Um klúbbinn
Upphafið...
Fjallgönguklúbburinn Toppfarar var stofnaður af Báru Agnesi Ketilsdóttir og Erni Gunnarssyni, þann 15. maí 2007 og fór mjög vel af stað frá upphafi en fyrstu fimm mánuðina var klúbburinn starfræktur innan World Class í umsjón Báru.
Rekstur klúbbsins fór alfarið undir fyrirtækið Gallerí Heilsa ehf sem var stofnað í október 2007 af Báru og Erni, en það var heilsuræktarfyrirtæki með áherzlu á hreyfingu og útiveru og byggðist meginstarfsemin á þjálfun í fjallgöngum (www.fjallgongur.is og gamli vefurinn: toppfarar.is). Þar sem starfsemi fyrirtækisins hefur fyrst og fremst snúið að rekstri fjallgönguklúbbsins Toppfara var nafni fyrirtækisins breytt í nafnið "Toppfarar ehf" í október 2011.
Hugmyndafræði
Fjallgöngur eru flott líkamsrækt...
Útivera og hreyfing er mikilvæg auðlind til heilsubótar fyrir jafnt heilbrigða einstaklinga sem og þá sem eiga við heilsufarsvandamál að stríða.
Litið er svo á að með markvissri ástundun fjallgangna auki viðkomandi bæði styrk og þol og næri ekki síður anda og sál með fegurð óbyggðanna og sigri áskorana þar sem uppskeran er bætt andleg sem líkamleg vellíðan og aukið sjálfstraust til þess að stunda útiveru utan alfaraleiða, jafnvel á eigin vegum.
Útivistarsvæðin kringum höfuðborgina eru vannýtt auðlind sem vert er nýta til markvissrar heilsuræktar og jafnvel sem hluta af skipulagðri meðferð við ýmsum heilsufarsvandamálum, enda er löngu sannað að hreyfing og útivera er "allra meina bót".
Markmið
Lífsstíll til framtíðar...
Markmið klúbbsins er að koma þátttakendum á bragðið með að nota útiveru og hreyfingu sem markvissa heilsurækt allt árið um kring og gera fjallgöngur að lífsstíl sem séu stundaðar reglulega í stað eða til viðbótar hefðbundinni líkamsrækt.
Innan klúbbsins haldist góður hópur sem geri fjallgöngur að reglulegri líkamsrækt allt árið um kring og láti hvorki veður né annað aftra sér í að taka æfngu með því að fara reglulega út fyrir borgina og ganga í óbyggðum.
Þá er ætlunin að aðstoða þá sem þess þurfa að beita útiveru og hreyfingu sem markvissu meðferðarformi við ýmsum heilsufarsvandamálum, en fjallgöngur eru tilvalin leið til þess þar sem ástundun og uppskera erfiðisins er árangurshvetjandi.
Starfsemi
Við gefum ekki eftir...
Klúbburinn er starfræktur allt árið um kring á vikulegum æfingum með fjallgöngum á nágrannafjöll höfuðborgarsvæðisins og fjallgöngum þriðja hvern laugardag þar sem gengið er á hærri tinda og safnað fjöllum. Vikulegar æfingar undir stjórn þjálfara eru allt árið alla þriðjudaga kl. 17:30 frá fjallsrótum ef fjöllin eru á höfuðborgarsvæðinu en ef sameinast er í bíla þá kl. 17:00 frá Össur Grjóthálsi 5.
Fjallgönguæfingar á þriðjudagskvöldum eru allt árið um kring óháð veðri og falla æfingar almennt ekki niður vegna veðurs, heldur er seglum hagað eftir vindi hverju sinni og farið annað eða styttra en áætlað var, nema veðrið geri okkur það algerlega ómögulegt að fara út, en það hefur gerst örfáum sinnum öll þessi ár.
Fararstjórn
Njótum á okkar forsendum...
