo hægra megin...
Við rúlluðum og renndum okkur til baka ofan af þessu fallega útsýnisfjalli...
Sömu leið og við komum... niður vesturásinn...
Mergjuð leið !
Neðst var þessi fína snjóbrekka...
Auðvitað renndum við okkur niður hana... hvað annað !
Geggjað gaman ! Sjá myndband á fb af rennunni...
Máninn mættur...
Yndislegt kvöld með meiru...
Við höfum náð ótrúlega flottum þriðjudagsgöngum þrátt fyrir sérlega erfiðan vetur...
Alls 4,0 km á 1:40 klst. upp í 364 m hæð með alls 364 m hækkun (já, sama tala fyrir hæð og hækkun, gerist einstaka sinnum !)... úr 60 m upphafshæð...
Dásemdarkvöld... Þórkatla týndi því miður vatnsbrúsanum sínum niður snjóbrekkuna... þeim hinum sama og týndist í Bláfjöllum í febrúar... og fór daginn eftir að leita að honum... og af því tilefni setti hún saman eftirfarandi vísu á fb:
"Toppinn á Meðalfelli með Toppförum fann
og tryllt niður snjóbrekkur rann.
En vatnsbrúsan græna
fallega væna
niðurkomin, ég fann ekki hann.
Á Meðalfell fór í eftirleit
og leitaði vel, það Guð veit.
En ekkert fann
og niður rann
það var allavega greit."
Og... svo fór hún þriðju ferðina í leit að brúsanum í auðu færi... og fann ekki og úr varð þessi lokalimra:
"Á Meðalfell aftur ég fór Á burtu var allur snjór En vatnbrúsinn græni Fallegi væni Sást ekki, bara drullubrúnn mór.
Blessaður brúsinn er víst fokinn Og langt í burt rokinn Eða upp plokkaður Og vandlega flokkaður Ég býst við að þetta séu lokin."
Snillingur ! Það hafa þó nokkrar vísur komið í vetur... nú er alger nauðsyn að skrásetja þetta allt saman á þessari vefsíðu !
Comentarios