Þriðjudagsæfing 9. nóvember 2021.
Þverfellið í Esjunni er spennandi staður til að vera á... þegar maður vill vera utan slóða og í friði fyrir kraðakinu sem liggur upp að Steini... en hingað komu Toppfara fyrst þegar Hjölli bauð félögum sínum óhefðbundna leið um Esjuna í sumarfríi þjálfara... og þá kallaði hann æfinguna "Esjan öðruvísi"... og átti síðar eftir að bjóða okkur upp á fleiri slíkar göngur... en Eilífsdalurinn á sumarþriðjudagskveldi þar sem komið er heim um miðja nótt stendur þar framar öllu og er skylduleið fyrir alla Toppfara...
En aftur að Þverfelli að vetri til í myrkri... leiðin er brött og krefjandi í úfnu landslagi þar sem farið er til vesturs frá bílastæðinu og beint upp þéttar brekkurnar ofan við þjóðveg eitt...
... framhjá hratt vaxandi skóginum til að byrja með en svo upp í móana og grjótið...
Alvöru leið sem reynir vel á en gefur allt aðra sýn á Esjuna...
Sjá ljósin í fjarska... við vorum ein í heiminum á þessu fjölfarna fjalli sem er gengið allt árið um kring á öllum tímum sólarhringsins nú orðið...
Borgarljósin skreyta mjög fallega kvöldöngurnar á höfuðborgarfjöllunum að vetri til...
Mosinn ljósgrænn eins og smá snjóföl... þetta var þungbúið veður og ekki það besta til að njóta... heldur grámyglulegt... en í logni og snjó yfir öllu saman er svona ganga algerir töfrar... við bíðum róleg og vitum að snjórinn er að koma...
Frábær mæting ! Alls 24 manns... í stafrófsröð hér:
Agnar, Bjarni, Björgólfur, Gerður Jens., Guðmundur Jón, Inga Guðrún, Jaana, Jóhanna D., Jón St., Katrín Kj., Kolbeinn, Lilja Sesselja, Linda, Ragnheiður, Sigrún Bj., Siggi, Sigurjón, Silla, Sjöfn Kr., Svandís, Tómas, Valla, Vilhjálmur, Þórkatla og Örn tók mynd en Batman var eini hundurinn og kom hundblautur heim og lúinn eins og smalahundur sem hann jú er :-)
Gengið var þvert eftir Þverfellinu í hliðarhalla alla leið út í norðvesturenda þess þar sem Búi heitir en þaðan er horft yfir Gljúfurdalinn og upp með Kerhólakambi og leiðin okkar upp hann blasir við... því miður var myrkur og því verður þessi leið í dagsbirtu á næsta ári... en þá verður þemað nefnilega Esjan í öllum sínu veldi... lág- sem hátindum, hnúkum, fellum, hólum og dölum... og þrætt svo upp frá Búa á efstu brún Þverfellsins þar sem Langihryggur byrjar og liggur alla leið frá þeim stað upp að Steini...
Skyggnið með erfiðasta móti í svona dumbungsveðri... þegar bæði vantar snjóinn og heiðan himinn þá ræður myrkrið öllu...
Alls 5,8 km á 2:50 klst. upp í 484 m með 536 m hækkun úr 14 m upphafshæð... hörkugóð æfing og flott leið sem er vel þess virði að skoða vel í birtu á næsta ári :-)
Comentarios