Örn leiðir göngurnar og Bára fylgir síðasta manni innan skynsamlegra marka. Hópurinn er þéttur reglulega og lögð er áhersla á að öllum líði vel og allir fái að njóta sín eins og hægt er. Séu menn í vafa með líkamlegt form, búnað eða annað, er velkomið að ráðfæra sig við þjálfa á æfingum eða gegnum síma/tölvupóst.
Þjálfarar taka sér fasta hvíld tvisvar á ári; í 5-6 vikur yfir sumarið og 1-3 vikur að vetri til, en þá eru skipulagðar göngur á vegum klúbbmeðlima sem hafa alltaf verið mjög vel heppnaðar.
Erfiðleikastig
Það er hollt og gott að ögra sér...
Þriðjudagsgöngurnar eru misjafnar að erfiðleikastigi eins og fram kemur í tilkynningu hverrar göngu og er tekið sérstaklega fram ef gangan er eingöngu fyrir þá sem eru í mjög góðu formi, en almennt eru göngurnar fyrir öll getustig og allir velkomnir með.
Frá árinu 2015 höfum við lagt sérstaklega upp með erfiðari og léttari þriðjudagsgöngur nokkurn veginn til skiptis, svo nýir félagar og þeir sem koma inn eftir meiðsli eða hlé, geti allir fengið sínar hollu og góðu göngur í hverjum mánuði, en þar gætum við þess samt að allir fái góða þjálfun og útiveru út úr kvöldinu.
Ábyrgð
Vöndum okkur...
Þátttaka í fjallgönguklúbbnum er alfarið á ábyrgð hvers og eins. Þátttakendur eru ekki tryggðir á æfingum né í fjallgöngum og er það í samræmi við venju varðandi fjallgöngur, þjálfun og útivist hvers konar. Bent er á tryggingafélögin í þessu sambandi.
Þjálfarar leggja áherzlu á að tefla aldrei í tvísýnu og meta vel aðstæður hverju sinni með hag hópsins í heild að leiðarljósi, þeir leiða og reka hverja æfingu fyrir sig með því að fylgja fyrsta og síðasta manni en þó innan skynsamlegra marka þar sem þeir bera skyldur til hópsins í heild.
Bent skal á að þeir sem ekki fylgja þjálfara (fara á undan eða út af gönguleið) eru ekki undir umsjón eða ábyrgð þeirra varðandi rötun eða annað og er ætlast til þess að meðlimir virði leiðarval og þann hraða sem þjálfarar leggja upp með hverju sinni.
Þjálfun
Fjallgönguþjálfun er margslungin...
Við þjálfum líkamann undir þá áreynslu að ganga á fjöll, með því að styrkja smám saman taugakerfi, lungu, hjarta- og æðakerfi og síðast en ekki síst stoðkerfi.
Við þjálfum hugann og þ. m. t. sjálfstraustið með því að ganga á fjöll og komast að því að fjallganga er yfirstíganleg öllum við viðhlítandi heilsu og hreint og tært ævintýri þeim sem leggja í hann...
Við þjálfum þann búnað sem meðlimir eiga fyrir og sem þeir koma sér smám saman upp þegar ástundun hefst, til að komast að því hvað virkar best. Hluti af slíkri þjálfun felur í sér að venja sig á að hafa öll hlífðarföt tiltæk, þó veður sé gott og ganga með þau í bakpokanum, þó maður noti þau ekkert allan tímann og þróa með sér tilfinningu fyrir því hvað hentar hverju sinni.
Við þjálfum með hverjum og einum þau vinnubrögð og aga sem farsælust eru í fjallgöngum eins og að sýna yfirvegun og skynsemi, hafa vaðið fyrir neðan sig, gæta að öryggi, meta aðstæður rétt, læra á sjálfan sig, vinna saman, sýna tillitssemi, sveigjanleika og samheldni gagnvart göngufélögum, ganga undantekningarlaust vel um óbyggðirnar, bera virðingu fyrir umhverfinu o. s. frv.
Þá er reglulega farið í tæknileg atriði varðandi fjallamennsku í tindferðum eða á námskeiðum sem þjálfarar útvega þar sem farið er í þætti eins og notkun brodda og ísaxar, sprungubjörgun á jökli, mat á snjóflóðahættu, rötun með notkun áttavita og gps o. s. frv.
Fjallasafnarar
Bætum sífellt í safnið...
Klúbburinn vinnur út frá því markmiði að "safna fjöllum" með því að æfa sig á fjöllunum í kringum höfuðborgarsvæðið og fara lengri ferðir á hærri fjöll.
Hver og einn meðlimur setur sér persónuleg markmið og byggir upp sitt "fjallasafn", en fjallgönguklúbburinn í heild safnar í sarpinn allt árið. Safnið er skráð skilmerkilega á vefsíðunni í máli og myndum og skorað er á alla Toppfara að taka þátt frá upphafi og láta ekkert fjall framhjá sér fara...
Kortlagning
Botnlausir möguleikar...
Við setjum okkur þau langtímamarkmið að ganga á hvert fjall sem sést ofan af þeim fjöllum sem við göngum hvert sinn. Þannig er komandi verkefnum úthlutað myndrænt og ósjálfrátt og við kortleggjum landið smám saman með eigin fótum og vitum.
Þetta er ævilangt verkefni og meira en það, en þess vert að einsetja sér það, þar sem jafn gaman er að hafa fjöllin framundan eins og að baki !
Þátttökuskilyrði
Komdu með... að safna fjöllum...
Þátttökuskilyrði eru skrifleg skráning í klúbbinn og greiðsla æfingagjalda auk þess sem með þátttöku skuldbinda menn sig til að auðsýna ábyrgð gagnvart sjálfum sér, öðrum þátttakendum og umhverfinu, með því að fara samviskusamlega eftir útbúnaðarlistanum á vefsíðunni eftir atvikum, sýna samheldni innan hópsins og umgangast náttúruna af virðingu og aðgætni.
Undanfarar
Könnum ókunn lönd...
Frá upphafi hefur það verið stefna þjálfara að takast á við fjöll sem ekki eru til miklar upplýsingar um og velja leiðir um þekkt fjöll sem ekki hafa verið farnar áður. Þeir hafa þá jafnan kynnst sér leiðirnar sjálfir með könnunarleiðangri áður en farið er með hópinn en hin síðari ár notið þess að fara þessa könnunarleiðangra með hópnum eftir að hafa legið yfir kortum og því lesefni sem til er um svæðið í bókum eða á veraldarvefnum.
Það er auðvelt að þekkja mjög vel til nokkurra gönguleiða á Íslandi og fara ítrekað með fólk þar um og eins er fremur einfalt að bjóða upp á göngur yfir sumartímann á Íslandi þegar allt er með manni, veðrið, færið og birtan...
... en allt annað mál og langtum meira krefjandi að vera sífellt að bjóða upp á nýjar gönguleiðir sem ekki er búið að slípa til í nokkrum skiptum, í ólíkum veðrum á mismunandi árstíðum, jafnt myrkri sem dagsbirtu, í alls kyns göngufæri.
Af þessum sökum eru göngur klúbbsins oft óskrifað blað, þar sem margt óvænt kemur upp á. Þar af leiðandi heilmikill lærdómur fyrir okkur öll, hvort sem við erum vön eður ei enda njótum við þess að láta þær þróast og flæða eins og landslagið ber okkur hverju sinni. Ef mönnum líkar ekki hið óvænta þurfa þeir þess vegna að spyrja sig hvort þessi klúbbur henti þeim...
Hrein og tær fjallamennska felur einmitt þetta í sér að okkar mati... að fara sífellt nýjar slóðir og kynnast ókunnum stigum... að njóta sælunnar við að fara um slóðir sem maður hefur ekki kynnst áður enda hefur það verið eitt aðalsmerkja þessa klúbbs frá upphafi og sérstaða sem við viljum áfram vera í fararbroddi með.
Óhöpp og slys
Lærum og gerum betur...
Líkur á minniháttar óhöppum og jafnvel alvarlegum slysum eru raunverulega til staðar við ástundun fjallgangna almennt. Varðandi Toppfara þá aukast tölfræðilegar líkur á óhöppum verulega þegar gengið er 1 - 2 svar sinnum í viku á fjall allt árið um kring þar sem hópurinn er að fara tæplega 70 fjallgöngur á ári.
Hópurinn þarf því að vera undir það búinn að allt geti gerst í fjallgöngum og vinna sem einn maður að því að koma í veg fyrir hvers kyns óhöpp með því að búa sig alltaf vel, nærast vel fyrir og í göngu, fara varlega, hlýta alltaf tilsögn þjálfara, láta strax vita ef vandamál er til staðar, vera í takt við hópinn, gæta að næsta manni, standa sem einn maður þegar óhapp verður og læra af reynslunni...
Átakanleg reynsla hópsins á Skessuhorni í mars 2008 undir leiðsögn Íslenskra fjallaleiðsögumanna sýndi vel og sannaði hversu sterkur þessi hópur er því af öllum ofangreindum atriðum stóðu menn sig aðdáunarvert vel þegar á reyndi. Við stefnum staðfastlega að því að hópurinn muni aldrei lenda í slíkum aðstæðum aftur, en það er nokkuð ljóst að minniháttar óhöpp eru fylgifiskur fjallgangna þrátt fyrir einlægan ásetning um að ekkert komi nokkurn tíma fyrir í fjallgöngunum okkar.
Þjálfarinn sem þetta skrifar hefur fjórum sinnum dottið illilega á hlaupum síðustu tíu ár þar sem hún hefur átt í slæmum áverkum í nokkrar vikur á eftir og sumum sem aldrei gróa alveg, en það hefur aldrei stöðvað mann í íþróttinni heldur reynir maður að læra af reynslunni, koma í veg fyrir að detta aftur og nýtur þess að stunda útivistina af öllu hjarta :-)
Börn og unglingar
... eru hjartanlega velkomin með...
Þátttakendum er leyfilegt að taka gjaldfrjálst með sér börn og unglinga ef viðkomandi treystir fullkomlega á getu og vilja þeirra, en þau eru algjörlega á ábyrgð viðkomandi.
Litið er svo á að útivera eins og fjallgöngur séu fjölskylduvæn heilsurækt og því eru þeir hvattir sem vilja, til að virkja fjölskylduna og taka jafnvel bara hluta af fjallgönguæfingunni eftir því sem hentar.
Flestar gönguleiðir eru áfangaskiptar og einfalt að snúa við á eigin vegum ef ekki er farið alla leið en nauðsynlegt er að ráðfæra sig við þjálfara í þessu sambandi.
Hundar
... gefa okkur svo mikið með fölskvalausri gleðinni
Hundar eru leyfðir í fjallgönguklúbbnum enda höfum við haft mikla ánægju af félagsskap þeirra og bundist þeim sem lengst hafa verið með okkur afar sterkum böndum.
Að okkar mati erum við mannskepnan komin ansi langt frá náttúrunni ef við getum ekki notið útiverunnar á fjöllum í ærslaflullum félagsskap ferfætlinganna og einmitt leyft þeim að smita okkur af óbilandi ástríðunni og gleðinni sem þeir auðsýna þegar þeir fá að fara í göngu með okkur í óbyggðunum :-)
Eftir að hafa farið nokkra hringi með reglur um hunda í göngunum okkar og þá sérstaklega í matarpásum þá leggjum við það í hendur hvers eiganda hvort þörf sé á að hafa viðkomandi hund í bandi. Ef hann hlýðir, er í takt við hópinn og gengur ekki í nesti fólks, þá er óþarfi að hafa hann í bandi, en ef hann gengur óbeðinn í nesti annarra og er ekki í friðsömum takti við aðra hunda, þá þarf að ná í ólina.
Mjög margir klúbbmeðlimir hafa sérstaka ánægju af því að deila nesti sínu með hundunum og þess vegna féllum við frá því árið 2020 að hafa þá alltaf í bandi í matarpásum vegna fjölda áskorana. Þeir sem kæra sig ekki um hundana nálægt sér í matarpásum skulu einfaldlega aldrei gefa þeim og banda þeim ákveðið frá sér með "nei" eða álíka og hundarnir læra strax hver vill deila matnum með þeim og hver ekki. Skýr skilaboð eru málið í þessu.
Hundareglur
Allar ábendingar vel þegnar...
1. Vera vakandi fyrir því hvort hundurinn er órólegur eða að trufla göngumenn og setja hann þá í band.
2. Muna að sumir eru smeykir við hunda og sýna þeim tillitssemi með því að halda hundinum fjarri þeim bæði í göngu og pásum.
3. Hafa hundana í bandi þegar fólk er að hvíla sig og fá sér nesti ef þeir eru ekki til friðs.
4. Setja hundana í band eða ná í sinn hund þegar farið er um tæpistigur, þar sem þeir geta verið að þvælast fyrir göngumönnum á varhugaverðum stöðum.
5. Allir láti þjálfara eða hundaeigendur vita ef hundarnir eru að trufla og þá skulu þeir settir í band.
6. Þeir hundar sem eru búnir að vera lengst í fjallgönguklúbbnum virðast "hæstir í virðingarstiganum" og þegar nýrri hundar mæta á staðinn þurfa þeir að læra hvar þeirra staður er. Gott er því að allir séu meðvitaðir um að þegar mætt er í göngu er gjarnan smá galsi í hundunum í byrjun og oft er það útkljáð með gelti og eltingarleik. Bent hefur verið á að þá ætti einmitt að hafa þá í bandi en hundaeigendur telja að það framlengi æsinginn þar sem þeir verða að "raða sér" og útkljá málin áður en gangan hefst.
Endilega sendið mér fleiri ábendingar til að jafnræðis sé gætt og allar hliðar séu með :-)
Félagslíf
Fjallgöngur eru okkar djamm...
Almennt séð hafa skapast eftirfarandi hefðir en þetta er alltaf breytilegt milli ára:
*Fjallamennskunámskeið árlega að vori eða hausti eftir þörfum.
*Vorferð í maí á tinda Vatnajökuls.
*Spennandi sumarferð um landið í júní/júlí/ágúst.
*Fagnaður eina helgi á ári, að vori, hausti eða aðventu.
*Árleg gönguferð erlendis eða annað hvert ár.
*Tilraunastarfsemi eins og að prófa spennandi jaðaríþróttir...;-)
Gleði, þakkæti og vinsemd eru aðalsmerki þessa klúbbs og þjálfarar eru fyrir löngu búnir að sjá af reynslunni að enginn endist á fjöllum nema tileinka sér þessa þætti öllum stundum ;-)
Ómetanleg vinátta hefur skapast innan klúbbsins og það er okkar reynsla að með því að takast á við krefjandi verkefni og fjallgöngur þar sem reynt er á mann til hins ítrasta, skapist sterk tengls milli manna sem slitna ekki svo glatt þó menn hittist jafnvel ekki árum saman.
Vefsíða og samskiptamiðlar
Við skrásetjum sögu okkar samviskusamlega...
Þjálfarar halda úti víðlesinni og lifandi vefsíðu sem heldur utan um alla starfsemi fjallgönguklúbbsins www.toppfarar.is = www.fjallgongur.is og er Bára með umjón með henni. Í apríl 2021 var vefsíðan www.fjallgongur.is færð í nýtt vefsíðuforrit í gegnum www.wix.com og gamla vefsíðan sem var unnin í Microsoft Frontpage er vistuð á www.toppfarar.is þar sem hægt er að nálgast allt sem var á síðunni fram í apríl 2021.
Smám saman næstu tvö árin eða svo er það von okkar að okkur hafi tekist að færa allt efni af gömlu síðunni (www.toppfarar.is) yfir á þá nýju (www.fjallgongur.is) og þá geti þessar tvær vefslóðir aftur verið eina og sama vefsíðan eins og áður var.
Á www.fjallgongur.is koma fram allar upplýsingar um klúbbinn, félagaskrá, búnað, þjálfun, dagskrá, tilkynningar um næstu æfingar eða ferðir, myndir og lýsingar á liðnum æfingum/göngum, fjallasafn Toppfara, nákvæm tölfræði og fleira.
Þá er klúbburinn með lokaðan hóp á Fésbókinni þar sem samskipti fara fram innan hópsins gegnum netið og menn deila myndum, skoðunum og áætlunum um aukagöngur sem klúbbmeðlimir flauta jafnan til á eigin vegum. Að ósk klúbbmeðlima er þessi grúppa lokuð öllum nema virkum klúbbmeðlimum þar sem sterkur vinskapur hefur skapast innan hópsins og skilaboð og umræður á persónulegri nótum hin síðustu ár auk þess sem það einfaldar allt skipulag fyrir alla að sjá hverjir eru virkir í klúbbnum hverju sinni.
Af þeim sökum höfum við og stofnað fésbókarsíðuna Toppfarar.is sem heldur úti fréttum af göngum klúbbsins í hverri viku, en þar geta þeir sem ekki eru virkir klúbbmeðlimir fylgst með starfseminni og lagt orð í belg.
Þá höldum við úti Toppfarasíðu á Instagram þar sem allar ljósmyndir deilast á milli af fb.
Göngur erlendis
Ísland er best... en það eru magnaðir fjallgönguheimar þarna úti...
Farið er árlega eða annað hvert ár í fjallgöngu erlendis en nú árið 2021 eru að baki sex ferðir;
Níu daga ferð um fjallahringinn kringum Mont Blanc 12.-20 september 2008 sem heppnaðist með eindæmum vel...
... 23 daga ferð til Perú í mars og apríl 2011 sem var stórbrotið og ógleymanlegt ævintýri...
... einstök vikulöng klöngurferð í Slóveníu í september 2012 í mögnuðum Ölpum Austur-Evrópu...
...18 daga ferð til Nepal þar sem gengið var í Grunnbúðir Everest í október 2014 og upp á fjallið Kala Pattar í kyngimögnuðum Himalayafjöllunum innan um hæstu fjöll í heimi...
... dísætur sigur á hæsta fjalli Póllands 2016 þar sem gengið var Slóvakíumegin eftir erfitt veður í Póllandi göngudagana á undan í september 2017...
... þriggja tinda ganga á Gran Paradiso, Aigulle du Midi og loks Monte Rosa í Ítalíu og Frakklandi þar sem hverfa þurfti frá tindi Mont Blancs vegna veðurs og 14 manns gengu á sama tíma kringum Mont Blanc í einmuna blíðu í viku í júní 2017...
... og loks rjómablíðar göngur á sex eldfjallaeyjum í átta daga ferð um Sikiley og eldfjallaeyjurnar hennar 15. - 22. september 2019...
Val um áfangastað í hverja ferð er í samráði við virka meðlimi klúbbsins, en endanleg ákvörðun er tekin af þjálfurum.
Á stefnuskránni eru m. a. hæstu fjöll ýmissa Evrópulanda, Mont Blanc, Elbrus, Kilimanjaro, Aconcagua í Argentínu, Mt Fuji í Japan, Mt. Rainier í BNA, Atlas-fjöllin í Marokkó og ýmsar óþekktari leiðir og fjöll sem gaman væri að skoða, sérstaklega í Austur-Evrópu... en hér hefur margt áhrif á valið, m. a. áhugi klúbbmeðlima.
Þróun
Gerum stöðugt betur... ögrum okkur... lærum...
Starfsemi Toppfara er í stöðugri þróun með sífelldum lærdómi og aðlögun að aðstæðum og vilja hópsins. Við leggjum mikla áherzlu á að gera þetta sem metnaðarfyllst og höfum nú þegar þróað og breytt mörgu frá upphaflegri áætlun, ekki síst fyrir tilstilli sjónarmiða klúbbmeðlima.
Þetta þróunarferli er viðvarandi og því eru sífelldar breytingar í ferlinu og á dagskránni, en við reynum alltaf að hafa púlsinn á hópnum og finna betri eða meira spennandi kosti á öllum sviðum... til að ögra okkur... upplifa eitthvað nýtt... og verða betri...
Frá upphafi höfum við ekki skilgreint okkur sem ferðafélag heldur "líkamsrækt í óbyggðum"... við erum að þjálfa fólk í fjallgöngum sem líkamsrækt og lífsstíl allt árið um kring og höfum gert það undir þessari yfirskrift síðustu átta ár. Slík ástundun eru forréttindi sem óskandi væri að fleiri gætu tamið sér og notið.
Frá upphafi hefur stefnan verið mjög skýr í þá veru að skapa þéttan og metnaðarfullan fjallgönguklúbb sem safnar fjöllum allt árið um kring við allar aðstæður og skapar sjálfum sér og fjallamennskunni á Íslandi ómetanleg verðmæti sem hvergi verða í krónum talin...
Við bjóðum öllum sem eru með fjallabakteríuna eins og við, að ganga með okkur allt árið um kring, kanna sífellt ókunnar slóðir, safna nýjum fjöllum, upplifunum og reynslu og skrá spennandi sögu Toppfara með eigin fótum og svitadropum...
Allar ábendingar eru vel þegnar varðandi hvaðeina í klúbbunum og þjálfarar eru stöðugt að bregðast við athugasemdum klúbbmeðlima til að halda klúbbnum í hæsta gæðaflokki og sem best að smekk meðlima :-)
Þjálfarar
Við viljum allt fyrir Toppfara gera...
Bára Agnes Ketilsdóttir.
Menntun: BSc í hjúkrunarfræði frá HÍ 1995; meistaraprófsgráða MA í mannauðsstjórnun
frá viðskipta- og hagfræðideild HÍ 2005;
einkaþjálfarapróf frá Einkaþjálfaraskóla World Class 2007.
Framkvæmdastjóri Toppfarar ehf. Starfandi hjúkrunarfræðingur á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Margra ára reynsla af starfi sem hjúkrunarfræðingur á slysa- og bráðamóttöku Landspítalans og ýmsum deildum spítalans. Margra ára reynsla af markvissum æfingum og keppni í langhlaupum hérlendis sem erlendis og víðtæk reynsla af útivist og fjallgöngum.
Sími: 867-4000 - baraket(hjá)simnet.is.
Örn Gunnarsson.
Viðurkenndur bókari frá Háskólanum í Reykjavík 2002 og einkaþjálfari frá einkaþjálfaraskóla World Class 2007.
Framkvæmdastjóri Arnarseturs, bókhaldsstofu ehf.
Margra ára reynsla sem bæði þjálfari og íþróttamaður af markvissum æfingum og keppni í langhlaupum, frjálsum íþróttum og knattspyrnu og víðtæk reynsla af útivist og fjallgöngum.
Sími: 899-8185 - orn-bokari(hjá)simnet.is.
Viltu koma með okkur að safna fjöllum ?